Almenningur og fallbyssa AGS/IMF

Ég hef fylgst dáldið með þessum umræðum síðustu daga um 20% almenna skuldaniðurfellingu hjá almenningi eins og það er kallað. Sitt sýnist hverjum eins og vera ber. Sumir gera gys að þessum hugmyndum, aðrir reiðast og enn aðrir taka undir þessar hugmyndir. Hugmynd Tryggva Þórs er nánast sú sama og framsóknarmenn komu fram með í janúarbyrjun. Samtök heimilana hafa tekið í svipaðan streng og nálgast þetta út frá réttlætissjónarmiðum sem ég tek fyllilega undir. Borgarahreyfingin orðar þetta öðruvísi og talar um leiðréttingu á geggjaðri vísitölu sem fór úr böndunum. Ég vil nálgast allar þessar hugmyndir með opnum huga og taka það besta frá þeim öllum.

En fyrst skulum við átta okkur á einu: Við lifum á afar óvenjulegum tímum, nánast örvæntingarfullum tímum. Örvæntingafullir tímar kalla á örvæntingafull ráð eða eins og sagt er á ensku: desperate times calls for desperate measures. Annað sem við skulum hafa á hreinu er þetta: íslensk þjóð getur ekki tekist á við nýja framtíð skuldsett til andskotans. Þetta er stórt mál og flókið. Þess vegna verður að einfalda það. Það gerum við best með því að kalla það réttum nöfnum og tala um leiðréttingu og réttlæti og hafa hag almennings ofar öðrum hagsmunum. Þegar sá sem þetta ritar pælir í þessum málum þá hefur hann í huga skuldir almenning sem hann tók til húsnæðiskaupa og erlend bílalán sem eru að sliga marga, ekki lán til hlutabréfabrasks eða annarra slíkra áhættuathafna á markaði. Þar með undanskil ég þá einstaklinga sem skulda hundruði milljóna eða jafnvel milljarða eins og fram kom í fréttum í kvöld. Ég undanskil einnig fyrirtæki í þessari umræðu enda eiga þau að fá aðra meðferð og þar þarf að skoða hvert og eitt fyrirtæki fyrir sig.

Okei en nú förum við að tala saman. Leiðrétting og réttlæti tala samtök heimilana og Borgararhreyfingin um þegar þau ræða um þessa skuldaaukningu sem orðið hefur eftir hrun og jafnvel löngu fyrr eða frá því í janúar 2008 þegar við fórum að finna illilega fyrir verðbólgunni og verðtryggingunni. En til að einfalda málið er best að byrja með 3 spurningum til þín sem þetta lest og ég mun svara þeim fyrir þig því ég veit hverju þú svarar:

  1. Fékkst þú í þínar hendur þá peninga sem skuld þín hefur hækkað um?
  2. Fóru þessir peningar út í hagkerfið með ráðstöfun þinni á þeim til kaupa á vöru eða þjónustu?
  3. Eru þessir peningar þá yfirhöfuð til nema sem tölur á blaði og rafræn boð í tölvukerfi?

Svarið við þessum 3 spurningum er NEI! Þá spyr ég þig sem þetta lest: Hvaða réttlæti er fólgið í því að hækka skuld þína nánast endalaust sama hvað þú borgar af henni? Verður ekki að leiðrétta þetta brjálæði? Svarið við þessum spurningum er auðvitað þetta: Þetta er argasta óréttlæti og verður að leiðrétta.Til er takki á tölvum sem heitir "delete" og þekkt eru fordæmi úr fortíðinni þegar skuldir mætra aðila í réttum flokkum voru afskrifaðar með einu "pennastriki" eins og það var kallað. Við biðjum aðeins um réttlæti og leiðréttingu á ranglæti.

Tillaga Tryggva og framsóknar fela í sér flatan niðurskurð á ALLAR skuldir ALLRA ef ég skil þær rétt. Það eru svolítið, tja galnar tillögur ef ég má orða það svo en við skulum ekki útiloka þær strax. Kannski verðum við að grípa til svo almennra aðgerða til aðgæta jafnræðis og sætta okkur við þá staðreynd að þá fá sumir aðstoð sem ættu ekki að fá. Borgarahreyfingin og samtök heimilana vilja að sú hækkun sem orðið hefur á lánum almennings til húsnæðiskaupa verði færð handvirkt aftur til janúar 2008. Þannig verði einhverju réttlæti komið á þessu landi og ranglætið leiðrétt.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra, mætur maður og víðsýnn hefur gagnrýnt tillögur Tryggva Þórs og framsóknar enda ganga þær mun lengra en tillögur Borgarahreyfingarinnar og samtaka heimilana. Mér vitanlega hefur hann ekkert gefið út á tillögur Borgarahreyfingarinnar og samtaka heimila en mér hefur aftur á móti menn hafa sett þær undir sama hatt og tillögur Tryggva Þórs og framsóknarmanna. Það er miður að Gylfi og ríkisstjórnin skuli ekki ljá sanngjörnum réttlætissjónarmiðum eyra og leiðrétta ranglætið.

Gylfi talaði einnig um að íbúðalánasjóður yrði nánast gjaldþrota ef þetta yrði gert og bankarnir færu illa. Ég skil ekki af hverju ég hef litla sem enga samúð með bönkunum. Hreinlega skil það ekki. Það á einfaldlega að sameina tvo þeirra þannig að eftir standi tveir bankar. Svo er mér alveg sama þó þeir ættu erfitt í einhvern tíma meðan þeir væru að sníða sér stakk eftir vexti. Íbúðalánasjóður er svo annað mál. Þar sem ríkisstjórin er að redda sparisjóðunum og smærri fjármálafyrirtækjum líka eins og Saga Capital og VBS sem spruttu upp í gúrkutíðinni þá er okkur ekki skotaskuld að leggja Íbúðalánasjóði til aukið fé.

En líklega tregðast íslensk stjórnvöld við að laga stöðu almennings að kröfu AGS/IMf svo eignahlið fjármálafyrirtækjanna líti betur út á efnahagsreikningi þeirra. Hugsanlega til að erlendir bankar kaupi þau frekar en við skulum ekki gleyma því að erlendir bankar eru líka á hausnum og því ekki líklegt að þeir komi inn með pening í íslenska banka. Niðurstaðan er því líklega sú að þetta er eitt af leyniskilyrðum AGS/IMF og er því sú fallbyssa sem Gylfi talar um og er beint að íslenskum almenningi enda hugsar sjóðurinn aðeins um eitt og það er fjármálakerfið. Almenningur skal borga. Góðar stundir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er fylgjandi niðurskurði sem er ákveðin krónutala og að jafnt gangi yfir alla íbúðareigendur.  Það hefur náttúrulega verið stundaður þjófnaður á okkur sem skuldum húsnæðismálalán og lífeyrissjóðslán líka.  Þjófnaðurinn byrjaði þegar launavísitalan var afnumin og verðtryggingarnar á lánunum héldu áfram.  Ég tók 3.1 milljóna króna lán fyrir 18 árum í dag skulda ég tæpar 5 milljónir af því láni og hef ég alltaf staðið í skilum með mínar greiðslur.  Þetta er svínari. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.3.2009 kl. 01:21

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Bendi á afar gott viðtal við Þór Saari í dag í Zetunni á mbl.is http://www.mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/03/23/thor_saari_i_zetunni

Baldvin Jónsson, 24.3.2009 kl. 01:27

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

flott viðtal, ég stóð uppbrosandi. Það er von ef við náum einhverjum okkar inn á þing.

Arinbjörn Kúld, 24.3.2009 kl. 12:36

4 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Já verðtryggingin er stór Baggi á mörgum heimilum. Hún er eitt af því fyrsta sem þarf að laga!

Viðtalið við Þór var mjög gott. Við náum kannski meirihluta?

Í alvöru talað þá erum við að nálgast þessi 5% og þá náum við allavega 2 inn. Ég yrði hissa ef það tækist ekki!

Guðni Karl Harðarson, 25.3.2009 kl. 11:58

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Þessi grein þín er fallbyssa í þágu réttlætis og framtíðar barna minna.

Mæltu manna heilastur.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 30.3.2009 kl. 22:56

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

já Ómar minn, ég held að AGS/IMF ráði hér öllu í efnahagsmálum og þar á meðal þessu. Sjóðurinn vill ekki að almenningi verði hjálpað. Sjóðurinn er hér til að koma á fót nýju fjármálakerfi og engu öðru, hann lítur á almenning sem stærð í efnahagsreikningi og tekur ekki inní jöfnuna þjáningar og fórnir hans.

Arinbjörn Kúld, 31.3.2009 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband