Vanhæf ríkisstjórn?

Eftir fréttir dagsins í dag þar sem Jóhanna segir að taka verið ríkisfjármálin "fastari tökum" og að "vandin sé mun meiri en hún átti von á" hef ég orðið talsvert hugsi. Það læðist að mér mikill efi um að ríkisstjórnin muni ráða við vandann, að hann sé miklu mun stærri en hún hefur gert sér grein fyrir. Fyrir hrun afneitaði þáverandi ríkisstjórn vandanum, við þekkjum öll þá sögu. Í hruninu og eftirleik þess var þáverandi ríkisstjórn engu hæfari til að ráða við vandann. Þjóðin varð öskureið og það skiljanlega. Við fengum kosningar og fengum Samfylkingu og Vinstri-grænum meirihluta á þingi.

Á þeim stutta tíma sem liðin er eftir kosningar hefur þjóðin verið í eins konar millibilsástandi og hefur gefið nýrri stjórn tækifæri til að taka á vandanum. Lausn ríkisstjórnarinnar virðist vera sú að færa vandan yfir á herðar almennings sem átti litla sem enga sök á vandanum aðra en þá að treysta stjórnmálamönnum sínum fyrir stjórn landsins og trúa orðum bankana um snilli þeirra.

Undanfarnar vikur hefur ríkisstjórnin boðað mikin niðurskurð á fjárframlögum til velferðamála. Þjóðin hefur sætt sig við þann boðskap vitandi það að einhverjar fórnir þurfi að færa til að greiða fyrir mistök og vanhæfni fyrri stjórnmálamanna. Hversu mikil sú fórn ætti að vera hefur hins vegar verið nokkuð óljóst og því erfitt fyrir hinn óbreytta íslending að átta sig því sem er í vændum og er ég þar ekki undanskilin. Nú hefur komið í ljós að vandin og niðurskurðurinn sem er boðaður er miklu mun meiri en upplýst var. Ekki er laust við að um mann læðist nokkur hrollur við þennan boðskap. Enn hefur ekki verið látið uppi í hverju þessar aðgerðir felast eða í hve miklu magni en ljóst að ekkert okkar hefur upplifað slíkt áður.

Ég óttast það að þegar hinn óbreytti íslendingur fái að heyra hversu mikinn niðurskurðurinn verði muni honum bregða all svakalega. Þegar hann svo gerir sér grein fyrir að hann eigi að greiða skuldir bankana og erlendra "fjárfesta" (jöklabréfin og fleira í þeim dúr), þá muni reiðin, sem nú liggur í dvala, magnast og það verulega. Reiðin verður ekki minni þegar hann gerir sér grein fyirr því að samfélagið sem hann og forfeður hans hafa byggt upp undanfarna áratugi verði rifið niður og velferðakerfið sem hann hafði byggt upp með mikilli báráttu og elju verði rústir einar. Sjálfur samfélagssáttmálin er í hættu.

Er þessi ríkisstjórn jafnvanhæf og sú fyrri? Verður stórsköddun á samfélaginu það sem koma skal? Er það nauðsynlegt til að byggja upp nýtt og betra samfélag? Ég er ekki svo sannfærður um það - nema við náum um það samkomulagi meðal þjóðarinar. Til þess þarf þjóðin réttlæti. Réttlætinu verður að fullnægja svo við náum sáttum og getum byggt samfélagið upp á ný. Við skulum aldrei gleyma því að hér var framin glæpur af áður óþekktri stærðargráðu og því þufum við og eigum að fá réttlæti. Við skulum heldur aldrei gleyma því að þáverandi stjórnvöld máttu og áttu að vita hvað væri í vændum og áttu að bregðast við en kusu að gera það ekki.

Mun búsáhaldabyltingin hefjast að nýju í haust eða fyrr?


Göldrótt ríkisstjórn

Ríkisstjórnin stendur sig vel. Hún stendur sig afskaplega vel í varðstöðu sinni fyrir fjármálakerfið. Á örfáum klukkutímum jók hún eignir fjármálastofnana um 8 milljarða. Ríkisstjórnin er göldrótt. Skrítið hvernig hún getur galdrað fram pening sem er í raun ekki til. Það er engin verðmætasköpun þarna á bak við, heldur hagræði/fjármálagaldrar áranna 2001-2007 sem kom okkur til andskotans og ömmu hans.

Ég hef oft sagt það áður að óvenjulegir tímar kalli á óvenjuleg ráð. Hví er þá ekki hægt að aftengja tímabundið þessa þætti sem hækka lánin og auka verðbólguna meðan þessi óáran gengur yfiir? Líklega vegna þess að AGS vill það ekki. AGS veit sem er að aðgerðir sem þessar auka eignir fjármálastofnana og það lítur þá betur út  í þeirra áætlunum og þessari svokölluðu endurreisn þeirra. En eitthvað verður ríkisstjórnin að gera, engin vafi á því en þá er lámark að hún taki tillit til almennings og fyrirtækja í landinu og geri raðstafanir til að lán þeirra hækki ekki meira en orðið er, nóg er samt. Það er ekki laust við að löngun bæri á sér til að taka fram makindos dósina og sleifina.


Dreifð eignaraðild

Ég dett stundum í undarlegan gír, fer að pæla í framtíðinni og hvernig hægt sé að byggja upp samfélag réttlætis, sanngirnis og jöfnuðar. Fram að árinu 2008 þótti ekki fínt að hugsa um slíka hluti enda átti allt að leiðrétta sig sjálfkrafa. Hluti af þeim pælingum er hvernig við stöndum að væntanlegri einkavæðingu hinna nýju banka og þeirra fyrirtækja sem leyft verður að lifa. Við vitum öll hvernig fór með síðustu einkavæðingu. Við viljum slíkt ekki aftur þar sem hagnaðurinn var einkavæddur og tapið þjóðnýtt með tilheyrandi hörmungum fyrir almenning.

Þjóðin hrópar á réttlæti þessi misserin og hrópin munu breytast í hreint öskur áður en yfir lýkur ef réttlætið nær ekki fram að ganga. Þar sem bankarnir eru allir í okkar eigu og nokkur það sem menn kalla "þjóðhagslega hagkvæm" fyrirtæki á leiðinni í okkar eigu er ekki úr vegi að fara alveg nýjar leiðir í einkavæðingu þeirra í framtíðinni og eyða ótta almennings við væntanlega einkavæðingu.

Mín pæling er sú að öllum núlifandi íslendingum og ófæddum íslendingum í framtíðinni verði afhent hlutabréf í viðkomandi banka, sparisjóði og þessum hagkvæmu fyrirtækjum. Hugmyndin er sú að með slíku fyrirkomulagi verði dreifð eignaraðild tryggð. Sett verði lög og reglur sem komi í veg fyrir að einhver einn aðili eignist ráðandi hlut í bönkum og sparisjóðum enda hefur það sýnt sig vera bráðdrepandi að eiga of mikið í banka eða sparisjóði. Almenningur verður því "kjölfestufjárfestir" svo notað sé vinsælt orð stjórnmálamanna og útrásartrölla í fjármálafyrirtækjum framtíðarinnar á íslandi og þessum mikilvægu fyrirtækjum sem væntanlega eru þá almenningshlutafélög.

Hverjum og einum íslending sem eignast þessi bréf er það í sjálfvald sett hvað hann gerir við þau, á þau áfram til að fá hlutdeild í arði eða selur þau hæstbjóðenda í kauphöllinni. Auðvitað munu einhverjir vilja eignast fleiri bréf í þeim tilgangi að fá hlutdeild í væntanlegum arðgreiðslum þannig að markaður mun skapast fyrir þessi bréf. Ekki þarf að óttast annað.

Nú kunna margir að benda á að með slíku fyrirkomulagi muni ríkið ekki fá í sinn hlut þau verðmæti sem liggja í hlutafénu sem ríkið, við, höfum lagt í bankana eftir hrunið þ.e. fái í ríkiskassan þá hundruði milljarða sem það hefur lagt út í nýtt hlutafé. Færa má rök fyrir því að þjóðin, almenningur hafi í raun lagt út fyrir hlutafénu með hærri sköttum, lægri launum, minni lífsgæðum, háum vöxtum, verðtryggingu, háu gengi ásamt háu vöruverði á undanförnum misserum. Því eigi almenningur rétt á bótum/réttlæti á einhverju formi fyrir öll þau áföll sem yfir hann voru látin ganga. Almenningur mun hvort eð er halda áfram næstu áratugina að borga fyrir bankahrunið og afleiðingar þess. Þannig gætum við tryggt beina fjárhagslega hlutdeild hans í einkavæðingu framtíðarinnar og er síður en svo útí móa. Raunar æskileg ef eitthvað er en hætt er við að fjárhagur íslensks almennings þegar að einkavæðingunni kemur verði fremur dapur og hætt við lítilli þátttöku hans. Búast má við að hagur almennings vænkist þegar fram í sækir og þá fái ríkið í sinn hlut stærri hluta þjóðartekna í formi skatta og slíks og geti þannig bætt hag sinn í stað þess að fá greitt fyrir hlutaféð. Þegar búið er að einkavæða bankana á þennan hátt munu framtíðarbankarnir og hin almenningsfélögin fjármagna nýtt hlutafé sem gefið er út á nýfædda íslendinga með óráðstöfuðu eigin fé þ.e. óráðstöfuðum hagnaði sem rennur þá að hluta til nýrra hluthafa.

Sama mætti gera við kvótann sem til stendur að innkalla á næstu 20 árum. Hver og einn íslendingur fengi þá sinn kvöta og gæti þá annað hvort nýtt hann sjálfur eða selt hann hæst bjóðenda. Þetta myndi gerast á hverju ári og ímyndið ykkur hve hagur almennings myndi vænkast við þetta að fá aukakrónur í kassann og gerast virkur þátttakandi í samfélaginu og finnast hann/hún eiga eitthvað í því. Við gætum jafnvel orðið umheiminum þokkaleg fyrirmynd eftir allt svindlið og svínaríið sem fengið hefur að grassera hér á landi. Eða hvað finnst þér?


Icesave og landráðin

Ég hef áður skrifað um landráð útrásartröllana tengt icesave og fleiri málum, bæði á þessu bloggi og fengið það birt á smugunni, sjá hér. Um talsverðan tíma hef ég haft af því áhyggjur að ríkisstjórnin nýja myndi ganga til svokallaðra samninga við breta um ábyrgð þjóðarinna á þessum ránreikningum landsbankans í bretlandi. Í nýjum stjórnarsáttmála er skýrt kveðið á um að gengið verði til samninga við breta um fullnaðargreiðslu íslensku þjóðarinnar á innistæðum þessarar reikninga. Margir og þar á meðal ég eru á þeirri skoðun að okkur komi þessir reikningar ekki við, landsbankinn var einkafyrirtæki og var ekki með neina ríkisábyrgð. Tryggingakerfi það sem dekka átti innistæður þessara reikninga var hannað til að grípa inní ef einn banki lenti í vandræðum - ekki að heilt bankakerfi heillrar þjóðar hryndi til grunna þannig að ekkert stæði eftir. Á þessu er mikil munur. Íslenska þjóðin telur aðeins um 300-320 þúsund einstaklinga, fjöldi þeirra bresku einstaklinga sem átti innistæður í þessum reikningum í bretlandi er um 300 þúsund fyrir utan alla þá aðra aðila sem áttu fé á þessum reikningum.

Heildarinnistæður á þessum reikningum námu við hrunið um 600-700 milljörðum. Sitt sýnist hverjum um heimtur á þessum reikningum þ.e. hve mikið innheimtist og á hve löngum tíma. Bjartsýnisspá formanns skilanefndar landsbankans segir að um 70 milljarðar falli á íslensku þjóðina, það er 70 milljörðum of mikið. Íslenska þjóðin getur ekki greitt þetta og á ekki að reyna það.Við eigum ekki að velta þessum vanda og stuld útrásartröllana yfir á okkur sjálf og börn okkar.

Mér er spurn hvort nýkjörin ríkisstjórn ætli að fremja síðbúin "landráð" með því að leggja þessar byrgðar á þjóðina ofan á allt annað. Í lögum um landráð segir að:

100. gr. almennra hegningarlaga hljóðar svo:”100. gr. a. Fyrir hryðjuverk skal refsa með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum, þegar verknaðurinn í ljósi eðlis hans eða með hliðsjón af aðstæðum þegar og þar sem hann er framinn getur skaðað ríki eða alþjóðastofnun alvarlega:

1. manndráp skv. 211. gr.,

2. líkamsárás skv. 218. gr.,

3. frelsissviptingu skv. 226. gr.,

4. raskar umferðaröryggi skv. 1. mgr. 168. gr., truflar rekstur almennra samgöngutækja o.fl. skv. 1. mgr. 176. gr. eða veldur stórfelldum eignaspjöllum skv. 2. mgr. 257. gr. og þessi brot eru framin á þann hátt að mannslífum sé stefnt í hættu eða valdið miklu fjárhagslegu tjóni.

Hér er talað um hryðjuverk. Stofnun og rekstur þessara reikinga er ekkert annað en fjárhagslegt  hryðjuverk. Burtséð frá því og taki maður orðið hryðjuverk í burtu og horfir á hugsanlega samninga við breta og setur orðið samningur í staðin þá lítur þannig út að nýkjörin ríkisstjórn hafi í huga að fremja ómeðvitað, meðvitað eða af einskærum ótta við alþjóðasamfélagið landráð. Samningur af þessari stærðargráðu sem vegur alvarlega að undirstöðum samfélagsins, leggur velferða- og efnahagskerfið í rúst, skaðar stjórnskipulegar undirstöður og veldur uppnámi eða jafnvel uppreisn í samfélaginu kemst ansi nálægt því að vera tilræði við samfélagið.

Hvað er þá til ráða? Jú, við eigum að lýsa því yfir við alþjóðasamfélagið að við ætlum ekki að leggja þjóðfélagið í rúst með því að taka á okkur skuldir bankana. Við ætlum ekki að koma hér á viðvarandi fátækt og hneppa þjóðina í skuldafangelsi um ókomin ár. Við ætlum hins vegar að sjá til þess að þessir peningar verði sóttir hvar sem til þeirra næst í veröldinni og biðjum alþjóðasamfélagið um aðstoð til þess. Við ætlum einnig  að sækja útrásartröllin og leppa þeirra til saka fyrir landráð, fjársvik, umboðssvik, þjofnað, fjárdrátt, ólögmæta viðskiptahætti osvfr. Við ætlum einnig að bjóða bretum, hollendingum og öðrum þjóðum sem urðu fyrir barðinu á þessum glæpamönnum að sækja þá til saka fyrir þau lögbrot sem þeir kunna að hafa framið í þeim löndum. Á þennan hátt öðlumst við virðingu umheimsins aftur og eftir skamman tíma öðlumst við traust alþjóðasamfélagsins á ný ásamt því að taka rækilega til í okkar stjórnsýslukerfi. 

 

 

 


Ísland og AGS

Jæja, hér hefur ekkert verið skrifað síðan um miðjan apríl. Stafar það einkum af tvennu: var erlendis í 2 vikur í afar slæmu netsambandi og svo tímaskorti eftir að ég kom heim. Reyndi þó að fylgjast með fréttum að heiman þegar ég var erlendis eins og kostur var. Svo þegar heim var komið þá tók við botnlaus vinna.

Ég hef verið að velta fyrir mér þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin er að móta og hefur mótað fyrir almenning í landinu. Sitt sýnist hverjum en flestum finnst sem ekki sé nóg að gert og velt því fyrir sé af hverju ríkisstjórnin sé svo treg í taumi sem reyndin er. Jónas Kriistjánsson, fyrrum ritstjóri telur að nóg sé gert og ríkisstjórin geti ekki gert meira en fólk viti einfaldlega ekki af því eins og fram í fréttum í dag. Þá spyr maður sig: af hverju getur ríkisstjórin ekki gert meira fyrir fólkið í landinu? Af hverju vill og getur ríkisstjórnin ekki komið á réttlæti í lánamálum í landinu?

Eins og það horfir við mér þá er skýringin sú að ríkisstjórn íslands ræður engu í efnahagsmálum landsins og þá heldur ekki skuldastöðu almennings því hann á að borga sitt að fullu og vel það þrátt fyrir óeðlilega hækkun lána. Hér ræður ferðinni Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ferðinni. Meginmarkmið þessarar svokölluðu aðstoðar hans er að endurreisa traust á krónunni, endurreisa bankakerfið osvfr. Til að svo megi heppnast þarf að setja hér á gjaldeyrishöft eins og við öll þekkjum orðið, skera niður í samneyslunni og ríkissbúskapnum. Þess vegna kemur ekki til greina af hálfu AGS að leyfa nokkuð sem hugsanlega gæti haft í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð eða afskriftir í bönkunum umfram það sem þegar var ákveðið í byrjun kreppunnar. Tillitssemi gagnvart kröfuhöfum þ.e. fjármagseigindum er einnig ofarlega í huga AGS og því samþykkir hann ekki afskriftir, niðurfellingu eða aðra leiðréttingu á skuldum almennings umfram þá sem óhjákvæmilega fara á hausinn. Þess vegna er ríkisstjórn VG og SF svo treg til aðgerða umfram lengingu í lánum, greiðsluaðlögun, lengingu aðfararfrests osvfr. Aðgerðir sem miðast að því að láta fólk borga hvað sem það kostar. Og þetta eru flokkar sem kenna sig við jöfnuð og réttlæti sem með stjórnina fara.

Þegar almenningur í landinu gerir sér grein fyrir þessu þá hefst búsáhaldabylting hin síðari.


Skammist ykkar þið þrír!

Upp á síðkastið hefur verið að koma í ljós að sjálfstæðisflokkur, framsóknarflokkur og samfylking hafa þegið mikla og góða styrki frá ýmsum fyrirtækjum sem tengjast útrásartröllunum og hinum föllnu bönkum. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við að flokkar sækist eftir styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Meðan styrkir eru innan hóflegra marka t.a.m. 100-300 þúsund krónur er lítið við þá að athuga. En þegar styrkirnir fara að hlaupa á milljónum og tugum milljóna frá einstökum aðilum þá eru þeir orðnir vafasamir. Upphæðir og tímasetning þessara styrkja rétt fyrir gildistöku nýrra laga um styrkveitingar til stjórnmálaflokka bendir til að hér hafi verið um hreinar mútur að ræða ekki síst í ljósi þeirra atburða sem hér hafa orðið síðan þá. Tilburðir forystusauða flokkana frá þeim tíma og viðhlægjenda þeirra við að sverja af sér vitneskju um múturnar eru hlægilegar í besta falli. Auðvitað hafa þeir vitað um þá, það er beinlínis hlutverk þeirra að vita þessa hluti, annars ættu þeir ekki að reka stjórnmálaflokka.

Þá kem ég að aðalskömmunum sem ég beini til forystu þessara flokka og undanskil hinn almenna flokksmann sem var blekktur jafnmikið og við hin. Þið, sjálfstæðisflokkur, framsóknarflokkur og samfylking eigið að skammast ykkar og biðja þjóðina afsökunar! Þið gáfuð tóninn og innleidduð það siðleysi, þá græðgi, það óréttlæti, þá sérhagsmunagæslu og þá einkavinavæðingu sem gerði land ykkar og þjóð gjaldþrota og mun ef þið fáðið áfram að ráða, valda miklum hörmungum fyrir land ykkar og þjóð. Skammist ykkar! Gjörðir ykkar og aðgerðaleysi leiddi yfir land ykkar og þjóð skömm og niðurlægingu. Það var ykkar hlutverk að standa vörð um heiður og orðspor lands ykkar og þjóðar. Til þess voruð þið kosin og greidd góð laun. Þið hafið sýnt það og sannað að þið eruð ekki til þess hæf að leiða land ykkar og þjóð. Þegar þið eruð búin að endurnýja alla ykkar forystu, allt ykkar þinglið, endurskoða stefnumál ykkar, gera upp fortíðina og biðja þjóðina afsökunar þá getum við farið að tala saman aftur - ekki fyrr! 

Fram að þeim tíma tekur borgarahreyfingin við ásamt öðru góðu fólki og tekur til eftir klúður ykkar þriggja. Guð blessi Ísland og Íslenska þjóð. 


Endurmenntun fyrir siðvillta

Síðustu daga hafa komið fram furðufréttir um styrki til stjórnmálaflokka og viðtöku styrkjanna af þeirra hálfu. Á annað hundrað milljóna voru veitt af útrásarfyrirtækjunum til 3ja stjórnmálaflokka árið 2006. Í þessum efnum bar sjálfstæðisflokkurinn af sem öðrum og olli ekki vonbrigðum. Samfylking og framsókn voru heldur hógværari en tóku engu að síður við tugum milljóna af sömu fyrirtækjum. Ljóst má vera af upphæðum þessara styrkja að með þeim voru fyrirtækin og stjórnendur þeirra að kaupa sér velvild flokkana og stuðning við látlausa einkavinavæðingu innviða samfélagsins, yfirráð yfir auðlindum þjóðarinnar og völd í samfélaginu. Vitandi þetta er ekkert undarlegt að íslenskt samfélag er komið að fótum fram og af hverju síðustu ríkisstjórninr voru gersamlega vanhæfar.  Af því  tilefni hef ég ákveðið að  bjóða  fólki í sjálfstæðisflokknum, framsóknarflokknum og samfylkingu  upp á námskeið og endurmenntun í vor og sumar í eftirtöldum greinum:

Samfélag manna: Litið verður yfir þróun samfélagsgerðar Homo Sapiens: frá einföldu hellalífi yfir í flóknari þjóðríki með margbrotnumog viðkvæmum innviðum. Sérstök áhersla verður lögð á undirtegunina Homo Islandius sem þróast hefur á sérstakan hátt í 1.100 ár á fjarlægri eyju norður í höfum. Undirtegund þessi hefur þróað með sér sérstakan hæfileika og og þrá til sjálfseyðingar sem brýst fram að loknum kosningum og lýsir sér vel í einbeittum vilja stjórnmálaflokka tegundarinnar til einkavæðingar innviða samfélagins, einkavæðingu auðlinda þess, þjónkun við svo kallaða auðmenn, fyrirlitningu á svokölluðum almenningi og einstakri ást á hugtakinu „græðgi“ en það hugtak er af ýmsum þjóðum talið löstur en hefur þróast í dyggð í starfi ofangreindra stjórnmálaflokka.

Einstaklingurinn og samfélagið: Farið verður yfir tengsl einstaklingsins við samfélagið sem leggur honum til: húsaskjól, menntun, heilbrigðisþjónustu, öryggi og vernd, félagslegt öryggisnet, samskipti við aðra einstaklinga, neyðarþjónustu, fjármálaþjónustu, samgöngukerfi og afþreyingu hvers konar. Pælt verður sérstaklega í þeim einstaklingum sem leitast við að rífa niður samfélagið með lævísum blekkingum um kosti algers frelsins án ábyrgðar og kosti þess að sem fæstir eigi sem mest og flestir eigi sem minnst.

Fyrirtækið og samfélagið: Í þessu námskeiði verða tengs fyrirtækisins og samfélagsins skoðuð. Farið verður í hvernig hagsmunir hvoru tveggju liggja saman, hvar þeir skarast og hvernig leyst er úr ágreiningi. Sérstök áhersla verður lögð á að kynna mikivægi hvors um sig fyrir hvoru tveggju e.k. platónskt samband fyrirbærana samfélag og fyrirtæki.

Samfélagsleg ábyrgð einstaklinga, stofnana og fyrirtækja: Skoðaðar verða ýmsar kenningar um ábyrgð einstaklinga, stofnana og fyrirtækja gagnvart því samfélagi sem skapar þessum fyrirbærum aðstöðu til að lifa og hrærast í. Litið verður sérstaklega á þá aðila sem hafa enga ábyrgð sýnt og staðið á sama um samfélagið og þá sem það byggja og hvaða afleiðingar ábyrgðarleysið hefur leitt af sér. Einnig verða skoðuð dæmi um hið gagnstæða og hvað slíkt hefur gert fyrir samfélagið, fyrirbærið sjálft og vöxt og viðgang hvoru tveggju.

Stjórnmálaflokkar og samfélagið: Farið verður gaumgæfilega í tilurð, tilgang, tilvist, hlutverk og tengsl svokallaðra stjórnmálaflokka við samfélagið og hvernig þeir eiga að þjóna samfélaginu.

Mannlegir eiginleikar: Fjallað verður ítarlega um það sem meðal erlendra þjóða kallast mannlegir eiginleikar og þættir í lífi og starfi. Löngu gleymd hugtök t.d. réttlæti,jafnrétti, frelsi með ábyrgð, sanngirni, sannleikur og samvinna verða kynnt ítarlega og þátttakendur þjálfaðir markvisst í iðkun þeirra í þeirri von að undirtegundin Homo Islandicus deyji ekki út. Mannlegir eiginleikar  eins og að sýna  virðingu, samhyggð, samúð, samkennd, tilfinningar, auðmýkt og visku verða útskýrðir ítarlega og reynt að endurvekja þessa mikilvægu hæfileika þ.e.a.s. þeirra sem á námskeiðið koma.

Þó þessi námskeið séu sérhönnuð fyrir fólk á framabraut í stjórnmálum þá henta þau einnig föllnum englum úr stjórnmálum er huga á meiri háttar „come back.“ Einnig býð ég velkomna svokallaða útrásarvíkinga, fyrrum háttsetta stjórnendur úr bönkum og útrásarfyrirtækja, helstu eigendur þeirra og leppa sem létu gabbast af glópagulli loftbólunnar. Þeir verða þó að sætta sig við venjulegan matarkost og aðbúnað alþýðunnar meðan á námskeiði stendur svo og einangrun enda ekki óhætt sem stendur að láta þá ganga lausa meðal almennings að svo stöddu. Áhugasamir hafi samband við bloggara á netfangið: arikuld@simnet.is J

Munum svo þann 25 apríl: X-O


Stríðið gegn íslandi

Michael Hudson, bandarísku sérfræðingur í alþjóðafjármálum ritar grein í fréttablaðið í dag. Við lestur greinarinnar setur mann algjörlega hljóðan. Nánast í losti. Í þessari grein reynir hann að segja okkur íslendingum að við höfum orðið fórnarlamb fjármálalegrar hryðjuverkárásar af höndum útlendinga sem studdir voru af íslensku bankamönnum! Ég ætla ekki að fara nánar í greinina en hvet alla til að lesa greinina. Michail þessi verður í silfri Egils á morgun ásamt öðrum bandarískum manni sem hefur kallað sig "economic hitman" eins konar efnahagslegur leigumorðingi en það er hlutverk einhvers einstaklings sem fer í herferð gegn einhverju landi á vegum alþjóðlegra samtaka eða banka eða einhverrar skítastofnunar til að koma efnahag þess lands í kalda kol. Báðir þessir menn eru þekktir um heim allan nema hvað ég hef ekki kynnt mér þá eða heimasíður þeirra og skrif sem eru víst aðgengilegar á netinu. Á eyjan.is hefur Egill Helgason oft sagt frá þeim, ég hef bara fram að þessu lagt mátulegan trúnað á samsæriskenningar þeirra, hef talið vanda okkar að mestu heimatilbúin.

Sé þetta rétt og íslenskir bankamenn samstarfsaðilar einhverra erlendra kúkalabba sem hafa markvisst komið okkur á hausinn þá er ekki eftir neinu að bíða með handtökur og húsleitir. Mér finnst þetta svakalegar fullyrðingar og eitthvað hljóta menn að hafa í höndunum til sönnunar, einhver gögn eða upplýsingar sem leiða menn á sporið. Grein Hudsons vekur enn fleiri spurningar í huga manns og eru þær þó ótal fyrir. Nóg að sinni, bíð spenntur eftir Silfri Egils.


Land fáránleikans

Það er ekki lognmollunni fyrir að fara í íslensku þjóðlífi. Reyndar blása vindar af þvílíkum krafti hvort sem litið er til náttúrunnar eða samfélagsins að það hálfa væri hellingur. Það væri að æra óstöðugan að tíunda það allt saman í þessari færslu og því ætla ég aðeins að nefna fátt. En fyrst langar mig að velta aðeins fyrir mér hug fólksins í landinu eins og ég hef upplifað hann síðustu daga.

Ég tók þá undarlegu og ekki undarlegu ákvörðun fyrir um 3-4 vikum að hella mér útí grasrótarstarf Borgarahreyfingarinnar á Akureyri og verð m.a.s. á lista hjá hreyfingunni á norðausturlandi. Ástæðan er sú að ég hef misst allt traust á þeim flokkum sem nú ráða Alþingi. Ég þarf ekki að útskýra af hverju, það má öllum sem lesið hafa blogg mitt vera ljóst. Lengi vel hafði ég þó traust og trú á VG eftir hrunið en eftir að vonin hvarf um björgun almennings þá hvarf það traust og von líka. Ég virði það þó og hef ekki skammast mikið út í núverandi stjórn enda tíminn naumur fram að kosningum og verkefnin ærin. En mér virðist sem VG og SF hafi lagt meiri rækt við fjármálafyrirtækin sbr. björgun Saga Capital og VBS en íslenskan almenning sem enn hefur enga leiðréttingu hlotið á landráðum bankana og eigenda þeirra þ.e. útrásartröllana. Rök Steingríms voru þau að með þessari björgun væru meiri líkur en minni að þau greiddu skuldir sínar. Í vissu tilliti er skynsemi í því en þá myndi maður ætla að það sama myndi gilda um aðra og þar á meðal okkur en svo er víst ekki. Þarna ræður AGS för sem metur fjármálafyrirtæki og endurreisn fjármálakerfisins æðri en allt annað.

En þetta var smá útúrdúr. Í síðustu viku stóðum við nokkur sem gengið hafa til liðs við Borgarahreyfinguna á Glerártorgi og söfnuðum meðmælendum fyrir framboðið en fjórflokkurinn hefur sett ýmsar skrítnar reglur til að hindra framboð nýrra flokka eða hreyfinga. Þar á meðal er sú regla að engin getið boðið fram nema safna meðmælum frá um 300-400 einstaklinga í hverju kjördæmi. Þetta kallar á mikla vinnu og erfiði. Ég í einfeldni minni átti von á eftir búsáhaldabyltinguna að þetta yrði létt verk og löðurmannlegt en svo var aldeilis ekki. Mér fannst eftirtektarvert hve margir voru neikvæðir og greinilega hvekktir á pólítíkinni, viðkvæðið var oft að það væri sama hvað þeir kysu, ekkert myndi breytast. Aðrir hreinlega tóku til fótanna og forðuðu sér. Ég gat ekki að því gert að velta því fyrir mér hvort fólk sæi enga von og stæði á sama? Ég hef einnig velt því fyrir mér hvernig hægt sé að kveikja vonina í huga fólks? Vonin sem fjórflokkarnir munu reyna kveikja í huga fólks eru gömlu lummurnar úr stefnuskrám þeirra með 370 milljóna styrk frá ríkinu sem þeir skömmtuðu sér sjálfir. Hvernig getur blönk hreyfing venjulegra íslendinga komið þeirri von sem þeir hafa sjálfir kveikt í brjósti sér og kviknaði í búsáhaldabyltingunni til bræðra sinnra og systra?

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að "Ganga hreint til verks" og "klára dæmið" eins og ÞKG sagði við Bjarna silfurskeið á landsfundi þeirra og trúarsamkomu um helgina. Ég hélt satt að segja að þeir væru búnir að því nú þegar og væru komnir í gott og verðskuldað frí! Samfylkingin ætlar í brúargerð með Degi B. yfir ófærur sem hún sjálf á drjúgan þátt í að skapa. Samfylkingin ætlar sem sagt að flytja í Borgartúnið í húsnæði vegagerðarinnar. Treystum við drukknu bílstjórunum sem óku fram af hengifluginu og neituðu að nota brýnar? Maður spyr sig?

En svona rétt í lokin fyrir þá sem þetta lesa: veltið aðeins fyrir ykkur hvað það er sem fær venjulegan launaþræl eins og mig til að standa upp, berja í borðið og segja nú er nóg komið og fara jafnvel í framboð fyrir hreyfingu eins og borgarahreyfinguna?

En vonandi fer ég að detta í bloggstuð bráðlega og henda inn fleiri vangaveltum án þess þó að ganga fram af fólki.


22 okt 2008

Ég var að lesa eldri blogg á bloggi mínu á vísi.is og rakst þá á þessa frá 22 okt í fyrra. Merkilegt hve lítið hefur breyst síðan þá. Hvað finnst ykkur?

"Margir spyrja þessa daganna hvað líður björgunaraðgerðum Íslenskra stjórnvalda og IMF. Hverju veldur þessi dráttur? Er það einfaldlega vinnan við það, skilyrðin sem sett verða, umfang eða eitthvað annað sem við vitum ekki? Er eitthvað huss huss í gangi? Eitthvað sem ekki eða engin þorir að segja frá? Rýnum aðeins í stöðuna.

Rætt er um að skellurinn sé um 12 föld landsframleiðsla þ.e. landsframleiðsla 12 ára. Landsframleiðsla árið 2007 var rétt ríflega 1.293 þúsund miljarðar. Skellurinn nemur því um 15.516 þúsund milljörðum, fimmtán þúsund fimmhundruð og sextán milljörðum isk. Ég er nánast ónæmur orðin fyrir slíkum upphæðum. Langstærstur hluti þessarar skuldar er tilkomin vegna bankana. IMF er skv. erlendum fjölmiðlum ásamt nokkrum öðrum þjóðum tilbúin til að lána tæplega 700 milljarða. Tæplega 700 milljarða í þetta svarthol. Eða sem svarar rétt rúmlega 4% upp í stóra skellinn. Hvernig eigum við að fara að því að greiða hin 94 prósentin? 700 hundruð milljarða lán er risalán og vaxtagreiðslur einar og sér hlaupa á milljörðum árlega. Mér skilst á fjölmiðlum að lán þetta ætti að liðka fyrir lánum annarsstaðar. Annarsstaðar? Hvar? Hver í veröldinni getur hugsað sér að lána einhverjum meira þegar viðkomandi skuldar 12 ára tekur fram í tíman? Ef svo ólíklega vildi til að við fengjum lán fyrir öllu þessu þá tæki það meira en 12 ár að greiða það niður, meira en 24 ár að greiða það niður. Lætur nærri að það tæki ekki minna en 48 ár að greiða það niður. Af hverju? Jú, með landsframleiðslu greiðum við fyrir:

  • Menntakerfið
  • Heilbrigðiskerfið
  • Almannatryggingakerfið
  • Samgöngukerfið
  • Utanríkisþjónustu
  • Löggæslu og marg fleira sem okkur þykir sjálfsagt, þar á meðal laun og eftirlaun stjórmmálamanna.

Það sem eftir er fer til greiðslu skulda ef e-ð er eftir. Undanfarin ár höfum við verið svo lánsöm að við höfum getað greitt niður skuldir ríkisins hratt og ríkissjóður því nánast skuldlaus, en það hrekkur skammt þegar skellurinn er af þessari stærðargráðu. Hvað þýðir þetta allt saman? Jú, ef við verðum látin greiða fyrir brjálæðið þá er afar líklegt að:

  • Velferðakerfið verður fyrir verulegum niðurskurði
  • Vextir verða áfram hærri en í nágrannalöndum okkar, a.m.k. helmingi hærri
  • Innflutningur mun dragast verulega saman
  • Vöruverð mun halda áfram að vera hátt samanborið við önnur lönd og jafnvel hækka umtalsvert
  • Atvinnuleysi í áður óþekktum tölum og viðvarandi
  • Gjaldeyrisskömmtun viðtekin venja og margt fl. sem ég hef ekki pláss til að telja upp, (nenni því ekki heldur, nógu svartsýnt er þetta)

Ef þetta er ekki þjóðargjaldþrot eða efnahagslegt hrun, tja hvað er það þá? Það þorir bara engin að segja okkur það. IMF telur það ekki hlutverk sitt að tilkynna okkur það, hafa eflaust sagt ríkisstjórninni það og hún hefur ekki kjarkinn til þess enn sem komið er. Er það skýringin á flótta ráðherra undan fjölmiðlum? Er það ekki skýringin á orðum Ingibjargar Sólrúnar þegar hún segir að staðan er mun alvarlegri en hún átti von á þegar hún kom frá New York? Geir segir að IMF bíði eftir þjóðhagsáætlun, er hægt að koma fram með slíkt plagg ef ástandið er jafnvont og það virðist vera? Yrði slík áætlun yfirhöfuð raunhæf í þessari stöðu? Hæpið og því má álykta sem svo að IMf bara bíði þar til ríkisstjórnin gefist upp og þá taki IMf og ESB yfir öll okkar mál og sjálfstæði okkar liðin tíð. Bölmóður, svartsýnisþrugl og vitleysa, já, sammála því en upplýsingaskortur, fát og vandræðagangur ríkisstjórnarinar gefur fullt tilefni til þess, nema ég sé að misskilja þetta herfilega, líkt og Georg Bjarnfreðason. Vonandi er ég að misskilja allt saman og þetta sé allt saman í gúddí. En svona í framhaldi, eigum við e-ð að ræða þetta með landráð???"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband