Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Doðinn

Ég er að verða ónæmur og dofinn. Ónæmur og dofin fyrir spillingunni og vibbanum sem vellur frá forarpyttum helvítis á hverjum degi. Á nánast hverjum degi frá því að landið hrundi birtast fréttir um ný spillingarmál. Hvernig bankarnir voru mergsognir að innan. Hvernig vílað og dílað var með fyrirtæki landsmanna. Hvernig efnahagskerfið var skuldsett áratugi fram í tímann með markvissum blekkingum, lygum og svikum útrásardóna, stjórnmálamanna og bankamanna. Brotin blasa við og siðleysið algjört. Þingmenn og foringjar stjórnmálaflokks eru uppvísir af vafasömum fjármálagjörningum. Bera fyrir sig vanþekkingu. Afsakið en menn sem sýna af sér slíkt dómgreindarleysi eru ekki til þess hæfi að gegna trúnaðarstörfum fyrir þjóðina. Flóknara er það ekki.

Maður hristir bara hausinn. Getur ekkert gert annað en vonað að sérstakur saksóknari og hans lið færi okkur réttlæti. Reyndar berast þaðan góðar fréttir svo því sé haldið til haga.

Svo er það icesave. Þjóðaratkvæðagreiðsla framundan í því máli. Sýnir best hve fáránlegt það mál er. Heil þjóð er spurð að því hvort hún vilji samþykkja þennan klafann eða hinn! Taka á sig skuldir sem glæpamannabanki stofnaði til erlendis með vitund og  samþykki vanhæfra stjórnvalda! Hvað sem menn kunna að segja um skyldur þjóðarinnar þá var stofnun og rekstur icesave glæpsamlegt að teknu tilliti til getur og hæfni bankans til að standa við skyldur sínar sem banki. Íslensk stjórnvöld, bresk og hollensk ásamt esb sýndu af sér glæpsamlega vanhæfni og dómgreindarleysi með þvi að leyfa stofnun þessara reikninga. Ætlast svo til að íslenskur almenningur borgi svo brúsann að mestu leyti, 300 þúsund manns! Auðvitað eiga allir þessir aðilar að viðurkenna sameiginlega ábyrgð og deila þessu niður á sanngjanan hátt t.d. deila þessu niður á löndin skv. höfðatölu eða einhverju slíku.

Enn fær þjóðin að bíða eftir rannsóknarskýrslunni. Krassandi verður hún líklega ef marka má orð nefndarmanna sem oft hafa verið gráti nær að eigin sögn. Ég er reyndar komin á þá skoðun að þessir flokkar sem eru á þingi hafi enga getu til að takast á við afleiðingar þjóðargjaldþrotsins og eftirmála þess. Við þurfum byltingu, henda þessum handónýtu flokkum af þingi og fá utanþingsstjórn með aðkomu erlendra aðila sem hægt er að treysta. Ég treysti ekki íslenskum stjórnmálaflokkum og -mönnum. Ég ætla til dæmis ekki að kjósa í næstu sveitarstjórnakosningum fyrr en búið er að koma á persónukjöri. Sama gildir um næstu alþingiskosningar. Annars er ég blogglatur, er mest á fésbók að rífa kajft, þar er oft gaman.

Kveðja að norðan.


Staðreynd og grundvallarspurning

Ég eins og allir aðrir er komin með æluna upp í háls af þessu icesave kjaftæði. En ég má samt til að fá lesandann, ef nokkur er, til að pæla aðeins í þessu og taka svo sína ákvörðum þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Staðreynd: Ríkisbankinn Landsbankin var seldur árið 2003 til einkaaðila sem ráku hann sem einkafyrirtæki þar til hann varð gjaldþrota árið 2008. Ríkisábyrgð fylgdi ekki með í kaupunum, hvorki sem bónus eða söluhvati. Reyndar var því sérstaklega fagnað að með sölunni félli niður ábyrgð ríkisins og myndi gera íslenska ríkið traustara og lánshæfismat þess hækka.

Pæling: Íslensku bankarnir voru einkafyrirtæki. Það er staðreynd. Grjóthörð staðreynd. Melabúðin er líka einkafyrirtæki, það eru Fjarðakaup líka sem og Borað í gatið ehf. Einkabankinn fer á hausinn og skyndilega alveg upp úr þurru eru skuldir hans orðnar þínar. Borað í gatið ehf fer líka á hausinn en tapið á því bera lánardrottnar og birgjar, ekki þú. Vissir þú þetta? Er ekki eitthvað bogið við þetta? Er eitthvað réttlæti í þessu kerfi? Er ekki hrein mismunun hér á ferð? Ættu samkvæmt þessu ekki öll einkafyrirtæki að hafa ríkisábyrgð úr því bankar fá slíkt? Af því bara? Pældu aðeins í því!

Kveðja að norðan.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband