Sterkur leiðtogi?

Þessa daganna sér maður auglýsingar í fjölmiðlum frá hinum og þessum flokkum og hinum og þessum frambjóðendunum. Það er bjart yfir þeim flestum enda nóg að gera í stjórnmálum. Þeir brosa allir. Þeir sem bjóða sig fram í 1 sæti í þessum prófkjörum tala flestir um "sterka leiðtoga." Það er ekki laust við að það fari um mig nettur hrollur þegar ég sé þessi orð notuð í prófkjörsslagnum. Þessi orðanotkun minnir mig óþægilega á þessa "sterku leiðtoga" sjálfstæðisflokks, framsóknarflokks og samfylkingar sem skilja við hlutverk sem "sterkir leiðtogar" með efnahag landsins í rúst. Stjórnarstefna þessara "sterku leiðtoga" er nú kennslubókarefni hagfræðinga um víða veröld sem dæmi um hvernig á ekki að gera hlutina. Víða um veröldina furðar fólk sig á þeirri umgjörð sem þessir "sterku leiðtogar" okkar íslendinga skópu fyrir fjárglæframenn sem enn ganga lausir. Mig hryllir við öðrum "sterkum leiðtogum" frá þessum sömu flokkum sem líklega munu skapa annan grundvöll fyrir annað hrun og annað þjóðarrán.

Ég kæri mig ekkert um "sterka leiðtoga." Leiðtoginn sem ég vil sjá er leiðtogi sem hlustar á fólkið sitt, tekur þátt í lífi þess, finnur til samkenndar, samúðar, gefur því færi á að ráða sér sjálft, leyfir því að koma með lausnir og taka ábyrgð á þeim, fer að þeirra vilja en ekki sínum. Hvar höfum við slíkan leiðtoga í dag?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Flott hjá þér í dag, við þurfum ekki ,,sterkann leiðtoga" í þeirri meiningu sem lögð hefur verið í það orðasamband. 

,,Leiðtoginn sem ég vil sjá er leiðtogi sem hlustar á fólkið sitt, tekur þátt í lífi þess, finnur til samkenndar, samúðar, gefur því færi á að ráða sér sjálft, leyfir því að koma með lausnir og taka ábyrgð á þeim, fer að þeirra vilja en ekki sínum".

Hjartanlega sammála þér 

Við þurfum stjórnmálaleiðtoga sem kunna að virkja með sér fólk til góðra hluta fyrir samfélagið í heild sinni. Fólk sem kann og líður vel í slíku hlutverki að vera fremstur meðal jafningja.

Okkar vantar ekki snoppufríða drengi af réttum ættum

Kristbjörn Árnason, 14.3.2009 kl. 13:36

2 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Það er erfitt að skilgreina hvað átt er við með "Sterkum leiðtoga"  Það er að mínu mati sá sem getur leitt þjóðfélagið út úr erfiðum aðstæðum í þjóðfélaginu í sátt við þjóðina og gott jarðsamband við fólkið í landinu.

Jakob Falur Kristinsson, 14.3.2009 kl. 13:49

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk fyrir það strákar. Þessir sterku leiðtogar sem við þekkjum eru þeir sem hafa valtað yfir fólk og flokka og haldið þeim í heljargreipum og komu okkur í þá stöðu sem við erum í.

Arinbjörn Kúld, 14.3.2009 kl. 14:45

4 Smámynd: Offari

Sterkur leiðtogi hlustar á þjóðina og vinnur fyrir þjóðina með þjóðini. Þannig túlka ég sterkan leiðtoga og er til í að fá svoleiðis leiðtoga.

Offari, 14.3.2009 kl. 18:22

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Það er fáránlegt að sjá þegar verið er að merkja stuttbuxnadrengi sem aldrei hafa migið í saltan sjó sem leiðtoga.

