Bréf til þingmanna

Eftirfarandi bréf sendi ég á alla starfandi þingmenn. Á so sem ekki von á neinu svari en maður veit aldrei? En hér kemur það:

Akureyri 2. des. 2009

Efni: Niðurstöður og gögn Rannsóknarnefndar um bankahrunið

Alþingismenn!

Nú liggur fyrir breytingafrumvarp á Alþingi. Frumvarpi þessu er ætlað að breyta lögum sem sett voru á síðasta ári um Rannsóknarnefnd sem rannsaka á aðdragenda hruns hins íslenska efnahagslýðveldis. Nefndinni var ætlað samkvæmt þessum lögum að birta niðurstöður sínar 1 nóvember 2009. Því var frestað til 1. febrúar 2010. Gott og vel. Stundum þarf meiri tíma en menn ætla sér í fyrstu.

En nú er réttlætiskennd minni nánast misþyrmt af tilgangi þessa breytingafrumvarps sem ætlað er að hjúpa þau gögn sem nefndin skoðar allt að 80 ára leynd. Auk þess á að skipa nefnd þingmanna sem á að fjalla um niðurstöður rannsóknarnefndarinnar og móta tillögur um viðbrögð við skýrslunni. Ljóst má vera að í þessum gögnum mun koma ýmislegt misjafnt fram: lögbrot, sviksemi, umboðssvik, fjárdráttur, mútur og margs kynns önnur spilling sem snertir fjármálafyrirtækin, einstaklinga og fyrirtæki þeim tengd, tengsl við stjórnmálaflokka, ráðherra, þingmenn, jafnvel ættingja og vini. Allt saman athafnir fyrirtækja og fólks sem olli því að ísland verður aldrei samt aftur og efnahagslegri velferð þjóðarinnar ógnað svo jaðri við landráð.

Í ljós alls sem á undan er gengið, fyrir og eftir hrun þá er Alþingi ekki treystandi fyrir jafnmikilvægu hlutverki og að vinna úr niðurstöðum og gögnum nefndarinnar sem auk þess á að halda leyndum fyrir þjóðinni. Verði þetta breytingafrumvarp að veruleika, óbreytt, er næsta víst að gjáin milli þings og þjóðar verði seint brúuð og geri ekki annað en stækka. Öll gögn sem rannsóknarnefndin skoðar í vinnu sinni á að opinbera. Öðruvísi mun Alþingi ekki endurvinna traust þjóðarinnar. Komi einhver núgildandi lög í veg fyrir slíkt þá á Alþingi einfaldlega að einhenda sér í breytingar á þeim lögum og sýna vilja í verki. Mál þetta er af þeirri stærðargráðu að þjóðin hefur aldrei upplifað annað eins og mun vonandi aldrei henda hana aftur.Málið varðar alla núlifandi íslendinga, börn þeirra, barnabörn og komandi kynslóðir. Gleymið því aldrei að þjóðin er aðili málsins og á rétt á öllum upplýsingum sem fram koma. Það er þjóðin sem borgar fyrir brjálæðið og sá sem borgar á rétt á öllum upplýsingum um “vöruna.” Gleymið því heldur aldrei hverjir kusu ykkur til starfa á hinu virðulega Alþingi, hverjir greiða ykkur laun með sköttum sínum, að þið eruð kosnir til að gæta hagsmuna almennings og einskis annars, að samviska og hjörtu ykkar á að slá með þjóðinni en ekki gegn. Gleymið því heldur aldrei að íslensk lög gilda fyrir ALLA íslendinga, ekki suma og einkum og sér í lagi almenning. Íslensk lög gilda einnig um útrásardólga, fjármálafyrirtæki, eignarhaldsfélög, einkahlutafélög, hlutafélög, lánastarfsemi, bankastarfsemi, verðbréfaviðskipti, stjórnmálamenn, stjórnmálaflokka, ráðherra og þingmenn.

Festið ykkur í minni og gleymið aldrei að án réttlætis verður hér aldrei nein uppbygging. Án réttlætis vinnið þið ekki hjarta almennings. Íslenska þjóðin er tilbúin til að leggja mikið á sig til að endurreisa landið, skapa frið og nýtt Ísland, land jöfnuðar, land samkenndar, land tækifæranna, land þar sem allir hafa jöfn tækifæri til menntunar, byggja upp og viðhalda frábærri heilbrigðisþjónustu, byggja upp framúrskarandi velferðaþjónustu og horfa stolt og brosandi framan í umheimin. Án réttlætis mun henni ekki verða þetta kleift.

Nú verðið þið Alþingismenn að leggja til hliðar alla flokkshagsmuni, sérhagsmunagæslu og sérgæsku. Minni ykkur á orð ykkar sjálfra í kosningabaráttunni í vor: “Allt upp á borðið.”

Sá tími er liðin þar sem þingmenn og ráðherrar fóru sínu fram hvað sem almannahag leið. Að gerast dómari í eigin sök, ef hún er til staðar, er ávísun á ..... ja, ég læt ykkur eftir að ráða í það.

Að lokum vil ég vara ykkur við því að beri ykkur ekki gæfa til að skipa óháða nefnd til að fara yfir gögnin, móta frekari tillögur um framhaldið og opinbera gögnin þá er veruleg hætta á annari búsáhaldabyltingu, slík er reiðin í íslenskum almenningi ef ykkur er hún ekki ljós nú þegar. Annað er móðgun við skynsemina og réttlætið. Sjálfur samfélagssáttmálin er við það að rofna. Trúið mér, ég tala við marga íslendinga á hverjum degi. Auk þess er ég sjálfur borin og barnfæddur íslendingur sem elskar land sitt og þjóð og er við það að missa trú mína og traust á fulltrúa þjóðarinnar.

Með vinsemd og virðingu

Arinbjörn Kúld

Kjarnagötu 16

600 Akureyri

MSc í stjórnun og stefnumótun. BSc í rekstarfræðum. Diploma í fiskeldi

Heimasími 431-4565 og GSM 864-7082


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Þetta er gott bréf hjá þér Arinbjörn. Til fyrirmyndar að senda þetta á þingmenn.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 2.12.2009 kl. 23:04

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gott framtak hjá þér! Þú átt hjartalaga hrós skilið fyrir það

Rakel Sigurgeirsdóttir, 2.12.2009 kl. 23:10

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk fyrir það frábæra fólk, mér er heiður að innliti ykkar. Mér þykir sérlega vænt um hjartað Rakel.

Kv, ari

Arinbjörn Kúld, 2.12.2009 kl. 23:34

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn minn.

Stundum kemur sú stund að ég hef ekki annað að segja, en mæltu manna heilastur. 

Og þó þingmenn svari ekki, þá munu þeir sem lesa, verða vitrari á eftir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.12.2009 kl. 23:43

5 identicon

Vá, þetta bréf segjir allt sem segja þarf..

Vonandi lesa þeir bréfið, þó ég búist ekki við svari þar sem þeir svara aldrei neinum. En þetta er rosalegt bréf

Pála (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 00:13

6 Smámynd: Eygló

Mér líst vel á þessa hugleiðingu þína. Allt virðist satt og rétt.

Ég leyfi mér að kalla þetta "bara" hugleiðingu af því að þetta er skrifað frá hjarta og heila og huggulega komið í texta.

Það eru svo að segja engar líkur á því að þú fáir svar

Það eru litlar líkur á því að neinn viðtakenda lesi bréfið.
Einn og einn kann að "renna" yfir það.

Nokkrar línur, mjög stuttorðar og gagnorðar, eru eini möguleikinn til að ná til þeirra. Það á reyndar við um allflest fólk.

Væri kannski ráð að samþjappa þessu; gera það mergjaðra og senda bara aftur!?

Eygló, 3.12.2009 kl. 16:16

7 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Nær örugglega má þjappa þessu saman og orða betur enda var þetta samið eins og þú segir beint frá hjartanu og annars álits ekki leitað. Hver veit nema maður skoði þetta aftur og sendi aftur á þessa sk heiðursmenn og -konur á þingi.

Kv, ari

Arinbjörn Kúld, 8.12.2009 kl. 00:32

8 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Gott bréf. Ég sjálfur er búinn að reyna þetta líka og viðbrögðin eru álíka eins og að tala við stein! Í besta falli færðu bréf "Takk fyrir athugasemdina". En dropinn holar steininn.

Sumarliði Einar Daðason, 13.12.2009 kl. 18:37

9 Smámynd: Eygló

Engin ástæða til að hætta þótt ekki berist svar um hæl.
Í versta falli (sem getur líka verið ágætt fall) náum við að pirra móttakanda.

Eygló, 13.12.2009 kl. 21:03

10 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk fyrir það Sumarliði og Eygló.

Reyndar fékk ég tvö svör, annað frá Margréti Tryggvad. sem tók undir umvandanir mínar og svo frá þingforseta, Ástu Ragnheiði sem sagði mig misskilja málið. Gott og vel. Það kemur í ljós því hún lofaði því að engu yrði stungið undan sem skipti máli. Við sjáum til með það. Ég mun alla vega geyma það. Virðingarvert af þessum tveim að svara.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 16.12.2009 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband