Djöfladansinn
25.11.2009 | 22:38
Þessi misserin er stigin hrikalegur djöfladans í íslensku samfélagi. Sá dans er stigin af miklum móð inní bönkunum, í stjórnmálum og viðskiptalífi. Í bönkunum víla menn og díla um fallin fyrirtæki og leifar þeirra. Hverjir fá og hverjir fá ekki en einkum og sér í lagi hverjir fá. Okkur má vera fullkomlega ljóst að til stendur að reisa hina föllnu dólga við og reyndar búið að afgreiða þá suma með því að leyfa þeim að skjóta undan þeim fyrirtækjum sem lífvænleg eru þ.e. þeir seldu sjálfum sér góðu bitana úr hinum föllnu eignarhaldsfélögum og fengu til þess lán úr gömlu bönkunum síðustu mánuðina fyrir hrun, kölluðu það hagræðingu og endurskipulagningu. Þessar vikurnar eru margir óðir yfir fyrirhugðuðum afskriftum á eitthvað fyrirbæri sem heitir 1998 ehf. sem á Haga, sem hefur um 60% markaðshlutdeild á smásölumarkaðinum. Þessar afskriftir eru, ef fréttir eru réttar, löngu afstaðnar. Það er, ef rétt er að hinn nýji Arion banki hafi metið það svo að Hagar gætu staðið undir 17 milljarða skuld við bankann. KB-banki heitin lánaði eigendum 1998 ehf. 30 milljarða ef ég man rétt um mitt ár 2008 til að kaupa Haga út úr Baugi heitnum. Þessir 30 milljarðar urðu svo 47 milljarðar við fall krónunnar. Arion banki tekur svo skuldina yfir af gamla bankanum og gefur fyrir hana 17 milljarða. Þar með er búið að afskrifa 30 milljarða þ.e. allt upphaflega lánið. Einhverra hluta vegna virðast fréttir leka úr þessum Arion banka um þessar afskriftir en fátt fréttist af djöfladansinum úr hinum bönkunum. Hvernig skyldi standa á því? Hvar er allt gegnsæið sem lofað var? Í eðlilegu ástandi samfélags eiga stjórnmálamenn ekki að skipta sér af viðskiptalífinu en hér er ekkert eðlilegt ástand. Á tímum sem þessum eiga stjórnmálamenn að tryggja það að gagnsæi ríki við uppgjör og ákvörðun um framhaldslíf lífvænlegra fyrirtækja. Þeir eiga að tryggja það að eignarhald þeirra fari ekki til þeirra sem rændu landi innan frá þ.e. fyrrum eigenda bankana og leppa þeirra.
Niðurlæging íslenskra stjórnmálamanna er algjör. Forsætisráðherra er varla virtur viðlits af starfsbræðrum sínum erlendis. Þingmenn og ráðherrar stjórnarinnar ræða varla á þingi stærsta mál íslandssögunnar, icesave, þó það sé til umræðu eftir að ríkisstjórnin var neydd til að breyta þeim lögum sem alþingi setti um málið í sumar. Til upplýsinga þá voru það erlendar þjóðir sem neyddu hana til þess. Frjáls þjóð? Ekki það að stjórnarandstaðan yrði nokkuð betri. Til þess eru sjálfstæðisflokkurinn og framsókn of innvinkluð og innmúruð í hrunið að þeir flokkar geti leitt þjóðina á komandi árum. Fyrrum þingmenn Borgarahreyfingarinnar létu verkin tala í sumar og drápu þá miklu von og traust sem um 14 þúsund kjósendur báru til þeirra. Þeim er betur lagið að tvístra en sameina virðist vera.
Ég held að í raun og veru þá skiptir ekki máli hvort hér sé ríkisstjórn eða ekki. Formlega séð verður þó að vera einhver sem kvittar undir þær ákvarðanir sem AGS tekur fyrir okkur. Jæja, okei, Alþingi setur einhver lög og svona en þau skipta bara engu máli héðan af. Örlög okkar eru ráðin. Landið er gjaldþrota. Svokallaðir erlendir lánardrottnar tapa þúsundum milljarða á íslenskum bönkum, mun hærri tölu en menn gera sér grein fyrir í dag segir sjálfur fjármálaráðherrann. Líklega um 10-12 þúsund milljörðum gæti ég trúað. Er nema von að trúverðugleiki landsins sé lítill sem engin. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá munum við ganga í ESB. Öðruvísi mun landið seint og illa ná sér efnahagslega eða standa á eigin fótum líkt og við höfum þekkt. Í það minnsta verður Ísland aldrei samt aftur. Væntanleg þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild er og verður kölluð ráðgefandi. Eins og við vitum þá hlusta íslenskir stjórnmálamenn ekki á nein ráð og því verður sú atkvæðagreiðsla tilgangslaus.
Þetta verður samt ekki átakalaus innganga, langt í frá. Það eru öfl í samfélaginu sem munu stíga trylltan djöfladans í aðdraganda þessara tilgangslausu kosninga í þeirri von að þjóðin dansi með og hafni aðild. Ég óttast þau átök, jafnvel að eitthvað verulega slæmt muni gerast áður en til kosninga komi.
Okkur er hollt að velta aðeins fyrir okkur stöðu okkar í umheiminum. Við búum á eyju langt norður í ballarhafi, langt frá næsta byggða bóli, á mörkum hins byggilega heims. Við erum verulega háð innflutningi aðfanga og matvæla og útflutningi á fiski, áli og ýmsum öðrum vörum og þjónustu. Ferðaþjónusta gefur af sér stóran hluta gjaldeyristekna okkar. Það er nánast sama hvert maður lítur í kring um sig, alls staðar sér maður innflutta hluti. Bifreiðin er innflutt, olía og bensín, varahlutir, húsgögnin, raftækin, fötin að megninu til, stór hluti matvæla og húsin okkar eru að stórum hluta til innfluttir hlutir, raflagnir, klæðningar, stoðir, þök, gler og fl. Við ættum því að temja okkur örlitla auðmýkt í samskiptum við erlendar þjóðir þrátt fyrir lélega framkomu erlendra stjórnmálamanna í okkar garð og þá einkum og sér í lagi Geira Brúna og Alla elsku. Ég á reyndar erfitt með að trúa öðru en að framkoma erlendra stjórnmálamanna eigi sér skýringu, ég hef bara ekki verið upplýstur um ástæðuna ennþá. Ég held að þegar við heyrum þá skýringu þá munum við fyrirgefa þeim. Ég hef það nefnilega á tilfinningunni að stjórnmálamenn okkar og útrásardólgar hafi í sameiningu kallað á þessa framkomu með framferði sínu á erlendri grundu misserin fyrir hrun.
Annars er ég bara hress og kátur, bara að velta þessu fyrir mér. :-)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill Arinbjörn.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 26.11.2009 kl. 17:42
Sæll Arinbjörn.
Tek undir með Friðrik H. G.
Eins og þú trúlega veist þá ert þú ekki einn um að hafa áhyggjur af því hvað kann að gerast hér á næstu vikum, ég er a.m.k. skíthræddur um að sjóði uppúr hjá mörgum. Nú á næstu vikum fara ansi mörg heimili á uppboð, skattahækkanir taka gildi og þá er spurning hvað gerist, hefur fólk sjálfsstjórn eða brjótast út óeirðir? Er einhver sem hefur burði til að koma viti fyrir fólk ef allt fer úr böndunum? Vissulega stórar spurningar og ég í það minnsta hef ekki svör við þeim.
Íslandi allt
Umrenningur, 27.11.2009 kl. 22:56
Takk fyrir innlitið drengir. Þegar kemur að þessum uppboðum og eignaupptöku þá mun sjóða á mörgum. Einnig mun ástandið verða sérlega eldfimt þegar skattahækanir ásamt verðhækkunum í vetur stytta kveikiþráðinn. Ég hef á tilfinningunni að það sjóði uppúr fljótlega eftir áramót.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 28.11.2009 kl. 11:17
Blessaður Arinbjörn.
Núna þegar allt er orðið rólegt þá gaf ég mér tíma til að kíkja á hugleiðingar þínar.
Innilega er ég sammála þér í fyrri hlutanum, en mér finnst þungi alvörunnar eitthvað hafa dregið úr þér byltingarandann. Þú minnir mig dálitið á gömlu mennina sem fundu sér skjól í Vichy, þar sem þeir þeir sleiktu sár sín og sögðu að vegna synda sinna, þá ætti þjóðin að una sátt við sitt, og smátt og smátt myndi birta til í hinu nýja ríkissambandi.
En sá sem verður fyrir árás, hann á ekkert val, hann verður að verjast. Allavega meðan þróunarkenningin skipar til um hverjir lifa eða deyja. Og þú talar fyrir hægfara dauða þess sem upplifir sig það syndugan að hann eigi ekkert gott skilið, kannski smá klapp og nokkra brauðmola.
Ég skal viðurkenna að ég hrópaði ekki með Helga Hóseusyni á Langholtsveginum, en það gerir mig ekki sekan fyrir það. Þín gryfja er eins og svo margra í Andstöðunni, að þið takið á ykkur syndir annarra. Gerið ekki greinarmun á þjóðinni og fulltrúum hennar. Og þegar þið eruð svo viljugir að taka á ykkur syndir fulltrúa hennar, þá horfið þið framhjá tvennu, þjóðin var ekki spurð álits, og fulltrúar hennar unnu eftir sama kerfi og hinir. Það eins sem er öðruvísi hér, er sú mikilmennska sem var leyfð, að ætla sér að verða stærstir, bestir og mestir.
En ráðin voru þau sömu, kerfið sem var unnið eftir það sama, og afleiðingarnar þær sömu og annars staðar. Nema að við vorum komin aðeins lengra í mikilmennskunni. Og gátum því ekki varið hana falli, sem betur fer. En annarsstaðar í hinum vestræna heimi var reynt að bjarga kerfi Nýfrjálshyggju og græðgi, og almenningur þar á eftir að blæða alveg eins og hér.
Þegar þið syndu hlöðnum menn, talið um makleg málagjöld, þá gefið þið ykkur fullt af röngum forsendum. Það vorum ekki við sem báðum um þessi lán, það voru þeir, og þeir fengu þau lánað á eðlilegum viðskiptaforsendum. Bara í Dubai er verið að tala um tugmilljarða afskriftir, og trilljónir hafa tapast í hagkerfum heimsins vegna hins mikla gambls peningapúka. Ef við værum sek, þá væri vandinn bundinn við okkur, en það er það ekki, og það er tími til kominn að þið hinu syndugu sjái það.
Og þetta sífellda tal um séríslenska spillingu er rangt. Aðeins sá sem lítur ekki í kringum sig talar svona, spilling hefur fylgt manninum frá örófi alda, hún er oft hinn stóri örlagavaldur af falli heimsvelda. Og það er spilling í Evrópu, það er spilling í Ameríku og það er spilling í Asíu. Ég er ekki að réttlæta okkar spillingu, vill að þar sé gerð bragarbót á. En mér finnst það fráleitt að gera hina "séríslensku" spillingu að sérstakri trú, trú um að við eigum allt vont skilið vegna hennar.
Því þjóð okkar Arinbjörn, er hvorki betri eða verri en aðrar þjóðir. Vissulega þarf hún að lifa í sátt og samlyndi við nágranna sína og umhverfi. En sú sátt má ekki byggjast á afsali grundvallarrétti hennar til lífs og mannréttinda. Og það vill engin önnur þjóð, almenningur á alls staðar sinn rétt.
Og núverandi varnarbarátta snýst ekki baun í bala um gjörðir einstaklinga af íslensku þjóðerni, hún snýst um grundvallarrétt almennings í þessu landi. Og þann rétt þarf að verja. Ekki kyssa á vönd kvalara okkar. Eigi þeir eitthvað sökótt við einhverja, hvort sem það eru fyrrum stjórnendur þessa lands, eða bankamenn, þá eiga þeir að beina sjónum sínum að þeim, ekki strákunum mínum, mér eða pabba mínum.
Þess vegna berst ég og blæs á allt syndatal. Minni aðeins á glerhúsin. Og minni líka á að heimurinn er stærri en fámennur hópur kúgara. Engin ástæða að halda að hlutskipti þrælsins sé náttúrlögmál í heiminum.
Og hvað virðingu varðar, þá öðlast þræll aldrei virðingu. Hvað þá sá sem fórnar náunga sínum fyrir brauð.
Því þetta snýst um okkur, ekki þá.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.12.2009 kl. 11:01
Blessaður Ómar minn
Takk fyrir hlý orð í minn garð. Ég eins og margir aðrir hef ekki farið varhluta af vanmáttarkennd sem nær tökum á manni þegar svikin, spillingin og sérgæskan blómstrar sem aldrei fyrr. Kennd sem dregur úr manni baráttuviljann og fær mann til að reyna lámarka skaðan eins og hægt er. En um leið vona ég að við söfnum vopnum okkar á ný þegar rykið sest niður og rofa fer til í umhverfinu svo menn geti áttað sig á stöðunni.
Það er samt engin afsökun fyrir uppgjöf eða ástæða til uppgjafar enda langt í frá að slíkar hugsanir ráði för. Ljósið mun sigra myrkrið að lokum. Mín tilfinning er einfaldlega sú að til að sigra þá þurfi þjóðin að vakna og taka völdin af þingi og ríkisstjórn svo réttlætið nái fram að ganga. Það mun bara ekki gerast fyrr en þjóðin fer að finna það svo um munar hve illa kreppan og AGS mun leika velferðakerfið. Því miður Ómar minn. Þjóðin er enn í afneitun á hinum hrikalegu afleiðingum hrunsins eða gerir sér eki grein fyrir þeim.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 1.12.2009 kl. 14:51
Blessaður Arinbjörn.
Eg var í kappi við klukkuna þegar ég henti þessu inn, virka oft hvassari þegar ég reyni að halda þræði, í stað þess að fara út og suður.
En við þurfum að berjast, við megum ekki láta koma þessum syndum á okkur. Til dæmis er aðild að ESB undir formerkjum ICEsave samkomulagsins, fullkomin uppgjöf. Það er eins og þegar frjálsir bændur miðalda gengust undir lénsánauð, guldu lénsdrottni sínum skatt gegn vörn. Það tók þá síðan um 800 ár að losna. Í stað þess að berjast sjálfir.
Ég er ekki að afsaka það sem þessir menn gerðu. En kerfið bauð upp á það. Um leið og þjóðin gekk í EES, þá mátti þetta. Og ESA sá til þess að farið var eftir reglum. Til dæmis var engin regla sem bannaði vöxt bankakerfa fram yfir stærð hagkerfa. Hefðu íslensk stjórnvöld viljað banna slíkt, þá þurftu þau fyrst að segja sig úr EES.
Og það var ekki í umræðunni.
Og hefðu þau samt stigið þetta skref, þá sköpuðu þau sér skaðabótaábyrgð, sem við værum sannarlega ábyrg fyrir, og það gagnvart hluthöfum bankanna. En samt, ef sú skaðabótaábyrgð er hlutfallslega mikil, þá taka ákvæði neyðarlaga við, um að stilla þeim í hóf miðað við að innviðir þjóðfélagsins skaðist ekki af greiðslu þeirra.
En hvað áttum við að gera ég og þú, og hann pabbi minn, og börnin okkar??? Áttum við að fara til London og skjóta þessa menn???? Gera byltingu í Brussel, og setja fjárbröskurum stýft regluaðhald????
Það eina sem við gátum gert var að kjósa gegn mestu öfgunum, og það gerðum við. Það að hafa ekki gert byltingu gerir mig ekki skaðabótaskyldan, það er á hreinu.
En hvað með þá hina sem kusu, gerðu þeir okkur siðferðisleg ábyrg??? Kannski ef þeir hefðu stutt stjórnvöld sem hefðu farið fram með yfirgangi og reglubrotum, og komist upp með það, en því var ekki að heilsa. Þau stjórnvöld sem þetta fólk kaus, þau unnu eftir þeim reglum sem Evrópusambandið setti, við megum aldrei gleyma því. Og einkavæðing og afnám reglna, var hið viðurkennda módel. Bankar höfðu allsstaðar annarsstaðar verið einkavæddir, og þeir störfuðu allir eftir sama módelinu, að afla sér tekna og lánsfjár, til dæmis með innlánsreikningum???
Og hvernig áttu íslensk stjórnvöld að banna þessa innlánsreikninga með þeim rökum að þau gætu ekki bakábyrgst þá ef illa færi, þegar það var skýrt kveðið á í reglum að aðildarríki mættu ekki bakábyrgjast, og fjármálakerfið sjálft sæi um fjármögnun þess innlántryggingakerfis sem í gildi væri.????
Við megum aldrei falla í þá gryfju að taka upp hentistefnurök andstæðinga okkar sem kúga af okkur fé. Og stór skýring á núverandi ástandi er sú, að einmitt það hefur Vinstri og félagshyggjufólk gert, og hingað til hef ég talist til þess hóps. Hver leiðir baráttuna gegn krumlum Nýfrjálshyggjunnar ef það erum ekki við?????
Og þessi rök um að bankamenn okkar og útrásarmenn hafi hagað sér á einhvern hátt sem gerir okkur siðferðisleg ábyrg, þau standast ekki. Þetta var bandaríska módelið sem var komið til að vera á Vesturlöndum. Til dæmis voru hinir nýríku bretar um margt miklu verri en við, sjá til dæmis Green og Arcadia (félaga Jóns Ásgeirs).
Græðgin og siðleysið var alþjóðlegt vandamál.
Og hún var ekki mér, þér eða pabba að kenna.
En núna á ekki að láta sökudólgana borga, heldur almenning, eins og æðsta boðorð Nýfrjálshyggjunnar er, almenningur er ekki fólk, aðeins kostnaður meðan hann er í vinnu, en mjólkurkýr þegar kemur að því að arðræna hann.
Og þess vegna skrifa ég þessi innslög. Ég er alfarið á móti því, og tel að við eigum öll að vera á móti því. Sérstaklega við sem viljum ekki það sem þú lýstir svo vel fyrst. Það er bara verið að endurreisa hið gamla, jafnvel með sömu auðmönnum, eina viðbótin er innkoma alþjóðlegs auðmagns í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Og ég segi bara, "over my dead body".
Og mér er alveg sama hver mannar vélbyssuna við hlið mér, bara að hún sé miðuð í rétta átt. Tími umræðu og sátta er seinna tíma verk, þegar andskotarnir hafa verið hraktir úr landi.
Og ef við skiljum ekki siðferði þess, að ég, þú, börnin okkar og foreldar, okkar eigum okkar rétt, óháð höfðingja gjörðum, þá skilja það engir.
Og þá verður engin vörn og engin orrusta þegar "þjóðin fer að finna það svo um munar hve illa kreppan og AGS mun leika velferðakerfið". Aðeins uppgjöf.
Þess vegna er ég að þessum brýningum, bæði á mínum vettvangi, og hér. Ef okkur tekst ekki að samræma okkur í Andstöðunni, þá sigra djöflarnir.
Og það væri skelfilegt fyrir okkur öll.
Ekki illa meint, en þessi áherslumunur þarf að ræðast. Hann klýfur Andstöðuna í dag.
Og á meðan fitnar siðspillt auðvald á blóði almennings,
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 1.12.2009 kl. 15:58
Blessaður aftur Arinbjörn.
Lenti í tímahraki aftur, leikskólinn kallaði á.
Það er svo auðvelt að lenda í "eintóna" í stað "út og suður" rökræðuna þegar maður telur sig þurfa að rökstyðja af hverju maður er að gera mál úr áherslumun.
Kannski er það vegna þess að ég tel "að lágmarka skaðann" sé leið Vichy Frakka, sem töldu að það væri hægt að lágmarka skaðann með samstarfi við Andskota. Það kostaði "aðeins" 200.000 mannslíf, mestmegnis ungs fólks af báðum kynjum, í Andspyrnunni einni. Ef við gömlu mennirnir heykjumst á því að berjast, og "lágmörkum skaðann", þá munu börnin okkar berjast, og það getur orðið blóðbað. Og af tvennu illu, þá tel ég betra að við förum. Síðan er allt annað mál hvernig okkur tekst til.
"Réttlátur málstaður sigrar alltaf af lokum" er sagt, en það er ekki tekið fram hvað það tekur langan tíma.
Og ég fer ekki ofan af því að skýringin á núverandi ástandi, er klofningur okkar í Andstöðunni. Sum okkar vilja berjast með öllum þeim vopnum sem eru tiltæk, og með öllum þeim sem vilja valda þeim, en svo vilja aðrir staldra við, hika, ræða málin, velta því fyrir sér hvað er rétt og rangt, "eigum við sök??", hvað á að gera???, er málið svo alvarlegt, og svo framvegis.
En andstæðingur okkar er sameinaður. Og hann nær sínu fram í skjóli okkar klofnings. Og þar sem hann er betur vopnum búinn (peningar, fjölmiðlar, stjórnkerfið), þá sigrar hann vegna sundrungu okkar.
Og af hverju upplifum við ógnina svona mismunandi. Afleiðing hennar er ljós. Þetta er nákvæmlega sama málið og var í aðdraganda Nasismans á sínum tíma. Þar sem sumir sáu ógn, þar sáu aðrir bara eitthvað annað. Og það þurfti Hrun til að fólk tæki við sér.
En má líkja þessu saman???? Sumum finnst það fráleitt og vitna í útrýmingarbúðirnar, Nýfrjálshyggjan rekur engar slíkar. En ég er að benda á samsvaranir í aðdraganda tveggja Helstefna, þegar varað var við Nasismanum, þá voru engar útrýmingarbúðir, og engin heimsstyrjöld til komin, samt voru til menn sem sáu og skynjuðu ógnina, og þeir höfðu rétt fyrir sér þó ekki hefði neinn haft ímyndunarafl til að gera sér grein fyrir hve skelfileg hún yrði.
Sömu teikn eru núna, og engin veit hvað hryllingur bíður mankyns ef siðlaus græðgi setur leikreglurnar í stjórnmálum og viðskiptum.
En ég viðurkenni að mér er mjög i nöp við Nýfrjálshyggjuna og það er óþarfi hjá mér að gera ráð fyrir slíku hjá öðrum.
En allir hljóta að sjá að það á að gera fólkið í landinu ábyrga fyrir afleiðingum hennar, í stað þess að menn ráðist á rót vandans, og hendi græðgikerfinu sem skóp þennan vanda. Og ef við sættum okkur ekki við afleiðingarnar, þá berjumst við gegn þeim.
Og það er bara til ein leið að sigra stríð. Það er að standa saman og berjast gegn andstæðingi sínum með öllum tiltækum vopnum. Og það virðast ekki allir skynja, samanber "hik og spáhópurinn". Þess vegna klofnaði BH, menn sáu ekki að ICEsave var sú orrusta sem "betri heimur" lenti í. Það voru svo margir sem vildu taka aðra orrustu, en sú var ekki í boði. Óvinurinn réðst þarna fram, og honum var ekki mætt af fyllstu hörku.
Og ennþá dag í dag eru margir sem skilja ekki að það þurfi að mæta honum. Það vantar einhverja rödd sem nær til fólks, fær það til að standa saman, og verja það sem gerir okkur að þjóð. Samkennd og samúð, auk vilja til að hugsa vel um börnin okkar og foreldra. Sumum finnst bara allt í lagi að náunginn eigi bágt, bara ef hann sjálfur hafi það gott.
Ég vonaði að Ögmundur myndi skynja sinn vitjunartíma og leiða þjóð sína út úr þessari Kreppu. Það er ekki þannig að framtíðin sé slæm, þó við látum ekki kúga okkur. Reynsla Argentínu til dæmis sýnir það. Þar fékk fólk aftur reisn sína þegar það neitaði að þræla fyrir spákaupmenn og fjárbraskara. Og hvað æru varðar, þá byggir maður hana upp með réttum gjörðum, ekki með því að fórna velferð barna sinna og foreldra. Og ég hef margoft bent á að nú sé lag að "grænka", og byggja upp sjálfbært samfélags fólks, þar sem enginn er skilinn eftir út undan. Þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að skítur útrásarinnar loði við okkur áfram.
En kannski er áherslumunur okkar að ég hef beiska reynslu af frjálshyggjudrengjum, frá því í den, að mörgu leyti þeim sömu sem síðan urðu gerendur í Hruninu, og ég sá að ég myndi ekki gera neitt annað en að skemma sjálfan mig ef ég beindi heift minni að einstaklingum, ég sá að hugmyndafræðin var bölvaldurinn, og hef verið illa við hana síðan, svo vægt sé tekið til orða.
Eins er ég kannski smá argur við sjálfan mig, að hafa ekki þann sannfæringarkraft, að hafa ekki sannfært einn einasta mann um mína Sýn á vandann, og leiðina út úr honum. Ég veit það ekki. Kannski virka ég líka svona harður í debati, en ég er það ekki í raun. Nema þegar Nýfrjálshyggjan og afleiðingar hennar koma til tals.
En meiningin var ekki að persónugera eitt eða neitt, minn ritstíll er svona.
En ég ætla að reyna að koma einhverjum hugleiðingum á blað um það sem þarf að gera í næsta skrefi ICEsave deilunnar, og af hverju.
Síðan ætla ég að róast. Hef sagt þetta áður, en núna verður það að gerast, áður en allir heima hjá mér eru endalega orðnir vitlausir á mér.
Ætla að hvíla mig á vindmylluslag. En sá slagur var ekki hugsaður til að særa einn eða neinn.
Ef svo er þá biðst ég velvirðingar á því.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 1.12.2009 kl. 18:02
Blessaður Ómar minn. Ég gæti ekki verið meira sammála þér í öllum atriðum. Þú hefur engan sært held ég, ekki mig í það minnsta. Heldur hefur þú fengið mann til að hugsa og sjá oft málin frá öðru sjónarhorni, og það er nauðsynlegt. Eins og þú hef ég furðað mig á hve fljótt raddirnar þagna, rödd Ögmundar og Lilju t.a.m. Þegar þetta er ritað lítur út fyrir að orustan sé töpuð. Nú tekur við andspyrnufasinn þar sem við berjumst áfram að skæruliðasið.
Hvað getur sameinað okkur? Við erum sundruð eins og ég hef komið inná áður. Þessi sundrung eykur manni ekki bjartsýni eða vonir. Sundrungin er heldur ekki að auka almenningi vonir. Þegar neyðin er stærst þá er hjálpin næst segir einhvers staðar. Ég vona því að áður en langt um líður þá komi einhver fram sem sameini andstöðuna og ljái henni trúverðugleika og traust.
Kv, ari
Arinbjörn Kúld, 1.12.2009 kl. 18:52
Takk fyrir þetta Ari, vildi vera viss.
Ég tel að ég hafi náð utan um rökin af hverju við eigum að berjast á meðan einhver er uppistandandi. Og á þessi rök yrði hlustað strax á morgun, ef til dæmis Ögmundur mælti þau á almanna vettvangi, til dæmis á baráttufundi á Austurvelli.
En hvar er hann spyrjum við, og okkur setur greinilega báða hljóða, þegar ekkert svar berst. Hver þá???? Hver mun þá leiða þjóðina???? Andstaðan sem slík mun ekki gera það sjálfssprottin, en hvaða leiðtogaefni mun átta sig á straum tímans????
Og ég veit það ekki. Finnst fátt jákvætt í umræðunni, fyrst og fremst vegna þess að við í Andstöðunni náum ekki til að kveikja. Og enginn segir orð þegar bankar okkar eru gefnir. Fáir mæta á mótmælafundi, engin forysta sem leiðir.
Ég vonaði alltaf að konurnar, mæður og ömmur þessa lands, myndu ekki leifa köllunum að selja land barna sinna, en ég hafði svo rangt fyrir mér. Það nægði að nefna nafn Sjálfstæðisflokksins, og öll andstaða við stjórnarstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hvarf.
En samt eru sterkir undirliggjandi straumar. Til dæmis er fróðlegt að fylgjast með Axel og félögum hans í Fullveldissamtökunum. Hugmyndir um verndarafl gegn útburði er frábær, og gæti verið bolti sem kemur skriðunni af stað.
Svo gæti málmetandi fjölmiðlamaður staðið upp úr setti sínu, og sagt að hann nenni ekki lengur að láta alltaf sömu mennina ljúga í sig, lygarnar væru þær sömu og fyrir Hrun; "þetta reddast allt". Þetta gerðist til dæmis í Rúmeníu minnir mig, þó gæti verið um annað austantjaldsríki að ræða.
En á meðan ekkert kall kemur, þá ætla ég að grennast fyrir jólasteikina. Næ vonandi minni Herhvöt á morgun, eða þá hætti að reyna að forma hana, ef það tekst ekki.
Þú mátt alveg senda mér orð um hvernig þér lýst á, er hún að virka?
En sjáum til, ég reyni mitt besta allavega.
Kveðjur, Ómar.
Ómar Geirsson, 1.12.2009 kl. 22:18
Blessaður Ómar minn, jú þetta er að virka hjá þér, margir skoða síðuna þína og setja inn athugasemdir. Hún Jenný í Klettafjöllum nær einnig til margra (http://jennystefania.blog.is/) fáðu hana sem bloggvin ef hú er það ekki nú þegar. Hún gæti vísað á færslur þínar. Konur okkar eru hógværar en brátt munu þær rísa á afturlappirnar og þá kemur vonandi sameiningaraflið.
Svo er það facebook.com en þar sem fram mikil barátta og þar ég er mun virkari þar en á blogginu. Þú ættir að skoða það vel að opna þér aðgang. Þar er fullt af fólki að láta í sér heyra. Findi ég þig þar væri ég fljótur að "adda" þér eins og sagt er.
Verndaraflið gegn útburði er frábært og líklega verður hóað í þá fljótlega. Stofnun slíks átaks er æpandi dæmi um óréttlætið sem veður hér uppi.
Kv, ari
Arinbjörn Kúld, 1.12.2009 kl. 22:33
Blessaður Arinbjörn, er latur að koma mér að verki við það sem ég ætlaði mér að gera í dag. Þyrfti helst að geta skrifað heila bók um það sem ég þarf að segja í ekki svo mörgum orðum um Ögurstundina.
Ég þekki ágætlega til Klettaskáldsins hins nýja, kíki á hana í skorpum. En ég tók strax þá ákvörðum að biðja ekki um bloggvináttu, taldi að þeir kæmu sem væru tilbúnir að hugsa um hin "dýpri rök", og þið voruð nokkur sem komu strax. En eftir að stríð mitt við ICEsave og AGS (he, geri undantekningu sökum leti) hófst, þá er það svo fyndið að flestir bloggvinir mínir eru gamlir fjandvinir af hægri vængnum. Og það er allt í lagi, þeir fá þá skammt um illsku Nýfrjálshyggjunnar, sem er minn eini raunverulegur óvinur.
En ég held mig á blogginu, finnst ekki Feisið henta mínum tilgangi. Vissulega legg ég mikið upp úr að vera lesinn í dag, ég er nú einu sinni í stríði, en þó legg ég meira upp úr rökræðunum. Finna nýja fleti með samherjum, og vega og meta rök mín móti andstæðingum. Ég held til dæmis að við Runki höfum verið komnir í eitthvað tæp 40 innslög þegar við skildum staupasáttir, en ekki sammála, sem aldrei var tilgangurinn, og kvöddu hvorn annan með virktum.
Eins hafa pistlar þínir kveikt mjög í mér, mér hefur oft tekist best upp með að orða mínar hugsanir, þegar ég hef sett inn svona innslög, eins og hér að ofan. Og ég hef vísað í þau í einkasamtölum, þegar ég reyni að útskýra dýpri rök minnar baráttu.
Og innslögin gefa oft pistlunum mínum, sem þurfa ekki sem slíkir að vera góðir, aukna dýpt. Toni hefur til dæmis orðað margt mjög vel, sem mér finnst að fólk mætti lesa. Ef einhvern tímann verður stemming fyrir svona sjónarmiðum, þá hef ég oft hugsað að útbúa "Ómars best", og þar vega innslögin, bæði mín og annarra mjög þungt.
En kannski verður bara stríð og blóðug barátta án nokkurs dýpri tilgangs. Og gamla íhaldið verður sigurvegari þeirra átaka. Og við fáum ekki einu sinni tækifæri til að siðbæta það. En ég er ofboðslega hræddur við þær mannfórnir, sem sveitunginn þinn Sigurbjörg (að mig minnir) lýsti svo vel í Morgunblaðsgrein og eins í Kastljósviðtali, sem urðu í Finnlandi. Að þær verði hér líka. Sérstaklega urðu geðsjúkir og fatlaðir mjög illa úti, þeim var nánast hent út á guð og gaddinn, skelfilegt að slíkt hafi gerst.
Þetta voru mín fyrstu rök gegn ICEsave, jafnvel þó það væri allt rétt og satt, að einhver reglugerð kvæði á um að við ættum að borga, þá er ekki einfaldlega til peningur í það. Það er svo margt annað sem við þurfum sannarlega að borga. Eins er það með AGS lánin. Er traust á fjármálamarkaði meira virði en mannslíf????
Svona hefur Nýfrjálshyggjan gegnsýrt alla umræðu. Jafnvel heiðarlegasta baráttufólk, það tekur undir þessi sjónarmið, og spáir í hvernig þjóðin geti borgað alla þessa reikninga sem hún var aldrei spurð álits á, allt til að þóknast hinum nýja hjáguð, "traust á fjármálamarkaði". Þá er betra að vera fátækur í langan tíma en að vita að velmegun manns byggist á blóði okkar minnstu bræðra.
Og þess vegna þarf siðvæðingu, sumt einfaldlega má ekki.
En það er ekki margradda kór sem syngur þann söng, að sumt megi ekki.
En Steingrímur Joð söng hann í haust, og veitti mér mikinn innblástur, fannst hann bera af öðrum stjórnmálamönnum, svo og jú Ögmundur, sem þú veist að ég hef alltaf verið mjög hrifinn af.
En það þýðir ekki að grenja yfir þessu, ég hef ekki afl til að forða jarðarfarirnar.
En "ef ég ætti eina ósk, ég eina ósk myndi óska mér", þá væri hún í anda þess innslags sem þú sendir mér í gærkvöldi. Og Guð blessi pistlar mínir voru mitt framlag til þess að fólk skyldi það sem þyrfti að gera.
Og ég tel þá ennþá vera í fullu gildi, þó ég hefði reiknað með hraðari Hruni, en margir spáðu Hruninu fyrr, en það kom, og eins mun það verða með Kreppuna, hún mun koma af fullum þunga. Og þá er skuldahlutfallið fljótt að fara í 70-80% og mun leiða til algjörar upplausnar þjóðfélagsins ef AGS fær öllu ráðið. Því úr þeirri upplausn byggja þeir sín þjóðfélög, og sækja fyrirmyndir sínar í Dante.
En ég sem mína Ögurstund þeim til höfuðs.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 2.12.2009 kl. 12:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.