Dreifð eignaraðild

Ég dett stundum í undarlegan gír, fer að pæla í framtíðinni og hvernig hægt sé að byggja upp samfélag réttlætis, sanngirnis og jöfnuðar. Fram að árinu 2008 þótti ekki fínt að hugsa um slíka hluti enda átti allt að leiðrétta sig sjálfkrafa. Hluti af þeim pælingum er hvernig við stöndum að væntanlegri einkavæðingu hinna nýju banka og þeirra fyrirtækja sem leyft verður að lifa. Við vitum öll hvernig fór með síðustu einkavæðingu. Við viljum slíkt ekki aftur þar sem hagnaðurinn var einkavæddur og tapið þjóðnýtt með tilheyrandi hörmungum fyrir almenning.

Þjóðin hrópar á réttlæti þessi misserin og hrópin munu breytast í hreint öskur áður en yfir lýkur ef réttlætið nær ekki fram að ganga. Þar sem bankarnir eru allir í okkar eigu og nokkur það sem menn kalla "þjóðhagslega hagkvæm" fyrirtæki á leiðinni í okkar eigu er ekki úr vegi að fara alveg nýjar leiðir í einkavæðingu þeirra í framtíðinni og eyða ótta almennings við væntanlega einkavæðingu.

Mín pæling er sú að öllum núlifandi íslendingum og ófæddum íslendingum í framtíðinni verði afhent hlutabréf í viðkomandi banka, sparisjóði og þessum hagkvæmu fyrirtækjum. Hugmyndin er sú að með slíku fyrirkomulagi verði dreifð eignaraðild tryggð. Sett verði lög og reglur sem komi í veg fyrir að einhver einn aðili eignist ráðandi hlut í bönkum og sparisjóðum enda hefur það sýnt sig vera bráðdrepandi að eiga of mikið í banka eða sparisjóði. Almenningur verður því "kjölfestufjárfestir" svo notað sé vinsælt orð stjórnmálamanna og útrásartrölla í fjármálafyrirtækjum framtíðarinnar á íslandi og þessum mikilvægu fyrirtækjum sem væntanlega eru þá almenningshlutafélög.

Hverjum og einum íslending sem eignast þessi bréf er það í sjálfvald sett hvað hann gerir við þau, á þau áfram til að fá hlutdeild í arði eða selur þau hæstbjóðenda í kauphöllinni. Auðvitað munu einhverjir vilja eignast fleiri bréf í þeim tilgangi að fá hlutdeild í væntanlegum arðgreiðslum þannig að markaður mun skapast fyrir þessi bréf. Ekki þarf að óttast annað.

Nú kunna margir að benda á að með slíku fyrirkomulagi muni ríkið ekki fá í sinn hlut þau verðmæti sem liggja í hlutafénu sem ríkið, við, höfum lagt í bankana eftir hrunið þ.e. fái í ríkiskassan þá hundruði milljarða sem það hefur lagt út í nýtt hlutafé. Færa má rök fyrir því að þjóðin, almenningur hafi í raun lagt út fyrir hlutafénu með hærri sköttum, lægri launum, minni lífsgæðum, háum vöxtum, verðtryggingu, háu gengi ásamt háu vöruverði á undanförnum misserum. Því eigi almenningur rétt á bótum/réttlæti á einhverju formi fyrir öll þau áföll sem yfir hann voru látin ganga. Almenningur mun hvort eð er halda áfram næstu áratugina að borga fyrir bankahrunið og afleiðingar þess. Þannig gætum við tryggt beina fjárhagslega hlutdeild hans í einkavæðingu framtíðarinnar og er síður en svo útí móa. Raunar æskileg ef eitthvað er en hætt er við að fjárhagur íslensks almennings þegar að einkavæðingunni kemur verði fremur dapur og hætt við lítilli þátttöku hans. Búast má við að hagur almennings vænkist þegar fram í sækir og þá fái ríkið í sinn hlut stærri hluta þjóðartekna í formi skatta og slíks og geti þannig bætt hag sinn í stað þess að fá greitt fyrir hlutaféð. Þegar búið er að einkavæða bankana á þennan hátt munu framtíðarbankarnir og hin almenningsfélögin fjármagna nýtt hlutafé sem gefið er út á nýfædda íslendinga með óráðstöfuðu eigin fé þ.e. óráðstöfuðum hagnaði sem rennur þá að hluta til nýrra hluthafa.

Sama mætti gera við kvótann sem til stendur að innkalla á næstu 20 árum. Hver og einn íslendingur fengi þá sinn kvöta og gæti þá annað hvort nýtt hann sjálfur eða selt hann hæst bjóðenda. Þetta myndi gerast á hverju ári og ímyndið ykkur hve hagur almennings myndi vænkast við þetta að fá aukakrónur í kassann og gerast virkur þátttakandi í samfélaginu og finnast hann/hún eiga eitthvað í því. Við gætum jafnvel orðið umheiminum þokkaleg fyrirmynd eftir allt svindlið og svínaríið sem fengið hefur að grassera hér á landi. Eða hvað finnst þér?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Skemmtilegar hugleiðingar, ekki kann ég að reikna svona út.  Hagfræðingar gætu það kannski

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.5.2009 kl. 01:38

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Er þetta ekki gamla leiðin hans Eykons.  Mig minnir að Matthías hafi alltaf verið hrifinn af svona alþýðukapítalisma.

Tel reyndar að starfsmenn eigi að fá a.m.k. 30 %, og þá óháð stöðu.

En mér líst ekki á Þorvaldískuna með kvótann.  Sem gamall og gegn Hriflungur þá  tel ég einfaldlega að kvótakerfið sé mesti þjófnaður aldarinnar.  Tel að þeir sem eigi lifibrauð sitt af fisknum, þá meina ég jafnt sjómenn, útgerðarmenn, landverkafólk og þau byggðarlög sem lifa af sjávarútvegi, eigi hann ef þá nokkur getur þá átt fiskinn í sjónum.

En kvótagreifar eiga ekki fiskinn og ekki þjóðin.  

Frumskilyrði  er að það sé fiskifýla af þeim sem gera tilkall til þess.  Hún hefur ekki fundist í Reykjavík eftir að þeir lögðu niður Klett.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.5.2009 kl. 21:47

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Sæll Ómar

Þegar þú segir það þá minnir mig að Eykon gamli hafi komið með tillögur í þessa áttina.

Sjónarmið þitt með kvótann er athyglisvert og það er rétt hjá þér að engin á í raun kvótann, dýrin eru borin frjáls og óháð okkur mönnum og ekki einu sinni biblían, þó hún reyni, getur sagt að við "eigum" þessi dýr, hvar sem þau eru. Kannski væri besta útfærslan á nýju kvótakerfi að binda það byggðalögum og gera hann íframseljanlegan???

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 23.5.2009 kl. 00:25

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Er vakandi því ég ákvað að taka slag við dóna á bloggi Jakobínu.  Þeir voru leiðinlega meiðandi undir Brussel innslaginu.  Héldu áfram í dag og þá mætti ég á svæðið til að höggva mann og annan.  Og hef gaman af.

En Þorvaldískan er röng, a.m.k. hvað sjávarbyggðir landsins varðar.  Og það er rangt að meina strandbúum að veiða innan ákveðinna marka, t.d 12 mílur.  En hvernig á að útdeila er aftur á móti önnur Ella.  Tel að Einar Oddur heitinn hafi verið nær lagi þegar hann tjáði sig um þessi mál og reifst við Þorstein Má um kvótann og svínaríið kringum frystitogarana.  Að mig minnir vildi hann nokkuð frjálsa útgerð smærri báta, þá reyndar eftir veiðifærum en stór skip áttu að vera ákveðin mörg.  Mig minnir að hann hafi viljað hafa 50 á bolfiski en það skiptir ekki öllu.  Það eru um 20 ár síðan ég las viðtalið við hann en það er auðvelt að finna það á Mogganum á netinu.  

En Einar taldi stóru skipin vera skaðvaldana, ekki hefðbundni bátaflotinn.  Veðrið ásamt veiðarfærastjórnun áttu að sjá um sóknarálagið.  

Málið er að kvótinn á ekki rétt á sér nema í brýnni neyð, eins og til dæmis í uppsjávarfiski.  Og þá aldrei framseljanlegur því það er jafnt og brask.

En kvótauppboð, sama í hverri mynd það er, er ávísun á spillingu og vonda umgengni um auðlyndir.   Menn vanmeta alltaf skynsemi mannsins að finna ásættanlega lausn.  Slík vantrú var reyndar ein meginforsenda frjálshyggjunnar og allir vita hvernig fór með þá sjóferð.

En ég tel að lífvænleg fyrirtæki eigi að fá að lifa og fyrst að kapítalið gafst upp, þá á ekki að afhenda því aftur fyrirtækin í nýtt gambl.  Því lýst mér vel á þína hugmynd.  Einhvern vegin svona sé ég fyrir mér nýja Ísland.

En ég góður pistill hjá þér.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 23.5.2009 kl. 00:55

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ég er líka vakandi Ómar, á vaktinni og vinn fyrir saltkorni í grautinn. Auðvitað á ekki að meina strandbúum að veiða fiskinn í sjónum. En einhverja stjórn verðum við samt að hafa á veiðunum. Kannski er uppboð á kvóta slæm lausn. En þá verðum við að finna aðra sem virkar og flestir sættast á. Nú ætla ég að kynna mér slag þinn við dónana.

KVeðja að norðan, Ari

Arinbjörn Kúld, 23.5.2009 kl. 04:16

6 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ég held að svona einkavæðing myndi leiða aftur í sama farið og var. Hinir ríku munu hafa hagsmuni af því að stækka eignarhlut sinn og þannig ná hratt undirtökum í stjórn bankanna og geta þannig hafið hringavitleysuna enn á ný þar sem þeir nota bankalán til að kaupa hlutabréf af öðrum.

Hvað kvótan varðar held ég að það þurfi að huga að því að skipta miðunum upp í fleiri svæði þar sem kvótanum er skipt milli svæða því eins og staðan er í dag virðist flotinn vera að veiða mjög ójafnt sem getur haft vond áhrif á stofnana. Hvað varðar eignarhald að þá tel ég að slík eigi að vera hjá ríkinu og síðan má deila viðiheimildum út til bygðarlaga um landið, sem síðan fáið að hafa sína hentisemi með hvernig þau dreyfa sínum veiðiheimildum. Tel reyndar að svipað ætti að gera með útblásturskvótann.

Héðinn Björnsson, 30.5.2009 kl. 11:28

7 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Líklega Héðinn, nema við setjum strangar reglur um eignarhaldið og tengsl hluthafa. Bara hugmynd. Sammála þér með kvótann.

Arinbjörn Kúld, 30.5.2009 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband