Aukin samkeppni - loksins

Við, Homo Islandicus hljótum að fagna þessu. Aukin samkeppni í matvörubransanum hlýtur að leiða til lægra vöruverðs sem gæti hamið verðbólgu og dregið úr áþján verðtryggingarinnar. Við hljótum einnig að fagna starfmannastefnunni sem Jón Gerald og félagar virðast reka samkvæmt fréttinni, að ráða til sín reynslumikið fólk í bland við yngra og reynsluminna. Ég hvet fólk á höfuðborgarsvæðinu til að fjölmenna í "brettabúðina" og leggja þar með grunn að nýrri og betri framtíð í verslun á landinu. Ég vona einnig að Jón Gerald og félagar víkki út langtímamarkmið sín og opni verslanir á landsbyggðinni. Ég mun í það minnsta leggja leið mína í þessa verslun helgina 4-6 desember þegar ég mun heiðra höfuðborgarbúa með nærveru minni. :-)

Krónan okkar - alheimskróna?

Ég verða að viðurkenna það að ég skil ekki þessa útlendinga sem tala illa um krónuna okkar. Annað eins hagstjórnartæki þekkist ekki í hinum stóra alheimi. Hún fellur um 100% á einu ári gagnvart öðrum lélegri gjaldmiðlum til mikilla hagsbóta fyrir útflutningin. Krónan tryggir það að launahækkanir ná aldrei tilgangi sínum og því er hægt að leggja niður ýmis óþarfa hagsmunasamtök sem aftur myndi spara mikla fjármuni. Bara spurning um tíma hvenær við stígum það skref.

Krónan stuðlar að minni innflutningi sem aftur styrkir innlenda framleiðslu og gerir okkur því sjálfbærri. Með því komumst við hjá því að styrkja og auka atvinnu hjá þessum útlendingum sem tala illa um okkur og krónuna okkar.

Það besta við krónuna okkar er hin fræga verðtrygging sem gulltryggir verðmæti hennar þ.e. verðgildi hennar er ávalt í hæstu hæðum til mikilla hagsbóta fyrir fjármálafyrirtæki og lánveitendur. Verðtrygging sér til þess að þeir sem lána fé fá höfuðstól lánanna margfaldan til baka, langt umfram þá sem lána í löndum þessara útlendinga í prumpgjaldmiðlum eins og evru, dollar og pundum. Verðtryggingin sér til þess að heimskir lántakendur sjá alrei lækkun á höfuðstól lánsins, sama hvað þeir rembast við að greiða lánið niður og eru í skilum. Þess vegna er ég ekki að fatta þessa útlendinga. Aular!

Krónan okkar er jafnvel sjaldgæfari en demantur og því ættum við að selja hana sem tækifærisgjafir erlendis, sem trúlofunar- og giftingarskart fyrir þennan almenning þarna úti, krúnudjásn fyrir liðið með bláa blóðið og loks sem mont- og stadusgjafir fyrir fræga, fína og fallega fólkið. Þarna liggja gríðarleg tækifæri. Við ættum kannski að láta útrásarvíkingana okkar góðu vita af þessum tækifærum?

Hmm, eða ættum við kannski bara að halda henni fyrir okkur og verða enn ógisslega ríkari með krónunni okkar? Segja engum frá dásemdum hennar? En væri það ekki pínu eigingjarnt?


Sundruð þjóð

Við íslendingar erum sundruð þjóð. Alþingi er í upplausn vegna icesave málsins og fleiri brýnna mála. Sá sandkassaleikur og typpasamanburður sem þar fer fram er ömurlegur. Verst er framganga hrunflokkana sem láta eins og hrunið og spillingin hafi komið frá litlum ljótum köllum í útlöndum. Ömurlegar eru fullyrðingar þeirra um að ábyrgðin á icesave sé alfarið Vinstri grænna og þá einkum og sér í lagi á ábyrgð Steingríms. Ég er alfarið á móti icesave samkomulaginu, það hefur komið fram fyrir löngu og ég ætla ekki að endurtaka það enn einu sinni á þessu bloggi. Ábyrgð Steingríms fellst fyrst og fremst í því að hafa skipt um skoðun varðandi þessa nauðung sem icesave er og skrifa undir fyrir hönd ríkisins og knýja fram samþykkt ömurleikans á þingi án þess að útskýra það fyrir þjóð sinni hvers vegna! Það eina sem hann hefur sagt við þjóð sína um viðsnúning sinn er þetta: það besta sem við gerum í stöðunni er að samþykkja og að okkar bíði helvíti á jörðu ef við gerum það ekki!

Í fréttum og á bloggi hafa menn afar skiptar skoðanir á málinu, jafnvel svo að menn ausi hvern annan svívirðingum. Það er ekki gott. Hinn óbreytti íslendingur sem ekki bloggar er orðin ráðvilltur og ruglaður og skilur engan vegin af hverju honum beri að borga. Ekki síst þar sem engin - endurtek - engin hefur komið fram með óhrekjanleg rök eða lagagreinar sem segja að honum beri að borga fyrir einkabankann, landsbankann. Hinn óbreytti íslendingur er orðin þreyttur á ruglinu og þráir það eitt að fá að halda áfram með líf sitt án þess að þurfa taka ábyrgð á axarsköftum og heimsku fjárglæframanna. Hinn óbreytti íslendingur er orðin afar þreyttur á klofnum tungum stjórnmálaflokka og -manna sem aðeins hugsa um eigin hag. Hinn óbreytti íslendingur horfir uppá aðra óbreytta íslendinga missa vinnu sína, íbúð, bíla, framtíðina, æruna og mannorðið vegna "kerfislægs vanda" eins og einn snillingurinn orðaði það. Hinn óbreytti íslendingur horfir uppá fjárglæframenn lifa í vellystingum erlendis. Hinn óbreytti íslendingur horfir uppá ráðherra skrifa uppá sk. "fjárfestingasamning" við félag í eigu eins helsta fjárglæframannsins. Ég hef ekkert á móti gagnaverum svokölluðum, bara eigendum þeirra ef þeir eru vafasamir pappírar. Hinn óbreytti íslendingur horfir uppá höfuðsmið hrunsins hylltan úti í móa, á hádegi. Hinn óbreytti íslendingur hefur horft uppá skuldir sínar vaxa líkt og svarthol þrátt fyrir að greiða þær á gjalddaga. Hinn órbreytti íslendingur hefur horft upp á vöruverð hækka líkt og engin væri morgundagurinn. Hinn óbreytti íslendingur horfir upp á samfélag sitt brotna niður á sívaxandi hraða. Engin talar máli hins óbreytta íslendings lengur. Hver flokkur hugsar um sig, hver þingmaður um sig og sinn flokk.

Hvað getur sameinað þessa þjóð? Það er eitt sem sameinar þjóðina og það er RÉTTLÆTI. Frá degi eitt í hruninu hefur réttlætið gersamlega horfið í svartnætti spillingarinnar. Við fengum von með Evu Joly sem sterk öfl í samfélaginu hata. Sú von hefur farið vaxandi ekki síst með aðkomu erlendra aðila að rannsókn hrunsins. Hinum óbreytta íslending er farið að leiðast biðin eftir réttlætinu. Honum finnst það ekki réttlæti að sumir gerandana hætti störfum í stjórnsýslunni sökum þrýstings utan frá og fái að launum feita launatékka í 15 mánuði þegar hinn óbreytti íslendingur verður að sætta sig við max 3 mánuði í uppsagnarfrest á lámarkslaunum og í mörgum tilfellum mun minna. Þeir flokkar sem nú eru á þingi munu ekki ná fram réttlæti sem þjóðin mun sætta sig við. Til þess eru of margir þingmenn nátengdir spillingunni og jafnvel gerendur, fyrir hrun, meðan á því stóð og á eftir og þá sérstaklega í þremur flokkum sem eiga því miður of marga þingmenn. Smá von kom með Borgarahreyfingunni, sú von dó. Hvað er þá til ráða? Getum við beðið eftir næstu kosningum? Getum við það? Fáum við ekki sama liðið yfir okkur aftur?

Mig langar að spyrja: hvar er leiðtogin sem leiða mun okkur úr kreppunni og á vit nýrra tíma og betra samfélagas? Nú gerist ég smá spámannslegur. Sá leiðtogi mun ekki koma frá núverandi flokkum á þingi. Hann mun koma úr hópi hinna óbreyttu íslendinga sem deilt hefur kjörum með fólkinu, tekið þátt í sorgum þess og gleði og þyrstir jafnmikið og fólkið í réttlæti. HVAR ERTU?


Traust

Við hrunið síðastliðið haust gufaði upp traust fólks á bankakerfinu, síðar meir á stjórnmálamönnum og stjórnkerfinu í heild sinni. Búsáhaldabyltingin gerði kröfu um nýjar kosningar sem gengu eftir sem í sjálfu sér voru stórtíðindi. Borgararhreyfingin var svo stofnuð í aðdraganda kosningana við mikin tímaskort. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að kynnast fullt af nýju fólki þegar ég ákvað að taka fullan þátt í kosningabaráttunni hér á Akureyri fyrir Borgarahreyfinguna. Fólki sem var og er einlægt, heiðarlegt og hafði hugsjónir. Mér leist afar vel á frambjóðendur í þeim kjördæmum sem höfðu einhverja von um að ná inn frambjóðendum þ.e. í Reykjavík og suðurlandi. Ég hélt í einfeldni minni að nú loks gæti maður lagt traust sitt á heiðarlega og einlæga einstaklinga sem höfðu það eitt að leiðarljósi að vinna þjóðinni gagn og hafa hag þjóðarinnar í fyrsta, öðru og þriðja sæti.

Borgarahreyfingin náði inn 4 þingmönnum, tæplega 14 þúsund manns gáfu hreyfingunni dýrmætt atkvæði sitt. Það var stór og sætur sigur og gaf manni þá von að rofa færi til í vantraustsþokunni sem allt umlykur þessa mánuðina og að þingmenn Borgarahreyfingarinnar færu að hreyfa við mjög svo spilltu kerfi. Engin þessara vona gekk eftir. Ein af vonarstjörnum hreyfingarinnar sem kosin var á þing gekk fljótlega úr þingflokknum og gaf þá skýringu að ekki væri hægt að vinna með hinum þremur. Í dag hættu svo hinir þrír í Borgarahreyfingunni í kjölfar landsfundarins um síðustu helgi og eftir erfiðar deilur við félaga sína í hreyfingunni sem eru með öllu óskiljanlegar á tímum sem þessum, ég leit á þær sem eðlilega vaxtarverki og taldi auðvelt að ná sáttum. Ég ætla ekki að magna upp þessar deilur eða tjá mig um þær, nóg er nú samt. Það sem mig svíður sárast er að þingmenn Borgarahreyfingarinnar, allir sem einn hafa hunsað vilja kjósenda, vilja og hugsjónir hreyfingarinnar sem og félaga sína í hreyfingunni með úrsögn sinni. Með því bregðast þeir trausti kjósenda sinna og félaga sinna og setja þeir sig á sama stall og aðrir þeir stjórnmálamenn sem brugðust þjóð sinni á ögurstundu.

Kannski er þetta eðlilegt, að menn kikni undan þeirri athygli og ábyrgð sem á þá er lögð á þessum tímum. Samt sem áður skyldi maður telja að nýjir þingmenn nýrrar hreyfingar myndu leggja sig alla fram um að halda friðinn innan hreyfingarinnar og vinna stefnu hennar og hugsjónum allt það brautargegni sem þeir gætu, svo mikið er í húfi. Hvað um það þá er draumur minn og hugsjón um nýtt og betra ísland óðum að hverfa í kjölfar þessara atburða. Ég reikna með að slíkt eigi við um marga aðra. Þessi þróun kemur sér hvað best fyrir hinn gamla fjórflokk og einhver sagði um daginn að "líklega hefðu aldrei jafnfáir haft jafnmikil áhrif á langlífi fjórflokksins." Þar með verðum við áfram ofurseld valdi fjórflokksins og samtryggingu flokkana og vonin um nýtt og betra ísland er óðum að fjara út.

Góðar stundir.


Kreppan bítur og það fast

Ég hafði hugsað mér að bregða mér af bæ eins og það er kallað og sækja landsfund Borgarahreyfingarinnar um komandi helgi. Ég hafði einnig hugsað mér að gera helgina að langri helgi og njóta dásemda sunnlennskra golfvalla sona í leiðinni með frúnni og syni en blessuð kreppan er farin að bíta ansi fast og við nánari skoðun á efnahag okkar litlu/stóru fjölskyldu er mér ljóst að af þessari ferð verður ekki. Maður verður víst að setja aðra og dýrmætari hluti í forgang s.s. fæðu og húsaskjól.

Mér bauðst frítt far þegar ég orðaði þessa hluti við einn góðan vin og félaga og myndi þá sleppa öllu flandri á golfvöllum eða hverju öðrum óþarfa sem ferðalögum fylgir og í fyrstu þáði ég það. Við enn nánari skoðun og íhugun tók ég þá ákvörðun að sleppa einfaldlega þessari ferð þó mér þyki það ansi hart en það árar illa í samfélaginu og ég er ekki þar undanskilin. Ég hef hreinlega ekki geð í mér að ferðast suður og eyða 3 heilum dögum þar án þess að geta veitt sér nokkuð í mat og drukk eða hverju öðru sem fylgir löngum ferðalögum.

Ég ætla samt ekki að skrifa einhverja vælufærslu, langt því frá, ég hef ennþá nokkuð örugga vinnu og hef ennþá til hnífs og skeiðar eins og það er orðað. Það er einfaldlega þannig að í kreppu sem þessari þá er ferðafrelsið eitt af því fyrsta sem skerðist alvarlega hjá sauðsvörtum almúganum sem ég tilheyri. Ég er einfaldlega of blankur í dag og verð að eiga eitthvað lítliræði til að lifa af það sem eftir lifir september. Ég veit að svipað er ástatt hjá mörgum öðrum þessa daganna. Sífellt meira og meira fer af laununum í afborganir af lánum og slíku, vöruverð hefur rokið upp og launin standa í stað og lækka í raun og veru því blessuð yfirvinnan hefur dregist verulega saman hjá flestum ef ekki öllum. Þá er þetta frá og ég ræði það ekki meira. Búið og takk fyrir, ég hef tekið ákvörðun og að öðru leit höfum við það fínt.

Svona er ísland í dag og nú fara kvöldin að verða dimm og minni tími til að leika sér á kvöldin. Ég hef af ásettu ráði leitt hjá mér kreppuna í sumar enda ákveðin í því að njóta þess meðan hægt er en nú mun ég hafa meiri tíma til að setjast niður á kvöldin þegar ég er heima og ekki að vinna og taka upp þráðin að nýju á blogginu.


Borgarahreyfingin og framtíðin

Það er eins og að bera í bakkafullan lækinn eða reyna selja sand í Sahara að tjá sig um þær deilur og ágreining sem vaðið hefur uppi í Borgarahreyfingunni að undanförnu. Læt ég það því vera en vil segja að mér hefur fundist þessar deilur sárari en tárum taki og er afar óánægður með þróun mála þar á bæ undanfarið. Samt er of snemmt og ekki tímabært að segja sig úr hreyfingunni og vil ég halda lífi í henni eins lengi og mögulegt er og helst til langs tíma og vil veg hennar sem mestan. Ég hef því ákveðið að styða nýtt framboð til stjórnar sem býður sig fram á næsta landsfundi sem haldin verður þann 12 september næstkomandi. Til að sýna stuðning minn í verki þá ætla ég að birta eftirfarandi tilkynningu:

Þjóðin á þing

Borgarahreyfingin var stofnuð af fólki með hugsjónir og væntingar um að koma á lýðræðislegum umbótum, réttlátara samfélagi með gagnsæjum vinnubrögðum og umfram allt, heiðarleika að leiðarljósi

Slagorðið “þjóðin á þing” er engin tilviljun. Það var valið vegna þess að vildum að þjóðin fengi rödd inni á Alþingi Íslendinga. Þinghópur hreyfingarinnar var hugsaður sem brú frá grasrótinni þangað inn.

Að okkar mati hefur það mistekist.
Þess í stað hafa hugsjónir, stefna og kraftur hreyfingarinnar týnst í deilum og óánægju á alla kanta.

Við sem undir þetta ritum erum stolt af Borgarahreyfingunni eins og hún var hugsuð. Í stað þess að gefast upp fyrir þeim mistökum sem gerð hafa verið langar okkur að leggja okkar að mörkum til að hreyfingin finni uppruna sinn á ný og að vegur hennar verði sem mestur.

Þess vegna ætlum við að bjóða fram krafta okkar til stjórnar Borgarahreyfingarinnar.

Við komum fram sem hópur og gerum okkur vonir um að fá stuðning sem slíkur.
Engu að síður bjóðum við okkur hvert og eitt fram til starfsins sem einstaklingar.

Sem hópur höfum við sett saman grunn að stefnu þeirri sem við munum fylgja í störfum okkar og hana má skoða í tengdri skrá. (http://gandri.wordpress.com/files/2009/09/skipulagframtidarsyn.ppt)

Við munum kynna stefnuna nánar á næstu dögum og á landsfundi hreyfingarinnar.

Ásthildur Jónsdóttir, Bjarki Hilmarsson, Björg Sigurðardóttir, Guðmundur Andri Skúlason, Gunnar Gunnarsson, Gunnar Sigurðsson, Heiða B. Heiðarsdóttir, Ingifríður Ragna Skúladóttir, Jón Kr. Arnarson, Lilja Skaftadóttir Sigurður Hr. Sigurðsson og Valgeir Skagfjörð

Svo mun ég reyna vera duglegri að blogga á næstunni en bloggið hefur verið í eins konar sumarfríi - munaður sem ekki er víst að fólk hafi efni á á næstu árum.


Efnahagslegir flóttamenn!

 Þessa bloggfærslu setti ég á vísisbloggið mitt þann 24 nóvember 2008. Enhverra hluta vegna finnst mér hún eiga betur við í dag:

"Allir eða a.m.k. flestir kannast við hugtakið "pólítískir flóttamenn," hugtak sem notað er yfhluta ir fólk sem flýr sitt heimaland vegna þess að það telur sig og sína ekki örugga í heimalandi sínu. Hefur sætt ofsóknum af ýmsu tagi vegna stjórnmálaþátttöku sinnar eða fyrir það eitt að hafa aðrar skoðanir en valdhafar. Nú fer líklega að fæðast nýr hópur flóttamanna en af öðrum ástæðum en pólítískum. Sá hópur fólks hefur það eitt til saka unnið að vera fætt á íslandi, alist þar upp, hlotið menntun sína, lifað og starfað og helgað landinu krafta sína.

Sú risavaxna kjaraskerðing sem framundan er, verði ekkert róttækt að gert, mun að líkindum búa til stóran hóp íslendinga sem sjá ekkert annað í stöðunni en kjósa með fótunum þ.e. flýja land. Þennan hóp má þá skilgreina sem "efnahagslega flóttamenn." Þessi hópur mun verða sá hópur íslendinga sem missir allt sitt í þeirri kreppu sem framndan er þ.e. missir vinnu, húsnæði og verður gjaldþrota í kjölfarið. Kreppan er víst bara rétt að byrja. Hversu stór þessi hópur mun verða er ómögulegt að spá um. En stór verður hann. Þær minningar sem þessi hópur tekur með sér héðan verða nöturlegar, gjaldþrota land, gjörspillt stjórnkerfi, spilltir stjórnmálaflokkar, vanhæfar ríkisstofnanir eins og seðlabankinn og fjármálaeftirlitið, ömurlegt og vanhæft bankakerfi, lamað þing og þingmenn osvfr. Hugsanlega verður það þannig hjá mörgum að þeir komist hreinlega ekki, hafi einfaldlega ekki efni á því. Þar með sjáum við hið gamla vistarband birtast okkur aftur en í örlítið breyttri mynd.

En það er ljós í myrkrinu, hreyfing er að myndast meðal fólksins. Fólk er farið að mótmæla ofríki, vanmætti, spillingu, þögn og aðgerðaleysi stjórnvalda af meiri krafti með viku hverri. Alls kyns hreyfingar og hópar fólks eru að myndast um hin ýmsu málefni hvort sem þau lúta að stjórnmálum, atvinnumálum, menningu, fræðslu um efnahagsmál því eðlilega vill fólk reyna skilja því fór sem fór. Það skyldi þó aldrei fara svo að fólkið reynist ríkisstjórninni snjallara og taki til sinna eigin ráða og hagi sínum málum eftir sínu höfði en ekki ríkisstjórnarinnar?"

Kveðja að norðan.


mbl.is Mesta hættan fólksflótti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á ísland?

Spurði einn umdeildur stjórnmálamaður einu sinni. Ég er búinn að vera afar hugsi síðustu vikur og einkum og sér í lagi í dag eftir að fréttir bárust af því að náðst hefði samkomulag við lánardrottna gömlu bankana þ.e. Glitnis og KB-banka um eignarhlut þeirra í þeim nýju sem reistir voru upp úr rústum þeirra gömlu. Landsbankin skilin eftir enda baneitraður í bak og fyrir.  Fyrst í stað fagnaði ég eignaraðild erlendu aðilana en svo fóru að renna á mig tvær grímur ef ekki fleiri. Með þessari eignaraðild þá eignast þessir erlendu aðilar ísland meira og minna. Þeir fá bankana, fá fyrirtækin sem tekin hafa verið yfir og vald guðs yfir þeim sem eru í gjörgæslu bankana og munu lenda. Þeir fá vald yfir okkur, þessum venjulega íslending sem skuldar húsnæðislánin sín, bílalán og önnur lán sem hinn venjulegi maður og kona hafa tekið. Þeir fá vald yfir bóndanum sem veðsett hefur jörð sína, framleiðslu og búfénað. Þeir fá vald yfir útgerðinni, fiskvinnslunni og kvótanum.

Í raun held ég að þetta hafi verið löngu ákveðið eða strax á fyrstu vikum kreppunnar þegar ljóst var að erlendir kröfuhafar bankana væru að tapa þúsundum milljarða eða um 13.500 milljörðum á hruni bankana. Icesave, ESB og svo þessi "einkavæðing" bankana eru nátengd.

Í fyrsta lagi þá hafa erlendir kröfuhafar sett mikin þrýsting á yfirvöld í bretlandi, hollandi og öðrum ríkjum ESB auk ESB sjálfs til að endurheimta þá fjármuni sem íslensku bankarnir "stálu" frá þeim auk icesave reikningum almennings, líknarfélaga og opinberum aðilum í þessum löndum.

Í öðru lagi eru þessi lönd ásamt ESB svo sannfærð um rétt sinn og málstað að þau settu íslandi einhverja afar kosti sem íslensk stjórnvöld telja svo ægilega að þau geti ekki skýrt frá þeim opinberlega eins og berlega hefur komið í ljós. Þeir fáu sem fengið hafa að sjá þessa kosti verða skelfingu lostnir og snýst hugur um leið og hvetja til þess að við tökum á okkur ógnarskuldbindingar icesave samkomulagsins og bæta þannig icesavereikninghöfum tjón sitt.

Í þriðja lagi er verið að bæta þessum erlendu kröfuhöfum tjón það sem gömlu bankarnir ollu þeim með því að færa þeim innlendar eignir á formi skulda almennings og fyrirtækja í þeirri von að skaði þeirra verði bættur að fullu í fyllingu tímans.

Í fjórða lagi hefur stjórnvöldum verið gerð grein fyrir því að ísland fengi aldrei inngöngu í ESB með þessi mál óuppgerð og skaðin bættur að mestu eða öllu leiti. Jafnfram hefur stjórnvöldum verið gerð grein fyirr því að ísland gæti aldrei unnið sig út úr vandanum nema ganga í ESB sem verður þá væntanlega á ljóshraða svo við getum tekið upp evru sem fyrst. Upptaka evru verður svo tilkynnt innan nokkura missera því erlendir kröfuhafar vilja ekki eiga allar þessar eignir og alla þessa rentu af þeim í ónýtri mynt.

En hverjir gætu þessir afarkostir verið fyrir utan það að einangra landið á öllum sviðum og svelta það til hlýðni. Eins og það sé ekki nægilega slæmt þá gæti ég sem best trúað því að þessir hryllilegu afar kostir væru einfaldlega þeir að íslenskum stjórnvöldum hafi verið hótað málssókn sem ísland gæti ekki annað en tapað og yrði dæmt til til greiðslu allra skulda bankakerfisins eða um 13.500 milljarðar auk algerrar einangrunar á öllum sviðum. Gelymum því ekki að stjórnvöld hafa aldrei gefið annað í skyn en að íslensku bankarnir væru með ríkisábyrgð og jafnvel lýst því yfir opinberlega sbr viðtal við DO á sínum tíma við einhverja erlenda sjónvarpsstöð í fyrravetur. Málssókn sem ísland myndi tapa og alger einangrun eru kostir sem ég held að engin stjórnmálamaður vildi takast á við og hvað þá sannfæra þjóð sína um að það væri besta leiðin út úr kreppunni. En eins og sagt er þá setur sá sem á gullið reglurnar og við erum sem sagt að komast alfarið í eigu erlendra aðila hvort sem okkur líkar betur eða verr. Mig skortir einfaldlega ímyndunarafl til að ímynda mér aðra afar kosti eða eitthvað annað sem fær hárin til að rísa á þeim sem séð hafa afarkostina.

 

Spurningu Jóns Baldvins Hannibalssonar hefur því verið svarað. Landið er í eigu erlendra fjármálastofnana, bankar eða vogunarsjóðir? Dulítið slæmt að vita ekki hver á mann. Vantar andlit á viðkomandi.  HFF!


Erum við búin á því?

Ég fabúleraði um það í vetur hve miklar erlendar skuldir okkar væru í raun. Reiknaði þetta út samkvæmt áætluðum vaxtagreiðslum fjármálaráðuneytisins. Samkvæmt meðfylgjandi frétt eru þessir meintu útreikningar mínir ekki fjarri lagi. Ef við gefum okkur að landsframleiðsla sé um 1.500 milljarðar og erlendar skuldir um 240% af landsframleiðslu þá gerir það um 3.600 milljarða. Samkvæmt AGS frá í nóvember eins og segir í fréttinni er landið búið á því fari hlutfallið upp undir 240% en í fréttinni er gefið í skyn að þær séu um 253%

Í dag hefur verið skýrt frá því í fréttum að norðurlöndin ætli að lána okkur 318 milljarða. Rússland og Póland um 500 milljónir dala til viðbótar öllum öðrum lánum. Ég get ekki að því gert að velta því fyrir mér hvernig í Guðs nafni ætlum við að endurgreiða þessi ósköp. En samkvæmt þessu þá erum við búin á því. Takk fyrir það.


Er það svo?

Ég ætla ekki með þessari færslu að tjá mig um icesave eða annað sem gengið hefur á í okkar litla samfélagi að undnaförnu. Ég held að afstaða mín hafi áður komið fram. Auk þess finnst mér umræðan í samfélaginu að undanförnu dáldið í þá veru að sundra okkur frekar en sameina á tímum sem þessum. En samt sem áður þá er ég dulítið uggandi yfir þróun mála að undanförnu en hef samt stillt mig um að rífa kjaft yfir þessu öllu saman því að mér hefu læðst sá grunur að verið sé að hanna atburðarás sem við, almennir íslendingar getum ekkert ráðið við. Hvað annað getur útskýrt asan við að fá þingið til að samþykkja icesave og við umsókn okkar í ESB?

Eins og allir vita þá eru icesave skuldbindinarnar sem verið er að leggja á þjóðina ógnvænlegar. Þær koma til viðbótar við aðrar skuldbindingar sem við neyðumst til að taka á okkur vegna bankahrunsins. Mikið er rætt um svokallað eignasafn landsbankans gamla sem dekka á allt að 95% icesave skellsins. Miðað við fyrri framistöðu stjórnenda og eigenda landsbankas þá er vafasamt að treysta mikið á meint eignasafn. Þetta vita bretar, hollendingar og aðrar þjóðir ESB. Þeir vita einnig að ísland mun eiga afar erfitt með að standa við þær byrgðar sem verið er að leggja á þjóðina að öllu óbreyttu. Ég held að íslensk stjórnvöld viti þetta líka.

Því þykir mér forvitnilegt að velta fyrir mér hvernig þessi ríki og ESB ásamt íslenskum stjórnvöldum hafi hugsað sér að við greiddum þessi ósköp. Við höfum hér á landi gjaldmiðil sem í daglegu tali kallast króna. Með henni greiðum við allan þann kostnað sem til fellur af tilveru okkar hér innan lands. Þessa krónu getum við því miður ekki nýtt til að greiða erlend lán eða annan kostnað sem hlýst af viðskiptum hvers konar við aðrar þjóðir.

Til að afla gjaldeyris höfum við íslendinga flutt út fisk, ál, ýmsan iðnvarning og ekki síst seld ferðmönnum þjónustu og varning. Þegar við höfum svo greitt fyrir innfluttar vörur og þjónustu með þessum sama gjaldeyri höfum við notað afgangin til greiðslu erlendra lána og skuldbindinga. Eins og staðan er í dag og verður næstu árin mun engin óbrjálaður aðili kaupa íslenskar krónur nema til greiðslu innlends kostnaðar. Útflutningur okkar mun minnka eitthvað á næstu misserum eða jafnvel árum sökum samdráttar erlendis. Því minnka gjaldeyristekjur landsins um leið sem og umræddur afgangur líka þrátt fyrir minni innflutning því innfluttar vörur stórhækka í verði með falli krónunnar.

Margir hafa fært fyrir því sannfærandi rök að með þessum afgangi þó mikill verði getum við ekki greitt þær ógnarbyrgðar sem á okkur eru lagðar ekki síst vegna þess að árið 2011 koma til gjalddaga einir 200 milljarðar sem við þurfum að greiða vega lána sem tekin voru árin 2006 og 2008 til að efla gjaldeyrisvarasjóð okkar. Þá eru ótalin þau erlendu lán sem fyrirtæki og sveitarfélög þurfa af standa skil á.

Þetta vita bretar, hollendingar og ESB fullvel. Þetta eru ekki vanvitar sem þar stjórna þó oft megi það virðast svo. Þetta fólk lifir og hrærist innan í þeim alþjóðlega potti sem Evrópa er. Það sér heildarmyndina oft betur en við eyjarskeggjar í langtíburtuistan sem ísland óneitanlega er. Ég held að þetta fólk geri sér alveg grein fyrir fámenni okkar og gjaldþoli þó auðvelt sé að ímynda sér annað. Ég hef það á tilfinningunni að þetta fólk hafi gert íslensku stjórnvöldum grein fyrir þessu. Því grunar mig sterklega að bretar, hollendingar og ESB hafi ásamt íslensku stjórnvöldum ákveðið að ísland verið tekið inn í ESB innan árs, jafnvel um næstu áramót og að krónunni verði skipt út fyrir evru fyrir árið 2011 svo landið geti greitt sínar ógnarskuldbindingar sem byrja að falla á þjóðina af fullum þunga það árið. Þetta held ég að verði gert þrátt fyrir öll þau formlegheit sem önnur ríki verða að sæta við inngöngu og upptöku evru að ákveðnu tíma loknum. Neyðarástand þjóðarinnar einfaldlega heimilar ESB að leyfa þessa aðferð við inngöngu íslands og upptöku evru í kjölfarið því þrátt fyrir allt erum við ekki nema rétt rúmlega 300 þúsund sálir og umheimurinn mun skilja aðstæður okkar.

Þetta er held ég eina leiðin til að ísland geti staðið við allt það sem framundan er án þess að fara í formlegt þjóðargjaldþrot því framundan er innlausn allra þeirra jöklabréfa og krónubréfa sem liggja inni í hagkerfinu þegar gjaldeyrishöftin verða afnumin á næstu misserum. Búast má við að allur sá gjaldeyrisvaraforði sem til er eða um um 700 milljarðar þurkist úr þegar þau ósköp gerast. Bendi svo á að þessi varaforði er til styrkingar krónunni okkar og er allur tekin að láni frá AGS og seðlabönkum erlendis og þau lán eiga að greiðast upp á næstu árum.

En þetta eru algjörlega ábyrgðarlausar pælingar af minni hálfu og ég verð ekkert fúll þó einhver reki þær öfugar ofaní mig.

Kveðja að norðan.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband