Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Skammist ykkar þið þrír!

Upp á síðkastið hefur verið að koma í ljós að sjálfstæðisflokkur, framsóknarflokkur og samfylking hafa þegið mikla og góða styrki frá ýmsum fyrirtækjum sem tengjast útrásartröllunum og hinum föllnu bönkum. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við að flokkar sækist eftir styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Meðan styrkir eru innan hóflegra marka t.a.m. 100-300 þúsund krónur er lítið við þá að athuga. En þegar styrkirnir fara að hlaupa á milljónum og tugum milljóna frá einstökum aðilum þá eru þeir orðnir vafasamir. Upphæðir og tímasetning þessara styrkja rétt fyrir gildistöku nýrra laga um styrkveitingar til stjórnmálaflokka bendir til að hér hafi verið um hreinar mútur að ræða ekki síst í ljósi þeirra atburða sem hér hafa orðið síðan þá. Tilburðir forystusauða flokkana frá þeim tíma og viðhlægjenda þeirra við að sverja af sér vitneskju um múturnar eru hlægilegar í besta falli. Auðvitað hafa þeir vitað um þá, það er beinlínis hlutverk þeirra að vita þessa hluti, annars ættu þeir ekki að reka stjórnmálaflokka.

Þá kem ég að aðalskömmunum sem ég beini til forystu þessara flokka og undanskil hinn almenna flokksmann sem var blekktur jafnmikið og við hin. Þið, sjálfstæðisflokkur, framsóknarflokkur og samfylking eigið að skammast ykkar og biðja þjóðina afsökunar! Þið gáfuð tóninn og innleidduð það siðleysi, þá græðgi, það óréttlæti, þá sérhagsmunagæslu og þá einkavinavæðingu sem gerði land ykkar og þjóð gjaldþrota og mun ef þið fáðið áfram að ráða, valda miklum hörmungum fyrir land ykkar og þjóð. Skammist ykkar! Gjörðir ykkar og aðgerðaleysi leiddi yfir land ykkar og þjóð skömm og niðurlægingu. Það var ykkar hlutverk að standa vörð um heiður og orðspor lands ykkar og þjóðar. Til þess voruð þið kosin og greidd góð laun. Þið hafið sýnt það og sannað að þið eruð ekki til þess hæf að leiða land ykkar og þjóð. Þegar þið eruð búin að endurnýja alla ykkar forystu, allt ykkar þinglið, endurskoða stefnumál ykkar, gera upp fortíðina og biðja þjóðina afsökunar þá getum við farið að tala saman aftur - ekki fyrr! 

Fram að þeim tíma tekur borgarahreyfingin við ásamt öðru góðu fólki og tekur til eftir klúður ykkar þriggja. Guð blessi Ísland og Íslenska þjóð. 


Endurmenntun fyrir siðvillta

Síðustu daga hafa komið fram furðufréttir um styrki til stjórnmálaflokka og viðtöku styrkjanna af þeirra hálfu. Á annað hundrað milljóna voru veitt af útrásarfyrirtækjunum til 3ja stjórnmálaflokka árið 2006. Í þessum efnum bar sjálfstæðisflokkurinn af sem öðrum og olli ekki vonbrigðum. Samfylking og framsókn voru heldur hógværari en tóku engu að síður við tugum milljóna af sömu fyrirtækjum. Ljóst má vera af upphæðum þessara styrkja að með þeim voru fyrirtækin og stjórnendur þeirra að kaupa sér velvild flokkana og stuðning við látlausa einkavinavæðingu innviða samfélagsins, yfirráð yfir auðlindum þjóðarinnar og völd í samfélaginu. Vitandi þetta er ekkert undarlegt að íslenskt samfélag er komið að fótum fram og af hverju síðustu ríkisstjórninr voru gersamlega vanhæfar.  Af því  tilefni hef ég ákveðið að  bjóða  fólki í sjálfstæðisflokknum, framsóknarflokknum og samfylkingu  upp á námskeið og endurmenntun í vor og sumar í eftirtöldum greinum:

Samfélag manna: Litið verður yfir þróun samfélagsgerðar Homo Sapiens: frá einföldu hellalífi yfir í flóknari þjóðríki með margbrotnumog viðkvæmum innviðum. Sérstök áhersla verður lögð á undirtegunina Homo Islandius sem þróast hefur á sérstakan hátt í 1.100 ár á fjarlægri eyju norður í höfum. Undirtegund þessi hefur þróað með sér sérstakan hæfileika og og þrá til sjálfseyðingar sem brýst fram að loknum kosningum og lýsir sér vel í einbeittum vilja stjórnmálaflokka tegundarinnar til einkavæðingar innviða samfélagins, einkavæðingu auðlinda þess, þjónkun við svo kallaða auðmenn, fyrirlitningu á svokölluðum almenningi og einstakri ást á hugtakinu „græðgi“ en það hugtak er af ýmsum þjóðum talið löstur en hefur þróast í dyggð í starfi ofangreindra stjórnmálaflokka.

Einstaklingurinn og samfélagið: Farið verður yfir tengsl einstaklingsins við samfélagið sem leggur honum til: húsaskjól, menntun, heilbrigðisþjónustu, öryggi og vernd, félagslegt öryggisnet, samskipti við aðra einstaklinga, neyðarþjónustu, fjármálaþjónustu, samgöngukerfi og afþreyingu hvers konar. Pælt verður sérstaklega í þeim einstaklingum sem leitast við að rífa niður samfélagið með lævísum blekkingum um kosti algers frelsins án ábyrgðar og kosti þess að sem fæstir eigi sem mest og flestir eigi sem minnst.

Fyrirtækið og samfélagið: Í þessu námskeiði verða tengs fyrirtækisins og samfélagsins skoðuð. Farið verður í hvernig hagsmunir hvoru tveggju liggja saman, hvar þeir skarast og hvernig leyst er úr ágreiningi. Sérstök áhersla verður lögð á að kynna mikivægi hvors um sig fyrir hvoru tveggju e.k. platónskt samband fyrirbærana samfélag og fyrirtæki.

Samfélagsleg ábyrgð einstaklinga, stofnana og fyrirtækja: Skoðaðar verða ýmsar kenningar um ábyrgð einstaklinga, stofnana og fyrirtækja gagnvart því samfélagi sem skapar þessum fyrirbærum aðstöðu til að lifa og hrærast í. Litið verður sérstaklega á þá aðila sem hafa enga ábyrgð sýnt og staðið á sama um samfélagið og þá sem það byggja og hvaða afleiðingar ábyrgðarleysið hefur leitt af sér. Einnig verða skoðuð dæmi um hið gagnstæða og hvað slíkt hefur gert fyrir samfélagið, fyrirbærið sjálft og vöxt og viðgang hvoru tveggju.

Stjórnmálaflokkar og samfélagið: Farið verður gaumgæfilega í tilurð, tilgang, tilvist, hlutverk og tengsl svokallaðra stjórnmálaflokka við samfélagið og hvernig þeir eiga að þjóna samfélaginu.

Mannlegir eiginleikar: Fjallað verður ítarlega um það sem meðal erlendra þjóða kallast mannlegir eiginleikar og þættir í lífi og starfi. Löngu gleymd hugtök t.d. réttlæti,jafnrétti, frelsi með ábyrgð, sanngirni, sannleikur og samvinna verða kynnt ítarlega og þátttakendur þjálfaðir markvisst í iðkun þeirra í þeirri von að undirtegundin Homo Islandicus deyji ekki út. Mannlegir eiginleikar  eins og að sýna  virðingu, samhyggð, samúð, samkennd, tilfinningar, auðmýkt og visku verða útskýrðir ítarlega og reynt að endurvekja þessa mikilvægu hæfileika þ.e.a.s. þeirra sem á námskeiðið koma.

Þó þessi námskeið séu sérhönnuð fyrir fólk á framabraut í stjórnmálum þá henta þau einnig föllnum englum úr stjórnmálum er huga á meiri háttar „come back.“ Einnig býð ég velkomna svokallaða útrásarvíkinga, fyrrum háttsetta stjórnendur úr bönkum og útrásarfyrirtækja, helstu eigendur þeirra og leppa sem létu gabbast af glópagulli loftbólunnar. Þeir verða þó að sætta sig við venjulegan matarkost og aðbúnað alþýðunnar meðan á námskeiði stendur svo og einangrun enda ekki óhætt sem stendur að láta þá ganga lausa meðal almennings að svo stöddu. Áhugasamir hafi samband við bloggara á netfangið: arikuld@simnet.is J

Munum svo þann 25 apríl: X-O


Stríðið gegn íslandi

Michael Hudson, bandarísku sérfræðingur í alþjóðafjármálum ritar grein í fréttablaðið í dag. Við lestur greinarinnar setur mann algjörlega hljóðan. Nánast í losti. Í þessari grein reynir hann að segja okkur íslendingum að við höfum orðið fórnarlamb fjármálalegrar hryðjuverkárásar af höndum útlendinga sem studdir voru af íslensku bankamönnum! Ég ætla ekki að fara nánar í greinina en hvet alla til að lesa greinina. Michail þessi verður í silfri Egils á morgun ásamt öðrum bandarískum manni sem hefur kallað sig "economic hitman" eins konar efnahagslegur leigumorðingi en það er hlutverk einhvers einstaklings sem fer í herferð gegn einhverju landi á vegum alþjóðlegra samtaka eða banka eða einhverrar skítastofnunar til að koma efnahag þess lands í kalda kol. Báðir þessir menn eru þekktir um heim allan nema hvað ég hef ekki kynnt mér þá eða heimasíður þeirra og skrif sem eru víst aðgengilegar á netinu. Á eyjan.is hefur Egill Helgason oft sagt frá þeim, ég hef bara fram að þessu lagt mátulegan trúnað á samsæriskenningar þeirra, hef talið vanda okkar að mestu heimatilbúin.

Sé þetta rétt og íslenskir bankamenn samstarfsaðilar einhverra erlendra kúkalabba sem hafa markvisst komið okkur á hausinn þá er ekki eftir neinu að bíða með handtökur og húsleitir. Mér finnst þetta svakalegar fullyrðingar og eitthvað hljóta menn að hafa í höndunum til sönnunar, einhver gögn eða upplýsingar sem leiða menn á sporið. Grein Hudsons vekur enn fleiri spurningar í huga manns og eru þær þó ótal fyrir. Nóg að sinni, bíð spenntur eftir Silfri Egils.


Land fáránleikans

Það er ekki lognmollunni fyrir að fara í íslensku þjóðlífi. Reyndar blása vindar af þvílíkum krafti hvort sem litið er til náttúrunnar eða samfélagsins að það hálfa væri hellingur. Það væri að æra óstöðugan að tíunda það allt saman í þessari færslu og því ætla ég aðeins að nefna fátt. En fyrst langar mig að velta aðeins fyrir mér hug fólksins í landinu eins og ég hef upplifað hann síðustu daga.

Ég tók þá undarlegu og ekki undarlegu ákvörðun fyrir um 3-4 vikum að hella mér útí grasrótarstarf Borgarahreyfingarinnar á Akureyri og verð m.a.s. á lista hjá hreyfingunni á norðausturlandi. Ástæðan er sú að ég hef misst allt traust á þeim flokkum sem nú ráða Alþingi. Ég þarf ekki að útskýra af hverju, það má öllum sem lesið hafa blogg mitt vera ljóst. Lengi vel hafði ég þó traust og trú á VG eftir hrunið en eftir að vonin hvarf um björgun almennings þá hvarf það traust og von líka. Ég virði það þó og hef ekki skammast mikið út í núverandi stjórn enda tíminn naumur fram að kosningum og verkefnin ærin. En mér virðist sem VG og SF hafi lagt meiri rækt við fjármálafyrirtækin sbr. björgun Saga Capital og VBS en íslenskan almenning sem enn hefur enga leiðréttingu hlotið á landráðum bankana og eigenda þeirra þ.e. útrásartröllana. Rök Steingríms voru þau að með þessari björgun væru meiri líkur en minni að þau greiddu skuldir sínar. Í vissu tilliti er skynsemi í því en þá myndi maður ætla að það sama myndi gilda um aðra og þar á meðal okkur en svo er víst ekki. Þarna ræður AGS för sem metur fjármálafyrirtæki og endurreisn fjármálakerfisins æðri en allt annað.

En þetta var smá útúrdúr. Í síðustu viku stóðum við nokkur sem gengið hafa til liðs við Borgarahreyfinguna á Glerártorgi og söfnuðum meðmælendum fyrir framboðið en fjórflokkurinn hefur sett ýmsar skrítnar reglur til að hindra framboð nýrra flokka eða hreyfinga. Þar á meðal er sú regla að engin getið boðið fram nema safna meðmælum frá um 300-400 einstaklinga í hverju kjördæmi. Þetta kallar á mikla vinnu og erfiði. Ég í einfeldni minni átti von á eftir búsáhaldabyltinguna að þetta yrði létt verk og löðurmannlegt en svo var aldeilis ekki. Mér fannst eftirtektarvert hve margir voru neikvæðir og greinilega hvekktir á pólítíkinni, viðkvæðið var oft að það væri sama hvað þeir kysu, ekkert myndi breytast. Aðrir hreinlega tóku til fótanna og forðuðu sér. Ég gat ekki að því gert að velta því fyrir mér hvort fólk sæi enga von og stæði á sama? Ég hef einnig velt því fyrir mér hvernig hægt sé að kveikja vonina í huga fólks? Vonin sem fjórflokkarnir munu reyna kveikja í huga fólks eru gömlu lummurnar úr stefnuskrám þeirra með 370 milljóna styrk frá ríkinu sem þeir skömmtuðu sér sjálfir. Hvernig getur blönk hreyfing venjulegra íslendinga komið þeirri von sem þeir hafa sjálfir kveikt í brjósti sér og kviknaði í búsáhaldabyltingunni til bræðra sinnra og systra?

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að "Ganga hreint til verks" og "klára dæmið" eins og ÞKG sagði við Bjarna silfurskeið á landsfundi þeirra og trúarsamkomu um helgina. Ég hélt satt að segja að þeir væru búnir að því nú þegar og væru komnir í gott og verðskuldað frí! Samfylkingin ætlar í brúargerð með Degi B. yfir ófærur sem hún sjálf á drjúgan þátt í að skapa. Samfylkingin ætlar sem sagt að flytja í Borgartúnið í húsnæði vegagerðarinnar. Treystum við drukknu bílstjórunum sem óku fram af hengifluginu og neituðu að nota brýnar? Maður spyr sig?

En svona rétt í lokin fyrir þá sem þetta lesa: veltið aðeins fyrir ykkur hvað það er sem fær venjulegan launaþræl eins og mig til að standa upp, berja í borðið og segja nú er nóg komið og fara jafnvel í framboð fyrir hreyfingu eins og borgarahreyfinguna?

En vonandi fer ég að detta í bloggstuð bráðlega og henda inn fleiri vangaveltum án þess þó að ganga fram af fólki.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband