Kreppan og landsbyggðin

Ég bý úti á landi og þar vil ég helst vera. Ég heyri oft sagt hér úti á landi: hér kom aldrei neitt góðæri og hví ætti kreppan að koma hingað? Góð spurning og mitt svar við henni er þetta: Hvort sem hið svokallaða góðæri kom á landsbyggðina eða ekki þá mun kreppan koma á landsbyggðina og hún mun fara verr með hana en höfuðborgarsvæðið. Landsbyggðin mun finna fyrir verðtrygginunni á sama hátt og íbúar höfuðborgarsvæðisins, hún mun finna fyrir hækkandi vöruverði og það jafnvel í meira mæli en íbúar höfuðborgarsvæðisins sökum hækkandi flutningskostnaðar, hún mun finna fyrir hækkandi vöxtum, virði eigna mun lækka mun meira en á höfuðborgarsvæðinu enda illseljanlegri en þar, framkvæmdum verður frestað enda staða margra sveitarfélaga slæm og aðgangur að lánsfé takmarkaður ef þá nokkur, ríkið mun fresta mörgum framkvæmdum á landsbyggðinni, stórframkvæmdum á borð við álver á Bakka við Húsavík verður líklega frestað um óákveðin tíma og álveri í Helguvík á höfuðborgarsvæðinu gefin forgangur, atvinnuástand á landsbyggðinni mun líklega versna þegar eftirspurn minnkar eftir vörum framleiddum úti á landi minnkar á höfuðborgarsvæðinu, dýrara og erfiðara verður að nálgast aðföng til framleiðslu og svo dreifingar v/hækkandi flutningskostnaðar. Það er þó ákveðin þversögn í því síðast nefnda því líkur eru á því að eftirspurn eftir innlendri framleiðslu muni aukast þegar innflutningur dregt saman. Á máli hagfræðinnar er það þó rökrétt því aukin eftirspurn þýði hærra verð. Það ætti því að þýða tímabundin samdrátt í vörum framleiddum á landsbyggðinni.

Við skulum samt ekki örvænta því kreppan mun kenna okkur ýmislegt og neyða okkur til að hjálpa okkur sjálf. Eftirspurn eftir innlendri framleiðslu mun óhjákvæmilega aukast og þar með atvinna. Bændur munu auka framleiðslu sína enda þurfum við að borða. Fyrsta íslenska kornið/hveitið kom á markað í haust svo eitthvað jákvætt sé nefnt til tilbreytingar. Endurnýting hvers konar mun fá aukið vægi í allri nýsköpun og alls kyns smáiðnaður mun aukast. Þetta verður þó erfitt þar sem allur innlendur kostnaður mun aukast á næstunni. Við megum samt ekki gefast upp heldur verðum við að halda haus og finna leiðir til halda í það sem við höfum og efla alla nýsköpun. Kreppan er komin og við verðum að horfast í augu við þá staðreynd. Það breytir því samt ekki að við eigum að krefjast kosninga sem fyrst, krefjast réttlætis, að útrásartröllin verði látin sæta ábyrgð og að allt stjórnkerfi landsins verði endurskipulagt með virkt lýðræði að leiðarljósi. Svo legg ég til að við stofnum nýtt stjórnmálaafl þar sem heiðarleiki, einlægni, lýðræði, gegnsæi og jafnrétti verði höfð að leiðarljósi, (hugsalega er ég að gleyma einhverjum flottum hugtökum), en umfram allt - hagur þjóðarinnar umfram hag flokks. Og þjóðin er: Landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið. Þetta snertir okkur öll hvar sem við búum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Niðurstöður kreppunnar munu geta þróast á tvo vegu einungis. Eðlileg þróun væri valddreifing og þar með dreifing eignarhalds og atvinnnutækifæra. Réttur til fiskveiða færist aftur út í hinar dreifðu byggðir og enduruppbygging á vest og austfjörðum eðlileg amk á flestum stöðum en varla að allir byggðakjarnar fái notið þess. Hin leiðin er þvinguð stjórnvaldsleið og því óeðlilegri sem verður frekari samþjöppun eignar og nýtingarréttar sem verður bundinn færri og "sterkari" fjármálastofnunum, eignarhaldsfélögum og bönkum og þannig reynt að bása glæðurnar í efnahagskerfið fyrir hrun. Ég geri mér ekki grein fyrir hvaða stjórnmálaflokkar munu vilja síðari kostinn en mér er skapi næst að vona að í kosningum geti ég valið þarna á milli. Þetta og samningar við ESB er tvennt afgerandi fyrir framtíð þjóðarinnar. Verst að vinstri grænir eru alfarið á móti ESB og að því er virðist á röngum forsendum. Því þeir telja að fiskimiðin verði tekin frá okkur og þar með "síðasta vígi" fullveldisins. Ég er þessu ósammála því þjóðin sem slík hefur afsalað sér þessu "síðasta vígi" í hendur stórútgerðarinnar og það mun ekki frá þeim tekið nema með pólitískum aðgerðum sem verður að gerast "að mínu mati" áður en við gerum nokkra frekari samninga við ESB. Vinstri grænir eru mér sennilega ekki mjög ósammála um vald útgerðarinnar og að því megi breyta en ... þora ekki. Þess vegna halda þeir að status quo með EES samninga og "norskar krónur" sé framtíðarsýn. Þetta er fyrir mér að fresta vandamálunum frekar en að takast á við þau. Bara svo enginn verði reiður þá held ég ekki að ESB sé neitt himnaríki á jörð. Það mun ekki bjarga okkur nema við kunnum fótum okkar forráð í slíku samstarfi. Hins vegar getur það gefið okkur tæki og tækifæri til að vinna betur úr okkar stjórnmálum. Um það snýst málið.

Gísli Ingvarsson, 4.1.2009 kl. 15:08

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk fyrir þetta Gísli. Ég tek undir þetta hjá þér með þessar 2 leiðir, seinni leiðin er ekki áhugaverð. Ég verð alltaf fyrir vonbrigðum með VG þegar þegar þeir loka á samstarf við aðrar þjóðir t.d. í gegmum ESB. Það gerir ekkert til að að skoða málið. Svo ákveður þjóðin sig.

Arinbjörn Kúld, 4.1.2009 kl. 16:21

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Gísli og Ari það sem þið hafið að segja hljómar eins og söngur í mínum eyrum. Ég ætla þó að setja fram hér smá gagnrýni.

Ég er mikill sveimhugi og þegar ég les stoppa ég öðru hvoru og læt hugann reika. Spekin þarf að síast inn og fara í meðferð hins reikandi hugar.

Þið verðið því, fyrir mig að setja greinarskil öðru hvoru þar sem ég get staldrað við.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.1.2009 kl. 20:45

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Fyrirgefið gleymdi að setja kommu:

Þið verðið því, fyrir mig, að setja greinarskil öðru hvoru þar sem ég get staldrað við.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.1.2009 kl. 20:48

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Jakobína, ég mun vanda mig betur hér eftir og setja inn fult af greinarskilum og takk fyirr hólið.

Arinbjörn Kúld, 4.1.2009 kl. 22:00

6 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Sæll og gleðilegt nýtt ár.

Ég held að þetta sé nokkuð rétt greining hjá Ari varðandi flest svæði á landsbyggðinni. Gróðærið hefur ekki í sjálfu sér haft mikil áhrif á mörgum stöðum en samt. Íbúðaverð hefur hækkað að mér skilst í svipuðum takti og á á höfuðborgarsvæðinu víðast hvar nema á algjörum jaðarsvæðum. Þú leiðréttir mig ef ég fer með fleypur.

Það fólk á landsbyggðinni sem fer örugglega mjög illa út úr þessu er fólkið á álverssvæðinu eystra, sem keypti sér hús eða íbúðir á uppsprengdu Suðvesturlandsverði. Ég er sannfærður um að það verði mjög mikil lækkuná öllu húsnæði á því svæði. En lánin verða áfram á þessum húsum og munu sífellt hækka.

Ég hef verulegar áhyggjur af þessu fólki sem þarna býr og lét óábyrga stjórnmálamenn hlaupa með í gönur. 

Ef

Kristbjörn Árnason, 5.1.2009 kl. 09:48

7 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Sælir og sömuleiðis. Þetta er allt rétt og satt hjá þér. Líklega fer fólkið á álverssvæðinu í það minnsta jafnilla út úr þessu að aðrir en vonandi bjargar álverið og afleidd störf svæðinu og fólkinu enda ólíklegt að starfsemi þess leggjist af nema alheimskreppan verði dýpri og verri en menn reikna með.

Arinbjörn Kúld, 5.1.2009 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband