Héðan og þaðan en aðallega þaðan

Bjarni Ármannsson hefur skilað til baka 370 milljónum sem voru hluti af starfslokasamningi hans við gamla Glitni. Það er virðingavert. Honum bar engin skylda til þess en gott væri að fá það staðfest hjá nýja Glitni. Hann sýndi einnig smá iðrun í Kastljósi í gærkveldi. Viðurkenndi mistök, það er þroskamerki. Þessa endurgreiðslu hans má líta á sem sektargreiðslu fyrir þátt hans í landráðunum. Hún hefði átt að renna til ríkisins og þá hefði verið hægt að leggja af komugjöld á sjúkrahús. Bjarni er sá fyrsti af útrásartröllunum sem viðurkennir sök og þátttöku sína í röð mistaka sem leiddu til landráða. Þar með er komin sektarviðurkenning allra tröllana enda var Bjarni nátengdur þeim öllum og plottaði mörg plottin með þeim á 10 árum. Hin tröllin eru enn að, JÁJ plataði allt það besta í fjölmiðlarekstri 365 úr Landsbankanum yfir í enn eitt eignarhaldsfélagið. Félagi hans Pálmi í Fons, Sterling, Stím og allt það, var að kaupa Ferðskrifstofu Íslands og líklega með áþekkum brögðum og áður. Bráðlega munum við sjá yfirfærslu ferðaskrifstofunnar yfir í nýstofnað eignarhaldsfélag frá "Stupid Islands" í suðurhöfum. Við sjáum svo um skuldirnar. Business as usual!

Talandi um komugjöld á sjúkrahús. Í fjárlögunum er víst klásúla um framlög okkar til stjórnmálaflokkana en hún kveður á um það að framlög milli ára til þeirra hækka, mitt í öllum niðurskurðinum. Hækkunin nemur víst einhverjum tuga milljóna, úr 320 milljónum minnir mig í 371 milljónir. Á sama tíma leggja sömu flokkar á aukin gjöld á fólk sem þarf einhverra hluta vegna að leggjast inn á sjúkrahús og ætla að afla þannig tekna upp á rúmar 300 milljónir. Væri einhver dugur og drenglyndi í þessu fólki myndi það afþakka öll framlög til stjórnmálaflokkana meðan þessi óáran gengur yfir.

Árni Johnsen hefur tilkynnt að afskrifa þurfi stóran hluta skulda útgerðarinnar enda sé gengið ósanngjarnt og ekki rétt að útgerðin blæði fyrir óstjórn flokks hans síðustu 17-18 árin eða svo. Ég er sammála Árna, það er ekki sanngjarnt að útgerðin blæði fyrir óstjórn Sjálfstæðisflokksins og fylgiflokka hans. Útgerðin var auk þess véluð af bönkunum til að taka erlend lán í massavís til að versla hlutabréf í fyrirtækjum sem aftur voru véluð til að kaupa enn fleiri hlutabréf í enn fleiri fjármálagerningum. Tiil að kóróna allt saman var útgerðin göbbuð til að gera framvirka samninga alls kyns sem gera átti útgerðina ríka en úbbs ææ vondir kallar í útlöndum réðust á krónuna og skemmdu allt saman. Æi, eftir hverju erum við að bíða? Þeir eiga nú kvótan og ekki mega þeir missa hann. Eða er kannski Magnús Kristinsson að missa þyrluna sína? Þegar Árni hefur lokið þessari vinnu á ég von á að hann láti það sama ganga yfir okkur hin sem vorum líka plötuð.

Annars eru spennandi og skemmtilegir tímar fram undan hjá Sjálfstæðisflokkunum eins og kona ein ágæt sagði fyrir ekki svo ýkja löngu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband