Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Er það svo?

Ég ætla ekki með þessari færslu að tjá mig um icesave eða annað sem gengið hefur á í okkar litla samfélagi að undnaförnu. Ég held að afstaða mín hafi áður komið fram. Auk þess finnst mér umræðan í samfélaginu að undanförnu dáldið í þá veru að sundra okkur frekar en sameina á tímum sem þessum. En samt sem áður þá er ég dulítið uggandi yfir þróun mála að undanförnu en hef samt stillt mig um að rífa kjaft yfir þessu öllu saman því að mér hefu læðst sá grunur að verið sé að hanna atburðarás sem við, almennir íslendingar getum ekkert ráðið við. Hvað annað getur útskýrt asan við að fá þingið til að samþykkja icesave og við umsókn okkar í ESB?

Eins og allir vita þá eru icesave skuldbindinarnar sem verið er að leggja á þjóðina ógnvænlegar. Þær koma til viðbótar við aðrar skuldbindingar sem við neyðumst til að taka á okkur vegna bankahrunsins. Mikið er rætt um svokallað eignasafn landsbankans gamla sem dekka á allt að 95% icesave skellsins. Miðað við fyrri framistöðu stjórnenda og eigenda landsbankas þá er vafasamt að treysta mikið á meint eignasafn. Þetta vita bretar, hollendingar og aðrar þjóðir ESB. Þeir vita einnig að ísland mun eiga afar erfitt með að standa við þær byrgðar sem verið er að leggja á þjóðina að öllu óbreyttu. Ég held að íslensk stjórnvöld viti þetta líka.

Því þykir mér forvitnilegt að velta fyrir mér hvernig þessi ríki og ESB ásamt íslenskum stjórnvöldum hafi hugsað sér að við greiddum þessi ósköp. Við höfum hér á landi gjaldmiðil sem í daglegu tali kallast króna. Með henni greiðum við allan þann kostnað sem til fellur af tilveru okkar hér innan lands. Þessa krónu getum við því miður ekki nýtt til að greiða erlend lán eða annan kostnað sem hlýst af viðskiptum hvers konar við aðrar þjóðir.

Til að afla gjaldeyris höfum við íslendinga flutt út fisk, ál, ýmsan iðnvarning og ekki síst seld ferðmönnum þjónustu og varning. Þegar við höfum svo greitt fyrir innfluttar vörur og þjónustu með þessum sama gjaldeyri höfum við notað afgangin til greiðslu erlendra lána og skuldbindinga. Eins og staðan er í dag og verður næstu árin mun engin óbrjálaður aðili kaupa íslenskar krónur nema til greiðslu innlends kostnaðar. Útflutningur okkar mun minnka eitthvað á næstu misserum eða jafnvel árum sökum samdráttar erlendis. Því minnka gjaldeyristekjur landsins um leið sem og umræddur afgangur líka þrátt fyrir minni innflutning því innfluttar vörur stórhækka í verði með falli krónunnar.

Margir hafa fært fyrir því sannfærandi rök að með þessum afgangi þó mikill verði getum við ekki greitt þær ógnarbyrgðar sem á okkur eru lagðar ekki síst vegna þess að árið 2011 koma til gjalddaga einir 200 milljarðar sem við þurfum að greiða vega lána sem tekin voru árin 2006 og 2008 til að efla gjaldeyrisvarasjóð okkar. Þá eru ótalin þau erlendu lán sem fyrirtæki og sveitarfélög þurfa af standa skil á.

Þetta vita bretar, hollendingar og ESB fullvel. Þetta eru ekki vanvitar sem þar stjórna þó oft megi það virðast svo. Þetta fólk lifir og hrærist innan í þeim alþjóðlega potti sem Evrópa er. Það sér heildarmyndina oft betur en við eyjarskeggjar í langtíburtuistan sem ísland óneitanlega er. Ég held að þetta fólk geri sér alveg grein fyrir fámenni okkar og gjaldþoli þó auðvelt sé að ímynda sér annað. Ég hef það á tilfinningunni að þetta fólk hafi gert íslensku stjórnvöldum grein fyrir þessu. Því grunar mig sterklega að bretar, hollendingar og ESB hafi ásamt íslensku stjórnvöldum ákveðið að ísland verið tekið inn í ESB innan árs, jafnvel um næstu áramót og að krónunni verði skipt út fyrir evru fyrir árið 2011 svo landið geti greitt sínar ógnarskuldbindingar sem byrja að falla á þjóðina af fullum þunga það árið. Þetta held ég að verði gert þrátt fyrir öll þau formlegheit sem önnur ríki verða að sæta við inngöngu og upptöku evru að ákveðnu tíma loknum. Neyðarástand þjóðarinnar einfaldlega heimilar ESB að leyfa þessa aðferð við inngöngu íslands og upptöku evru í kjölfarið því þrátt fyrir allt erum við ekki nema rétt rúmlega 300 þúsund sálir og umheimurinn mun skilja aðstæður okkar.

Þetta er held ég eina leiðin til að ísland geti staðið við allt það sem framundan er án þess að fara í formlegt þjóðargjaldþrot því framundan er innlausn allra þeirra jöklabréfa og krónubréfa sem liggja inni í hagkerfinu þegar gjaldeyrishöftin verða afnumin á næstu misserum. Búast má við að allur sá gjaldeyrisvaraforði sem til er eða um um 700 milljarðar þurkist úr þegar þau ósköp gerast. Bendi svo á að þessi varaforði er til styrkingar krónunni okkar og er allur tekin að láni frá AGS og seðlabönkum erlendis og þau lán eiga að greiðast upp á næstu árum.

En þetta eru algjörlega ábyrgðarlausar pælingar af minni hálfu og ég verð ekkert fúll þó einhver reki þær öfugar ofaní mig.

Kveðja að norðan.


Vanhæf ríkisstjórn?

Eftir fréttir dagsins í dag þar sem Jóhanna segir að taka verið ríkisfjármálin "fastari tökum" og að "vandin sé mun meiri en hún átti von á" hef ég orðið talsvert hugsi. Það læðist að mér mikill efi um að ríkisstjórnin muni ráða við vandann, að hann sé miklu mun stærri en hún hefur gert sér grein fyrir. Fyrir hrun afneitaði þáverandi ríkisstjórn vandanum, við þekkjum öll þá sögu. Í hruninu og eftirleik þess var þáverandi ríkisstjórn engu hæfari til að ráða við vandann. Þjóðin varð öskureið og það skiljanlega. Við fengum kosningar og fengum Samfylkingu og Vinstri-grænum meirihluta á þingi.

Á þeim stutta tíma sem liðin er eftir kosningar hefur þjóðin verið í eins konar millibilsástandi og hefur gefið nýrri stjórn tækifæri til að taka á vandanum. Lausn ríkisstjórnarinnar virðist vera sú að færa vandan yfir á herðar almennings sem átti litla sem enga sök á vandanum aðra en þá að treysta stjórnmálamönnum sínum fyrir stjórn landsins og trúa orðum bankana um snilli þeirra.

Undanfarnar vikur hefur ríkisstjórnin boðað mikin niðurskurð á fjárframlögum til velferðamála. Þjóðin hefur sætt sig við þann boðskap vitandi það að einhverjar fórnir þurfi að færa til að greiða fyrir mistök og vanhæfni fyrri stjórnmálamanna. Hversu mikil sú fórn ætti að vera hefur hins vegar verið nokkuð óljóst og því erfitt fyrir hinn óbreytta íslending að átta sig því sem er í vændum og er ég þar ekki undanskilin. Nú hefur komið í ljós að vandin og niðurskurðurinn sem er boðaður er miklu mun meiri en upplýst var. Ekki er laust við að um mann læðist nokkur hrollur við þennan boðskap. Enn hefur ekki verið látið uppi í hverju þessar aðgerðir felast eða í hve miklu magni en ljóst að ekkert okkar hefur upplifað slíkt áður.

Ég óttast það að þegar hinn óbreytti íslendingur fái að heyra hversu mikinn niðurskurðurinn verði muni honum bregða all svakalega. Þegar hann svo gerir sér grein fyrir að hann eigi að greiða skuldir bankana og erlendra "fjárfesta" (jöklabréfin og fleira í þeim dúr), þá muni reiðin, sem nú liggur í dvala, magnast og það verulega. Reiðin verður ekki minni þegar hann gerir sér grein fyirr því að samfélagið sem hann og forfeður hans hafa byggt upp undanfarna áratugi verði rifið niður og velferðakerfið sem hann hafði byggt upp með mikilli báráttu og elju verði rústir einar. Sjálfur samfélagssáttmálin er í hættu.

Er þessi ríkisstjórn jafnvanhæf og sú fyrri? Verður stórsköddun á samfélaginu það sem koma skal? Er það nauðsynlegt til að byggja upp nýtt og betra samfélag? Ég er ekki svo sannfærður um það - nema við náum um það samkomulagi meðal þjóðarinar. Til þess þarf þjóðin réttlæti. Réttlætinu verður að fullnægja svo við náum sáttum og getum byggt samfélagið upp á ný. Við skulum aldrei gleyma því að hér var framin glæpur af áður óþekktri stærðargráðu og því þufum við og eigum að fá réttlæti. Við skulum heldur aldrei gleyma því að þáverandi stjórnvöld máttu og áttu að vita hvað væri í vændum og áttu að bregðast við en kusu að gera það ekki.

Mun búsáhaldabyltingin hefjast að nýju í haust eða fyrr?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband