Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Kanada why not?

Í fréttum stöðvar2 í hádeginu í dag kom fram að einhver Kanadamaður hefði skrifað grein í þarlent blað og viðrað þá hugmynd að Kanada keypti hið gjaldþrota Ísland. Með því væri hægt að slá margar flugur í einu höggi og færði hann fyrir því eftirfarandi rök:

  • Áhrifasvæði Kanada myndi margfaldast Ekki síst þar sem mikilvægi norðurhjarans mun aukast verulega á næstu áratugum
  • Stórar og rótgrónar íslendinganýlendur eru í Kanada sem myndi auðvelda Kanadabúum að aðlagast okkur
  • Ísland yrði skuldlaust
  • Tækjum upp Kanadadollar eða Kanada krónuna
  • Næg orka og auðlindir í hafinu (n.b. hann veit ekki að sjávarútvegurinn er á kúpunni og orkufyrirtækin illa stödd en við vitum það ekkert er það?)

Mér datt si sona í hug í gríni auðvitað að þetta væri kannski ekki svo galið þar sem allir virðast vilja gera eitthvað og þá helst taka upp annan gjaldmiðil eigi síðar en í gær og helst engan en samt taka upp dollar, norska krónu, evru, danska krónu, sænska krónu, nígerískan &%$#"()=%$& eða hvað sá eðal gjaldmiðill heitir, svissneskan franka, portúgalskan escudo eða bara allt annað en gúd óld króna . Hugsaði svo málið og fann enn fleiri rök fyrir sölu landsins til Kanada. Kúl!

  • Mannlífsflóran og bísness myndi inkrísast þar sem þá þyrfti að koma á fót regular áætlunarflugi to the new superpower
  • Þyrftum ekki að fara í ESB disscussinon sem engin vill tala við but .....
  • Myndum losna við að taka upp evru sem every boddy hates en vilja samt eiga shitload af
  • Myndum líklega get rid of núverandi boring stjórnmálaflokka
  • Við sem hér búum gætum flutt hvert any where whitin the new power in the north
  • Get rid of andsk.... seðlabankann og rednekkann fjármálaeftirlitið
  • Losnum við useless utanríkisráðuneytið og blood sucking ambassadors
  • And then at last Irwing Oil can open their petrol stadion and make some business and who knows who else will join them?

Er þetta ekki issjúið? Price tag á klettinn 25 miljarðar USD og málið dautt og við þessi 315 þúsund hræður skuldlausar og getum farið any where. Fokk hvað þetta er outstanding idea! Maður er bara all over the case dude! :-) Æi, er ekki allt í lagi að bulla sona einu sinni? Ég nenni ekki að vera alvarlegur í dag :-)

 


Gáfnafar bankastjórnenda

Ég hef velt því áður fyrir mér hvort greindarvísitala æði margra bankastjórnenda sé lægri en hjá meðal jóni. Ég er ekki frá því að svo sé samkvæmt þessari frétt. Svo mættum við innleiða vinnubrögð ekki ósvipuð og hjá Obama, nýjum forseta USA.
mbl.is Afpöntuðu einkaþotu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sátt og friður

Ég fékk nóg af kreppubulli í dag og nennti ekki að fylgjast með. Hlustaði samt á útvarpið á leið í vinnuna í kvöld. Þar var Björn Ingi, umdeildur framsóknarmaður ásamt konu frá hagsmunasamtökum heimilana. Mér skildist á Birni Inga að meginskilyrði stuðnings Framsóknar við nýju ríkisstjórnina fælist í tafarlausum aðgerðum til bjargar heimilum og fyrirtækjum. Tillögurnar felast í að fella niður hluta innlendra íbúðarlána með niðurfærslu aftur í tímann. Nota sömu aðferð við erlend íbúðarlán og breyta þeim svo í lán í krónum. Mér skildist að eitthvað svipað yrði gert fyrir fyrirtæki. Björn Ingi og konan frá hagsmunasamtökunum voru sammála og mér fannst undarlegt að heyra loks einhverja vera sammála. Framsókn er greinilega komin í bullandi kosningagír. Ég mun samt ekki gleyma þeirra þætti í spillingunni sem gerði þjóðina gjaldþrota og eyðilagði orðspor íslendinga í umheiminum.

Ég er auðvitað hlynntur aðgerðum af þessu tagi ekki síst þar sem engar sérreglur eiga að gilda um Jón eða séra Jón. Auðvitað á maður eftir að sjá nánari útfærslu en staðan er það alvarleg að það verður að grípa til aðgerða strax. Við verðum að ná einhverri sátt í samfélaginu til að skapa frið - að öðrum kosti getum við ekki tekist á við framtíðina, gert upp fortíðina við landráðamennina, við flokkakerfið og stjórnmálalífið. En svo er það auðvitað spurning hvort af þessu verður öllu saman?

Svo langar mig að geta þess svona í framhjáhlaupi að ég hef sagt mig úr VR!


Bændur og búvélar

Heyrði í bónda einum í Eyjafirði í dag. Hann hefur áhyggjur af framkomu banka og fjármögnunarfyrirtækja gangvart bændum sem setja þeim orðið úrslitakosti: Pay or die! Tekjur bænda duga ekki lengur fyrir afborgunum búvéla.

Bændur sem hafa endurnýjað tækjakost sinn á undanförnum árum m.a. með lánum sem hækkað hafa óstjórnlega og mér skildist að hjá mörgum bændum sé staðan sú að þeir geti ekki staðið við þær hækkanir. Sumir bændur hafa reynt að semja þannig að þeir fái að greiða af 1-2 vélum og reyna að standa þannig við einhvern hluta samningsins og halda einhverjum tækjakosti eftir en lánveitandinn er ósveigjanlegur og heimtar allt. Allt bendir því til að bændur munu margir hverjir missa stóran hluta tækja sinna á næstu vikum og mánuðum.

Hvað þýðir þetta fyrir okkur öll? Jú þetta þýðir einfaldlega að tækjalaus bóndi á erfitt með að sinna sínu búi og þ.a.l. framleiða nokkuð af þeim matvörum sem okkur eru svo nauðsynleg. Það er því raunveruleg hætta á því að næsta vetur gæti borið á skorti á íslenskum landbúnaðarvörum. Hversu útbreidd þessi staða er hjá íslenskum bændum veit ég ekki en það væri afar gagnlegt að heyra í fleiri bændum og eða samtökum þeirra.


KB-banki

Horfði á Kastljós áðan en þar kom fram að á síðustu dögum Kaupþings-banka ef ég náði því rétt þá var "lánað" úr bankanum rétt um 280 milljarðar króna. Lánin fóru víst til ýmissa hátt metna kaupsýsluhéðna. Ýmis félög í skatta- og undanskotaeyjum sem liggja utan alfararleiðar voru notuð í þessum tilgangi. Mér flaug svona í hug að "lánsupphæðin" væri skv Seðlabanka Íslands rétt um 13 milljörðum lægri en lán AGS til Íslands til að rétta af bankana en AGs lánar okkur um 293 milljarða m/v gengi 20 nóv. 2008 Langaði svona aðeins að koma þessu lítilræði að.


Hvernig ætlum við að borga þetta?

Samkvæmt þessari frétt í Times online þá erum við að fá lánað meira en 10 milljarðar dollara frá AGS og fleiri þjóðum. Það er helmingi meira en sagt var í okt-nóv í fyrra. Einhverra hluta vegna trúi ég erlendum fjölmiðlum betur en íslenskum og það sama má segja um íslensk stjórnvöld. Það er eitthvað í gangi sem við fáum ekki að vita. Auk þess er þarna minnst á hækkandi reikning frá sparisjóðseigendum víða um Evrópu sem töpuðu fé sínu hjá íslensku bönkunum.

Hér er málsgreinin, feitletrun mín: "The new Government faces a daunting task, including the repayment of a $10 billion (£7.2 billion) bailout loan from the International Monetary Fund and foreign governments, and a bill running into billions of dollars to repay former savers with collapsed Icelandic banks — among them thousands of Britons who took advantage of sky-high savings rates"

Maður spyr sig: hvernig getum við greitt þetta til baka og á hve löngum tíma?


mbl.is Ísland í sviðsljósi erlendra fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfangasigur eða hvað?

Jæja, þá er stjórnin farin frá. Ég nenni ekki að tjá mig um það sem ISG og GHH sögðu í fréttum, tímasóun. Getum við mótmælendur eignað okkur þann atburð eftir linnulausan barning á stjórnvöldum eða var þetta óhjákvæmilegt eftir hrunið hvort sem við mótmæltum eða ekki? Einhvern vegin finnst mér að eftir atburði sem hrunið og aðdraganda þess hefðu kröftug mótmæli og uppstokkun í stjórnkerfinu verið jafn óhjákvæmileg og að nótt fylgi degi. Á þessum degi held ég að óhætt sé að fullyrða að nú er framtíðin í okkar höndum, örlög þjóðarinnar munu ráðast á næstu vikum og mánuðum. Við munum þurfa spyrja okkur erfiðra spurninga, (kannski ekki svo erfiðra), viljum við að núverandi flokkar haldi áfram að véla um framtíð okkar? Hreinsum við út úr þeim með fjölda inngöngu í þá og storkum núverandi forystu? Eða stofnum við nýja flokka og sköpum þannig nýtt ísland?

Annars er dagurinn í dag hér fyrir norðan táknrænn fyrir framtíðina, nú loks sér til sólar, hún skín glatt, umhverfið hvítt og óflekkað beini maður sjónum sínum til fjalla. Ég hef ekki séð sólina held ég siðan í fyrra. Nú er 25 janúar og mér líður eins og sólin sé að segja mér að nú muni birta til í íslensku samfélagi þegar fólkið fær völdin í sínar hendur í næstu kosningum. Verður maður ekki trúa því?


Eitt skref af mörgum

Viðskiptaráðherra sagði af sér í morgun, forstjóri FME fer og stjórn FME einnig. Þá er að bíða eftir því að ríkisstjórnin ásamt seðlabankastjórum og stjórn fjúki líka. Mótmælin eru að virka. Við þurfum að bæta því við mótmælin að útrásartröllin verði handtekin og sótt til saka fyrir t.a.m. fjársvik, umboðssvik, brot á lögum um fjármálafyrirtæki og síðast en ekki síst landráð. Eigur þeirra frystar og svo nýttar til að greiða skuldir þær sem þau hafa ákveðið að við ættum að greiða. VIÐ GLEYMUM EKKI!

Það er löng leið framundan. Hún verður mörkuð mörgum skrefum, sumum sársaukafullum og sum nett tipl milli þúfna og polla. Samt ferð sem við verðum að fara. Leiðin til nýs lýðveldis þar sem hagur þjóðarinnar er í fyrsta sæti. Lýðveldi þar sem virðing, réttlæti og sanngirni eru leiðarljós þjóðarinnar.


Mótmælin á Akureyri

Ég fór í dag á mótmælin á Akureyri ásamt 17 ára dóttur minni sem stendur sko ekki á sama. Við fórum vopnuð appelsínugulum borðum, makintosdós, 2 sleifum og einni stálskál sem ég nappaði úr eldhúsinu, skálin sú hefur nokkuð hátt. Við áttum eina 22 borða afgangs sem ruku út. Þetta voru flott mótmæli, fremst fóru dráttarvélar nokkura bænda úr Eyjafirði en þeir hafa greinilega fengið nóg. Ræðumenn voru flottir, ræða bóndans, Guðmundar Egils Eyjólfssonar, var mögnuð en í henni kom fram að meira en 40% mjólkurbúa eru á ystu nöf vegna hækkana lána, sauðfjárbændur eru einnig illa farnir og matvælaöryggi þjóðarinnar er ógnað af þeim sökum sem og annara. Ræða hans verður birt á bloggi Rakelar fljótlega. (sjá hér)

Embla Eir Oddsdóttir var annar ræðumaður dagsins. Hún titlar sig: íslenska konu og flott var hún, bæði konan sjálf og ræða hennar. Líklega er tími kvenna komin á íslandi því þær hafa sig mjög frammi í bloggheimum og í mótmælunum sem nú skekja landið. Engin furða því öllum er verulega misboðið og óþarft að rekja það hér og nú. Mig langar að nefna nokkar:

Lára Hanna,

Jakobína Ingun,

Heiða B,

Rakel Sig,

Ólína Þ.

Katrín Snæhólm

og margar fleiri sem koma nú fram og segja sína meiningu, og það er vissara fyrir okkur að hlusta. Nær örugglega gleymi ég einhverjum konum í þessari upptalningu og biðst ég velvirðingar á því.

Eftir fréttir kvöldins er ég nokkuð sannfærður um að stjórnin muni ekki segja af sér. Þau álíta sig greinilega eitthvað svo ómissandi. ISG virðist vera við sama heygarðshornið þrátt fyrir skýran vilja flokksmanna. Merkilegt hvað formaður flokks getur svínbeygt heilan stjórnmálaflokk.Þegar maður er á svona mótmælum, heyrir og sér mótmælin í höfuðborginni, heyrir og finnur hjartslátt þjóðarinnar og vilja þá skilur maður ekki hvernig hægt er að hunsa það algjörlega. En fari svo að stjórnin neiti að víkja þá "so be it" og mótmælin munu líklega harðna þá verulega og þeim fjölga. En ekki viljum við fá aðra "kristalsnótt" eins á aðfararnótt miðvikudags er það? Jæja, þetta er svona meinlaust í kvöld hjá mér enda fékk ég mér saltfisk í kvöldmat, hann róar huga og sál. 


Geiri Brúni

það er að segja Gordon Brown sagði í dag að líklega færi best á því að þjóðir heims sem berðust nú við kreppuna ættu að snúa bökum saman til að kveða hana í kútinn. Ætli hann sjái þá sóma sinn í því að biðja íslensku þjóðina afsökunar og útskýra fyrir þjóðinni af hverju stjórn hans tók þessa ákvörðun.

Líklega er hann skelfingu lostin yfir þeim mjög svo raunhæfa möguleika að stjórn hans neyðist til að taka bankakerfið yfir til að fara ekki sömu leið og við eða þá AÐ neyðast til að fara sömu leið. En síðustu daga hafa ýmsir hagfræðingar gefið í skyn að svo gæti vel farið.

Ég sagði víst í færslu um daginn að líklega myndu bretar ná sér fljótt í ljósi stærðar hagkerfisins. Nú ætla ég að gera svolítið sem íslenskir stjórnmálamenn kunna ekki og það er að ÉTA það ofan í mig og taka þau orð til baka strax EF bretar fara á hausinn. Svona smá varnagli. :-)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband