Krónan okkar - alheimskróna?
1.11.2009 | 10:21
Ég verða að viðurkenna það að ég skil ekki þessa útlendinga sem tala illa um krónuna okkar. Annað eins hagstjórnartæki þekkist ekki í hinum stóra alheimi. Hún fellur um 100% á einu ári gagnvart öðrum lélegri gjaldmiðlum til mikilla hagsbóta fyrir útflutningin. Krónan tryggir það að launahækkanir ná aldrei tilgangi sínum og því er hægt að leggja niður ýmis óþarfa hagsmunasamtök sem aftur myndi spara mikla fjármuni. Bara spurning um tíma hvenær við stígum það skref.
Krónan stuðlar að minni innflutningi sem aftur styrkir innlenda framleiðslu og gerir okkur því sjálfbærri. Með því komumst við hjá því að styrkja og auka atvinnu hjá þessum útlendingum sem tala illa um okkur og krónuna okkar.
Það besta við krónuna okkar er hin fræga verðtrygging sem gulltryggir verðmæti hennar þ.e. verðgildi hennar er ávalt í hæstu hæðum til mikilla hagsbóta fyrir fjármálafyrirtæki og lánveitendur. Verðtrygging sér til þess að þeir sem lána fé fá höfuðstól lánanna margfaldan til baka, langt umfram þá sem lána í löndum þessara útlendinga í prumpgjaldmiðlum eins og evru, dollar og pundum. Verðtryggingin sér til þess að heimskir lántakendur sjá alrei lækkun á höfuðstól lánsins, sama hvað þeir rembast við að greiða lánið niður og eru í skilum. Þess vegna er ég ekki að fatta þessa útlendinga. Aular!
Krónan okkar er jafnvel sjaldgæfari en demantur og því ættum við að selja hana sem tækifærisgjafir erlendis, sem trúlofunar- og giftingarskart fyrir þennan almenning þarna úti, krúnudjásn fyrir liðið með bláa blóðið og loks sem mont- og stadusgjafir fyrir fræga, fína og fallega fólkið. Þarna liggja gríðarleg tækifæri. Við ættum kannski að láta útrásarvíkingana okkar góðu vita af þessum tækifærum?
Hmm, eða ættum við kannski bara að halda henni fyrir okkur og verða enn ógisslega ríkari með krónunni okkar? Segja engum frá dásemdum hennar? En væri það ekki pínu eigingjarnt?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þótt krónan sé pínu lasin þessa dagana hefi ég fulla trú á að hún læknist aftur þegar við finnum réttu lyfin.
Offari, 1.11.2009 kl. 10:44
Þótt færslan sé í léttur dúr þá leyfi ég mér 3 litlar athugasemdir:
1 - "Hún fellur um 100% á einu ári ..."
Enginn gjaldmiðill getur fallið um 100% nema með því að þurrkast út. Ef þú samþykkir 100% launalækkun, hvað færðu þá útborgað?
2 - "Krónan tryggir að launahækkanir ná aldrei tilgangi sínum ..."
Það er verðbólgan sem rýrir kaupmátt en ekki gjaldmiðillinn. Verðbólga á rætur sínar í hagstjórn en ekki því hvort það standi króna, dollar eða eitthvað annað á seðlunum.
3- "Það besta við krónuna okkar er hin fræga verðtrygging ..."
Verðtrygging er pólitísk ákvörðun, fyrst tekin með Ólafslögum 1979. Krónan er bara gjaldmiðill og hefur ekki atkvæðisrétt á alþingi.
Hvort sem okkur líkar betur eða verr verður íslenska krónan okkar gjaldmiðill næstu árin/áratugina. Vonum því að þeir sem fara með stjórn peningamála á komandi árum vinni vel. En ekki að þeir stjórni illa og kenni svo krónunni um klúðrið eins og lengi hefur tíðkast.
Haraldur Hansson, 1.11.2009 kl. 11:43
Takk fyrir innlitið drengir. Mér er heiður að því.
Ég vona innilega að krónan okkar braggist. Það er satt og rétt að krónan ein og sér er alsaklaus, það eru mennirnir og óstjórn þeirra sem fara illa með hana. Tilvist hennar aftur á mót gerir mönnum kleift að rugla þetta með hana og þá hlýtur maður að velta ýmsu fyrir sér er það ekki?
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 1.11.2009 kl. 13:35
Blessaður Arinbjörn.
Innilega sammála því að ef hugurinn fær ekki að fljóta og hugsanir ekki að orðast, þá staðnar umræðan í meðalmennsku flatneskjunnar.
Ég held að ekki sé hægt að deila um að glæpur var framinn og fórnarlömbin voru mörg, heil þjóð. Og á vettvangi glæpsins liggja fyrir margar vísbendingar um sekt hinna ýmsu aðila. Var það smiðurinn??? Var það bakarinn????
Reynslan kennir að oft hefur bakarinn verið hengdur fyrir smiðinn. En fortíð sem slík segir ekkert um núið, kannski er smiðurinn saklaus. En ég tel ekki, hann framdi glæpinn, þó bakarinn hafi verið áhrifavaldur í aðdraganda hans. En vissulega er þetta bara mín skoðun.
En enginn gjaldmiðill þolir gegndarlausa óstjórn, að detta til dæmis í hug að starta Kárahnjúkahörmungunum á tímum þar sem allir framleiðsluþættir voru því sem næst fullnýttir, það var óskiljanleg ákvörðun. Og hvernig datt mönnum í hug að það væri endalaust hægt að safna erlendum skuldum???
Og engin þjóð í skuldakreppu þolir verðtryggingu skulda. Það var til dæmis stóri lærdómur Bandaríkjamanna í Kreppunni miklu, þegar þeir klipptu á gullfótinn. Og verðtryggingin er mannannaverk, ekki krónunnar. Krónan er jú ekki lifandi vera sem setur lög og reglur, en ágætis blóraböggull eins og aðrir sem ekki geta svarað fyrir sig.
Og kjaraskerðing fjöldans er illskárri kostur en sú fátækt sem fjöldaatvinnuleysi skapar.
En krónan er enginn engill, það eitt er víst.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.11.2009 kl. 23:08
Sæll Arinbjörn
Léttur og góður pistill hjá þér.
Haraldur.
Þetta er stærðfræðilega rétt hjá með að krónan getur ekki fallið um 100%. Það er samt málhefð að tala um að krónan hafi fallið um 10% eða 20% og þá er átt við að erlendur gjaldeyrir hafi hækkað um 10% eða 20%.
Ef við förum nú að tala stærðfræðilega "rétt" um þessa miklu gengisfellingu og tölum um að gengið hafi fallið um 50% þá gefur það ekki rétta mynd af umfangi þessarar gengisfellingar miðaða við aðrar gengisfellingar síðustu 50 ár.
Ég vil því halda mér við málhefðina og segja eins og Arinbjörn að hér hafi orðið 100% gengisfelling.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 1.11.2009 kl. 23:45
Takk fyrir innlitið Ómar og Friðrik.
Það sem ég var aðallega að benda á og er meginkjarnin í þessum pælingum var og er hvernig menn nota krónuna til að misþyrma almenningi í því sem kallað er "hagstjórn." Krónan sjálf ein og sér verður ekki hættuleg fyrr en misvitrir menn nota hana sem verkfæri til að halda niðri lífskjörum. Það er eins með byssur, byssan sjálf verður ekki hættuleg fyrr en homo sapiens heldur á henni og miðar á annan homo sapiens.
Hinn punkturinn er sá að þegar eitthvað verkfæri er orðið hættulegt þá annað hvort fjarlægja menn verkfærið sjálft eða þá sem það höndla. Því er spurningin sú: Hvað gerum við? Losum við okkur við þá sem misnota verkfærið eða hendum við verkfærinu og fáum annað í staðin sem ekki er hægt að nota til að misþyrma almenningi?
Tja, hvort viljum?
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 2.11.2009 kl. 08:53
Og "það er efinn" sagði Helgi Hálfdánar fyrir hönd Hamlets.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.11.2009 kl. 13:41
Komum í veg fyrir að Kaupþing gefi Jóns Ásgeiri eftir, tugi milljarða skuldir
Kristbjörn Árnason, 2.11.2009 kl. 21:51
Mælstu manna heilastur Kristbjörn.
Það má ekki gefast upp fyrir gamla Íslandi. Annars hafa allar hörmungarnar verið til einskis og nýjar yfirvofandi, og þá fyrr en seinna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.11.2009 kl. 19:24
Drengir, það verður stríð á landinu ef þetta gengur eftir. Og ég mun taka þátt í því.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 4.11.2009 kl. 02:47
Hann má alls ekki, alls ekki fá skuldir niðurfelldar. Það er orðið óþolandi að hafa þennan strák og hans risaveldi í öllum bönkum og skúmaskotum landsins og ryksugandi peningana OKKAR úr bönkum landsins, núna ríkisbönkum, og stýrandi öllu. Það ætti að banna hann í allri stjórn fyrirtækja í landinu.
ElleE (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 11:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.