Kreppan og landsbyggðin

Ég bý úti á landi og þar vil ég helst vera. Ég heyri oft sagt hér úti á landi: hér kom aldrei neitt góðæri og hví ætti kreppan að koma hingað? Góð spurning og mitt svar við henni er þetta: Hvort sem hið svokallaða góðæri kom á landsbyggðina eða ekki þá mun kreppan koma á landsbyggðina og hún mun fara verr með hana en höfuðborgarsvæðið. Landsbyggðin mun finna fyrir verðtrygginunni á sama hátt og íbúar höfuðborgarsvæðisins, hún mun finna fyrir hækkandi vöruverði og það jafnvel í meira mæli en íbúar höfuðborgarsvæðisins sökum hækkandi flutningskostnaðar, hún mun finna fyrir hækkandi vöxtum, virði eigna mun lækka mun meira en á höfuðborgarsvæðinu enda illseljanlegri en þar, framkvæmdum verður frestað enda staða margra sveitarfélaga slæm og aðgangur að lánsfé takmarkaður ef þá nokkur, ríkið mun fresta mörgum framkvæmdum á landsbyggðinni, stórframkvæmdum á borð við álver á Bakka við Húsavík verður líklega frestað um óákveðin tíma og álveri í Helguvík á höfuðborgarsvæðinu gefin forgangur, atvinnuástand á landsbyggðinni mun líklega versna þegar eftirspurn minnkar eftir vörum framleiddum úti á landi minnkar á höfuðborgarsvæðinu, dýrara og erfiðara verður að nálgast aðföng til framleiðslu og svo dreifingar v/hækkandi flutningskostnaðar. Það er þó ákveðin þversögn í því síðast nefnda því líkur eru á því að eftirspurn eftir innlendri framleiðslu muni aukast þegar innflutningur dregt saman. Á máli hagfræðinnar er það þó rökrétt því aukin eftirspurn þýði hærra verð. Það ætti því að þýða tímabundin samdrátt í vörum framleiddum á landsbyggðinni.

Við skulum samt ekki örvænta því kreppan mun kenna okkur ýmislegt og neyða okkur til að hjálpa okkur sjálf. Eftirspurn eftir innlendri framleiðslu mun óhjákvæmilega aukast og þar með atvinna. Bændur munu auka framleiðslu sína enda þurfum við að borða. Fyrsta íslenska kornið/hveitið kom á markað í haust svo eitthvað jákvætt sé nefnt til tilbreytingar. Endurnýting hvers konar mun fá aukið vægi í allri nýsköpun og alls kyns smáiðnaður mun aukast. Þetta verður þó erfitt þar sem allur innlendur kostnaður mun aukast á næstunni. Við megum samt ekki gefast upp heldur verðum við að halda haus og finna leiðir til halda í það sem við höfum og efla alla nýsköpun. Kreppan er komin og við verðum að horfast í augu við þá staðreynd. Það breytir því samt ekki að við eigum að krefjast kosninga sem fyrst, krefjast réttlætis, að útrásartröllin verði látin sæta ábyrgð og að allt stjórnkerfi landsins verði endurskipulagt með virkt lýðræði að leiðarljósi. Svo legg ég til að við stofnum nýtt stjórnmálaafl þar sem heiðarleiki, einlægni, lýðræði, gegnsæi og jafnrétti verði höfð að leiðarljósi, (hugsalega er ég að gleyma einhverjum flottum hugtökum), en umfram allt - hagur þjóðarinnar umfram hag flokks. Og þjóðin er: Landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið. Þetta snertir okkur öll hvar sem við búum.


Íslendingar og stjórnmálin

Ég fór á mótmælin hér á Akureyri í dag. Fá vorum við eða um 100 manns. Meira en helmingsfækkun frá því fyrr í haust. Ég var mikið að hugsa á meðan. Af hverju erum við ekki fleiri? Getur verið að fólki sé sama? Hvað er það að gera nákvæmlega núna? Í gluggum nokkurra verslana var verið að auglýsa útsölur og ég sá nokkrar hræður rölta á milli. Ég fór í bónus eftir mótmælin, þar var troðfullt. Glerártorg troðfullt. Talsverð umferð bíla var um ráðhústorg þessar 20 min sem mótmælin stóðu yfir. Var fólk að hnusa af mótmælunum? 10-15 manns stóðu álengdar og virtust virða fyrir sér mótmælin, tóku ekki þátt. Einhverjir á rölti um miðbæinn en tóku ekki þátt.

Hvað vill fólk velti ég fyrir mér? Þá rann upp fyrir mér að 99% fólks vill fá að halda áfram með lífið eins og það var. Stunda sína vinnu, fara versla, stunda áhugamálið, hitta vini og kunningja og einfaldlega lifa sínu lífi án þess að þurfa að velta pólitík fyrir sér. Til þess borgar það pólitíkusum laun og veitir þeim umboð sitt á 4 ára fresti til þess. Það vill ekkert þurfa skipta sér af stjórnmálum og efnahagsmálum þess á milli. Það vill treysta því að fulltrúar þeirra sjái um slíkt og hafi ávallt hagsmuni þess að leiðarljósi.Fólk vill treysta því að fulltrúar þess séu heiðarlegir, traustir og grandvarir einstaklingar sem fylgi sinni sannfæringu og samvisku. Hvað á fólk svo að gera þegar þessar forsendur bresta? Það er alveg ný staða fyrir fólki og það veit ekki hvernig það á að bregðast við. Eina leiðin sem það þekkir er sú sem opnuð er á 4 ára fresti og kallast kosningar. Ég held einnig að í hugum flestra hafi orðið "mótmæli" á sér neikvæðan blæ og því vilji það ekki láta bendla sig við slíkt. Fólk trúir ekki að mótmæli komi einhverju til leiðar, við eru svo óvön mótmælum. Þær fréttir sem við fáum utan úr heimi af mótmælum er af brennandi bílum og húsum, blæðandi, slösuðu og látnu fólki, táragas skýjum, lögreglu grárri fyrir járni og grímuklæddu fólki hendandi mólotovkokteilum í átt að óeirðasveitum lögreglu. Íslendingar vilja ekki taka þátt í slíku.

 Ég velti einnig fyrir mér þessar 20 mínútur hvort almenningur í það minnsta hér fyrir norðan sé búinn að fatta eða meðtaka í vitund sína hvað hafi í raun gerst? Er fólk hugsanlega lamað af hneykslan eða skynjar þetta sem einhvern óraunveruleika í skammdeginu og að með vorinu þá verði allt gott aftur? Það er ekki alveg það sem ég skynja þegar ég ræði við fólk um ástandið, kannski miklu fremur að fólk álíti sem svo að það sé einfaldlega ekkert sem það geti gert, nákvæmlega ekkert. Oft finnst mér sem fólk vilji að "aðrir" taki af skarið og geri eitthvað. Hverjir þessir "aðrir" eiga að vera veit ég ekki. Fólk hefur ekki áttað sig á að það getur engin annar en það gert eitthvað í málinu. Ríkjandi valdhafar eru ekki líklegir til að gefa fólki tækifæri á að velja sér nýja leiðtoga innangömlu flokkana. Þvert á móti held ég að þeir muni berjast með kjafti og klóm, til síðasta blóðdropa til að nýir aðilar komist ekki til valda innan þeirra þ.e. gömlu flokkana. Því held ég að nýtt stjórnmálaafl þurfi að koma til sögunar ekki síst í ljósi þess ef efnt verður til kosninga í vor þrátt fyrir allt. Eða á maður að stóla á VG sem þrátt fyrir allt er saklaus af hruninu?

Sagan segir okkur að nýtt stjórnmálaafl er ekki líklegt til langlífis né mikilla afreka. Slíkir flokkar hafa ávallt sprottið upp eftir klofning úr gömlu flokkunum og að lokum sameinast þeim aftur eða hreinlega horfið í gleymskunnar dá. Tilraunir félagshyggjufólks til sameiningar hafa verið með eindæmum. Þó þokaðist í áttina þegar Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Kvennalistinn reyndu sameiningu um árið sem endaði í stofnun tveggja flokka, Samfylkingu og Vinstri-grænna. Ekki tókst þeim að sameinast í einum flokki og er það verr. Afar verr. Samt er ljós í myrkrinu, VG hafa opnað á stjórnarsamstarf ef marka má síðustu fréttir. Er þá einhvers konar sameining í vændum? Munu VG sætta sig við Evrópustefnu Samfylkingarinnar og vis versa? Getum við sætt okkur við Samfylkinguna eftir allt sem gengið hefur á á hennar vakt? Hroka Ingibjargar, sofanda- og aulahátt Björgvins, lofsöng flokksins til útrásarliðsins og ábyrgðarleysi. Eða eigum við að fyrirgefa þeim og gefa þeim annað tækifæri?  Ég fyrir mitt leiti hef misst alla trú á Samfylkingunni eftir að hafa horft upp á viðbrögð og hegðun leiðtoga hennar. 


Batamerki eða blöff?

Mér finnst óþarfi að kjósa um viðræður við ESB, eins og að tegja lopan
út í hið óendanlega. En viljum við að spillingarliðið leiði viðræður
við ESB? Ekki ég. Þess vegna getur þetta verið leiðin til að losna við
núverandi stjórnarflokka úr stjórn.  Eða býr eitthvað annað baki hjá
þeim? Eru þau að sýna auðmýkt og batamerki með þessari hugmynd sem kom
fyrst fram hjá VG? Er allt í einu farið að örla á lýðræðishugsun? Eða eru þau að blöffa og hvernig þá?

Ég er

að velta fyrir mér skv þessu hvort við sjáum nú fyrstu alvöru merki kreppunar? Fréttablaðið kemur nú út á bleikum pappír, restar frá útgáfu Viðskiptablaðs þeirra. Lesi maður greinina á hlekknum fær maður á tilfinninguna að hér verði ekkert blað gefið út innan skamms. Gæti farið svo? Er pappírinn að klárast? Ég kaupi ekki moggann, tek ekki fréttablaðið inn á mitt heimili, gef mér engan tíma til að lesa blöðin auk þess sem ég nenni ekki að safna þeim saman til þess eins að henda þeim út aftur. Netið og bloggið nægir alveg fréttaþyrstum. En margir myndu eflaust sakna minningargreinanna og aðsendra greina en þetta má alveg eins gefa út á rafrænu formi en þá er ég að gleyma þeim sem ekki kunna á tölvu. En margra milljarða skuldir hvíla á Árvakri og prentsmiðjunni, hvað á að gera við skuldirnar? Afskrifa? Þá lenda þær á okkur. Breyta í hlutafé? Hver á það þá? Bankinn? Þjóðin sem eigandi bankans? Myndum við sætta okur við að bíða í áratugi eftir arðgreiðslum? Eða á maður bara að segja eins og einn mótmælandinn setti á skilti sitt: helvítis fokkin fokk! Þessi orð verða næsti faris ársins.Grin

Viðurkenning Geirs

Í þessum orðum Geirs H. Haarde felst viðurkennig á stórfeldum brotum og landráðum: "En vandinn virðist einnig sá að tækni þeirra sem hafa hag af því að koma hlutum í uppnám, spila á kerfið og veðja gegn hagsmunum almennings, hefur líka fleygt fram. Þess vegna er mjög brýnt að herða reglur um hegðan á fjármálamarkaði og taka fast á öllum brotum." Takið eftir orðunum "hagsmunum almennings." Brot af þeirri stæðrargráðu sem við höfum orðið vitni af og hafa sett heila þjóð í gjaldþrot og skuldsett hana um hundruði ef ekki þúsunda milljarða króna geta einfaldlega ekki verið annað en landráð. Ég álykta sem svo af orðum Geirs að handtökur hefjist strax á morgun.

Ég hef eignast fullt af nýjum vinum í gegnum bloggið mitt á vísi.is og vona að það sama gildi um þetta blogg. Það sem mér finnst merkilegast er að úti í samfélaginu er mikið af góðu, heiðarlegu, einlægu fólki með sterka réttlætiskennd sem vill byggja hér upp samfélag réttlætis og sanngirni. Það fólk þarf að komast til valda og það þarf að finna því einhvern sameiginlegan vettvang til þess. Einhvern vegin finnst mér samt að núverandi valdhafar muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að nýtt fólk komist að og þá sérstaklega innan sinna eigin flokka.


Gleðilegt ár og ég býð mig velkomin á moggablogg

Það er líklega við hæfi að skrifa fyrstu færsluna mín á moggbloggi fyrsta dag ársins. Hef til þessa verið á vísi að blogga um allt og ekkert og þó aðallega sumt. Slóðin er: http://blogg.visir.is/arikuld/ hafi einhver áhuga. Ég á nokkra sk bloggvini á moggabloggi og það er ein ástæða þess að ég byrja hér, orðin leiður á allri skriffinnskunni sem fylgir þegar ég rita athugasemdir á bloggsíður þeirra. Auk þess langar mig að blogga um fréttir sem hér birtast. Nóg að sinni og það verður skemmtilegt að byrja hér líka.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband