Traust

Við hrunið síðastliðið haust gufaði upp traust fólks á bankakerfinu, síðar meir á stjórnmálamönnum og stjórnkerfinu í heild sinni. Búsáhaldabyltingin gerði kröfu um nýjar kosningar sem gengu eftir sem í sjálfu sér voru stórtíðindi. Borgararhreyfingin var svo stofnuð í aðdraganda kosningana við mikin tímaskort. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að kynnast fullt af nýju fólki þegar ég ákvað að taka fullan þátt í kosningabaráttunni hér á Akureyri fyrir Borgarahreyfinguna. Fólki sem var og er einlægt, heiðarlegt og hafði hugsjónir. Mér leist afar vel á frambjóðendur í þeim kjördæmum sem höfðu einhverja von um að ná inn frambjóðendum þ.e. í Reykjavík og suðurlandi. Ég hélt í einfeldni minni að nú loks gæti maður lagt traust sitt á heiðarlega og einlæga einstaklinga sem höfðu það eitt að leiðarljósi að vinna þjóðinni gagn og hafa hag þjóðarinnar í fyrsta, öðru og þriðja sæti.

Borgarahreyfingin náði inn 4 þingmönnum, tæplega 14 þúsund manns gáfu hreyfingunni dýrmætt atkvæði sitt. Það var stór og sætur sigur og gaf manni þá von að rofa færi til í vantraustsþokunni sem allt umlykur þessa mánuðina og að þingmenn Borgarahreyfingarinnar færu að hreyfa við mjög svo spilltu kerfi. Engin þessara vona gekk eftir. Ein af vonarstjörnum hreyfingarinnar sem kosin var á þing gekk fljótlega úr þingflokknum og gaf þá skýringu að ekki væri hægt að vinna með hinum þremur. Í dag hættu svo hinir þrír í Borgarahreyfingunni í kjölfar landsfundarins um síðustu helgi og eftir erfiðar deilur við félaga sína í hreyfingunni sem eru með öllu óskiljanlegar á tímum sem þessum, ég leit á þær sem eðlilega vaxtarverki og taldi auðvelt að ná sáttum. Ég ætla ekki að magna upp þessar deilur eða tjá mig um þær, nóg er nú samt. Það sem mig svíður sárast er að þingmenn Borgarahreyfingarinnar, allir sem einn hafa hunsað vilja kjósenda, vilja og hugsjónir hreyfingarinnar sem og félaga sína í hreyfingunni með úrsögn sinni. Með því bregðast þeir trausti kjósenda sinna og félaga sinna og setja þeir sig á sama stall og aðrir þeir stjórnmálamenn sem brugðust þjóð sinni á ögurstundu.

Kannski er þetta eðlilegt, að menn kikni undan þeirri athygli og ábyrgð sem á þá er lögð á þessum tímum. Samt sem áður skyldi maður telja að nýjir þingmenn nýrrar hreyfingar myndu leggja sig alla fram um að halda friðinn innan hreyfingarinnar og vinna stefnu hennar og hugsjónum allt það brautargegni sem þeir gætu, svo mikið er í húfi. Hvað um það þá er draumur minn og hugsjón um nýtt og betra ísland óðum að hverfa í kjölfar þessara atburða. Ég reikna með að slíkt eigi við um marga aðra. Þessi þróun kemur sér hvað best fyrir hinn gamla fjórflokk og einhver sagði um daginn að "líklega hefðu aldrei jafnfáir haft jafnmikil áhrif á langlífi fjórflokksins." Þar með verðum við áfram ofurseld valdi fjórflokksins og samtryggingu flokkana og vonin um nýtt og betra ísland er óðum að fjara út.

Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Ekki veit ég hvort það sé ljós í myrkrinu.  En ég veit að núverandi vandi er mun stærri en við sem einstaklingar.  Og hann snertir okkur alla.  Og eins er það óvíst hvort það dugi til þó allir leggist á sömu árina og reyni að róa í takt gegn straumi Helreiðarinnar.  

En það er  í eðli okkar sem manneskju að láta ekki drekkja okkur baráttulaust.  Þess vegna mun eitthvað skapast út úr glundroðanum sem verður nothæft í baráttunni.  Það mun gerast þegar nógu margir sjá að vandinn er stærri en þeirra eigið egó.  Og ég held að þetta sé löngu hætt að snúast um fjórflokkinn.  Heldur hvort menn séu með eða móti framtíðinni.  

Og það er eins með þetta eins og neyð nöktu konunnar, fólk neyðist til að starfa saman.  Nakta konan lærði að spinna og þar með var hennar neyð úr sögunni.  Lærir Andstaðan þau vinnubrögð sem duga til að fella þursa tortímingarinnar???

Veit ekki en Pollyanna hefði sagt að úr rústum deilna má læra sitthvað gagnlegt sem gæti nýst til góðra verka þegar herhvötin hljómar.  

Ég veit það ekki, ég er hóflega bjartsýnn.  Tel að þeir sem hafi góða heilsu geti sigrað heiminn.  Ætla þess vegna í tiltekt í mínum eigin ranni.  Ég held að það sé ekki eftir neinu að bíða þegar kemur fram á haustið.  Kannski getum við gömlu mennirnir lagt þá eitthvað jákvætt af mörkum.  Það er allavega huggun að Draumurinn um eitthvað Nýtt og Betra, er ekki eitthvað sem er háð okkur sem slíkum.  Draumurinn skrifast með stóru D því hann er sammannlegur og lifir því á meðan mannsandinn lifir.  

Og hvað mig varðar þá er ég alltaf farinn að sjá það betur og betur að það er ekkert val að láta aðra um Drauminn, Draumurinn er stærri en það að það sé hægt að horfa í hina áttina þegar maður er upptekinn af sínum eigin vanda.  Manni finnst að það litla sem maður geti gert, ekki vera nóg, en hver segir að það geti ekki verið meira???  Og hver segir að lítið geti ekki verið nóg???  

Það reynir allavega ekki á það ef maður reynir ekki neitt.  

Heyrumst við fyrsta tækifæri.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.9.2009 kl. 23:59

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Mikið rétt Ómar minn. Líklega þurfum við að ganga í gegnum þetta til að þroskast í rétta átt. Líta á þetta sem vaxtarverki fremur en vonlausa baráttu. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að uppbyggingin geti ekki hafist fyrr en allt er komið í kaldakol og þjóðin verði þá fyrst tilbúin til að takast á við verkefnin sem framundan eru.

kv, ari

Arinbjörn Kúld, 25.9.2009 kl. 09:25

3 Smámynd: Offari

Sæll Arinbjörn mér finnst Borgarahreyfingin hafa staðið vaktina nokkuð vel þótt ekkert hafi áunnist. Hvað varðar úrsögn þessara þriggja skil ég vel afstöðu þeirra.

Samkvæmt því sem mér hefur skilst var hreyfingin að breytast í flokk sem átti að stjórnast af flokkseigendum. Þar fannst þessum þrem að markmið hreyfingarinar væri að fara út fyrir það sem þau voru kosin fyrir.

Úrsögnin var óheppileg því klofningur drepur alltaf vonina. Markmið hreyfingarinar er að koma á nýju kosningakerfi og hætta svo. Það hentar ekki miðstírðum flokki.

Offari, 29.9.2009 kl. 18:13

4 identicon

Góð grein.

Valsól (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband