Sorrý Stína
13.2.2009 | 22:53
Ég hef varla nennu né geð í mér til að blogga eitthvað þessa daganna. Mér finnst umræðan og fréttirnar í þjóðfélaginu eitthvað svo algerlega galnar. Vilhjámur Egilsson segir að tilvonandi eignarhaldsfélag sem sjá á um stærstu fyrirtækin sem eru í vandræðum kalli á spillingu! Hvar hefur maðurinn eiginlega verið? Mig langar að öskra á manninn. Auk þess vill hann að bankarnir verði einkavæddir sem allra fyrst! Sorrý Vilhjálmur við höfum afar slæma reynslu af einkavæðingu banka. Næst þegar það verður gert þá verður það ekki á þinn hátt, takk fyrir. Ég hef mínar hugmyndir um væntanlega einkavæðingu banka sem verður vonandi ekki fyrr en eftir 2-3 ár og set þær fram þegar sá tími kemur.
Ólafur Ólafsson útrásartröll og nágrannaskelfir gaf Rauða Krossinum 20 millur í gær. Ég er félagi í RKÍ, fyrrum formaður Akranesdeildar og hafnaði aldrei styrkjum né umsóknum um styrki. Ég lagði til hliðar allar stjórnmálaskoðanir og fordóma um náungann þegar slíkt kom á borð stjórnarinnar. M.a.s. þegar Árni nokkur Johnsen sem þá var fangi á Kvíabryggju leitaði til Rauða Krossins á Vesturlandi þá urðum við í svæðisráði sammála um að láta hann og samfanga hans ekki gjalda fortíðar hans og styrktum kaup fangelsins á nýjum dýnum handa föngum á Kvíabryggju. Við hlutum nokkra gagnrýni vegna þessa. Ólafur Ólafsson var einhvern tíma í stjórn RKÍ í kringum aldamótin síðustu ef ég man rétt. En nú segi ég, Ólafur farðu með þetta illa fengna fé þitt til fjármálaráðherra íslands sem fyrsta hluta af ránsfeng þínum sem þú ætlar að skila til þjóðarinnar og biðjast afsökunar. Við RKÍ segi ég, ef þið takið við þessum blóðpeningum þá segi ég mig úr RKÍ.
Einhver ríkur rússneskur útlagi í London sagði í vikunni að ísland hefði verið notað til peningaþvættis að undirlægi Pútíns og nokkura svokallaðra ólígarka. Ljótt til þess að vita. Hafandi í huga skyndileg auðæfi sumra í þjóðfélaginu og vangaveltur um hvernig þetta gæti gerst svo snögglega þá er þetta ekki svo fjarlægur möguleiki. Gunnar Tómasson hagfræðingur lýsir því á eyjunni hjá Agli hvernig svona gengur fyrir sig. Ég er ekki dómbær á hvort þetta sé rétt eður ei. En hafi landi okkar verið notað sem þvottahús fyrir blóðpeninga frá Rússlandi þá eru þessir íslensku menn sem tóku þátt í því hinir verstu níðingar. Ég trúi ekki öðru en að einhvers staðar í Evrópu hafi einhverjir tekið sig saman og hafi hafið rannsókn á málinu. Einhvers staðar er gagnasöfnun hafin enda hrun íslands níunda undur veraldar og það hlýtur að vekja undrun og forvitni einhverra.
Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn hefur nú öll tök á íslensku þjóðfélagi. Við hverju bjóst fólk? Auðvitað ræður hann stefnunni í efnahagsmálum. Við misstum okkar efnahagslega sjálfstæði í hruninu, hvenær ætlar fólk að fatta það? Og með efnahagslegu sjálfstæði þá fór svo margt annað. Sjóðurinn þarf að leggja blessun sína yfir væntanlegt frumvarp um nýjan seðlabanka. Meðal annars leggur hann áherslu á að ákvæði um brottvikningu verði ákveðnara svo hægt verði að reka næsta Davíð Oddson. Einn af flokkunum reynir hvað hann getur til að tefja málið hvað sem raular og tautar. Já, svo er nýji landstjórinn frá AGS væntanlegur í byrjun Mars.
Útflutningráð ætlar að setja af stað rannsókn á því hvernig í Guðs nafni getur staðið á því að útlendingar haldi að landið sé gjaldþrota og það þrátt fyrir að sjálfstæðisflokkurinn haldi hinu gagnstæða fram? Hvernig dettur þessum heimsku útlendingum að hafa aðra skoðun en flokkurinn? Hefur þetta blessaða ráð ekki eitthvað betra við tímann að gera?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Endilega haltu áfram að blogga. Þetta er t.d. rosa góður pistill. Kannski eru bestu bloggin þegar við erum reið. En ég er að verða vonlítil um breytingar, ríkisstjórnin er með heldur máttlausar aðgerðir til hjálpar fjölskyldum. Greiðsluaðlögunarfrumvarpið er handónýtt. Að vísu er Bensi að norðan með frábærar hugmyndir um að breyta hluta af húsnæðiskerfinu í Búseta-form. Mér líst vel á það.
Margrét Sigurðardóttir, 13.2.2009 kl. 23:03
Hættu þessu væli maður....þú ert með ákveðna rödd sem þarf að heyrast. Þetta finnst mér...
Guðmundur Óli Scheving, 14.2.2009 kl. 01:03
Tek undir það að umræðan er til þess fallin að þreyta jafnvel hraustustu menn. Auglýsing Rauða Krossins í sjónvarpinu i gærkveldi slær þó öllum fáránleika við. Í boð Ólafs Ólafssonar hvatti Rauði Krossinn fólk til þess að vera ekkert að ræða saman um kreppuna og vera ekkert að hugsa um framtíðina. Áróður forheimskunnar. Takk fyrir.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.2.2009 kl. 01:41
Við megum ekki gefast upp! Myndi einhver gefast upp fyrir meindýrum á heimilinu sínu? Gefast bara upp og bjóða þeim að búa heima hjá sér? Sennilega ekki. Það myndu allir gera eitthvað í slíku.
Það er kannski of djúpt í árina tekið að tala um að við eigum í höggi við meindýr en ánauðin af framkomu þeirra sem reyna núna að þagga niður í okkur og treysta tök sín enn frekar á stjórnartaumunum eru virkilega lýjandi enda til þess ætluð að þreyta okkur og kæfa raddir okkar sem mótmælum.
Við megum ekki láta þá komast upp með það. Við höldum áfram. Við bara megum til!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.2.2009 kl. 03:08
Takk fyrir þetta öll. Og ég skal hætta að væla Guðmundur Óli, alltaf gott að fá smá hressilega brýningu. Bensi er með ágætar hugmyndir sem ætti að skoða vel. Þegar RKÍ gengur í lið með bullinu þá fer nú að fjúka í flest skjól þó þetta sé eflaust vel meint. Það er rétt hjá þér Rakel að nú á að þreyta okkur með innihaldslausu kjaftæði og menn láta eins og ástandið hafi komið utan úr geimnum og þeir beri enga ábyrgð.
Arinbjörn Kúld, 14.2.2009 kl. 08:38
Flott skrif og tek udnir hvert orð hjá þér..skil vel tilfinninguna um að verða næstum vonlaus yfir ástandinu. En bara næstum vonlaus. Nú er bara að spíta í lófana og bryðja þakrennur og koma þessu sukkliði frá í eitt skiðti fyrir öll og halda svo áfram að lifa fallega á okkar forsendum.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 15.2.2009 kl. 17:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.