Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Göldrótt ríkisstjórn

Ríkisstjórnin stendur sig vel. Hún stendur sig afskaplega vel í varðstöðu sinni fyrir fjármálakerfið. Á örfáum klukkutímum jók hún eignir fjármálastofnana um 8 milljarða. Ríkisstjórnin er göldrótt. Skrítið hvernig hún getur galdrað fram pening sem er í raun ekki til. Það er engin verðmætasköpun þarna á bak við, heldur hagræði/fjármálagaldrar áranna 2001-2007 sem kom okkur til andskotans og ömmu hans.

Ég hef oft sagt það áður að óvenjulegir tímar kalli á óvenjuleg ráð. Hví er þá ekki hægt að aftengja tímabundið þessa þætti sem hækka lánin og auka verðbólguna meðan þessi óáran gengur yfiir? Líklega vegna þess að AGS vill það ekki. AGS veit sem er að aðgerðir sem þessar auka eignir fjármálastofnana og það lítur þá betur út  í þeirra áætlunum og þessari svokölluðu endurreisn þeirra. En eitthvað verður ríkisstjórnin að gera, engin vafi á því en þá er lámark að hún taki tillit til almennings og fyrirtækja í landinu og geri raðstafanir til að lán þeirra hækki ekki meira en orðið er, nóg er samt. Það er ekki laust við að löngun bæri á sér til að taka fram makindos dósina og sleifina.


Dreifð eignaraðild

Ég dett stundum í undarlegan gír, fer að pæla í framtíðinni og hvernig hægt sé að byggja upp samfélag réttlætis, sanngirnis og jöfnuðar. Fram að árinu 2008 þótti ekki fínt að hugsa um slíka hluti enda átti allt að leiðrétta sig sjálfkrafa. Hluti af þeim pælingum er hvernig við stöndum að væntanlegri einkavæðingu hinna nýju banka og þeirra fyrirtækja sem leyft verður að lifa. Við vitum öll hvernig fór með síðustu einkavæðingu. Við viljum slíkt ekki aftur þar sem hagnaðurinn var einkavæddur og tapið þjóðnýtt með tilheyrandi hörmungum fyrir almenning.

Þjóðin hrópar á réttlæti þessi misserin og hrópin munu breytast í hreint öskur áður en yfir lýkur ef réttlætið nær ekki fram að ganga. Þar sem bankarnir eru allir í okkar eigu og nokkur það sem menn kalla "þjóðhagslega hagkvæm" fyrirtæki á leiðinni í okkar eigu er ekki úr vegi að fara alveg nýjar leiðir í einkavæðingu þeirra í framtíðinni og eyða ótta almennings við væntanlega einkavæðingu.

Mín pæling er sú að öllum núlifandi íslendingum og ófæddum íslendingum í framtíðinni verði afhent hlutabréf í viðkomandi banka, sparisjóði og þessum hagkvæmu fyrirtækjum. Hugmyndin er sú að með slíku fyrirkomulagi verði dreifð eignaraðild tryggð. Sett verði lög og reglur sem komi í veg fyrir að einhver einn aðili eignist ráðandi hlut í bönkum og sparisjóðum enda hefur það sýnt sig vera bráðdrepandi að eiga of mikið í banka eða sparisjóði. Almenningur verður því "kjölfestufjárfestir" svo notað sé vinsælt orð stjórnmálamanna og útrásartrölla í fjármálafyrirtækjum framtíðarinnar á íslandi og þessum mikilvægu fyrirtækjum sem væntanlega eru þá almenningshlutafélög.

Hverjum og einum íslending sem eignast þessi bréf er það í sjálfvald sett hvað hann gerir við þau, á þau áfram til að fá hlutdeild í arði eða selur þau hæstbjóðenda í kauphöllinni. Auðvitað munu einhverjir vilja eignast fleiri bréf í þeim tilgangi að fá hlutdeild í væntanlegum arðgreiðslum þannig að markaður mun skapast fyrir þessi bréf. Ekki þarf að óttast annað.

Nú kunna margir að benda á að með slíku fyrirkomulagi muni ríkið ekki fá í sinn hlut þau verðmæti sem liggja í hlutafénu sem ríkið, við, höfum lagt í bankana eftir hrunið þ.e. fái í ríkiskassan þá hundruði milljarða sem það hefur lagt út í nýtt hlutafé. Færa má rök fyrir því að þjóðin, almenningur hafi í raun lagt út fyrir hlutafénu með hærri sköttum, lægri launum, minni lífsgæðum, háum vöxtum, verðtryggingu, háu gengi ásamt háu vöruverði á undanförnum misserum. Því eigi almenningur rétt á bótum/réttlæti á einhverju formi fyrir öll þau áföll sem yfir hann voru látin ganga. Almenningur mun hvort eð er halda áfram næstu áratugina að borga fyrir bankahrunið og afleiðingar þess. Þannig gætum við tryggt beina fjárhagslega hlutdeild hans í einkavæðingu framtíðarinnar og er síður en svo útí móa. Raunar æskileg ef eitthvað er en hætt er við að fjárhagur íslensks almennings þegar að einkavæðingunni kemur verði fremur dapur og hætt við lítilli þátttöku hans. Búast má við að hagur almennings vænkist þegar fram í sækir og þá fái ríkið í sinn hlut stærri hluta þjóðartekna í formi skatta og slíks og geti þannig bætt hag sinn í stað þess að fá greitt fyrir hlutaféð. Þegar búið er að einkavæða bankana á þennan hátt munu framtíðarbankarnir og hin almenningsfélögin fjármagna nýtt hlutafé sem gefið er út á nýfædda íslendinga með óráðstöfuðu eigin fé þ.e. óráðstöfuðum hagnaði sem rennur þá að hluta til nýrra hluthafa.

Sama mætti gera við kvótann sem til stendur að innkalla á næstu 20 árum. Hver og einn íslendingur fengi þá sinn kvöta og gæti þá annað hvort nýtt hann sjálfur eða selt hann hæst bjóðenda. Þetta myndi gerast á hverju ári og ímyndið ykkur hve hagur almennings myndi vænkast við þetta að fá aukakrónur í kassann og gerast virkur þátttakandi í samfélaginu og finnast hann/hún eiga eitthvað í því. Við gætum jafnvel orðið umheiminum þokkaleg fyrirmynd eftir allt svindlið og svínaríið sem fengið hefur að grassera hér á landi. Eða hvað finnst þér?


Icesave og landráðin

Ég hef áður skrifað um landráð útrásartröllana tengt icesave og fleiri málum, bæði á þessu bloggi og fengið það birt á smugunni, sjá hér. Um talsverðan tíma hef ég haft af því áhyggjur að ríkisstjórnin nýja myndi ganga til svokallaðra samninga við breta um ábyrgð þjóðarinna á þessum ránreikningum landsbankans í bretlandi. Í nýjum stjórnarsáttmála er skýrt kveðið á um að gengið verði til samninga við breta um fullnaðargreiðslu íslensku þjóðarinnar á innistæðum þessarar reikninga. Margir og þar á meðal ég eru á þeirri skoðun að okkur komi þessir reikningar ekki við, landsbankinn var einkafyrirtæki og var ekki með neina ríkisábyrgð. Tryggingakerfi það sem dekka átti innistæður þessara reikninga var hannað til að grípa inní ef einn banki lenti í vandræðum - ekki að heilt bankakerfi heillrar þjóðar hryndi til grunna þannig að ekkert stæði eftir. Á þessu er mikil munur. Íslenska þjóðin telur aðeins um 300-320 þúsund einstaklinga, fjöldi þeirra bresku einstaklinga sem átti innistæður í þessum reikningum í bretlandi er um 300 þúsund fyrir utan alla þá aðra aðila sem áttu fé á þessum reikningum.

Heildarinnistæður á þessum reikningum námu við hrunið um 600-700 milljörðum. Sitt sýnist hverjum um heimtur á þessum reikningum þ.e. hve mikið innheimtist og á hve löngum tíma. Bjartsýnisspá formanns skilanefndar landsbankans segir að um 70 milljarðar falli á íslensku þjóðina, það er 70 milljörðum of mikið. Íslenska þjóðin getur ekki greitt þetta og á ekki að reyna það.Við eigum ekki að velta þessum vanda og stuld útrásartröllana yfir á okkur sjálf og börn okkar.

Mér er spurn hvort nýkjörin ríkisstjórn ætli að fremja síðbúin "landráð" með því að leggja þessar byrgðar á þjóðina ofan á allt annað. Í lögum um landráð segir að:

100. gr. almennra hegningarlaga hljóðar svo:”100. gr. a. Fyrir hryðjuverk skal refsa með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum, þegar verknaðurinn í ljósi eðlis hans eða með hliðsjón af aðstæðum þegar og þar sem hann er framinn getur skaðað ríki eða alþjóðastofnun alvarlega:

1. manndráp skv. 211. gr.,

2. líkamsárás skv. 218. gr.,

3. frelsissviptingu skv. 226. gr.,

4. raskar umferðaröryggi skv. 1. mgr. 168. gr., truflar rekstur almennra samgöngutækja o.fl. skv. 1. mgr. 176. gr. eða veldur stórfelldum eignaspjöllum skv. 2. mgr. 257. gr. og þessi brot eru framin á þann hátt að mannslífum sé stefnt í hættu eða valdið miklu fjárhagslegu tjóni.

Hér er talað um hryðjuverk. Stofnun og rekstur þessara reikinga er ekkert annað en fjárhagslegt  hryðjuverk. Burtséð frá því og taki maður orðið hryðjuverk í burtu og horfir á hugsanlega samninga við breta og setur orðið samningur í staðin þá lítur þannig út að nýkjörin ríkisstjórn hafi í huga að fremja ómeðvitað, meðvitað eða af einskærum ótta við alþjóðasamfélagið landráð. Samningur af þessari stærðargráðu sem vegur alvarlega að undirstöðum samfélagsins, leggur velferða- og efnahagskerfið í rúst, skaðar stjórnskipulegar undirstöður og veldur uppnámi eða jafnvel uppreisn í samfélaginu kemst ansi nálægt því að vera tilræði við samfélagið.

Hvað er þá til ráða? Jú, við eigum að lýsa því yfir við alþjóðasamfélagið að við ætlum ekki að leggja þjóðfélagið í rúst með því að taka á okkur skuldir bankana. Við ætlum ekki að koma hér á viðvarandi fátækt og hneppa þjóðina í skuldafangelsi um ókomin ár. Við ætlum hins vegar að sjá til þess að þessir peningar verði sóttir hvar sem til þeirra næst í veröldinni og biðjum alþjóðasamfélagið um aðstoð til þess. Við ætlum einnig  að sækja útrásartröllin og leppa þeirra til saka fyrir landráð, fjársvik, umboðssvik, þjofnað, fjárdrátt, ólögmæta viðskiptahætti osvfr. Við ætlum einnig að bjóða bretum, hollendingum og öðrum þjóðum sem urðu fyrir barðinu á þessum glæpamönnum að sækja þá til saka fyrir þau lögbrot sem þeir kunna að hafa framið í þeim löndum. Á þennan hátt öðlumst við virðingu umheimsins aftur og eftir skamman tíma öðlumst við traust alþjóðasamfélagsins á ný ásamt því að taka rækilega til í okkar stjórnsýslukerfi. 

 

 

 


Ísland og AGS

Jæja, hér hefur ekkert verið skrifað síðan um miðjan apríl. Stafar það einkum af tvennu: var erlendis í 2 vikur í afar slæmu netsambandi og svo tímaskorti eftir að ég kom heim. Reyndi þó að fylgjast með fréttum að heiman þegar ég var erlendis eins og kostur var. Svo þegar heim var komið þá tók við botnlaus vinna.

Ég hef verið að velta fyrir mér þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin er að móta og hefur mótað fyrir almenning í landinu. Sitt sýnist hverjum en flestum finnst sem ekki sé nóg að gert og velt því fyrir sé af hverju ríkisstjórnin sé svo treg í taumi sem reyndin er. Jónas Kriistjánsson, fyrrum ritstjóri telur að nóg sé gert og ríkisstjórin geti ekki gert meira en fólk viti einfaldlega ekki af því eins og fram í fréttum í dag. Þá spyr maður sig: af hverju getur ríkisstjórin ekki gert meira fyrir fólkið í landinu? Af hverju vill og getur ríkisstjórnin ekki komið á réttlæti í lánamálum í landinu?

Eins og það horfir við mér þá er skýringin sú að ríkisstjórn íslands ræður engu í efnahagsmálum landsins og þá heldur ekki skuldastöðu almennings því hann á að borga sitt að fullu og vel það þrátt fyrir óeðlilega hækkun lána. Hér ræður ferðinni Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ferðinni. Meginmarkmið þessarar svokölluðu aðstoðar hans er að endurreisa traust á krónunni, endurreisa bankakerfið osvfr. Til að svo megi heppnast þarf að setja hér á gjaldeyrishöft eins og við öll þekkjum orðið, skera niður í samneyslunni og ríkissbúskapnum. Þess vegna kemur ekki til greina af hálfu AGS að leyfa nokkuð sem hugsanlega gæti haft í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð eða afskriftir í bönkunum umfram það sem þegar var ákveðið í byrjun kreppunnar. Tillitssemi gagnvart kröfuhöfum þ.e. fjármagseigindum er einnig ofarlega í huga AGS og því samþykkir hann ekki afskriftir, niðurfellingu eða aðra leiðréttingu á skuldum almennings umfram þá sem óhjákvæmilega fara á hausinn. Þess vegna er ríkisstjórn VG og SF svo treg til aðgerða umfram lengingu í lánum, greiðsluaðlögun, lengingu aðfararfrests osvfr. Aðgerðir sem miðast að því að láta fólk borga hvað sem það kostar. Og þetta eru flokkar sem kenna sig við jöfnuð og réttlæti sem með stjórnina fara.

Þegar almenningur í landinu gerir sér grein fyrir þessu þá hefst búsáhaldabylting hin síðari.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband