Klúðurland
27.1.2011 | 12:11
En nú er varla hægt að þegja lengur þegar Hæstiréttur hefur dæmt kosningar til stjórnlagaþings ólöglegar þ.e. framkvæmdina. Þema lands okkar er klúður. Við getum ekkert gert rétt virðist vera. Stjórnmálin og þá einkum flokkarnir sem þeim stjórna ætla greinilega að slátra þessu samfélagi okkar í þeim tilgangi að ná völdum og halda völdum. Ný nálgun á stórnmálin er óhjákvæmileg. Flokkapólítík er dauð eða í dauðateigjunum. Hægri/vinstri pólítík eins og við þekkjum hana hafa komið samfélögum fortíðar og nútímans til andskotans og ömmu hans. Nú er nóg komið. Nú veit ég ekki með ykkur en mér er það löngu ljóst að flokkarnir eru trúfélög og hagsmunasamtök pólítíkusa en ekki flokkar sem rúma margar skoðanir, þar sem hugmyndafræðileg gerjun og þróun á sér stað. Nei heldur skaltu trúa á hina einu sönnu leið sama hvað. Við höfum séð örlög þeirra fáu sem hafa vogað sér annað innan flokkana og sjáum enn. Trúfélög skipta ekki um trú og/eða skoðun.
Stjórnmálin snerta alla og koma öllum við. Líka þá sem vilja ekki skipta sér af stjórnmálum eins og ég. Stjórnmál, eins og þau eru iðkuð í dag og hafa verið letja hæft, hæfileikaríkt, grandvart og heiðarlegt fólk frá þátttöku. Þess vegna fer sem fer. Þess vegna þróast flokkarnir í þau skrímsli og andsamfélagslegu fyrirbrigði sem þeir eru. Þessu .þarf að breyta og það sem fyrst. En hvernig? Ég get bara vísað í fyrri skrfi hvað það varðar. Sú skoðun mín hefur ekki breyst.
Við verðum að horfa heilstætt á samfélag okkar, þarfir þess og hvað þarf til að uppfylla þær þarfir. Við erum öll sammála um nauðsyn sjúkrahúsa, heilsugæslu, leikskóla, grunnskóla, menntaskóla, verkmennta, fjölbrautaskóla, háskóla, löggæslu auk alls þess sem nútímasamfélag krefst og við erum sammála um að eigi að vera til staðar og greitt er fyrir með skattgreiðslum okkar, hvað sem þær heita. Flokkapólítík eins og við þekkjum hana kemur þessu ekkert við og eyðileggur meira en hún byggir upp. Við eigum að kjósa okkur einstaklinga til ábyrgðarstarfa á þingi, ríkisstjórn og í sveitarstjórnum. Þess vegna er sjórnlagaþing svo mikilvægt til að koma breytingum og jákvæðri þróun af stað.
En svo má líka spyrja: hvern andskotan er ég að vilja upp á dekk?
Kveðja að norðan.
Homo Islandicus (hinn þrætugjarni maður)
26.4.2010 | 21:24
Við íslendingar erum rétt um 317-320 þúsund hræður. Ég verð að viðurkenna það að mér finnst stórundarlegt að jafnfámenn þjóð skuli ekki ná að sameinast um stærstu málin sem brenna á þjóðinni og verja hagsmuni komandi kynslóða. Allt sem við höfum byggt upp á síðustu áratugum með blóði, svita og tárum er nú í stórhættu. Við vitum öll af hverju. Hér er hver höndin upp á móti hver annari. Persónulegt níð og skítkast veður uppi á bloggsíðum. Það er að verða stórhættulegt að tjá sig. Virðing fyrir náunganum, skoðunum hans og sýn á lífið og tilveruna er að engu orðin. Þegar svo er komið er fátt annað framundan en bræðravíg og blóðsúthellingar. Það er ekki það sem við viljum og þurfum.Það er engan greinarmun hægt orðið að gera á fjórflokknum. Allir þessir ismar sem þeir kenna sig við, kapitalismi, kommúnismi, socialismi og hvað þetta heitir allt saman er sama marki brent: drepur fólk og samfélög á endanum. Hagsmunir þeirra fara saman, smá sandkassaleikur á þingi til að blekkja fólk og halda völdum og allir glaðir.
Sá tími nálgast að fólk áttar sig á að samfélög eru fyrir fólk, byggð af fólki og rekið af fólki. Stofnandir og fyrirtæki mun átta sig á að þau eru fyrir fólk sem lifir í samfélaginu, tilvist þeirra byggð á fólki sem leggur þeim til aðstöðu, innviði og lífsrými. Samfélagið leggur til orku, fólk með menntun, reynslu og hæfileika til að reka fyrirtækin og stofnanir. Samfélagið leggur fyrirtækjum og stofnunum til öryggi í umhverfinu, löggæslu, menntun fólksins og velferð. Samfélagið með öðrum orðum tryggir fyrirtækjum og stofnunum allt sem þau þurfa til að lifa. Þegar gömlu "kapitalistarnir" átta sig á þessu fara þeir glaðir að leggja sinn sanngjarna skref til samfélagsins. Þegar gömlu "kommúnistarnir" átta sig á þessu fagna þeir tilvist fyrirtækja og rekstri þeirra. Þegar gömlu "socialistarnir" átta sig á að samfélög eru ein heild og ekkert okkar getur án hvers annars verið, hvorki fyrirtæki né fólk taka þeir höndum saman við "kapitalistana" og "kommúnistanana." Allir þessir ismar fara á endanum með samfélögin til andskotans og ömmu hans af einni ástæðu: þeir gleyma fólkinu!
Beri okkur ekki gæfa til að leggja af gamlar skærur og flokkadrætti þá verður engin uppbygging og framtíðarkynslóðir íslendinga munu hugsa okkur þegjandi þörfina. Svo einfalt er það. Að lokum bendi ég á þetta: "Óvinir" íslensku þjóðarinna eru: fjórflokkurinn í sinni núverandi mynd og fjármálakerfið/auðræðið í heild sinni. Við verðum að átta okkur á því að hagsmunir fjórflokksins og fjármálakerfisins fara saman að öllu leiti. Viðhald og endurvakning hins gamla kerfis sem keyrði okkur í þrot er þeirra forgangsmál. Það þarf ekkert að deila neitt um það eða hvað? Allt snýst þetta um völd og valddreifingu sem og að komast að kjötkötlunum öðru hverju. Fjórflokkurinn og fjármálaöflin hafa engan áhuga á því að koma hér á virkara lýðræði eða réttlátara samfélagi. Slíkt þýðir einungis minni völd og áhrif. Valdaklíkur flokkana eru hinar sömu í dag og voru ári fyrir hrun landsins. Valda mestu aðilar innan fjármálaaflana eru hinir sömu í dag og voru árin fyrir hrun landsins. Hvorugir þessara aðila hafa áhuga né hag af því að breyta stjórnskipan landsins eða minnka við sig völd, áhrif og auð.Þriðji "óvinurinn" er svo við sjálf eins og svo glögglega kemur í ljós við lestur ýmissa blogga. Það er miður en einkar gott fyrir fjórflokkin og fjármálaöflin. Flokkadrættirnir í samfélaginu eru ógnvænlegir og stækir. Fjórflokkurinn er að sýna sitt rétta andlit: sértrúarsöfnuðir þar sem allir aðrir en þeir sem þar eru og iðka sína trú eru glataðir og fara til helvítis! Nú í eftirleik skýrslunnar stóru sjáum við loks hið rétta andlit fjórflokksins og auðræðisins. Við þurfum því að slátra fjórflokknum og kerfi hans. Bylting er eina von almennings.
Góðar stundir J
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.4.2010 kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Segjum fjórflokknum og fjármálaöflunum stríð á hendur
23.2.2010 | 01:23
Ég hef að undaförnu blaðrað og bullað um nauðsyn byltingar á landinu. Sumir hafa réttilega gagnrýnt mig fyrir skort á hugmyndum á því hvað eigi að taka við. Ég hef fram að þessu ekki talið það nauðsynlegt enda sammála að ég held flestum um hvað þurfi að gera s.s. stjórnlagaþing, endurnýjun á Alþingi, rannsókn á hruninu, aðdragenda þess og ekki síst eftirleik, uppstokkun á skilanefndum og rannsókn á störfum þeirra, frystingu eigna grunaðra í fjármálakerfinu, lengingu á fyrningafresti, almennilegar úrbætur á lánakerfi landsmanna þ.e. leiðréttingu lána, niðurfellingu verðtryggingar, endurskoðun á bankaleynd, uppstokkun á kvótakerfinu og margt fleira.
Ég vil jafnvel ganga lengra í sumum málum. Eins og sívaxandi fjöldi íslendinga eru að átta sig á eru hagsmunir fjórflokksins og fjármálaaflana samofnir. Stjórnmálaflokkarnir hafa völdin í okkar umboði og þeirra hagur er að valdakerfið og kosningakerfið sé og verði óbreytt og þá skiptir engu hvaða flokkur á í hlut. Þessir sömu flokkar hafa á undanförnum árum fengið mikið fé frá fjármálaöflunum og margir einstaklingar innan þeirra líka. Þetta gera fjármálaöflin til að tryggja sér áhrif og völd innan flokkana. Þannig er það hagur fjármálaaflanna að kerfið sé og verði óbreytt og að útrásardólgarnir fái sitt aftur.
Ég er orðin sannfærður um að við þurfum að leggja flokkakerfið af og taka upp einstaklings/persónukjör hvort sem er á sveitarstjórnarstigi eða í kosningum til alþingis. Flokkakerfið kom okkur til andskotans og ömmu hans og því verðum við að leggja þetta gereyðingarafl niður. Við þurfum að fækka þingmönnum um helming eða meira, niður í 30 einstaklinga, 5 þingmenn á hvert kjördæmi. Forseti landsins á að fá sama hlutverk og forsætisráðherra. Hann á svo að ráða og/eða skipa sína ráðherra sem hafa ekki atkvæðisrétt á þingi en verða að fá þingið til að samþykkja sín mál. Þingmenn verða svo að berjast fyrir sínum málum og vinna með hver öðrum til að fá sín mál í gegn sem þá framkvæmdavaldið framfylgir þ.e. nýjum lögum. Kjörtímabil hvers þingmanns og forseta yrði óbreytt, 4 ár og engin mætti sitja lengur en 8 ár eða tvö kjörtímabil en mætti bjóða sig fram að nýju eftir 4 ár hlé.
Til að virkja þjóðina í mikilvægum málum þá verðum við að koma á og skapa meiri og virkari hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, láta þjóðina ráða. Það mun veita þingmönnum og ríkisstjórn miklu meira aðhald og aga.
Ég spyr enn og aftur: hafið þið virkilega trú á því að flokkarnir muni breyta hlutum til betra hér á landi?
Kveðja að norðan.
Byltingu?
21.2.2010 | 11:25
Ég skrifaði í færslunni hér á undan að ég myndi í næstu færslum velta fyrir mér hvernig hægt væri að koma af stað byltingu í þessu samfélagi okkar. Svo ég sé alveg hreinskilin þá hef ég frekar óljósa hugmynd um hvernig slíkt væri hægt, hef þó hugsað mikið um það undanfarin misseri þegar mér varð ljóst að litlar sem engar breytingar yrðu á stjórnarfari í landinu og spillingin yrði áfram allsráðandi með blessun og samþykki fjórflokksins. En til að byrja með þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hver eða hverjir eru "óvinirnir." Hverjum er það í hag að hér verði óbreytt kerfi stjórnmála, fjármála, kosninga og valda? Svarið er fjórflokkurinn og fjármálakerfið sem enn lýtur valdi útrásardónana og leppa þeirra.
Það er fjórflokknum ótvírætt í hag að kosningakerfinu verði ekki breytt og því síður að koma á stjórnlagaþingi sem dregið getur úr valdi fjórflokksins. Við ættum að vita það öll af fenginni reynslu að þó svo flokkarnir deili innbyrgðis öðru hvoru þá breytir það engu um að sameiginlegir hagsmunir þeirra er óbreytt valdakerfi. Við vitum það einnig öll að flokkarnir, að VG undanskildum held ég, þáðu mikil fjárframlög frá fjármálakerfinu sem og einstaklingar innan þeirra. Margt er enn á huldu í þeim málum. Öllum má vera ljóst að fjármálakerfið, þrátt fyrir hrunið, vill engar breytingar sem heft gætu áhrif þess og áform um endurheimt gamla tímans sem sést best á dekri þess við fyrrum eigendur bankana og fyrirtækja þeirra. Nóg um það.
Ég hef aldrei tekið þátt í byltingu af neinu tagi nema búsáhaldabyltingunni sem þróaðist nokkurn vegin af sjálfu sér. Mótmælti á Akureyri og var jú á lista BH í norðausturkjördæmi. Hef enga reynslu af framkvæmd byltinga af því tagi sem virðist vera nauðsynleg. En hvernig er mögulegt að koma einhverju stóru af stað? Ýta á hnappinn eins og það var orðað við mig? Ekki gott að segja. En slíkur neisti sem kveikir bálið má ekki vera ofbeldiskenndur eða hafa í för með sér eyðileggingu af einhverju tagi.
Neistinn verður að vera táknrænn. Kannski atburður eins og þegar móðirinn var handtekin fyrir framan börn sín og færð til sýslumanns til fjárnáms. Eða uppgjöf einstaklings sem lýsir því yfir að hann/hún muni ekki sætta sig við óréttlætið og stökkbreytingu skulda lengur og fer t.d. í hungurverkfall. Nýjar upplýsingar um meiri háttar spillingu myndu ekki kveikja neistann, við erum orðin of samdauna spillingunni til þess. En hvað svo? Jú, atburður þessi eða yfirlýsing einstaklingsins myndi koma af stað óstöðvandi bylgju reiði um gervallt samfélagið. Fólk myndi streyma þúsundum saman á Austurvöll og úti á landi myndi fólk safnast saman á torgum og krefjast tafarlausra stjórnarskipta. En þá vandast málið! Slík staða yrði afar viðkvæm og lítið má bera út af til að sjóði upp úr. Slíkt yrði byltingu ekki til framdráttar. Þess vegna verður að vera einhver stjórn á atburðarrásinni. En hver eða hverjir? Ég veit það ekki en kannski ættu einhverjir að gera sig klára. Þessir einhverjir verða að vera vammlausir og heiðarlegir aðilar sem almenningur þekkir og hafa verið áberandi í umræðunni um breytingar og ótengdir fjórflokknum og útrásinni. Í næstu færslu mun ég skoða hvernig atburðarásin gæti mögulega orðið.
Annars hef ég ákveðnar efasemdir um ágæti þess að vera með þessar pælingar. Tilgangslaust kannski? Það er víst hægt að handtaka mann fyrir svona, að hvetja til uppreisnar gagnvart valdstjórninni eins og það er kallað í lögum. Kannski það yrði neistinn??? :-)
En svona í alvöru, sjáið þið það fyrir ykkur að fjórflokkurinn muni breyta samfélaginu til hins betra?
Kveðja að norðan.
Góðgerðasamfélagið Ísland
17.2.2010 | 21:07
Ég ætla á næstu dögum eða vikum skrifa nokkrar færslur þar sem ég mun hvetja til byltingar á íslandi, ástæður þess að það er orðið nauðsynlegt og jafnvel hvernig eins fáránlegt og það kann að hljóma. Mér er orðið slétt sama hvernig eða hvaða móttökur þær munu fá, búin að pæla í þessu æði lengi en haldið þeim fyrir mig. Get fullyrt að það er ekki klikkaðra en hvað annað í þessu samfélagi okkar. En fyrst er gott að átta sig á þessu:
Ég er einn af þeim tugum þúsunda íslendinga sem furða sig á þeim gjörningum bankana sem eru að færa svokölluðum útrásarvíkingum fyrirtæki sín á nýjan leik, hvítþvegin, skuldlítil og til í tuskið. Þar til ég áttaði mig á því að ísland hefur aldrei verið rekið sem samfélag eða ríki þar sem hagsmunir borgarana/kjósenda hafa verið í fyrirrúmi. Ísland hefur ávallt frá stofnun lýðveldisins árið 1944 og líklega enn lengra aftur verið rekið sem góðgerðasamfélag með öfugum formerkjum. Hefðbundin tilgangur góðgerðarfélaga er að styrkja þá sem minna mega sín og þá sem lenda í hvers kyns hremmingum. Hið íslenska góðgerðasamfélag hefur á hinn bógin ávallt beint styrk sínum til þeirra sem betur mega sín og völdin hafa. Helmingaskiptaregla flokkana er gleggsta dæmið sem kristallaðist í svokallaðri sölu og einkavinavæðingu bankana og leiddi að lokum til falls og hruns hins íslenska samfélags. Landinu, fólki og tekjum þess var skipt á milli tveggja flokka á sínum tíma, sjálfsstæðisflokks og framsóknarflokks. Alþýðuflokkur og Alþýðbandalagið fengu að vera memm svona til að róa óróaseggina og fengu stöku sinnum að sitja í stjórn og skipa stöku embættismann.
Góðgerðir samfélagsins fólust í því að auðlindum og tekjum landsins var skipt á milli tveggja blokka: kolkrabbans svokallaða og smokkfisksins sem svo var kallaður. Flottar myndlíkingar. Kolkrabbin var veldi 14 fjölskyldna í Reykjavík sem átti og stýrði velflestum fyrirtækjum á Reykjavíkursvæðinu og gera enn. Smokkfiskurinn var hins vegar SÍS veldið sáluga, kaupfélögin sem landsbyggðin átti og rak. Stýrði þar með öllum viðskiptum og völdum á landsbyggðinni.
Aðild Íslands að EES samningum kallaði á breytingar á samfélaginu sem stuðla áttu að frjálsum viðskiptum og opnara aðgengi allra að hinum stóra markaði. Leiðin til helvítis er mörkuð góðum áformum og viðskiptablokkirnar sáu við þessum áfrormum og skiptu til að byrja með bankakerfinu á milli sín með aðstoð og blessun sjálfstæðisflokks og framsóknar.
Barátta hins venjulega íslendings fyrir mannsæmandi launum og velferð hefur verið við þessar tvær blokkir og ríkisvaldið sem þessar blokkir áttu og stýrðu. Margt hefur áunnist í þeirri áratuga baráttu en launahækkanir yfirleitt teknar til baka með gengisfellingum og skattahækkunum. Önnur réttindi svo skorin niður eða við nögl með "brýnum" niðurskurði.
Í búsáhaldabyltingunni fæddist veik von um breytingar. Von um nýtt ísland og nýtt lýðræði osvfr. Okkur var lofað ýmsum betrum bótum og slíku. Fátt gengið eftir. Okkur má vera fullkomlega ljóst úr þessu að flokkarnir, bankarnir og útrásardólgarnir eru í fullu starfi og meira til við að endurheimta gamla ísland og færa öll völd, auð og áhrif til þeirra sem höfðu þau áður og hafa jafnvel aldrei misst. Gylfi Manússon, viðskiptaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra hafa bæði sagt að þau geti ekkert gert og muni ekki gera til að koma í veg fyrir endurheimt dólgana á sínum fyrirtækjum og þar með endurreisn gamla kerfisins. Þetta sé bara súrt og þau voni að dólgarnir stígi til hliðar. (Yea right!)
Eitt sem er mikilvægt að átta sig á er að hagsmunir stjónrmálaflokkana og viðskiptablokkana fara saman: að endurheimta og viðhalda gamla íslandi og því kerfi sem það byggðist á. Á þann eina hátt tryggir fjórflokkurinn og viðskiptablokkirnar útdeilingu verðmæta góðgerðasamfélagsins íslands til framtíðar. Þessir aðilar hafa engan áhuga á neinum breytingum í þá átt að færa aukin völd, áhrif eða auð til fólksins í landinu sem skert gæti ítök þeirra. Því síður að gera upp fortíðina þannig að hægt sé að byggja upp mannvænt samfélag þar sem hagsmunir íbúa og samfélags þeirra eru í fyrirrúmi. Það hugnast þeim ekki.
Fram til þessa hafa íslenskir kjósendur dansað með flokkunum og lagt blessun sína yfir góðgerðastarfsemi þeirra gagnvart viðskiptablokkunum og sjálfs þeirra. Afstaða kjósenda til flokkana hefur sömu einkenni og þeirra sem halda með fótboltaliðum og slíku. Sama hvað þá kjósa menn alltaf sömu flokkana og áður. Lýðræðisleg, opin og frjó umræða innan flokkana hefur aldrei tíðkast nema sem falleg orð á heimasíðum, bæklingum og stöku ræðu formannsefna. Allar tilraunir til annars eru kæfðar sbr. uppákomu fyrrum formanns sjálfsstæðisflokksins á síðasta landsfundi hans þar sem hann líkti sér við Jesú Krist og nú síðast flokksráðsfundi VG á Akureyri þar sem ekki var minnst einu orði á eitt mesta klúður íslandssögunnar, icesave. Samfylking og framsókn eru ekki hótinu skárri. Engin hugmyndafræðileg endurnýjun eða umræða, bara skellt fram gömlum og nýjum andlitum sem nátengd eru gamla kerfinu.
Hinn venjulegi íslenski kjósandi hefur aldrei haft nein áhrif innan flokkana. Hann er bara nytsamur sakleysingi í huga fjórflokksins. Hinn nytsami sakleysingi á að greiða fyrir risaafskriftir dólgana og framtíðarbitlinga og laun fjórflokksins. Hinn nytsami sakleysingi á að taka á sig eignaupptöku og risavaxna skuldabyrgði svo hægt sé að fjármagna hina nýju einkavæðingu bankana og einkavinavæðingu fjórflokksins. Hinn nytsami sakleysingi má búast við handtökum hvar sem er og hvenær sem er til lúkingar eignaupptöku, jafnvel fyrir framan börn sín. Búið er að gera fjárnám í framtíðartekjum hins nytsama sakleysings til áratuga með stökkbreytingu skulda. Hinn nytsami sakleysingi á aðeins eitt úrræði eftir: að efna til byltingar og taka völdin! Stór orð og jaðra jafnvel við brjálsemi! En er ekki staðan hér á landi klikkuð? Jú, hún er það. En þá spyr maður sig: hvernig getur hinn nytsami sakleysingi komið af stað byltingu? Í næstu bloggfærslum næstu daga eða vikur, fer eftir nennu, mun ég koma að því verði ekki búið að handtaka kallin fyrir þessa færslu :-)
Njótið lífsins!
Doðinn
28.1.2010 | 09:22
Ég er að verða ónæmur og dofinn. Ónæmur og dofin fyrir spillingunni og vibbanum sem vellur frá forarpyttum helvítis á hverjum degi. Á nánast hverjum degi frá því að landið hrundi birtast fréttir um ný spillingarmál. Hvernig bankarnir voru mergsognir að innan. Hvernig vílað og dílað var með fyrirtæki landsmanna. Hvernig efnahagskerfið var skuldsett áratugi fram í tímann með markvissum blekkingum, lygum og svikum útrásardóna, stjórnmálamanna og bankamanna. Brotin blasa við og siðleysið algjört. Þingmenn og foringjar stjórnmálaflokks eru uppvísir af vafasömum fjármálagjörningum. Bera fyrir sig vanþekkingu. Afsakið en menn sem sýna af sér slíkt dómgreindarleysi eru ekki til þess hæfi að gegna trúnaðarstörfum fyrir þjóðina. Flóknara er það ekki.
Maður hristir bara hausinn. Getur ekkert gert annað en vonað að sérstakur saksóknari og hans lið færi okkur réttlæti. Reyndar berast þaðan góðar fréttir svo því sé haldið til haga.
Svo er það icesave. Þjóðaratkvæðagreiðsla framundan í því máli. Sýnir best hve fáránlegt það mál er. Heil þjóð er spurð að því hvort hún vilji samþykkja þennan klafann eða hinn! Taka á sig skuldir sem glæpamannabanki stofnaði til erlendis með vitund og samþykki vanhæfra stjórnvalda! Hvað sem menn kunna að segja um skyldur þjóðarinnar þá var stofnun og rekstur icesave glæpsamlegt að teknu tilliti til getur og hæfni bankans til að standa við skyldur sínar sem banki. Íslensk stjórnvöld, bresk og hollensk ásamt esb sýndu af sér glæpsamlega vanhæfni og dómgreindarleysi með þvi að leyfa stofnun þessara reikninga. Ætlast svo til að íslenskur almenningur borgi svo brúsann að mestu leyti, 300 þúsund manns! Auðvitað eiga allir þessir aðilar að viðurkenna sameiginlega ábyrgð og deila þessu niður á sanngjanan hátt t.d. deila þessu niður á löndin skv. höfðatölu eða einhverju slíku.
Enn fær þjóðin að bíða eftir rannsóknarskýrslunni. Krassandi verður hún líklega ef marka má orð nefndarmanna sem oft hafa verið gráti nær að eigin sögn. Ég er reyndar komin á þá skoðun að þessir flokkar sem eru á þingi hafi enga getu til að takast á við afleiðingar þjóðargjaldþrotsins og eftirmála þess. Við þurfum byltingu, henda þessum handónýtu flokkum af þingi og fá utanþingsstjórn með aðkomu erlendra aðila sem hægt er að treysta. Ég treysti ekki íslenskum stjórnmálaflokkum og -mönnum. Ég ætla til dæmis ekki að kjósa í næstu sveitarstjórnakosningum fyrr en búið er að koma á persónukjöri. Sama gildir um næstu alþingiskosningar. Annars er ég blogglatur, er mest á fésbók að rífa kajft, þar er oft gaman.
Kveðja að norðan.
Staðreynd og grundvallarspurning
8.1.2010 | 00:07
Ég eins og allir aðrir er komin með æluna upp í háls af þessu icesave kjaftæði. En ég má samt til að fá lesandann, ef nokkur er, til að pæla aðeins í þessu og taka svo sína ákvörðum þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Staðreynd: Ríkisbankinn Landsbankin var seldur árið 2003 til einkaaðila sem ráku hann sem einkafyrirtæki þar til hann varð gjaldþrota árið 2008. Ríkisábyrgð fylgdi ekki með í kaupunum, hvorki sem bónus eða söluhvati. Reyndar var því sérstaklega fagnað að með sölunni félli niður ábyrgð ríkisins og myndi gera íslenska ríkið traustara og lánshæfismat þess hækka.
Pæling: Íslensku bankarnir voru einkafyrirtæki. Það er staðreynd. Grjóthörð staðreynd. Melabúðin er líka einkafyrirtæki, það eru Fjarðakaup líka sem og Borað í gatið ehf. Einkabankinn fer á hausinn og skyndilega alveg upp úr þurru eru skuldir hans orðnar þínar. Borað í gatið ehf fer líka á hausinn en tapið á því bera lánardrottnar og birgjar, ekki þú. Vissir þú þetta? Er ekki eitthvað bogið við þetta? Er eitthvað réttlæti í þessu kerfi? Er ekki hrein mismunun hér á ferð? Ættu samkvæmt þessu ekki öll einkafyrirtæki að hafa ríkisábyrgð úr því bankar fá slíkt? Af því bara? Pældu aðeins í því!
Kveðja að norðan.
Bréf til þingmanna
2.12.2009 | 22:04
Eftirfarandi bréf sendi ég á alla starfandi þingmenn. Á so sem ekki von á neinu svari en maður veit aldrei? En hér kemur það:
Akureyri 2. des. 2009
Efni: Niðurstöður og gögn Rannsóknarnefndar um bankahrunið
Alþingismenn!
Nú liggur fyrir breytingafrumvarp á Alþingi. Frumvarpi þessu er ætlað að breyta lögum sem sett voru á síðasta ári um Rannsóknarnefnd sem rannsaka á aðdragenda hruns hins íslenska efnahagslýðveldis. Nefndinni var ætlað samkvæmt þessum lögum að birta niðurstöður sínar 1 nóvember 2009. Því var frestað til 1. febrúar 2010. Gott og vel. Stundum þarf meiri tíma en menn ætla sér í fyrstu.
En nú er réttlætiskennd minni nánast misþyrmt af tilgangi þessa breytingafrumvarps sem ætlað er að hjúpa þau gögn sem nefndin skoðar allt að 80 ára leynd. Auk þess á að skipa nefnd þingmanna sem á að fjalla um niðurstöður rannsóknarnefndarinnar og móta tillögur um viðbrögð við skýrslunni. Ljóst má vera að í þessum gögnum mun koma ýmislegt misjafnt fram: lögbrot, sviksemi, umboðssvik, fjárdráttur, mútur og margs kynns önnur spilling sem snertir fjármálafyrirtækin, einstaklinga og fyrirtæki þeim tengd, tengsl við stjórnmálaflokka, ráðherra, þingmenn, jafnvel ættingja og vini. Allt saman athafnir fyrirtækja og fólks sem olli því að ísland verður aldrei samt aftur og efnahagslegri velferð þjóðarinnar ógnað svo jaðri við landráð.
Í ljós alls sem á undan er gengið, fyrir og eftir hrun þá er Alþingi ekki treystandi fyrir jafnmikilvægu hlutverki og að vinna úr niðurstöðum og gögnum nefndarinnar sem auk þess á að halda leyndum fyrir þjóðinni. Verði þetta breytingafrumvarp að veruleika, óbreytt, er næsta víst að gjáin milli þings og þjóðar verði seint brúuð og geri ekki annað en stækka. Öll gögn sem rannsóknarnefndin skoðar í vinnu sinni á að opinbera. Öðruvísi mun Alþingi ekki endurvinna traust þjóðarinnar. Komi einhver núgildandi lög í veg fyrir slíkt þá á Alþingi einfaldlega að einhenda sér í breytingar á þeim lögum og sýna vilja í verki. Mál þetta er af þeirri stærðargráðu að þjóðin hefur aldrei upplifað annað eins og mun vonandi aldrei henda hana aftur.Málið varðar alla núlifandi íslendinga, börn þeirra, barnabörn og komandi kynslóðir. Gleymið því aldrei að þjóðin er aðili málsins og á rétt á öllum upplýsingum sem fram koma. Það er þjóðin sem borgar fyrir brjálæðið og sá sem borgar á rétt á öllum upplýsingum um vöruna. Gleymið því heldur aldrei hverjir kusu ykkur til starfa á hinu virðulega Alþingi, hverjir greiða ykkur laun með sköttum sínum, að þið eruð kosnir til að gæta hagsmuna almennings og einskis annars, að samviska og hjörtu ykkar á að slá með þjóðinni en ekki gegn. Gleymið því heldur aldrei að íslensk lög gilda fyrir ALLA íslendinga, ekki suma og einkum og sér í lagi almenning. Íslensk lög gilda einnig um útrásardólga, fjármálafyrirtæki, eignarhaldsfélög, einkahlutafélög, hlutafélög, lánastarfsemi, bankastarfsemi, verðbréfaviðskipti, stjórnmálamenn, stjórnmálaflokka, ráðherra og þingmenn.
Festið ykkur í minni og gleymið aldrei að án réttlætis verður hér aldrei nein uppbygging. Án réttlætis vinnið þið ekki hjarta almennings. Íslenska þjóðin er tilbúin til að leggja mikið á sig til að endurreisa landið, skapa frið og nýtt Ísland, land jöfnuðar, land samkenndar, land tækifæranna, land þar sem allir hafa jöfn tækifæri til menntunar, byggja upp og viðhalda frábærri heilbrigðisþjónustu, byggja upp framúrskarandi velferðaþjónustu og horfa stolt og brosandi framan í umheimin. Án réttlætis mun henni ekki verða þetta kleift.
Nú verðið þið Alþingismenn að leggja til hliðar alla flokkshagsmuni, sérhagsmunagæslu og sérgæsku. Minni ykkur á orð ykkar sjálfra í kosningabaráttunni í vor: Allt upp á borðið.
Sá tími er liðin þar sem þingmenn og ráðherrar fóru sínu fram hvað sem almannahag leið. Að gerast dómari í eigin sök, ef hún er til staðar, er ávísun á ..... ja, ég læt ykkur eftir að ráða í það.
Að lokum vil ég vara ykkur við því að beri ykkur ekki gæfa til að skipa óháða nefnd til að fara yfir gögnin, móta frekari tillögur um framhaldið og opinbera gögnin þá er veruleg hætta á annari búsáhaldabyltingu, slík er reiðin í íslenskum almenningi ef ykkur er hún ekki ljós nú þegar. Annað er móðgun við skynsemina og réttlætið. Sjálfur samfélagssáttmálin er við það að rofna. Trúið mér, ég tala við marga íslendinga á hverjum degi. Auk þess er ég sjálfur borin og barnfæddur íslendingur sem elskar land sitt og þjóð og er við það að missa trú mína og traust á fulltrúa þjóðarinnar.
Með vinsemd og virðingu
Arinbjörn Kúld
Kjarnagötu 16
600 Akureyri
MSc í stjórnun og stefnumótun. BSc í rekstarfræðum. Diploma í fiskeldi
Heimasími 431-4565 og GSM 864-7082
Úpps!
30.11.2009 | 21:29
Verður að klára Icesave af ótilgreindum ástæðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Djöfladansinn
25.11.2009 | 22:38
Þessi misserin er stigin hrikalegur djöfladans í íslensku samfélagi. Sá dans er stigin af miklum móð inní bönkunum, í stjórnmálum og viðskiptalífi. Í bönkunum víla menn og díla um fallin fyrirtæki og leifar þeirra. Hverjir fá og hverjir fá ekki en einkum og sér í lagi hverjir fá. Okkur má vera fullkomlega ljóst að til stendur að reisa hina föllnu dólga við og reyndar búið að afgreiða þá suma með því að leyfa þeim að skjóta undan þeim fyrirtækjum sem lífvænleg eru þ.e. þeir seldu sjálfum sér góðu bitana úr hinum föllnu eignarhaldsfélögum og fengu til þess lán úr gömlu bönkunum síðustu mánuðina fyrir hrun, kölluðu það hagræðingu og endurskipulagningu. Þessar vikurnar eru margir óðir yfir fyrirhugðuðum afskriftum á eitthvað fyrirbæri sem heitir 1998 ehf. sem á Haga, sem hefur um 60% markaðshlutdeild á smásölumarkaðinum. Þessar afskriftir eru, ef fréttir eru réttar, löngu afstaðnar. Það er, ef rétt er að hinn nýji Arion banki hafi metið það svo að Hagar gætu staðið undir 17 milljarða skuld við bankann. KB-banki heitin lánaði eigendum 1998 ehf. 30 milljarða ef ég man rétt um mitt ár 2008 til að kaupa Haga út úr Baugi heitnum. Þessir 30 milljarðar urðu svo 47 milljarðar við fall krónunnar. Arion banki tekur svo skuldina yfir af gamla bankanum og gefur fyrir hana 17 milljarða. Þar með er búið að afskrifa 30 milljarða þ.e. allt upphaflega lánið. Einhverra hluta vegna virðast fréttir leka úr þessum Arion banka um þessar afskriftir en fátt fréttist af djöfladansinum úr hinum bönkunum. Hvernig skyldi standa á því? Hvar er allt gegnsæið sem lofað var? Í eðlilegu ástandi samfélags eiga stjórnmálamenn ekki að skipta sér af viðskiptalífinu en hér er ekkert eðlilegt ástand. Á tímum sem þessum eiga stjórnmálamenn að tryggja það að gagnsæi ríki við uppgjör og ákvörðun um framhaldslíf lífvænlegra fyrirtækja. Þeir eiga að tryggja það að eignarhald þeirra fari ekki til þeirra sem rændu landi innan frá þ.e. fyrrum eigenda bankana og leppa þeirra.
Niðurlæging íslenskra stjórnmálamanna er algjör. Forsætisráðherra er varla virtur viðlits af starfsbræðrum sínum erlendis. Þingmenn og ráðherrar stjórnarinnar ræða varla á þingi stærsta mál íslandssögunnar, icesave, þó það sé til umræðu eftir að ríkisstjórnin var neydd til að breyta þeim lögum sem alþingi setti um málið í sumar. Til upplýsinga þá voru það erlendar þjóðir sem neyddu hana til þess. Frjáls þjóð? Ekki það að stjórnarandstaðan yrði nokkuð betri. Til þess eru sjálfstæðisflokkurinn og framsókn of innvinkluð og innmúruð í hrunið að þeir flokkar geti leitt þjóðina á komandi árum. Fyrrum þingmenn Borgarahreyfingarinnar létu verkin tala í sumar og drápu þá miklu von og traust sem um 14 þúsund kjósendur báru til þeirra. Þeim er betur lagið að tvístra en sameina virðist vera.
Ég held að í raun og veru þá skiptir ekki máli hvort hér sé ríkisstjórn eða ekki. Formlega séð verður þó að vera einhver sem kvittar undir þær ákvarðanir sem AGS tekur fyrir okkur. Jæja, okei, Alþingi setur einhver lög og svona en þau skipta bara engu máli héðan af. Örlög okkar eru ráðin. Landið er gjaldþrota. Svokallaðir erlendir lánardrottnar tapa þúsundum milljarða á íslenskum bönkum, mun hærri tölu en menn gera sér grein fyrir í dag segir sjálfur fjármálaráðherrann. Líklega um 10-12 þúsund milljörðum gæti ég trúað. Er nema von að trúverðugleiki landsins sé lítill sem engin. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá munum við ganga í ESB. Öðruvísi mun landið seint og illa ná sér efnahagslega eða standa á eigin fótum líkt og við höfum þekkt. Í það minnsta verður Ísland aldrei samt aftur. Væntanleg þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild er og verður kölluð ráðgefandi. Eins og við vitum þá hlusta íslenskir stjórnmálamenn ekki á nein ráð og því verður sú atkvæðagreiðsla tilgangslaus.
Þetta verður samt ekki átakalaus innganga, langt í frá. Það eru öfl í samfélaginu sem munu stíga trylltan djöfladans í aðdraganda þessara tilgangslausu kosninga í þeirri von að þjóðin dansi með og hafni aðild. Ég óttast þau átök, jafnvel að eitthvað verulega slæmt muni gerast áður en til kosninga komi.
Okkur er hollt að velta aðeins fyrir okkur stöðu okkar í umheiminum. Við búum á eyju langt norður í ballarhafi, langt frá næsta byggða bóli, á mörkum hins byggilega heims. Við erum verulega háð innflutningi aðfanga og matvæla og útflutningi á fiski, áli og ýmsum öðrum vörum og þjónustu. Ferðaþjónusta gefur af sér stóran hluta gjaldeyristekna okkar. Það er nánast sama hvert maður lítur í kring um sig, alls staðar sér maður innflutta hluti. Bifreiðin er innflutt, olía og bensín, varahlutir, húsgögnin, raftækin, fötin að megninu til, stór hluti matvæla og húsin okkar eru að stórum hluta til innfluttir hlutir, raflagnir, klæðningar, stoðir, þök, gler og fl. Við ættum því að temja okkur örlitla auðmýkt í samskiptum við erlendar þjóðir þrátt fyrir lélega framkomu erlendra stjórnmálamanna í okkar garð og þá einkum og sér í lagi Geira Brúna og Alla elsku. Ég á reyndar erfitt með að trúa öðru en að framkoma erlendra stjórnmálamanna eigi sér skýringu, ég hef bara ekki verið upplýstur um ástæðuna ennþá. Ég held að þegar við heyrum þá skýringu þá munum við fyrirgefa þeim. Ég hef það nefnilega á tilfinningunni að stjórnmálamenn okkar og útrásardólgar hafi í sameiningu kallað á þessa framkomu með framferði sínu á erlendri grundu misserin fyrir hrun.
Annars er ég bara hress og kátur, bara að velta þessu fyrir mér. :-)