Borgarafundur og landráð

Jæja, hér kemur ein leiðinleg færsla:

Ég fór á borgarafund hér á Akureyri í dag. Ég varð þess sjaldgæfa heiðurs aðnjótandi að vera gestur á svokölluðu pallborði. Það felur víst í sér að maður situr við langborð við hlið annara gesta. Auk þess sitja við þetta langborð aðrir einstaklingar svokallaðir frummælendur. Frummælendur hafa framsögu um ákveðið þema eða málefni, að þeim loknum hefjast svokallaðar pallborðsumræður þar sem allir taka þátt í ræða málefni fundarins auk þess sem spurningar úr sal eru leyfðar. Yfirskrift þessa borgarafundar var "Landráð af gáleysi." En tilefni þessa eru miklar umræður í þjóðfélaginu um hvort þessi útrásartröll og jafnvel aðilar í stjórnsýslunni hafi gert sig seka um landráð af gáleysi. Ég hef áður bloggað um þetta tiltekna mál og birt um það grein á Smugunni. Þarna voru fallbyssur á við Vilhjálm Bjarnason lektor, Andrés Magnússon geðlæknir, Margrét Heinreksdóttir lektor í lögfræði og Sigurjón Þórðarson fyrrum þingmaður. Þessir fjórir voru frummælendur. Pallborðgestir voru auk mín, Lilja Skaftadóttir frá landráðahópi borgarafunda, Vésteinn Gauti Hauksson frá hagsmunasamtökum heimilana og loks Atli Gíslason, þingmaður VG og hæstaréttarlögmaður en hann kom þarna sem lögmaður en ekki sem þingmaður.

Jæja, en mér fannst ljóst frá upphafi að lögfræðingarnir, Margrét og Atli væru ákveðnin í að erfitt væri hægt að heimfæra aðgerðir og aðgerðaleysi leikenda í leikhúsi fáránleikans undir lagaákvæði landráðalaga. Þau væru samin fyrir svo löngu og andi þeirra ætti frekar við um stríðstíma og vilja einhverra til að koma landinu eða hluta þess undir erlend yfirráð. En hvað um það, eftir því sem leið á fundinn þá milduðust lögfræðingarnir í afstöðu sinni eftir því sem fleiri rök fyrir hinu gagnstæða komu fram í umræðunum. Loks var það niðurstaða, þvert á það sem fram kemur í fjölmiðlum, að hægt væri að heimfæra margt og mikið undir þessi ákvæði. En þeir lögðu áherslu á að án vafa væru leikendur í leikhúsi fáránleikans sekari um margvísleg önnur lagabrot og mun auðveldara væri að sækja slík mál en landráð. Reyndar gekk Margrét svo langt að fullyrða að hvort sem landráð hefðu verið framin eða ekki þá hefði þjóðin verið svikinn.

Erindi Andrésar vakti þó langmesta athygli á þessum borgarafundi en hann sýndi fram á með óhrekjandi gögnum og heimildum að hrunið hefði verið fyrirséð þegar árið 2004. Hann sýndi okkur heimildir frá sjálfum seðlabankanum þar sem borin var saman skuldastaða íslands við 138 önnur lönd árið 2004. Þar kom fram að ísland var langskuldugast þessara ríkja þá þegar og ef ekki yrði brugðist við þá myndi illa fara. Hann sagði frá því að hann hefði reynt að vekja athygli á þessu það árið og allar götur síðan en ávallt rekið sig á veggi og þöggun. Engin viljað hlusta, ekki einu sinni seðalbankinn.  The rest is history.

Ég gæti sagt frá mörgu öðrum ummælum sem féllu á fundinum en þá verður þetta leiðinda pistill, (eins og hann sé ekki nógu leiðinlegur fyrir). En það sem vakti undrun mína mest var inngrip Valgerðar Sverrisdóttur, fyrrum viðskiptaráðherra og Guð má vita hvað. En hún fékk orðið í lok fundar þar sem hún reyndi að verja gerðir og ekki gerðir fyrri ríkisstjórna. Hún reyndi að kenna EES samningnum um, nefndi að hver ráðherra sinnti bara sínu og seðlabankinn hefði ekki verið á sinni könnu, benti á auglýsingu frjálshyggjufélagsins sem birtist í blöðunum í síðustu viku um allt reglugerðarfarganið sem hefði hamlað bönkunum. Hún hefði selt bankana á sínum tíma og það hefði sko verið allt í sóma í því ferli. Orð hennar féllu í grýttan jarðveg. Meira að segja prestur einn stóð upp og tilkynnti Valgerði að hvað sem mönnum findist um landráð þá væru atburðir síðustu mánaða og stefna fyrri ríkisstjórna Drottinssvik og ekkert annað. Það var mikið klappað fyrir presti. Hvað um það, mér fannst þetta góður fundur og eiga skipuleggjendur mikla þökk skilið fyrir framtakið og fleiri fundir eru fyrirhugaðir.

Loks langar mig að geta þess að Atli Gíslason var spurður að því sem stjórnarþingmaður í framhjáhlaupi hve miklar skuldir væru að falla á þjóðarbúið, hans svar var: 2.400 milljarðar. Þetta er um sex föld fjárlög fyrir árið 2009. Aðra tölu heyrði ég í dag um skuldir þjóðarbúsins frá Gunnari Tómassyni hagfræðingi sem gagnrýnt hefur íslenska hagstjórn eða öllu heldur óstjórn í áratugi en hann fullyrðir að skuldir þær sem falla muni á ísland séu rúmir 5.000 milljarðar eða 12,5 föld fjárlög 2009. Hvort sem upphæðin er 2.400 milljarðar eða 5.000 milljarðar skiptir ekki öllu máli en hvor sem hún er þá er morgunljóst að við munum aldrei geta greitt þetta öðru vísi en gangast undir þrældóm næstu 10-20 árin eða svo. Ergó: íslenska þjóðin er gjaldþrota. Hvað það þýðir fyrir okkur sem þjóð kem ég að síðar eða reyni að nálgast það á einhvern hátt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Takk fyrir þetta Arinbjörn. Gott að heyra frá Akureyrar-borgarafundi. Ég held að við, íslenskur almenningur, eigum rétt á því að fá loksins að heyra sannleikann. Hvaða tölur eru þetta og hvað þýða þær? Við eigum heimtingu á því að stjórnvöld hætti þessu laumuspili öllu. Ég veit að þetta eru ekki illmenni sem stjórna þessu landi en eftir áratuga setu á Alþingi, þar sem vinnubrögðin eru svo sljó og sofandaleg; þá eru þau öll orðin eins. Þau kunna ekki að starfa á opinn og heiðarlegan máta. Það verður að skipta út þessu fólki fyrir nýtt, svo hægt verði að breyta og bæta.

Margrét Sigurðardóttir, 8.2.2009 kl. 23:35

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta var flottur fundur en ég vona að fólk hafi ekki farið heim undir eintómum svörtum skýjum. Þegar óréttlætið er orðið svona yfirgengilegt eins og bent var á í dag þá er ástæða til að draga það fram.

Tilgangurinn er auðvitað að fá fólk til að hugsa! Svo koma hugmyndirnar og úrræðin. Held að sá megintilgangur fundarins að fá fólk til að hugsa hafi einmitt náðst svo verður hitt að koma í ljós. Þakka þér svo fyrir þitt framlag á fundinum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.2.2009 kl. 00:31

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Já stelpur, það verður að fara fá þessar tölur á hreint, við eigum það skilið. Það er rétt hjá þér Margrét að þetta er ekki vont fólk, bara sljótt af áratuga "færibanda" afgreiðslu laga og reglna og það þarf nauðsynlega á fríi að halda.

Rakel, þetta var flottur fundur og þú stóðst þig frábærlega. Ég held að okkur hafi tekist all bærilega að fá fólk til að hugsa aðeins. Það er það sem þarf. Mitt framlag var nú lítið og ómerkilegt en samt mikill heiður að fá að vera með. Svo mannstu bara að bjalla eða smsa á kallinn ef það vantar aðstoð eða eitthvað.

Arinbjörn Kúld, 9.2.2009 kl. 01:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband