Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Segjum fjórflokknum og fjármálaöflunum stríð á hendur

Ég hef að undaförnu blaðrað og bullað um nauðsyn byltingar á landinu. Sumir hafa réttilega gagnrýnt mig fyrir skort á hugmyndum á því hvað eigi að taka við. Ég hef fram að þessu ekki talið það nauðsynlegt enda sammála að ég held flestum um hvað þurfi að gera s.s. stjórnlagaþing, endurnýjun á Alþingi, rannsókn á hruninu, aðdragenda þess og ekki síst eftirleik, uppstokkun á skilanefndum og rannsókn á störfum þeirra, frystingu eigna grunaðra í fjármálakerfinu, lengingu á fyrningafresti, almennilegar úrbætur á lánakerfi landsmanna þ.e. leiðréttingu lána, niðurfellingu verðtryggingar, endurskoðun á bankaleynd, uppstokkun á kvótakerfinu og margt fleira.

Ég vil jafnvel ganga lengra í sumum málum. Eins og sívaxandi fjöldi íslendinga eru að átta sig á eru hagsmunir fjórflokksins og fjármálaaflana samofnir. Stjórnmálaflokkarnir hafa völdin í okkar umboði og þeirra hagur er að valdakerfið og kosningakerfið sé og verði óbreytt og þá skiptir engu hvaða flokkur á í hlut. Þessir sömu flokkar hafa á undanförnum árum fengið mikið fé frá fjármálaöflunum og margir einstaklingar innan þeirra líka. Þetta gera fjármálaöflin til að tryggja sér áhrif og völd innan flokkana. Þannig er það hagur fjármálaaflanna að kerfið sé og verði óbreytt og að útrásardólgarnir fái sitt aftur.

Ég er orðin sannfærður um að við þurfum að leggja flokkakerfið af og taka upp einstaklings/persónukjör hvort sem er á sveitarstjórnarstigi eða í kosningum til alþingis. Flokkakerfið kom okkur til andskotans og ömmu hans og því verðum við að leggja þetta gereyðingarafl niður. Við þurfum að fækka þingmönnum um helming eða meira, niður í 30 einstaklinga, 5 þingmenn á hvert kjördæmi. Forseti landsins á að fá sama hlutverk og forsætisráðherra. Hann á svo að ráða og/eða skipa sína ráðherra sem hafa ekki atkvæðisrétt á þingi en verða að fá þingið til að samþykkja sín mál. Þingmenn verða svo að berjast fyrir sínum málum og vinna með hver öðrum til að fá sín mál í gegn sem þá framkvæmdavaldið framfylgir þ.e. nýjum lögum. Kjörtímabil hvers þingmanns og forseta yrði óbreytt, 4 ár og engin mætti sitja lengur en 8 ár eða tvö kjörtímabil en mætti bjóða sig fram að nýju eftir 4 ár hlé.

Til að virkja þjóðina í mikilvægum málum þá verðum við að koma á og skapa meiri og virkari hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, láta þjóðina ráða. Það mun veita þingmönnum og ríkisstjórn miklu meira aðhald og aga.

Ég spyr enn og aftur: hafið þið virkilega trú á því að flokkarnir muni breyta hlutum til betra hér á landi?

Kveðja að norðan.


Byltingu?

Ég skrifaði í færslunni hér á undan að ég myndi í næstu færslum velta fyrir mér hvernig hægt væri að koma af stað byltingu í þessu samfélagi okkar. Svo ég sé alveg hreinskilin þá hef ég frekar óljósa hugmynd um hvernig slíkt væri hægt, hef þó hugsað mikið um það undanfarin misseri þegar mér varð ljóst að litlar sem engar breytingar yrðu á stjórnarfari í landinu og spillingin yrði áfram allsráðandi með blessun og samþykki fjórflokksins. En til að byrja með þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hver eða hverjir eru "óvinirnir." Hverjum er það í hag að hér verði óbreytt kerfi stjórnmála, fjármála, kosninga og valda? Svarið er fjórflokkurinn og fjármálakerfið sem enn lýtur valdi útrásardónana og leppa þeirra.

Það er fjórflokknum ótvírætt í hag að kosningakerfinu verði ekki breytt og því síður að koma á stjórnlagaþingi sem dregið getur úr valdi fjórflokksins. Við ættum að vita það öll af fenginni reynslu að þó svo flokkarnir deili innbyrgðis öðru hvoru þá breytir það engu um að sameiginlegir hagsmunir þeirra er óbreytt valdakerfi. Við vitum það einnig öll að flokkarnir, að VG undanskildum held ég, þáðu mikil fjárframlög frá fjármálakerfinu sem og einstaklingar innan þeirra. Margt er enn á huldu í þeim málum. Öllum má vera ljóst að fjármálakerfið, þrátt fyrir hrunið, vill engar breytingar sem heft gætu áhrif þess og áform um endurheimt gamla tímans sem sést best á dekri þess við fyrrum eigendur bankana og fyrirtækja þeirra. Nóg um það.

Ég hef aldrei tekið þátt í byltingu af neinu tagi nema búsáhaldabyltingunni sem þróaðist nokkurn vegin af sjálfu sér. Mótmælti á Akureyri og var jú á lista BH í norðausturkjördæmi. Hef enga reynslu af framkvæmd byltinga af því tagi sem virðist vera nauðsynleg. En hvernig er mögulegt að koma einhverju stóru af stað? Ýta á hnappinn eins og það var orðað við mig? Ekki gott að segja. En slíkur neisti sem kveikir bálið má ekki vera ofbeldiskenndur eða hafa í för með sér eyðileggingu af einhverju tagi.

Neistinn verður að vera táknrænn. Kannski atburður eins og þegar móðirinn var handtekin fyrir framan börn sín og færð til sýslumanns til fjárnáms. Eða uppgjöf einstaklings sem lýsir því yfir að hann/hún muni ekki sætta sig við óréttlætið og stökkbreytingu skulda lengur og fer t.d. í hungurverkfall. Nýjar upplýsingar um meiri háttar spillingu myndu ekki kveikja neistann, við erum orðin of samdauna spillingunni til þess. En hvað svo? Jú, atburður þessi eða yfirlýsing einstaklingsins myndi koma af stað óstöðvandi bylgju reiði um gervallt samfélagið. Fólk myndi streyma þúsundum saman á Austurvöll og úti á landi myndi fólk safnast saman á torgum og krefjast tafarlausra stjórnarskipta. En þá vandast málið! Slík staða yrði afar viðkvæm og lítið má bera út af til að sjóði upp úr. Slíkt yrði byltingu ekki til framdráttar. Þess vegna verður að vera einhver stjórn á atburðarrásinni. En hver eða hverjir? Ég veit það ekki en kannski ættu einhverjir að gera sig klára. Þessir einhverjir verða að vera vammlausir og heiðarlegir aðilar sem almenningur þekkir og hafa verið áberandi í umræðunni um breytingar og ótengdir fjórflokknum og útrásinni. Í næstu færslu mun ég skoða hvernig atburðarásin gæti mögulega orðið.

Annars hef ég ákveðnar efasemdir um ágæti þess að vera með þessar pælingar. Tilgangslaust kannski? Það er víst hægt að handtaka mann fyrir svona, að hvetja til uppreisnar gagnvart valdstjórninni eins og það er kallað í lögum. Kannski það yrði neistinn??? :-)

En svona í alvöru, sjáið þið það fyrir ykkur að fjórflokkurinn muni breyta samfélaginu til hins betra?

Kveðja að norðan.


Góðgerðasamfélagið Ísland

Ég ætla á næstu dögum eða vikum skrifa nokkrar færslur þar sem ég mun hvetja til byltingar á íslandi, ástæður þess að það er orðið nauðsynlegt og jafnvel hvernig eins fáránlegt og það kann að hljóma. Mér er orðið slétt sama hvernig eða hvaða móttökur þær munu fá, búin að pæla í þessu æði lengi en haldið þeim fyrir mig. Get fullyrt að það er ekki klikkaðra en hvað annað í þessu samfélagi okkar. En fyrst er gott að átta sig á þessu:

Ég er einn af þeim tugum þúsunda íslendinga sem furða sig á þeim gjörningum bankana sem eru að færa svokölluðum útrásarvíkingum fyrirtæki sín á nýjan leik, hvítþvegin, skuldlítil og til í tuskið. Þar til ég áttaði mig á því að ísland hefur aldrei verið rekið sem samfélag eða ríki þar sem hagsmunir borgarana/kjósenda hafa verið í fyrirrúmi. Ísland hefur ávallt frá stofnun lýðveldisins árið 1944 og líklega enn lengra aftur verið rekið sem góðgerðasamfélag með öfugum formerkjum. Hefðbundin tilgangur góðgerðarfélaga er að styrkja þá sem minna mega sín og þá sem lenda í hvers kyns hremmingum. Hið íslenska góðgerðasamfélag hefur á hinn bógin ávallt beint styrk sínum til þeirra sem betur mega sín og völdin hafa. Helmingaskiptaregla flokkana er gleggsta dæmið sem kristallaðist í svokallaðri sölu og einkavinavæðingu bankana og leiddi að lokum til falls og hruns hins íslenska samfélags. Landinu, fólki og tekjum þess var skipt á milli tveggja flokka á sínum tíma, sjálfsstæðisflokks og framsóknarflokks. Alþýðuflokkur og Alþýðbandalagið fengu að vera memm svona til að róa óróaseggina og fengu stöku sinnum að sitja í stjórn og skipa stöku embættismann.

Góðgerðir samfélagsins fólust í því að auðlindum og tekjum landsins var skipt á milli tveggja blokka: kolkrabbans svokallaða og smokkfisksins sem svo var kallaður. Flottar myndlíkingar. Kolkrabbin var veldi 14 fjölskyldna í Reykjavík sem átti og stýrði velflestum fyrirtækjum á Reykjavíkursvæðinu og gera enn. Smokkfiskurinn var hins vegar SÍS veldið sáluga, kaupfélögin sem landsbyggðin átti og rak. Stýrði þar með öllum viðskiptum og völdum á landsbyggðinni.

Aðild Íslands að EES samningum kallaði á breytingar á samfélaginu sem stuðla áttu að frjálsum viðskiptum og opnara aðgengi allra að hinum stóra markaði. Leiðin til helvítis er mörkuð góðum áformum og viðskiptablokkirnar sáu við þessum áfrormum og skiptu til að byrja með bankakerfinu á milli sín með aðstoð og blessun sjálfstæðisflokks og framsóknar.

Barátta hins venjulega íslendings fyrir mannsæmandi launum og velferð hefur verið við þessar tvær blokkir og ríkisvaldið sem þessar blokkir áttu og stýrðu. Margt hefur áunnist í þeirri áratuga baráttu en launahækkanir yfirleitt teknar til baka með gengisfellingum og skattahækkunum. Önnur réttindi svo skorin niður eða við nögl með "brýnum" niðurskurði. 

Í búsáhaldabyltingunni fæddist veik von um breytingar. Von um nýtt ísland og nýtt lýðræði osvfr. Okkur var lofað ýmsum betrum bótum og slíku. Fátt gengið eftir. Okkur má vera fullkomlega ljóst úr þessu að flokkarnir, bankarnir og útrásardólgarnir eru í fullu starfi og meira til við að endurheimta gamla ísland og færa öll völd, auð og áhrif til þeirra sem höfðu þau áður og hafa jafnvel aldrei misst. Gylfi Manússon, viðskiptaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra hafa bæði sagt að þau geti ekkert gert og muni ekki gera til að koma í veg fyrir endurheimt dólgana á sínum fyrirtækjum og þar með endurreisn gamla kerfisins. Þetta sé bara súrt og þau voni að dólgarnir stígi til hliðar. (Yea right!)

Eitt sem er mikilvægt að átta sig á er að hagsmunir stjónrmálaflokkana og viðskiptablokkana fara saman: að endurheimta og viðhalda gamla íslandi og því kerfi sem það byggðist á. Á þann eina hátt tryggir fjórflokkurinn og viðskiptablokkirnar útdeilingu verðmæta góðgerðasamfélagsins íslands til framtíðar. Þessir aðilar hafa engan áhuga á neinum breytingum í þá átt að færa aukin völd, áhrif eða auð til fólksins í landinu sem skert gæti ítök þeirra. Því síður að gera upp fortíðina þannig að hægt sé að byggja upp mannvænt samfélag þar sem hagsmunir íbúa og samfélags þeirra eru í fyrirrúmi. Það hugnast þeim ekki.

Fram til þessa hafa íslenskir kjósendur dansað með flokkunum og lagt blessun sína yfir góðgerðastarfsemi þeirra gagnvart viðskiptablokkunum og sjálfs þeirra. Afstaða kjósenda til flokkana hefur sömu einkenni og þeirra sem halda með fótboltaliðum og slíku. Sama hvað þá kjósa menn alltaf sömu flokkana og áður. Lýðræðisleg, opin og frjó umræða innan flokkana hefur aldrei tíðkast nema sem falleg orð á heimasíðum, bæklingum og stöku ræðu formannsefna. Allar tilraunir til annars eru kæfðar sbr. uppákomu fyrrum formanns sjálfsstæðisflokksins á síðasta landsfundi hans þar sem hann líkti sér við Jesú Krist og nú síðast flokksráðsfundi VG á Akureyri þar sem ekki var minnst einu orði á eitt mesta klúður íslandssögunnar, icesave. Samfylking og framsókn eru ekki hótinu skárri. Engin hugmyndafræðileg endurnýjun eða umræða, bara skellt fram gömlum og nýjum andlitum sem nátengd eru gamla kerfinu.

Hinn venjulegi íslenski kjósandi hefur aldrei haft nein áhrif innan flokkana. Hann er bara nytsamur sakleysingi í huga fjórflokksins. Hinn nytsami sakleysingi á að greiða fyrir risaafskriftir dólgana og framtíðarbitlinga og laun fjórflokksins. Hinn nytsami sakleysingi á að taka á sig eignaupptöku og risavaxna skuldabyrgði svo hægt sé að fjármagna hina nýju einkavæðingu bankana og einkavinavæðingu fjórflokksins. Hinn nytsami sakleysingi má búast við handtökum hvar sem er og hvenær sem er til lúkingar eignaupptöku, jafnvel fyrir framan börn sín. Búið er að gera fjárnám í framtíðartekjum hins nytsama sakleysings til áratuga með stökkbreytingu skulda. Hinn nytsami sakleysingi á aðeins eitt úrræði eftir: að efna til byltingar og taka völdin! Stór orð og jaðra jafnvel við brjálsemi! En er ekki staðan hér á landi klikkuð? Jú, hún er það. En þá spyr maður sig: hvernig getur hinn nytsami sakleysingi komið af stað byltingu? Í næstu bloggfærslum næstu daga eða vikur, fer eftir nennu, mun ég koma að því verði ekki búið að handtaka kallin fyrir þessa færslu :-)

Njótið lífsins!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband