Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Traust

Við hrunið síðastliðið haust gufaði upp traust fólks á bankakerfinu, síðar meir á stjórnmálamönnum og stjórnkerfinu í heild sinni. Búsáhaldabyltingin gerði kröfu um nýjar kosningar sem gengu eftir sem í sjálfu sér voru stórtíðindi. Borgararhreyfingin var svo stofnuð í aðdraganda kosningana við mikin tímaskort. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að kynnast fullt af nýju fólki þegar ég ákvað að taka fullan þátt í kosningabaráttunni hér á Akureyri fyrir Borgarahreyfinguna. Fólki sem var og er einlægt, heiðarlegt og hafði hugsjónir. Mér leist afar vel á frambjóðendur í þeim kjördæmum sem höfðu einhverja von um að ná inn frambjóðendum þ.e. í Reykjavík og suðurlandi. Ég hélt í einfeldni minni að nú loks gæti maður lagt traust sitt á heiðarlega og einlæga einstaklinga sem höfðu það eitt að leiðarljósi að vinna þjóðinni gagn og hafa hag þjóðarinnar í fyrsta, öðru og þriðja sæti.

Borgarahreyfingin náði inn 4 þingmönnum, tæplega 14 þúsund manns gáfu hreyfingunni dýrmætt atkvæði sitt. Það var stór og sætur sigur og gaf manni þá von að rofa færi til í vantraustsþokunni sem allt umlykur þessa mánuðina og að þingmenn Borgarahreyfingarinnar færu að hreyfa við mjög svo spilltu kerfi. Engin þessara vona gekk eftir. Ein af vonarstjörnum hreyfingarinnar sem kosin var á þing gekk fljótlega úr þingflokknum og gaf þá skýringu að ekki væri hægt að vinna með hinum þremur. Í dag hættu svo hinir þrír í Borgarahreyfingunni í kjölfar landsfundarins um síðustu helgi og eftir erfiðar deilur við félaga sína í hreyfingunni sem eru með öllu óskiljanlegar á tímum sem þessum, ég leit á þær sem eðlilega vaxtarverki og taldi auðvelt að ná sáttum. Ég ætla ekki að magna upp þessar deilur eða tjá mig um þær, nóg er nú samt. Það sem mig svíður sárast er að þingmenn Borgarahreyfingarinnar, allir sem einn hafa hunsað vilja kjósenda, vilja og hugsjónir hreyfingarinnar sem og félaga sína í hreyfingunni með úrsögn sinni. Með því bregðast þeir trausti kjósenda sinna og félaga sinna og setja þeir sig á sama stall og aðrir þeir stjórnmálamenn sem brugðust þjóð sinni á ögurstundu.

Kannski er þetta eðlilegt, að menn kikni undan þeirri athygli og ábyrgð sem á þá er lögð á þessum tímum. Samt sem áður skyldi maður telja að nýjir þingmenn nýrrar hreyfingar myndu leggja sig alla fram um að halda friðinn innan hreyfingarinnar og vinna stefnu hennar og hugsjónum allt það brautargegni sem þeir gætu, svo mikið er í húfi. Hvað um það þá er draumur minn og hugsjón um nýtt og betra ísland óðum að hverfa í kjölfar þessara atburða. Ég reikna með að slíkt eigi við um marga aðra. Þessi þróun kemur sér hvað best fyrir hinn gamla fjórflokk og einhver sagði um daginn að "líklega hefðu aldrei jafnfáir haft jafnmikil áhrif á langlífi fjórflokksins." Þar með verðum við áfram ofurseld valdi fjórflokksins og samtryggingu flokkana og vonin um nýtt og betra ísland er óðum að fjara út.

Góðar stundir.


Kreppan bítur og það fast

Ég hafði hugsað mér að bregða mér af bæ eins og það er kallað og sækja landsfund Borgarahreyfingarinnar um komandi helgi. Ég hafði einnig hugsað mér að gera helgina að langri helgi og njóta dásemda sunnlennskra golfvalla sona í leiðinni með frúnni og syni en blessuð kreppan er farin að bíta ansi fast og við nánari skoðun á efnahag okkar litlu/stóru fjölskyldu er mér ljóst að af þessari ferð verður ekki. Maður verður víst að setja aðra og dýrmætari hluti í forgang s.s. fæðu og húsaskjól.

Mér bauðst frítt far þegar ég orðaði þessa hluti við einn góðan vin og félaga og myndi þá sleppa öllu flandri á golfvöllum eða hverju öðrum óþarfa sem ferðalögum fylgir og í fyrstu þáði ég það. Við enn nánari skoðun og íhugun tók ég þá ákvörðun að sleppa einfaldlega þessari ferð þó mér þyki það ansi hart en það árar illa í samfélaginu og ég er ekki þar undanskilin. Ég hef hreinlega ekki geð í mér að ferðast suður og eyða 3 heilum dögum þar án þess að geta veitt sér nokkuð í mat og drukk eða hverju öðru sem fylgir löngum ferðalögum.

Ég ætla samt ekki að skrifa einhverja vælufærslu, langt því frá, ég hef ennþá nokkuð örugga vinnu og hef ennþá til hnífs og skeiðar eins og það er orðað. Það er einfaldlega þannig að í kreppu sem þessari þá er ferðafrelsið eitt af því fyrsta sem skerðist alvarlega hjá sauðsvörtum almúganum sem ég tilheyri. Ég er einfaldlega of blankur í dag og verð að eiga eitthvað lítliræði til að lifa af það sem eftir lifir september. Ég veit að svipað er ástatt hjá mörgum öðrum þessa daganna. Sífellt meira og meira fer af laununum í afborganir af lánum og slíku, vöruverð hefur rokið upp og launin standa í stað og lækka í raun og veru því blessuð yfirvinnan hefur dregist verulega saman hjá flestum ef ekki öllum. Þá er þetta frá og ég ræði það ekki meira. Búið og takk fyrir, ég hef tekið ákvörðun og að öðru leit höfum við það fínt.

Svona er ísland í dag og nú fara kvöldin að verða dimm og minni tími til að leika sér á kvöldin. Ég hef af ásettu ráði leitt hjá mér kreppuna í sumar enda ákveðin í því að njóta þess meðan hægt er en nú mun ég hafa meiri tíma til að setjast niður á kvöldin þegar ég er heima og ekki að vinna og taka upp þráðin að nýju á blogginu.


Borgarahreyfingin og framtíðin

Það er eins og að bera í bakkafullan lækinn eða reyna selja sand í Sahara að tjá sig um þær deilur og ágreining sem vaðið hefur uppi í Borgarahreyfingunni að undanförnu. Læt ég það því vera en vil segja að mér hefur fundist þessar deilur sárari en tárum taki og er afar óánægður með þróun mála þar á bæ undanfarið. Samt er of snemmt og ekki tímabært að segja sig úr hreyfingunni og vil ég halda lífi í henni eins lengi og mögulegt er og helst til langs tíma og vil veg hennar sem mestan. Ég hef því ákveðið að styða nýtt framboð til stjórnar sem býður sig fram á næsta landsfundi sem haldin verður þann 12 september næstkomandi. Til að sýna stuðning minn í verki þá ætla ég að birta eftirfarandi tilkynningu:

Þjóðin á þing

Borgarahreyfingin var stofnuð af fólki með hugsjónir og væntingar um að koma á lýðræðislegum umbótum, réttlátara samfélagi með gagnsæjum vinnubrögðum og umfram allt, heiðarleika að leiðarljósi

Slagorðið “þjóðin á þing” er engin tilviljun. Það var valið vegna þess að vildum að þjóðin fengi rödd inni á Alþingi Íslendinga. Þinghópur hreyfingarinnar var hugsaður sem brú frá grasrótinni þangað inn.

Að okkar mati hefur það mistekist.
Þess í stað hafa hugsjónir, stefna og kraftur hreyfingarinnar týnst í deilum og óánægju á alla kanta.

Við sem undir þetta ritum erum stolt af Borgarahreyfingunni eins og hún var hugsuð. Í stað þess að gefast upp fyrir þeim mistökum sem gerð hafa verið langar okkur að leggja okkar að mörkum til að hreyfingin finni uppruna sinn á ný og að vegur hennar verði sem mestur.

Þess vegna ætlum við að bjóða fram krafta okkar til stjórnar Borgarahreyfingarinnar.

Við komum fram sem hópur og gerum okkur vonir um að fá stuðning sem slíkur.
Engu að síður bjóðum við okkur hvert og eitt fram til starfsins sem einstaklingar.

Sem hópur höfum við sett saman grunn að stefnu þeirri sem við munum fylgja í störfum okkar og hana má skoða í tengdri skrá. (http://gandri.wordpress.com/files/2009/09/skipulagframtidarsyn.ppt)

Við munum kynna stefnuna nánar á næstu dögum og á landsfundi hreyfingarinnar.

Ásthildur Jónsdóttir, Bjarki Hilmarsson, Björg Sigurðardóttir, Guðmundur Andri Skúlason, Gunnar Gunnarsson, Gunnar Sigurðsson, Heiða B. Heiðarsdóttir, Ingifríður Ragna Skúladóttir, Jón Kr. Arnarson, Lilja Skaftadóttir Sigurður Hr. Sigurðsson og Valgeir Skagfjörð

Svo mun ég reyna vera duglegri að blogga á næstunni en bloggið hefur verið í eins konar sumarfríi - munaður sem ekki er víst að fólk hafi efni á á næstu árum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband