Almenningur og fallbyssa AGS/IMF
24.3.2009 | 01:08
Ég hef fylgst dáldið með þessum umræðum síðustu daga um 20% almenna skuldaniðurfellingu hjá almenningi eins og það er kallað. Sitt sýnist hverjum eins og vera ber. Sumir gera gys að þessum hugmyndum, aðrir reiðast og enn aðrir taka undir þessar hugmyndir. Hugmynd Tryggva Þórs er nánast sú sama og framsóknarmenn komu fram með í janúarbyrjun. Samtök heimilana hafa tekið í svipaðan streng og nálgast þetta út frá réttlætissjónarmiðum sem ég tek fyllilega undir. Borgarahreyfingin orðar þetta öðruvísi og talar um leiðréttingu á geggjaðri vísitölu sem fór úr böndunum. Ég vil nálgast allar þessar hugmyndir með opnum huga og taka það besta frá þeim öllum.
En fyrst skulum við átta okkur á einu: Við lifum á afar óvenjulegum tímum, nánast örvæntingarfullum tímum. Örvæntingafullir tímar kalla á örvæntingafull ráð eða eins og sagt er á ensku: desperate times calls for desperate measures. Annað sem við skulum hafa á hreinu er þetta: íslensk þjóð getur ekki tekist á við nýja framtíð skuldsett til andskotans. Þetta er stórt mál og flókið. Þess vegna verður að einfalda það. Það gerum við best með því að kalla það réttum nöfnum og tala um leiðréttingu og réttlæti og hafa hag almennings ofar öðrum hagsmunum. Þegar sá sem þetta ritar pælir í þessum málum þá hefur hann í huga skuldir almenning sem hann tók til húsnæðiskaupa og erlend bílalán sem eru að sliga marga, ekki lán til hlutabréfabrasks eða annarra slíkra áhættuathafna á markaði. Þar með undanskil ég þá einstaklinga sem skulda hundruði milljóna eða jafnvel milljarða eins og fram kom í fréttum í kvöld. Ég undanskil einnig fyrirtæki í þessari umræðu enda eiga þau að fá aðra meðferð og þar þarf að skoða hvert og eitt fyrirtæki fyrir sig.
Okei en nú förum við að tala saman. Leiðrétting og réttlæti tala samtök heimilana og Borgararhreyfingin um þegar þau ræða um þessa skuldaaukningu sem orðið hefur eftir hrun og jafnvel löngu fyrr eða frá því í janúar 2008 þegar við fórum að finna illilega fyrir verðbólgunni og verðtryggingunni. En til að einfalda málið er best að byrja með 3 spurningum til þín sem þetta lest og ég mun svara þeim fyrir þig því ég veit hverju þú svarar:
- Fékkst þú í þínar hendur þá peninga sem skuld þín hefur hækkað um?
- Fóru þessir peningar út í hagkerfið með ráðstöfun þinni á þeim til kaupa á vöru eða þjónustu?
- Eru þessir peningar þá yfirhöfuð til nema sem tölur á blaði og rafræn boð í tölvukerfi?
Svarið við þessum 3 spurningum er NEI! Þá spyr ég þig sem þetta lest: Hvaða réttlæti er fólgið í því að hækka skuld þína nánast endalaust sama hvað þú borgar af henni? Verður ekki að leiðrétta þetta brjálæði? Svarið við þessum spurningum er auðvitað þetta: Þetta er argasta óréttlæti og verður að leiðrétta.Til er takki á tölvum sem heitir "delete" og þekkt eru fordæmi úr fortíðinni þegar skuldir mætra aðila í réttum flokkum voru afskrifaðar með einu "pennastriki" eins og það var kallað. Við biðjum aðeins um réttlæti og leiðréttingu á ranglæti.
Tillaga Tryggva og framsóknar fela í sér flatan niðurskurð á ALLAR skuldir ALLRA ef ég skil þær rétt. Það eru svolítið, tja galnar tillögur ef ég má orða það svo en við skulum ekki útiloka þær strax. Kannski verðum við að grípa til svo almennra aðgerða til aðgæta jafnræðis og sætta okkur við þá staðreynd að þá fá sumir aðstoð sem ættu ekki að fá. Borgarahreyfingin og samtök heimilana vilja að sú hækkun sem orðið hefur á lánum almennings til húsnæðiskaupa verði færð handvirkt aftur til janúar 2008. Þannig verði einhverju réttlæti komið á þessu landi og ranglætið leiðrétt.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra, mætur maður og víðsýnn hefur gagnrýnt tillögur Tryggva Þórs og framsóknar enda ganga þær mun lengra en tillögur Borgarahreyfingarinnar og samtaka heimilana. Mér vitanlega hefur hann ekkert gefið út á tillögur Borgarahreyfingarinnar og samtaka heimila en mér hefur aftur á móti menn hafa sett þær undir sama hatt og tillögur Tryggva Þórs og framsóknarmanna. Það er miður að Gylfi og ríkisstjórnin skuli ekki ljá sanngjörnum réttlætissjónarmiðum eyra og leiðrétta ranglætið.
Gylfi talaði einnig um að íbúðalánasjóður yrði nánast gjaldþrota ef þetta yrði gert og bankarnir færu illa. Ég skil ekki af hverju ég hef litla sem enga samúð með bönkunum. Hreinlega skil það ekki. Það á einfaldlega að sameina tvo þeirra þannig að eftir standi tveir bankar. Svo er mér alveg sama þó þeir ættu erfitt í einhvern tíma meðan þeir væru að sníða sér stakk eftir vexti. Íbúðalánasjóður er svo annað mál. Þar sem ríkisstjórin er að redda sparisjóðunum og smærri fjármálafyrirtækjum líka eins og Saga Capital og VBS sem spruttu upp í gúrkutíðinni þá er okkur ekki skotaskuld að leggja Íbúðalánasjóði til aukið fé.
En líklega tregðast íslensk stjórnvöld við að laga stöðu almennings að kröfu AGS/IMf svo eignahlið fjármálafyrirtækjanna líti betur út á efnahagsreikningi þeirra. Hugsanlega til að erlendir bankar kaupi þau frekar en við skulum ekki gleyma því að erlendir bankar eru líka á hausnum og því ekki líklegt að þeir komi inn með pening í íslenska banka. Niðurstaðan er því líklega sú að þetta er eitt af leyniskilyrðum AGS/IMF og er því sú fallbyssa sem Gylfi talar um og er beint að íslenskum almenningi enda hugsar sjóðurinn aðeins um eitt og það er fjármálakerfið. Almenningur skal borga. Góðar stundir.
Upplýsingaflækjur
18.3.2009 | 11:16
Kreppan tekur á sig margar myndir og eitt af einkennum núverandi kreppu er upplýsingaskortur og misvísandi upplýsingar. Steingrímur og Jóhanna lofuðu að bæta úr því. Það hafa þau gert af með sínum vikulegu blaðamannafundum. Annað einkenni kreppunnar er upplýsingaóvissa þ.e. hversu vel getum við treyst þeim upplýsingum sem við fáum? Ef það er eitthvað sem kreppan hefur kennt mér þá er það að sannreyna og gagnrýna þær upplýsingar sem eru mataðar ofan í mig.
Ég hef rýnt talsvert í þessa kynningu Steingríms og Jóhönnu á þjóðarbúskapnum. Hún er dáldið athyglisverð fyrir þær sakir að mér finnst að verið sé að fegra stöðuna dullítið. Kannski er það bara eðlilegt að þau geri það en þá eru þau sek um það sama og fyrri ríkisstjórn sem að lokum féll m.a. vegna upplýsingaskorts. Hvað um það. Mér eins og mörgum öðrum er mikil forvitni á að vita hversu miklar skuldbindingar muni falla á okkur í kjölfar bankahrunsins. Þær upplýsingar sem koma fram á kynningunni á stöðunni eru dáldið misvísandi. Steingrímur segir á fundinum að skuldir þjóðarbúsins hafi verið um 1.100 milljarðar í loks árs 2008 að frádregnum skuldum bankana. Þetta kemur ekki alveg heim og saman við þær upplýsingar sem koma fram á glærunum en þar kemur berlega fram að skuldirnar eru um 3.000 milljarðar að frádregnum skuldum bankana, (sjá glæru 15). Einnig kemur fram á fundinum að skuldirnar um áætlaðar um 200% af landsframleiðslu. Samkvæmt Hagstofu Íslands er landsframleiðsla 2008 tæpir 1.500 milljarðar. 200% af því gera um 3.000 milljarða. Það kemur alveg heim og saman við fyrri pælingar mínar en út frá áætluðum vaxtagreiðslum þessa árs og næsta mátti fá út að endanleg skuldatala yrði um 3.000 milljarðar. Kannski veit Steingrímur eitthvað meira en ég? Í þessum tölum er meint skuld vegna icesave og lánsins frá AGS ekki talin með.
Þessi framsetning þeirra segir mér líka að þau reikna greinilega með að megnið af skuldum bankakerfisins verður afskrifað af erlendum lánardrottnum og þær hverfa úr hagtölum i lok þessa árs. Það segir mér líka að þau gera ráð fyrir að skuldir vegna icesave muni falla á íslenska skattgreiðendur. Flækjustig þess máls er mikið og sitt sýnist hverjum. Það er efni í aðra færslu sem er byrjuð að gerjast í kollinum á mér og kemur vonandi bráðlega.
En megin pæling þessarar færslu er hvort vonarstjörnur íslands þau Jóhanna og Steingrímur séu í klemmu með sín ráð og aðgerðir og hvort þau séu einfaldlega orðin verkfæri AGS og hafi nákvæmlega ekkert um efnahagsráðstafanir að segja. Í því sambandi langar mig að benda á að Flannagan, hagfræðingur frá AGS sagði í viðtali við Boga á RÚV þegar Bogi innti hann eftir því hvort AGS hefði ekki áhyggjur af greiðslugetu landsinsog hvort landið gæti greitt skuld sína við AGS? Þá sagði Flannagan eftirfarandi orð: Nei, þjóðin á miklar eignir á móti skuldinni. Hvað þýðir þetta? Er búið að veðsetja auðlindir okkar? Er einhver leynisamningur í gangi sem almenningur veit ekki um? Hvað haldið þið og hvað finnst ykkur um þessa framsetningu Steingríms og Jóhönnu? Eða er ég að misskilja eitthvað?
Þjóðarbúið mun ná sér á strik | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sterkur leiðtogi?
14.3.2009 | 13:17
Þessa daganna sér maður auglýsingar í fjölmiðlum frá hinum og þessum flokkum og hinum og þessum frambjóðendunum. Það er bjart yfir þeim flestum enda nóg að gera í stjórnmálum. Þeir brosa allir. Þeir sem bjóða sig fram í 1 sæti í þessum prófkjörum tala flestir um "sterka leiðtoga." Það er ekki laust við að það fari um mig nettur hrollur þegar ég sé þessi orð notuð í prófkjörsslagnum. Þessi orðanotkun minnir mig óþægilega á þessa "sterku leiðtoga" sjálfstæðisflokks, framsóknarflokks og samfylkingar sem skilja við hlutverk sem "sterkir leiðtogar" með efnahag landsins í rúst. Stjórnarstefna þessara "sterku leiðtoga" er nú kennslubókarefni hagfræðinga um víða veröld sem dæmi um hvernig á ekki að gera hlutina. Víða um veröldina furðar fólk sig á þeirri umgjörð sem þessir "sterku leiðtogar" okkar íslendinga skópu fyrir fjárglæframenn sem enn ganga lausir. Mig hryllir við öðrum "sterkum leiðtogum" frá þessum sömu flokkum sem líklega munu skapa annan grundvöll fyrir annað hrun og annað þjóðarrán.
Ég kæri mig ekkert um "sterka leiðtoga." Leiðtoginn sem ég vil sjá er leiðtogi sem hlustar á fólkið sitt, tekur þátt í lífi þess, finnur til samkenndar, samúðar, gefur því færi á að ráða sér sjálft, leyfir því að koma með lausnir og taka ábyrgð á þeim, fer að þeirra vilja en ekki sínum. Hvar höfum við slíkan leiðtoga í dag?
Kemst hinn fullkomni glæpur upp?
11.3.2009 | 21:45
Hægt að nýta sambönd Joly | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hinir fullkomnu glæpamenn
6.3.2009 | 22:14
virðast hafa starfað meðal annars í þessum banka. Þessi banki var almenningshlutafélag. Almenningshlutafélög starfa eftir ákveðnum lögum og reglum. Þau lög og reglur heimila víst ef ég skil þau rétt að bankar og aðrar fjármálastofnanir geti lánað hluthöfum, stjórnendum og tengdum aðilum fjármuni en önnur hlutafélög mega það ekki. Þetta er fullkomlega siðlaust samt sem áður enda klárlega verið að hygla stærstu eigendum á kostnað annara viðskiptavina sem og á kostnað annara almennra hluthafa. Ömurlegt hreint út sagt. Hér að neðan er viðkomandi lagagrein. Henni verðum við að breyta.
"104. gr. Hlutafélagi er hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán né setja tryggingu fyrir þá. Félagi er einnig óheimilt að veita þeim lán eða setja fyrir þann tryggingu sem giftur er eða í óvígðri sambúð með aðila skv. 1. málsl. eða er skyldur honum að feðgatali eða niðja ellegar stendur hlutaðeigandi að öðru leyti sérstaklega nærri. Ákvæði þessarar málsgreinar taka þó ekki til venjulegra viðskiptalána.
Hlutafélag má ekki veita lán til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess hvort heldur móðurfélagið er hlutafélag eða einkahlutafélag. Hlutafélag má heldur ekki leggja fram fé né setja tryggingu í tengslum við slík kaup. [Ákvæði 1.2. málsl. eiga þó ekki við um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá. Gætt skal ákvæða 99. gr.]1)
Trygging félagsins, sem sett er fyrir áðurnefnda aðila í bága við ákvæði 1. og 2. mgr., er þó bindandi nema viðsemjandi hafi vitað eða mátt vita að tryggingin hafi verið sett andstætt þessum ákvæðum.
Ef félagið hefur innt af hendi greiðslur í tengslum við ráðstafanir sem eru andstæðar 1. og 2. mgr. skal endurgreiða þær með dráttarvöxtum.
Ef ekki er unnt að endurgreiða féð eða afturkalla tryggingu eru þeir sem gerðu eða framkvæmdu síðar ráðstafanir skv. 1. og 2. mgr. ábyrgir fyrir tapi félagsins.
Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga ekki við um lán eða framlag til móðurfélags og tryggingu fyrir skuldbindingum móðurfélags.
Ákvæðum 1. og 2. mgr. verður ekki beitt um innlánsstofnanir eða aðrar fjármálastofnanir.
Í gerðabók félagsstjórnar skal getið sérhvers láns, framlags og tryggingar samkvæmt þessari grein."
Lánuðu sjálfum sér milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hinn fullkomni glæpur
4.3.2009 | 23:39
Margir íslendingar sem og útlendingar velta því fyrir sér núna 5 mánuðum eftir fall íslands hvers vegna engin af stjórnendum bankana og stærstu eigendur hafi sætt ábyrgð, verið kallaður til skýrslutöku eða hreinlega verið handtekin og ákærður. Það gefur auga leið að þegar heilt efnahagskerfi hrynur til grunna að einhvers staðar og af einhverjum hafa lög og reglur verið verið þverbrotnar og það oftar en einu sinni. Alveg frá árinu 2006 mátti stjórnvöldum, stjórnendum bankana og helstu eigendum það vera ljóst í hvað stefndi. Á því leikur engin vafi lengur. Ríkisstjórnin sætti loks ábyrgð eftir margra vikna mótmæli og sagði af sér en með hálfum huga þó því margir sem þar sátu hafa fullan hug á að fara fram aftur og hafa ekki einu sinni beðið þjóðina afsökunar.
Öldum saman hafa menn leitast við að fremja hinn fullkomna glæp þ.e. brjóta af sér og komast upp með það án nokkurra afskipta af hinum langa armi laganna. Lang oftast hefur réttlætið sigrað að lokum, það er ekki hægt að fullyrða að einhver hafi komist upp með glæp án þess að hafa fórnað einhverju í staðin t.a.m. forðað sér úr landi þangað þar sem ekki er hægt að ná í viðkomandi og/eða farið í felur. Hinn fullkomni glæpur hlýtur því að felast í því að fremja glæp fyrir allra augum, með allra vitneskju, komast upp með það og hafa um leið fullt frelsi í framhaldinu.
Hér á íslandi gerðist hið óhugsandi: hinn fullkomni glæpur var framin á gervallri þjóðinni. Allir núlifandi íslendingar sem og tugþúsundir ófæddra íslendinga urðu án nokkurrar aðvörunar fórnarlömb eins stærsta efnahagsglæps sem framin hefur verið. Hér er ekki um hefðbundin efnahagsglæp að ræða þar sem hluthafar, viðskiptavinir og aðrir hagsmunaaðilar voru sviknir af stjórn eða helstu stjórnendum heldur er hér um gervalla þjóð að ræða, heilt land og efnahagskerfi þess lagt í rúst.
Glæpurinn gerðist ekki á einni nóttu eða yfir eina helgi, nei hann hófst um leið og bankarnir voru einkavæddir. Framkvæmd einkavæðingarinnar og aðferðafræði fólst í því að afhenda bankana sérvöldum vinum ákveðinna stjórnmálaflokka sem þá voru við völd. Þessir einstaklingar voru frá fyrsta degi harðákveðnir í nýta sína nýju eign til að auka völd sín og nýfengin auð til að ná til sín öllum auðlindum landsins á einn eða annan hátt. Nánast öll stærstu fyrirtæki landsins lentu í höndum þeirra í gegnum alls kyns eignarhaldsfélög og svokölluðum krosseignartenglsum á tvist og bast. Brátt var ísland of lítið. Ísland á þeim tíma naut virðingar erlendis og var álitið traust land og íbúar þess talið heiðarlegt og harðduglegt fólk.
Hinir nýju bankaeigendur og nokkrir sérlegir vinir þeirra gengu ákveðnir til verks og ákváðu að nota hið góða orðspor íslands til strandhögga á erlendri grundu. Fyrst gekk allt vel enda nægt framboð af lánsfé erlendis og gefið var til kynna að íslenska ríkið stæði sem klettur að baki íslensku bankana. Fljótlega fóru þó tvær grímur að renna á sérfræðinga erlendis og efasemdir fóru að láta á sér kræla. Menn efuðust um margt, um nýfengin auð, hvaðan kom hann? Var stærð bankana ekki of mikil í hlutfalli við stærð þjóðarbúsins og framleiðslu þess? Viðbrögð stjórnenda bankana voru þau að gert var lítið úr áreiðanleika, heiðarleika og jafnvel efast um heiðarlegan tilgang þessara efasemda sérfræðingana. íslensk stjórnvöld gengu svo í lið með stjórnendum og eigendum bankana enda sannfærð um að mikið efnahagsundur væri hér á ferð.
En hinir erlendu sérfræðingar létu ekki blekkjast og héldu áfram að efast. Íslensk stjórnvöld létu svo um mælt að þessir meintu erlendu sérfræðingar þyrftu á endurmenntun að halda. Það fór að harðna á dalnum í aðgangi að lánsfé hjá íslensku bönkunum og þeir snéru sér að almenningi erlendis, líknarfélögum, sveitarfélögum, háskólum ofl. til að afla sér fjár til frekari strandhögga. Engin trygging af nokkru tagi lá á bak við þessi innlán önnur er gott orðspor íslenska ríkisins og þjóðarinnar. Glæpurinn var í algleymi og náði brátt hámarki sínu á haustdögum árið 2008. Nokkrum mánuðum fyrr hófust undarlegar lánveitingar milli bankana, eigenda þeirra og sérstakra vina hérlendis sem erlendis. Nokkrum vikum og dögum fyrir lokahnykkinn hófust undarlegir en skipulagðir fjármagnsflutningar á mili íslands og ýmissa landa í evrópu sem virðast hafa endað á litlum eyjum í suðurhöfum. Íslenskum stjórnvöldum bárust viðvaranir úr ýmsum áttum og á ýmsum tímum en þau kusu að hlusta ekki og hafast ekki að. Þvert á móti gáfu þau út heilbrigðisvottorð um heilbrigði bankana og jákvæðar skýrslur um stöðugleika þeirra og styrk.
Loks þegar glæpurinn sprakk framan í þjóðina þá viðurkenndu stjórnvöld ósigur efnahagsundrins og tóku bankana yfir, settu stjórnendur og stjórn af. Umfang glæpsins var þeim ljóst strax frá fyrsta degi enda settu þau á neyðarlög og slíkt er ekki gert nema eitthvað verulega mikið er að eða hefur gerst. En þau reyndu að halda umfanginu leyndu fyrir þjóðinni með upplýsingaskorti, misvísandi upplýsingum, þöggun, leynd, fjölmiðlaflótta og veruleikafirringu. Í ljós kom að stjórnendur bankana, stærstu eigendur og vinir þeirra höfðu komið undan þúsundum milljarða, það er a.m.k. ekki hægt að gera grein fyrir því hvar þeir eru og skilið landið eftir í ógnarskuldum ásamt því að hafa blekkt hundruð þúsunda erlendra sparifjáreigenda.
Umfang glæpsins er af þeirri stærðargráðu að íslensk stjórnvöld hafa engin úrræði til að rannsaka glæpinn. Til þess eru of margir flæktir í málið, tengsl stjórnenda bankana og eigenda þeirra við stjórnmálalífið á íslandi er of mikið til að innlendur aðili ráði við rannsóknina. Skipun nefndar um rannsókn á aðdraganda glæpsins og stofnun sérstaks saksóknara eru máttlaus tilraun og fyrirfram dæmd til að skila litlu. Sumir hafa kallað það hvítþvott. Þess vegna er glæpurinn fullkomin. Gerendur glæpsins ganga enn lausir, sumir í útlöndum, aðrir hér heima og ferðafrelsi þeirra er óskert. Auð sínum halda þeir enn og fara jafnvel í ævintýraferðir til suðurskautslandsins og segja frá því með stolti í fjölmiðlum.Við getum verið stolt af því, við íslendingar að við erum fyrsta þjóðin í veröldinni sem erum þolendur hins fullkomna efnahagsglæp. Til hamingju ísland. :-)
Pælingar
3.3.2009 | 23:59
Síðustu dagar hafa verið að venju nokkuð viðburðaríkir. Ég tók þá ákvörðun fyrir helgi að pása mig aðeins á blogginu. Manni hættir til að verða svolítið þunglyndur ef maður tekur ástandið og allt sem á undan er gengið inn á sig. Hvað um það. Maður verður að líta á björtu hliðarnar líka. Mótmælin í vetur hafa skilað okkur nýrri stjórn. Davíð Oddson fór líka á endanum úr seðlabankanum en það þurfti heila lagasetningu til. Eini maðurinn á íslandi auk Eiríks félaga hans í bráð og lengd sem þarf að fá á sig lög til að hætta. Við tók norðmaður að nafni Sven. Eitthvað hafa menn verið að bræða með sér að ráðning hans hafi verið ólögleg enda kveði stjórnarskráin á um að embættismenn skuli vera íslenskir ríkisborgarar. Ég skal ekki dæma um það, hann er víst skipaður í embætti og þá er allt leyfilegt.
Framboðsmálin taka á sig sífellt tja, svona ævintýralegri blæ. Alls kyns pælingar og vangaveltur um hitt og þetta. Nenni varla að tjá mig um það allt saman. Finnst þó undarleg ásókn margra í framboð. Kannski gera menn sér ekki grein fyrir þeim risavöxnu verkefnum sem fram undan eru? Hvernig sem kosningarnar fara í vor þá hef ég þá tilfinningu að næsta vor/vetur verði aðrar kosningar og mótmælin blossi upp að nýju í haust ..... jamm þegar ýmislegt fer að koma í ljós og í framkvæmd.
Mogginn var seldur útgerðarmönnum. Þá er það ljóst að á þeim síðum mun ekki fara fram vitræn umræða um kvótamálin og evrópumálin. Tveir stærstu fjölmiðlar á íslandi verða þá áfram í eigu sérhagsmunahópa. Aðeins þarf að afskrifa um 3 milljarða í þessum viðskiptum. Hver skyldi borga þær afskriftir? 200 milljónum minna en bankastjórar útrásarbankana greiddu sér í laun og hlunnindi á síðustu 5 árum. En þeir greiddu sér fyrir að vakna á morgnana 3.200 milljónir á 5 árum. Góðir!
Einhver endurreisnarnefnd er starfandi á vegum sjálfstæðisflokksins. Hún gagnrýndi mjög forystu og stefnu flokksins síðustu árin. Mér fannst það virðingarvert og hélt í einfeldni minni að flokkurinn ætlaði í naflaskoðun og endurmat. Geir var ekki á sama máli. Vildi meina að þeir einstaklingar sem störfuðu í þessari undirnefnd settu þetta fram í eigin nafni, ekki flokksins. Væri ekki að marka. Væntanlegur formaður flokksins steig svo á stokk og tilkynnti að stefnan hefði ekki brugðist, bara eitthvað fólk. Mig minnir sterklega að ég hafi heyrt nákvæmlega sömu orð þegar sovétríkin og austurblokkin hrundi, gömlu kommarnir urðu æfir og kenndu heimsku fólki um, ekki kommúnismanum. Framkvæmd stefnunnar hefði klikkað. Einn þingmaður sjálfstæðisflokksins kom svo fram í sjónvarpi og baðst afsökunar fyrir sína hönd. Ég hugsa að sá þingmaður nái líklega endurkjöri, kæmi mér ekki á óvart.
Jæja nóg að sinni.
Jubb, mikið til í þessu
3.3.2009 | 09:55
Wall Street á túndrunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sérstakur
27.2.2009 | 19:40
saksóknari er að fá auknar heimildir til að afla gagna, kalla eftir gögnum og upplýsingum osvfr. Megum við þá fara búast við að útrásaröflin þurfi að skýra sitt mál? Ætli það fari ekki að fara um ýmsa næstu vikurnar? Skyldi verða aukning á miðasölum til útlanda hjá flugfélögunum í kjölfarið aðra leiðina? Fer Ólafur Haukur ekki að ráða fleira fólk til sín? Ég væri alveg til í að ljá honum hendi frítt meira að segja svona á milli vakta!
Ísland - vesturhérað Noregs!
27.2.2009 | 12:31
Hér er svo smá samsæriskenning í tilefni dagsins: Steingrímur j. vill að við tökum upp norska krónu og hefjum margháttað samstarf við þá eðalþjóð. Ingimundur, fyrrum seðalbankastjóri hóf störf í norska seðlabankanum í vikunni. Norðmaður tók við íslenska seðalbankanum í dag.Áður en þessu ári lýkur verður Ísland orðið hérað í Norgegi. Steingrímur verður skipaður héraðsstjóri, Ólafur Ragnar Grímsson verður skipaður hirðfílf Noregskonungs. Norska verður annað aðaltungumál í hinu nýja vestur-héraði. Bara svona smá spaug :-)