Land fáránleikans
1.4.2009 | 01:50
Það er ekki lognmollunni fyrir að fara í íslensku þjóðlífi. Reyndar blása vindar af þvílíkum krafti hvort sem litið er til náttúrunnar eða samfélagsins að það hálfa væri hellingur. Það væri að æra óstöðugan að tíunda það allt saman í þessari færslu og því ætla ég aðeins að nefna fátt. En fyrst langar mig að velta aðeins fyrir mér hug fólksins í landinu eins og ég hef upplifað hann síðustu daga.
Ég tók þá undarlegu og ekki undarlegu ákvörðun fyrir um 3-4 vikum að hella mér útí grasrótarstarf Borgarahreyfingarinnar á Akureyri og verð m.a.s. á lista hjá hreyfingunni á norðausturlandi. Ástæðan er sú að ég hef misst allt traust á þeim flokkum sem nú ráða Alþingi. Ég þarf ekki að útskýra af hverju, það má öllum sem lesið hafa blogg mitt vera ljóst. Lengi vel hafði ég þó traust og trú á VG eftir hrunið en eftir að vonin hvarf um björgun almennings þá hvarf það traust og von líka. Ég virði það þó og hef ekki skammast mikið út í núverandi stjórn enda tíminn naumur fram að kosningum og verkefnin ærin. En mér virðist sem VG og SF hafi lagt meiri rækt við fjármálafyrirtækin sbr. björgun Saga Capital og VBS en íslenskan almenning sem enn hefur enga leiðréttingu hlotið á landráðum bankana og eigenda þeirra þ.e. útrásartröllana. Rök Steingríms voru þau að með þessari björgun væru meiri líkur en minni að þau greiddu skuldir sínar. Í vissu tilliti er skynsemi í því en þá myndi maður ætla að það sama myndi gilda um aðra og þar á meðal okkur en svo er víst ekki. Þarna ræður AGS för sem metur fjármálafyrirtæki og endurreisn fjármálakerfisins æðri en allt annað.
En þetta var smá útúrdúr. Í síðustu viku stóðum við nokkur sem gengið hafa til liðs við Borgarahreyfinguna á Glerártorgi og söfnuðum meðmælendum fyrir framboðið en fjórflokkurinn hefur sett ýmsar skrítnar reglur til að hindra framboð nýrra flokka eða hreyfinga. Þar á meðal er sú regla að engin getið boðið fram nema safna meðmælum frá um 300-400 einstaklinga í hverju kjördæmi. Þetta kallar á mikla vinnu og erfiði. Ég í einfeldni minni átti von á eftir búsáhaldabyltinguna að þetta yrði létt verk og löðurmannlegt en svo var aldeilis ekki. Mér fannst eftirtektarvert hve margir voru neikvæðir og greinilega hvekktir á pólítíkinni, viðkvæðið var oft að það væri sama hvað þeir kysu, ekkert myndi breytast. Aðrir hreinlega tóku til fótanna og forðuðu sér. Ég gat ekki að því gert að velta því fyrir mér hvort fólk sæi enga von og stæði á sama? Ég hef einnig velt því fyrir mér hvernig hægt sé að kveikja vonina í huga fólks? Vonin sem fjórflokkarnir munu reyna kveikja í huga fólks eru gömlu lummurnar úr stefnuskrám þeirra með 370 milljóna styrk frá ríkinu sem þeir skömmtuðu sér sjálfir. Hvernig getur blönk hreyfing venjulegra íslendinga komið þeirri von sem þeir hafa sjálfir kveikt í brjósti sér og kviknaði í búsáhaldabyltingunni til bræðra sinnra og systra?
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að "Ganga hreint til verks" og "klára dæmið" eins og ÞKG sagði við Bjarna silfurskeið á landsfundi þeirra og trúarsamkomu um helgina. Ég hélt satt að segja að þeir væru búnir að því nú þegar og væru komnir í gott og verðskuldað frí! Samfylkingin ætlar í brúargerð með Degi B. yfir ófærur sem hún sjálf á drjúgan þátt í að skapa. Samfylkingin ætlar sem sagt að flytja í Borgartúnið í húsnæði vegagerðarinnar. Treystum við drukknu bílstjórunum sem óku fram af hengifluginu og neituðu að nota brýnar? Maður spyr sig?
En svona rétt í lokin fyrir þá sem þetta lesa: veltið aðeins fyrir ykkur hvað það er sem fær venjulegan launaþræl eins og mig til að standa upp, berja í borðið og segja nú er nóg komið og fara jafnvel í framboð fyrir hreyfingu eins og borgarahreyfinguna?
En vonandi fer ég að detta í bloggstuð bráðlega og henda inn fleiri vangaveltum án þess þó að ganga fram af fólki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Arinbjör - gangi þér og öllum frambjóðendum Borgarahreyfingarinnar vel og vona að málefni ykkar hristi vel upp í frambjóðendum fjórflokkanna.
Ég segi nú bara eins og er - ég lendi svo oft í því að skilja ekki Íslendinginn! Það gerði ég alls ekki síðustu árin eða áratug. Var alltaf í þrasi við litlu lögfræðingana og viðskiptafræðingana sem unnu með mér, um að þessi velferð væri gervi-velferð - reyndi árangurslaust að finna út orðið yfir það sem væri í þjóðfélaginu - en kallaði það ,,leynda verðbólgu". Vissi að sjálfsögðu að það væri alltof mikið fjármagn í umferð - miklu miklu meira en til var.
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 1.4.2009 kl. 02:28
Blessaður Arinbjörn.
Þú og þínir líkar eiga heiður skilið fyrir ósérhlífin störf ykkar í þjóðarhag.
En þú bjargar ekki óviljugum. Þetta gildir jafnt um alka sem kjósendur. Fólk verður að finna vandann brenna á sínu eigin skinni.
Er þá til einskis barist?
Mér finnst það ekki en þetta kostar mikla vinnu og þrek. Og trú á að maður sé að gera það rétta.
Svo koma kannski kraftaverkin, hver veit.
Hafið það sem best þarna fyrir norðan.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.4.2009 kl. 13:29
Baráttuviljinn hlýtur að skila sér þegar kosið verður, fólk vill breytingar. Ég hef trú á Borgarahreyfingunni. Það er verst hvað vonleysið er orðið mikið hjá fólki, það sér kannski tækifærið á breytingum til góðs fyrir kosningarnar.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.4.2009 kl. 15:59
Takk fyrir það Alma og þú varst ekki ein um að finnast góðærið undarlegt en við vorum jafnóðum kveðin í kútinn ef við voguðum okkur að efast örlítið.
Ómar ég vona svo sannarlegaað barátta okkar verði ekki til einskis. Við getum þá alla vega sagt við börnin okkar og barnabörn: við reyndum þó.
Jóna, vonleysið er það sem skín í gegn hjá mörgum og vantrú á að þau geti breytt einhverju. En meðan við reynum er von.
Arinbjörn Kúld, 1.4.2009 kl. 16:26
Sæll Ari ég held að almenningur sé orðinn skíthræddur við stjórnmálamenn og líti á þá sem glæpamenn.
Vantraustið sem spilltir valdhafa hafa skapað í samfélaginu er alvarlegasti glæpurinn.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.4.2009 kl. 23:52
Rétt Jakobína, það er einmitt sú tilfinning sem maður sér í andlitum fólks.
Arinbjörn Kúld, 2.4.2009 kl. 01:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.