Íslendingar og stjórnmálin

Ég fór á mótmælin hér á Akureyri í dag. Fá vorum við eða um 100 manns. Meira en helmingsfækkun frá því fyrr í haust. Ég var mikið að hugsa á meðan. Af hverju erum við ekki fleiri? Getur verið að fólki sé sama? Hvað er það að gera nákvæmlega núna? Í gluggum nokkurra verslana var verið að auglýsa útsölur og ég sá nokkrar hræður rölta á milli. Ég fór í bónus eftir mótmælin, þar var troðfullt. Glerártorg troðfullt. Talsverð umferð bíla var um ráðhústorg þessar 20 min sem mótmælin stóðu yfir. Var fólk að hnusa af mótmælunum? 10-15 manns stóðu álengdar og virtust virða fyrir sér mótmælin, tóku ekki þátt. Einhverjir á rölti um miðbæinn en tóku ekki þátt.

Hvað vill fólk velti ég fyrir mér? Þá rann upp fyrir mér að 99% fólks vill fá að halda áfram með lífið eins og það var. Stunda sína vinnu, fara versla, stunda áhugamálið, hitta vini og kunningja og einfaldlega lifa sínu lífi án þess að þurfa að velta pólitík fyrir sér. Til þess borgar það pólitíkusum laun og veitir þeim umboð sitt á 4 ára fresti til þess. Það vill ekkert þurfa skipta sér af stjórnmálum og efnahagsmálum þess á milli. Það vill treysta því að fulltrúar þeirra sjái um slíkt og hafi ávallt hagsmuni þess að leiðarljósi.Fólk vill treysta því að fulltrúar þess séu heiðarlegir, traustir og grandvarir einstaklingar sem fylgi sinni sannfæringu og samvisku. Hvað á fólk svo að gera þegar þessar forsendur bresta? Það er alveg ný staða fyrir fólki og það veit ekki hvernig það á að bregðast við. Eina leiðin sem það þekkir er sú sem opnuð er á 4 ára fresti og kallast kosningar. Ég held einnig að í hugum flestra hafi orðið "mótmæli" á sér neikvæðan blæ og því vilji það ekki láta bendla sig við slíkt. Fólk trúir ekki að mótmæli komi einhverju til leiðar, við eru svo óvön mótmælum. Þær fréttir sem við fáum utan úr heimi af mótmælum er af brennandi bílum og húsum, blæðandi, slösuðu og látnu fólki, táragas skýjum, lögreglu grárri fyrir járni og grímuklæddu fólki hendandi mólotovkokteilum í átt að óeirðasveitum lögreglu. Íslendingar vilja ekki taka þátt í slíku.

 Ég velti einnig fyrir mér þessar 20 mínútur hvort almenningur í það minnsta hér fyrir norðan sé búinn að fatta eða meðtaka í vitund sína hvað hafi í raun gerst? Er fólk hugsanlega lamað af hneykslan eða skynjar þetta sem einhvern óraunveruleika í skammdeginu og að með vorinu þá verði allt gott aftur? Það er ekki alveg það sem ég skynja þegar ég ræði við fólk um ástandið, kannski miklu fremur að fólk álíti sem svo að það sé einfaldlega ekkert sem það geti gert, nákvæmlega ekkert. Oft finnst mér sem fólk vilji að "aðrir" taki af skarið og geri eitthvað. Hverjir þessir "aðrir" eiga að vera veit ég ekki. Fólk hefur ekki áttað sig á að það getur engin annar en það gert eitthvað í málinu. Ríkjandi valdhafar eru ekki líklegir til að gefa fólki tækifæri á að velja sér nýja leiðtoga innangömlu flokkana. Þvert á móti held ég að þeir muni berjast með kjafti og klóm, til síðasta blóðdropa til að nýir aðilar komist ekki til valda innan þeirra þ.e. gömlu flokkana. Því held ég að nýtt stjórnmálaafl þurfi að koma til sögunar ekki síst í ljósi þess ef efnt verður til kosninga í vor þrátt fyrir allt. Eða á maður að stóla á VG sem þrátt fyrir allt er saklaus af hruninu?

Sagan segir okkur að nýtt stjórnmálaafl er ekki líklegt til langlífis né mikilla afreka. Slíkir flokkar hafa ávallt sprottið upp eftir klofning úr gömlu flokkunum og að lokum sameinast þeim aftur eða hreinlega horfið í gleymskunnar dá. Tilraunir félagshyggjufólks til sameiningar hafa verið með eindæmum. Þó þokaðist í áttina þegar Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Kvennalistinn reyndu sameiningu um árið sem endaði í stofnun tveggja flokka, Samfylkingu og Vinstri-grænna. Ekki tókst þeim að sameinast í einum flokki og er það verr. Afar verr. Samt er ljós í myrkrinu, VG hafa opnað á stjórnarsamstarf ef marka má síðustu fréttir. Er þá einhvers konar sameining í vændum? Munu VG sætta sig við Evrópustefnu Samfylkingarinnar og vis versa? Getum við sætt okkur við Samfylkinguna eftir allt sem gengið hefur á á hennar vakt? Hroka Ingibjargar, sofanda- og aulahátt Björgvins, lofsöng flokksins til útrásarliðsins og ábyrgðarleysi. Eða eigum við að fyrirgefa þeim og gefa þeim annað tækifæri?  Ég fyrir mitt leiti hef misst alla trú á Samfylkingunni eftir að hafa horft upp á viðbrögð og hegðun leiðtoga hennar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

já Ari menn vilja grilla og láta aðra um stjórnmálin

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.1.2009 kl. 20:54

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Jamm, er þá nokkur von?

Arinbjörn Kúld, 3.1.2009 kl. 21:17

3 Smámynd: Dóra

Jú er fólk ekki bara á meltunni ennþá eftir jóla og áramóta átið og svo er tekið við að eyða núna ... og gleymir sér í þessu öllu og hugsar bara fyrir 1 tíma í einu... Hefði haldið það... ég fór í bæinn hér ..en reyndar eru engin mótmæli... knús

Fólk er bara dofið

Dóra, 3.1.2009 kl. 23:31

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já ég held að fólk fari að taka við sér þegar líða tekur á árið. þegar það fer að finna vandann á eigin skinni. Fyrir marga er vandamálið enn sem komið er bara hugmyndafræðilegt.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.1.2009 kl. 23:47

5 Smámynd: Dóra

Já ég held það líka þegar fólkið fer að vakna af dvala og sér hvað er að gerast í kringum það...

Dóra, 3.1.2009 kl. 23:49

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég verð að minna á Ísfirðinganna! Þeir bættust við og kröfuspöldin þeirra voru virkilega flott. Ég var að frétta af borgarafundi n.k. miðvikudagskvöld. Hann verður í gamla barnaskólanum og byrjar kl. 20:00.

Langaði líka til að þakka þér fyrir að birta okkur þínar gáfulegu hugleiðingar frá athöfninni í dag

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.1.2009 kl. 23:57

7 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Líklega er fólk ennþá dofið og ekki farið að skynja þetta eins og við. jú, og ég varð stoltur þégar ég sá fréttina um Ísfirðingana, ekki má gleyma þeim. Tja, Rakel, gáfulegur, ég roðna en takk samt.

Arinbjörn Kúld, 4.1.2009 kl. 08:19

8 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Sæll og takk fyrir að bjóða bloggvináttu. Hana þigg ég með þökkum!

Mitt mat er það að fólk er enn í afneitun og það verður ekki fyrr en þjáningin verður næstum óbærileg að fólk bregst við. Hvernig á fólk líka að meðtaka þann hrylling sem kom fyrir þessa þjóð og er enn að gerast. Það er nauðsynlegt að hafa mótmælin í gangi..fyrst þegar ég var að byrja mótmæla fussaði fólk og sveijaði og sagði stjórnvöld alveg ráða við vandann..um jólin hitti ég sama fólkið sem er nú orðið agndofa yfir ráðaleysi og vanhæfi sömu ráðamanna og þakkar okkur mótmælendum að standa vaktina og talar jafnvel um að nú ætli viðkomandi að slást í hópinn. Þetta er bara spurning hvernær fólk vaknar af doðanum og ég skil mjög vel að löngunin sé að allt verði eins og áður og fólk geti áhyggjulaust lifað sínu lífi. Frábært að Akureyringar séu komnir af stað og ég óska ísfirðingum til hamingju með sína fundi.

Þetta kemur..þetta kemur!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 4.1.2009 kl. 09:50

9 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Sæl Katrín, heiðurinn er minn. Og jú dropin holar steininn og við gefumst ekki upp.  Virkjum sem flesta.

Arinbjörn Kúld, 4.1.2009 kl. 14:09

10 identicon

Ég þakka fyrir gott boð, kveðja Kristbjörn

Kristbjörn Árnason (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband