Jæja Geir
21.1.2009 | 21:43
Ég veit ekki hvað það er í umhverfinu sem blindar augu þín og teppir eða brenglar orð landa þinna áður en þau berast eyrum þínum. Kannski ertu hættur að skilja íslensku eftir áratuga setu í fílabeinsturninum, ég veit það ekki og líklega sérðu bara það sem þú vilt sjá orðið. Þú sagðir í kvöld í sjónvarpinu að þú ætlir ekki að leyfa okkur að kjósa. Þú segist hafa umboð til 2011. Það er rétt en það umboð fékkstu árið 2007 þegar allt lék í lyndi á eyjunni okkar og smjör draup af hverju strái að þinni sögn. Síðan þá hefur komið í ljós að með fulltingi þínu og fyrrum samstarfsmanna og kvenna var landið okkar rænt auðlindum sínum . Ykkur tókst meira að segja að selja mannauðinn og vinnu hans áratugi fram í tímann. Þú og þitt fólk kaus að hunsa og hæða erlenda fræðimenn og velunnara sem vöruðu okkur við. Sögðuð þá heimska og ættu að sækja sér meiri menntunar. Þú og þitt fólk settuð landið á hausinn. Það er miklu meira en nóg til að missa það umboð sem þú telur þig hafa.
Þú sagðir líka í sjónvarpinu að við myndum eyðilegga samstarfið við AGS ef gengið yrði til kosninga á vordögum. Ég veit ekki betur en AGS sé slétt sama hvaða flokkar og hvaða menn stjórna. Sjóðurinn skiptir sér ekki af pólítík. Ertu að gefa í skyn að sjóðurinn treysti bara þér og engum öðrum? Heyr á endemi! Þér er ekki sjálfrátt. Go home! Þú sagðir að við myndum þá eyðileggja þann árangur sem náðst hefði á síðustu vikum ef við myndum kjósa í vor, hallló Geir, árangur? Hvaða árangur ertu að tala um? Gjaldþrot þjóðarinnar? Ertu kannski stoltur af því hvert þú fórst með þjóðina? Þú veist það kannski ekki en þjóðþing nágrannalanda okkar hafa frestað afgreiðslu þeirra lána sem til stóð að lána okkur. Það er gert vegna þess, Geir að landar þínu hafa í massavís sent tölvupósta á þingmenn þessara landa og beðið þá um að hinkra með lánveitinguna vegna þess að þeir treysta ekki ríkisstjórninni fyrir þessum peningum.
Þú nefndir það líka að það yrði efnahagsleg óstjórn ef stjórnin færi frá. Efnahagsleg óstjórn! Þú hlýtur að vera spauga þegar þú lætur þér þessi orð um munn fara. Hvernig má það vera að hægt sé að tala um efnahagsstjórn þegar þú og stefna flokks þíns hafa gert landið gjaldþrota. Þú kennir um alþjóðlegri fjármálakreppu. Sú kreppa á sinn þátt í hruninu en samt segja sömu menn og þú og þinír hæddu og spottuðu að hvort sem kreppa hefði orðið eða ekki þá hefði þetta samt gerst því þið leyfðuð bönkunum að sanka að sér skuldum erlendis svo næmi 9-12 földum landsframleiðslu, þvert á ráðleggingar allra. Þetta kallar þú ábyrga stjórn efnahagsmála. Engin getur nema þú. Þetta er misskilningur hjá þér. Þú ættir að hafa vit á því að segja af þér áður en mótmælin fara að valda einhverjum líkamstjóni. Þú hefur kannski ekki tekið eftir því en fólk er að mótmæla um allt land og er við það að fá nóg.
Í dag
21.1.2009 | 14:12
ætla ég að mæta á mótmælin á Akureyri. Með kröfuspjald og andaflautu. Með henni ætla ég að særa burt alla slæma anda :-) Við skulum ekki slást við bræður okkar og systur í Lögreglunni. Þau voru svikin jafnmikið og ég og þú. Fer svo heim að elda og mæti síðan í vinnuna vongóður um að nýtt lýðveldi fæðist bráðum.
Er byltingin hafin?
20.1.2009 | 22:45
Líklega. Nú verður ekki aftur snúið. Nú mun ríkisstjórnin loks gefa sig og við munum fá kosningar. Það er nýtt afl að fæðast, breiðfylking sannra íslendinga, þverpólítísk hreyfing sem mun bylta stjórnkerfinu og skapa nýtt lýðveldi. Gefumst ekki upp, rödd okkar mun hljóma um allt land. Ég mun ekki láta mitt eftir liggja. Hvað með þig?
Einhver heima Björgvin?
19.1.2009 | 21:08
Halló! bank bank! Ertu núna fyrst að fatta þetta? (Sjá frétt á vísi.is)
- Vissir þú að meðan þú hefur verið viðskiptaráðherra Íslands þá fóru 3 bankar á hausinn!
- Vissir þú að meðan þú hefur veriðviðskiptaráðherra Íslands þá settu bretar á okkur hryðjuverkalög!
- Vissir þú að á meðan þú hefur verið viðskiptaráðherra Íslands þá var Fjármálaeftirlitið gefandi heilbrigðisvottorð út og suður á gjaldþrota banka!
- Vissir þú að á meðan þú hefur verið viðskiptaráðherra Íslands þá settu stjórnendur bankana þriggja landið okkar í gjaldþrot!
- Vissir þú að á meðan þú hefur verið viðskiptaráðherra Íslands þá gerðu 30 einstaklingar sem þú hélst pínu upp á, orðspor okkar erlendis að engu!
- Vissir þú að á meðan þú hefur verið viðskiptaráðherra Íslands þá hnepptu þessir 30 vinir þínir okkur, börn okkar, barnabörn og barnabarnabörn okkur í fjárhagslegt fanglelsi um langa framtíð!
- Vissir þú að á meðan þú hefur verið viðskiptaráðherra Íslands þá blekktu vinir þínir í bönkunum almenning, sjúkrahús, líknarfélög, sveitarfélög ofl. í Bretlandi, Hollandi, Belgíu, Þýskalandi, Svíþjóð, Finnlandi og Guð má vita hvar annar staðar til að varðveita sparifé sitt sem síðan hefur ekkert til spurst!
- Vissir þú að á meðan þú hefur verið viðskiptaráðherra þá sendu erlendir hagfræðingar og sérfræðingar ýmsir velviljuð varnaðarorð til þín og félaga þinna í ríkisstjórn og báðu ykkur að staldra við og hugsa málin en þið kusuð að sýna þeim löngutöng! Lögðuð jafnvel til að þeir færu í endurmenntun!
Æi, fyrirgefðu en ég vildi bara segja þér frá þessu ef þú hefðir ekki frétt af þessu. Vildi líka minna þig og félaga þína á að með drengskaparheitinu sem þið sverjið víst á Alþingi þá eigið þið að fylgja samvisku ykkar og setja hagsmuni þjóðarinnar ofar öðrum hagsmunum. Þú manst eftir þessu næst er það ekki?
kv, ari
Tjallinn og pælingar hans
18.1.2009 | 23:45
Þetta er búinn að vera fróðlegur dagur meðan ég reyndi að vinna upp þessa síðustu viku sem ég var í UK og náði lítið sem ekkert að fylgjast með. Hef ekki náð ennþá að lesa blogg allra sem ég les á hverjum degi en náði með hléum að hlusta á borgararfundinn á ruv.is sem haldin var í síðustu viku. Horfði svo á Silfur Egils í dag sem var afar fróðlegt svo vægt sé til orða tekið. Eftir að hafa hlustað á bresku fræðimennina bæði í Silfrinu og á borgarafundinum og borið það saman við ummæli hins "venjulega" breta þá er þar merkilegur samhljómur. Þeir bretar sem ég átti samræður við um hrunið voru allir á einu máli, hrunið er ekki íslensku þjóðinni að kenna, heldur voru það þeir sem stýrðu bönkunum og aðilar þeim tengdum þ.e. útrásartröllin. Engin vafi í þeirra huga.
Þegar ég innti þá eftir því hvað þeim findist um íslensk stjórnvöld og þeirra þátt þá sögðu þeir að ég skyldi aldrei láta detta mér í hug að íslensk stjórnvöld hefðu ekki vitað af yfirvofandi hruni, það væri beinlínis í þeirra verkahring að vita slíka hluti og gera sínar ráðstafanir til að slíkt gerðist ekki! Auðvitað vissu stjórnvöld og stjórnmálamenn hvað hefði verið í gangi og hefði vitað það í langan tíma, annað væri óeðlilegt og gengi ekki upp. Stjórnvöld og stjórnmálamenn gerðu bara ekkert í málinu og þar lægi sekt þeirra. Það sem kom þeim einna mest á óvart eftir þessar hamfarir og svik við þjóðina er að engin víkur sæti, engin í gæsluvarðhaldi, engin axlað ábyrgð, sama fólkið og kom okkur í þessa stöðu er enn við völd og ætlar hvað sem það kostar að sitja áfram. Þeim er það óskiljanlegt að við skulum ekki nú þegar tekið völdin! Þegar ég reyndi að útskýra að við gætum ekki komið lögum og reglum yfir bankamennina og hin seku stjórnvöld urðu þeir orðlausir. "Er allt stjórnkerfið þetta spillt og allir stjórnmálamennirnir þetta mikið spilltir?" var spurning þeirra. Svo virðist vera svaraði ég og þeirra svar var: "God help us." "You need some help." Bættu þeir svo við. Ég gat ekki annað en kinkað kolli og samsinnt. Eftir það var þögn og þeir hristu hausinn. Góður vinur minn einn sem býr í Southapmton og giftur er íslenskri konu sagði svolítið merkilegt: "Ari, you know, you and your people life literally on the egde of the word, the enviroment is very inhabitable and hostile up there in the north far far away from other parts of the word, it takes so little for things to go wrong in a enviroment like this." Þessi orð hans fengu mig til að hugsa aðeins um stöðu okkar hér á þessu landi. Við erum aðeins rúm 300 þúsund í stóru landi, sjálfstæð þjóð með eigin gjaldmiðil, eigin ríkisstjórn, þing, utanríkisþjónustu, landhelgisgæslu, lögreglu, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, vegakerfi, veðurstofu, flugvelli, þorp, bæi og eina borg. Við erum jafnmörg við íslendingar og íbúar Southamton og nágrenni. Gæti Southamptonborg haldið úti sínum sjálfstæða gjaldmiðli velti ég fyrir mér? Ég tek það fram að þessi vinur minn hefur oft komið til landsins, elskar það eins og sitt eigið, finnst náttúran guðdómleg og fílar þjóðina í botn. Hann ásamt hinum bretunum sem ég ræddi við bera mikla virðingu fyrir íslendingum, þeir skilja hins vegar ekki íslensk stjórnmál. En gerum við það, maður spyr sig?
Annars er ástandið einnig slæmt í Bretlandi, 2 milljónir manna eru án atvinnu og þeir búast við að um 600 þúsund til viðbótar missi atvinnuna á þessu ári til viðbótar. Á hverjum degi las maður um uppsagir í blöðunum úti og um gjaldþrot stórra innlendra fyrirtækja. Stjórnvöld þar dæla peningum inn í hagkerfið, bæði í banka og ótöldum upphæðum beint til fyrirtækja. Peningarnir sem fara í bankana eru víst háðir þeim skilyrðum að bankarnir taki að lána til fyrirtækja og heimila, eitthvað virðist það standa í stjórnendum banka þar í landi og þeir tregðast við að gera það. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér gáfnafari bankastjórnenda þegar þeir þráast við slíkt, fáandi himinháár fjárhæðir frá skattgreiðendum eyrnamerktum til slíkra nota. Líta bankastjórnendur á annara manna peninga sem sína eigin eða eru einhverjar annarlegar hvatir og skrítnir hagsmunir að baki? Maður spyr sig?
Annars held ég að bretar verði fljótir að ná sér á strik, maður getur ekki haldið annað þegar maður lítur í kring um sig í jafnstóru hagkerfi þ.e. þegar maður sér allt lífið og umsvifin á iði allan sólarhringinn alls staðar í kring um sig. Þá sér maður að þetta getur ekki stoppað, eða hvað? Það er rétt yfir blánóttina sem aðeins hægist á, færri lestar, umferðin minnkar, færra fólk á götunum en svo strax upp úr kl 04.00 fer allt á fulla ferð aftur. Ljósin kvikna, fleiri lestar fara af stað, umferðin eykst, fólki fjölgar á götum og lestarstöðvum og lífið heldur áfram. Fólk heldur áfram að þurfa mat og nauðsynjavörur, þjónustu, föt, ný hús rísa og þeim eldri þarf að halda við. Tímabundið hikst í samfélaginu og ákveðin endurnýjun mun eiga sér stað í gervöllu hagkerfinu. Bresku fræðimennirnir sem komu fram í Silfrinu og á borgarafundinum sögðu þó að annar skellur kæmi í mars/apríl nema stjórnvöldum ytra tækist að bjarga málum fyrir þann tíma. Ég hef þó trú á að breskt efnahagslíf verði fljótt að rétta út kútnum, nýtt fólk og ný fyrirtæki taka við af þeim sem fara á hausinn.
Ég reyndi að lesa eins mikið og ég komst yfir af blöðum og greinum og ég gat en það var ekki mikið. Einn tónn var þó í þeim blöðum og greinum sem ég las sem ég verð að minnast á og það er framleiðslan. Undanfarin ár og áratugi jafnvel hefur hin hefðbundna innlendna framleiðsla á öllu mögulegu og ómögulegu færst frá vesturlöndum til jafnfjarlægra landa og kína og annara landa í asíu. Sumar þessara greina gáfu sterklega í skyn að á næstu árum myndi þessi þróun snúast við þ.e. að vesturlönd færu að framleiða meira til eigin nota og flytja framleiðslu margra hluta aftur heim ef svo má segja. Skapast það af vaxandi þörf hagkerfa fyrir sjálfbærni þ.e. að hagkerfin gætu séð fyrir sér sjálf ef á þyrfti að halda.Hugsanlega er hér alþjóðavæðingin (globalisation) margfræga að snúast upp í andhverfu sína og verður að heimavæðingu (localisation). Maður spyr sig. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessari þróun og ekki laust við að margar pælingar fari af stað í kollinum á mér við þessi skrif en það verður að bíða betri tíma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Leiðangri lokið og markmiðum náð
17.1.2009 | 21:51
Jæja, þá er erum við Anna loksins komin heim. Svona ykkur að segja þá fórum við til Englands og ekki af góðu tilefni. Stjúpfaðir minn, (Hafsteinn) og móðir mín (Inga Lóa) voru í heimsókn hjá Rögnu Lóu systir og Hermanni manni hennar yfir jólin. Á brottfarardegi þá hrasar Hafsteinn og dettur aftur fyrir sig og skellur á hnakkann. Við skellinn þá höfuðkúpubrotnaði hann og það blæddi inn á heilann. Auk þess fékk hann lunganbólgu í kjölfarið og einhverja spítalasýkingu líka. Um tíma var hann í talsverðri hættu, haldið sofandi í nokkra daga á sjúkrahúsi í Southampton en Ragna Lóa og Hermann búa í Pool sem er þarna nálægt. Loks rankaði hann við sér en var afar illa áttaður. Ragna Lóa og Hermann voru meira og minna á sjúkrahúsinu í 2 vikur og þau eru hinar raunverulegu hetjur fyrir utan Hafstein sjálfan auðvitað. Eins og gefur að skilja þá fylgir því mikil fyrirhöfn og vesen að veikjast eða slasast illa erlendis fyrir hvern sem er og hvaðan sem hann er. Alls kyns pappírsvesen, samskipti milli landa bæði við lækna hér heima sem og tryggingafélög og loks SOS í Danmörku sem sér um og greiðir ýmsan kostnað hafi menn tryggt sig hér heima. Allt þetta sáu Ragna Lóa og Hermann um meðan Hafsteinn var meðvitundarlaus og alveg þar til við fórum með hann heim núna á föstudaginn en þá hafði hann náð nægum bata til að þola flugferð. Þegar þau voru búin að vera vakin og sofin yfir Hafsteini í 2 vikur báðu þau og móðir mín okkur um að koma og leysa þau af enda hafa þau sjálf í nógu að snúast sjálf með 2 litlar telpur á heimilinu og Hermann með sinn feril hjá Portsmouth. Að sjálfsögðu fórum við eins og þegar er komið fram þó fyrirvarinn væri lítill en þannig mál leysa menn. Jæja, en eftir að Hafsteinn náði áttum síðasta sunnudag þá náði hann það nægum bata að hann gat komið með okkur heim í gær, föstudaginn 16 janúar. Er komin á LSH í Fossvogi og verður þar einhvern tíma í endurhæfingu. Við sem sagt settum okkur það markmið þegar við fórum að koma með hann heim næstu helgi og það tókst.
Það var ekkert mál að vera íslendingur í Southampton og nágrenni fyrir utan auðvitað að þora ekki að keyra enda allt á vitlausum vegarhelmingi og ég hefði eflaust valdið stórslysi hefði ég dirfst að aka í Englandi. Fáir töluðu um Icesave og allt bankabullið. Þeir sem það gerðu höfðu á því fullan skilning þ.e. þeir vissu að þjóðin hafði ekkert með það að gera heldur örfáir menn og algjörlega vanhæf stjórnvöld. Hvað þeir sögðu við mig, hinn almenni borgari í Bretlandi kem ég að síðar. Sjúkrahúsið í Southampton þjónar stóru svæði og nokkur hundruð þúsund manns. Þarna var mikill erill og auðvitað haugur af fólki af öllum stærðum, gerðum og þjóðernum. Starfsfólkið var indælt og boðið og búið að aðstoða hvenær sem var og kunni sitt fag upp á 10. Sjúkrahúsið í Southampton er eins konar samfélag út af fyrir sig, í aðalandyri eru staðsettar verslanir og veitingahús og kaffihús af ýmsu tagi. Þarna er til að mynda fataverlsun, ein verslun með bækur, ritföng, sælgæti kalda drykki ofl. Önnur verslun með mjólkurvörur, snakk, minjagripi, venjuelgar sjoppuvörur ofl. Skartgripaverlun svo undarlegt sem það er. Burger King með veitingastað, tvö kaffihús með tilheyrandi og loks stórt mötuneyti með marga heimilisrétti í hvert mál og allt opið langt fram á kvöld. Við vorum á sérstakri höfuðáverka- og heilaskaðadeild sem er ein af fimm bestu í Evrópu. Þarna voru margir afar veikir einstaklingar tengdir alls kyns tækjum og tólum og starfsfólkið nánast alltaf á fullu. Þarna giltu strangar hreinlætisreglur, spritt- og sótthreinsigræjur um alla veggi og við öll rúm. Maður þurfti að sótthreinsa sig áður en maður fékk leyfi til að koma inn á deildina, aftur áður en hurðin var opnuð eða við sótt fram. Áður en maður snerti sjúkling og á eftir auk þess að vera með svuntu og hanska. Út um allt á öllum veggjum hengju áróðursspjöld um mikilvægi hreinna handa til að koma í veg fyrir sóttsmit enda gaf það auga leið að jafn veikir einstaklingar og þarna voru eru veikir fyrir og þola lítið. Þetta var mikil lífsreynsla og kenndi mér mikið. Háklassa heilbrigðisþjónusta eins og við höfum notið fram að þessu er ekki sjálfsögð. Þess vegna verðum við að standa vörð um hana með öllum ráðum. Þess vegna er ömurlegt að vita til þess að verið sé að skera niður í heilbrigðisþjónustunni um rúmlega 7 milljarða á þessu ári og bitnar það mest á landsbyggðinni skilji ég hlutina rétt. Þetta er svipuð upphæð og BÁ fékk fyrir hlutabréfin í sín í Glitni þegar hann sá í hvað stefndi, sagði upp, seldi bréfin á yfirverði og flúði land. Það þótti á þeim tíma létt verk og löðurmannlegt. Jæja, nóg að sinni, set meira inn á morgun um ferðina og þá upplifun mína á efnahagsástandinu í UK og hvað hinum almenna breta fannst um íslensku þjóðina.
Smá blogghlé
9.1.2009 | 17:58
Það stefnir í að ég þurfi að taka smá hlé á blogginu. Það kom svo lítið upp á í stórfjölskyldunni og ég þarf að fara til lands engils og saxa þ.e Englands og vera þar í einhverja daga. Veit ekki hve lengi. Tek tölvuna með mér en get engu lofað um skrif eða neitt svoleiðis. Kvíði því dáldið, dett kannski úr allri umræðu og get kannski ekki fylgst með. Síðustu 2 dagar hafa farið í þetta fjölskyldumál og ég hef lítið sem ekkert fylgst með. Hvað um það, ek suður aðfararnótt 10 jan og flýg svo kl 08.30 un morgunin. Það er samt ekki laust við að ég kvíði svolítið móttökum breta verandi íslendingur og þ.a.l. með icesave og Kaupþing-Egde stimpil á enninu. :-( Bless á meðan.
Hver á Ísland?
6.1.2009 | 23:42
Í kvöldfréttum stöðvar 2 var sagt frá einum fjármálagerningi Glitnis sem sem fólst í því að búa til svo kallaðan skulabréfavafning með veði í kvóta nokkurra íslenska útgerða. Allt í þeim tilgangi að ná sér í erlendan gjaldeyri. Vafningur þessi var seldur erlendum bönkum. Mér flug í hug að flestar skuldir Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja, Norðurorku og fleiri stórra fyrirtækja eru í erlendri mynt þ.e. skuldir þeirra eru erlendis og væntanlega með veði í orkunni okkar og vatni. Bankarnir fjármögnuðu sín húsnæðislán með lánum erlendis. Stærstur hluti annarar lánastarfsemi er sömuleiðis fjármagnaður með erlendu fé.
Horfandi á þessa mynd kemst ég ekki að annari niðurstöðu en að ísland er komið að stærstum hluta í eigu erlendra banka. Hafandi einnig í huga að orkufyrirtækin hafa átt erfitt með að fjármagna sig með erlendu lánsfé eftir hrunið hljóta erlendir bankar komist að þeirri niðurstöðu að landið sé yfirveðsett og varla á vetur setjandi. Við sem sagt eigum ekki neitt lengur nema á pappír og sá pappír er einskis virði.
Landráðamönnunum tókst að koma landinu undir erlend yfirráð, það á bara eftir að segja okkur það. Við erum búin að missa okkar efnahagslega sjálfstæði og það þýðir einfaldlega að sjálfstæði okkar er ekkert. Nú sitjum við og stöndum eins og AGS, Bretar, Hollendinar og fleiri þjóðir vilja og er Icesave málið skýrasta dæmið þar um. Þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar Geirs H. Haarde er öll vörn í því máli talin vonlaus og þjóðin látin gjalda fyrir glæpi örfárra einstaklinga. Okkur er leyft að þræta og þrasa hér innanlands og ríkisstjórninni leyfist enn að setja á svið það sem þeir kalla "samningaviðræður" við erlenda aðila. Samt verður niðurstaðan ávallt sú að þjóðin borgar og það big time! Góðar stundir.Glæpamenn verða lærifeður
6.1.2009 | 18:05
Samkvæmt frétt á www.vb.is er Háskólinn í Reykjavík búinn að ráða Sigurjón Þ. Árnason í stundakennslu. Sjá hér. Hann á víst að kenna byrjunarnámskeið í fjármálaverkfræði. Ætli það sé einhver örvænting að grípa um sig í HR að ráða menn af þessu kaliberi? Fá þeir ekki heiðarlegra fólk? Eða á að kenna ungum íslendingum að flytja út þekkingu á fjármálalegu leifturstríði svo þeir geti aflað sér lífviðurværis með þeim hætti líkt og Sigurjón? Ég trúi ekki öðru en nemendur HR gangi út þegar hann mætir til kennslu.
Héðan og þaðan en aðallega þaðan
6.1.2009 | 11:14
Bjarni Ármannsson hefur skilað til baka 370 milljónum sem voru hluti af starfslokasamningi hans við gamla Glitni. Það er virðingavert. Honum bar engin skylda til þess en gott væri að fá það staðfest hjá nýja Glitni. Hann sýndi einnig smá iðrun í Kastljósi í gærkveldi. Viðurkenndi mistök, það er þroskamerki. Þessa endurgreiðslu hans má líta á sem sektargreiðslu fyrir þátt hans í landráðunum. Hún hefði átt að renna til ríkisins og þá hefði verið hægt að leggja af komugjöld á sjúkrahús. Bjarni er sá fyrsti af útrásartröllunum sem viðurkennir sök og þátttöku sína í röð mistaka sem leiddu til landráða. Þar með er komin sektarviðurkenning allra tröllana enda var Bjarni nátengdur þeim öllum og plottaði mörg plottin með þeim á 10 árum. Hin tröllin eru enn að, JÁJ plataði allt það besta í fjölmiðlarekstri 365 úr Landsbankanum yfir í enn eitt eignarhaldsfélagið. Félagi hans Pálmi í Fons, Sterling, Stím og allt það, var að kaupa Ferðskrifstofu Íslands og líklega með áþekkum brögðum og áður. Bráðlega munum við sjá yfirfærslu ferðaskrifstofunnar yfir í nýstofnað eignarhaldsfélag frá "Stupid Islands" í suðurhöfum. Við sjáum svo um skuldirnar. Business as usual!
Talandi um komugjöld á sjúkrahús. Í fjárlögunum er víst klásúla um framlög okkar til stjórnmálaflokkana en hún kveður á um það að framlög milli ára til þeirra hækka, mitt í öllum niðurskurðinum. Hækkunin nemur víst einhverjum tuga milljóna, úr 320 milljónum minnir mig í 371 milljónir. Á sama tíma leggja sömu flokkar á aukin gjöld á fólk sem þarf einhverra hluta vegna að leggjast inn á sjúkrahús og ætla að afla þannig tekna upp á rúmar 300 milljónir. Væri einhver dugur og drenglyndi í þessu fólki myndi það afþakka öll framlög til stjórnmálaflokkana meðan þessi óáran gengur yfir.
Árni Johnsen hefur tilkynnt að afskrifa þurfi stóran hluta skulda útgerðarinnar enda sé gengið ósanngjarnt og ekki rétt að útgerðin blæði fyrir óstjórn flokks hans síðustu 17-18 árin eða svo. Ég er sammála Árna, það er ekki sanngjarnt að útgerðin blæði fyrir óstjórn Sjálfstæðisflokksins og fylgiflokka hans. Útgerðin var auk þess véluð af bönkunum til að taka erlend lán í massavís til að versla hlutabréf í fyrirtækjum sem aftur voru véluð til að kaupa enn fleiri hlutabréf í enn fleiri fjármálagerningum. Tiil að kóróna allt saman var útgerðin göbbuð til að gera framvirka samninga alls kyns sem gera átti útgerðina ríka en úbbs ææ vondir kallar í útlöndum réðust á krónuna og skemmdu allt saman. Æi, eftir hverju erum við að bíða? Þeir eiga nú kvótan og ekki mega þeir missa hann. Eða er kannski Magnús Kristinsson að missa þyrluna sína? Þegar Árni hefur lokið þessari vinnu á ég von á að hann láti það sama ganga yfir okkur hin sem vorum líka plötuð.
Annars eru spennandi og skemmtilegir tímar fram undan hjá Sjálfstæðisflokkunum eins og kona ein ágæt sagði fyrir ekki svo ýkja löngu.