Við höfum haft mikið af vondum leiðtogum. Leiðtoganafnbót er rangnefni á þetta fólk því þetta hafa öðru fremur verið foringar sem ekki hlusta á samferðamenn sína og hafa einangrað sig meðal já-liðs. Við sjáum nú afleiðingarnar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.3.2009 kl. 20:36

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ps. flottur pistill

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.3.2009 kl. 20:37

7 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Ps. Ekki væri verra að fá leiðtoga með reynslu, þekkingu, skynsemi og skilning. Það fer hrollur um mig þegar ég lít á útkomur úr prófkjörum. Þar leiðir blindur blindan.

Andri Geir Arinbjarnarson, 15.3.2009 kl. 17:26

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Ég gæti alveg sætt mig við De Gaule heitinn í nokkur ár ef hann frelsaði þjóðina frá Icesave og IFM.  Það er margt á sig leggjandi til þess.

En umræðan er á villugötum.  Sterkir leiðtogar eru yfirleitt menn með skýra sýn á ákveðið viðfangsefni og hæfileika til að miðla þeirri sýn.  Oft kallaðir réttir menn á réttum stað.  

Þessu er oft ruglað saman við sterka persónuleika sem hafa þá grunnsýn að þeir séu best til þess fallnir að stjórna og stjórnin eigi að kristallast um þá.  Gott dæmi er Lúðvík sólkonungur.  

Við þurfum sterkan leiðtoga sem fær þjóðina til að hugsa.  Mér fannst t.d Vilmundur heitinn vera efni í einn slíkan.  En það fór eins og það fór.  En ef einn slíkur kæmi fram þá myndi ég t.d. yfirgefa klettavígi mitt og berjast, þó það yrði mín síðasta orusta.  Churchill gamli hafði þau áhrif að áburðarflugmenn úr afskektustu sveitum hins enskumælandi heims komu til Bretlands og björguðu Bretum frá algjörum ósigri því að á ákveðnum tímapunkti þá áttu þeir eftir flugvélar en ekki nógu marga flugmenn.  Þetta er klassískt dæmi á áhrif leiðtoga á gang heimsögunnar.  

Í dag er Ísland leiðtogalaust.  Þess vegna er allt hér í tómu tjóni og ekkert nema hrun framundan.   Það sem þarf að gera er ekki gert.  Það sem á ekki að gera, er gert.

Og þú varst akkúrat að lýsa þeim sterka leiðtoga sem við þörfnumst.  Fólkið sem þú vitnar í, veit ekki einu sinni hvað leiðtogi er, hvað þá að það viti hvað hann á að gera.  

En það kann að segja orðin.  Og það heldur að það sé nóg.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.3.2009 kl. 01:50

9 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk öll fyrir innlitið. Ég er innilega sammála ykkur. Öll leiðtogaumræðan hefur verið afar einsleit og búið að telja þjóðinni trú um að leiðtogi sé einræðisherra með fullt af jábræðrum og systrum sem bara kinka kolli.

Arinbjörn Kúld, 16.3.2009 kl. 08:53

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta sterka leiðtoga-kjaftæði er hluti af útþvældum klisjum sem hefur virkað eins og heilaþvottur á suma en mývargur á aðra. Mér finnst þetta kjaftæði eins og mývargur! Þeir sem viðhafa slíkt kjaftæði eru með því að viðurkenna að þeir hafa ekkert lært og ætla engu að breyta

Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.3.2009 kl. 21:44

11 identicon

Leiðtogi er heldur ekki sem best orð ef maður spáir í það. Að toga einhverja áfram felur í sér að ekki sé endilega fylgt eftir af vilja. Nema maður sé leiðitamur og ósjálfstæður. Eins leiðist mér orðin RÁÐHERRA og STJÓRNmál, að ég tali ekki um VALDAmenn og VALDstjórn, gildishlaðin og frekjuleg. Vantar alveg þjónustulundina og auðmýktina sem veitti ekki af að auka hjá þeim sem við kjósum til að vinna að hagsmunum okkar. Bara svona pæling.

Solveig (IP-tala skráð) 16.3.2009 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband