Áfangasigur eða hvað?
26.1.2009 | 14:00
Jæja, þá er stjórnin farin frá. Ég nenni ekki að tjá mig um það sem ISG og GHH sögðu í fréttum, tímasóun. Getum við mótmælendur eignað okkur þann atburð eftir linnulausan barning á stjórnvöldum eða var þetta óhjákvæmilegt eftir hrunið hvort sem við mótmæltum eða ekki? Einhvern vegin finnst mér að eftir atburði sem hrunið og aðdraganda þess hefðu kröftug mótmæli og uppstokkun í stjórnkerfinu verið jafn óhjákvæmileg og að nótt fylgi degi. Á þessum degi held ég að óhætt sé að fullyrða að nú er framtíðin í okkar höndum, örlög þjóðarinnar munu ráðast á næstu vikum og mánuðum. Við munum þurfa spyrja okkur erfiðra spurninga, (kannski ekki svo erfiðra), viljum við að núverandi flokkar haldi áfram að véla um framtíð okkar? Hreinsum við út úr þeim með fjölda inngöngu í þá og storkum núverandi forystu? Eða stofnum við nýja flokka og sköpum þannig nýtt ísland?
Annars er dagurinn í dag hér fyrir norðan táknrænn fyrir framtíðina, nú loks sér til sólar, hún skín glatt, umhverfið hvítt og óflekkað beini maður sjónum sínum til fjalla. Ég hef ekki séð sólina held ég siðan í fyrra. Nú er 25 janúar og mér líður eins og sólin sé að segja mér að nú muni birta til í íslensku samfélagi þegar fólkið fær völdin í sínar hendur í næstu kosningum. Verður maður ekki trúa því?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll bloggvinur!!Ég er eindregið á þeirri skoðun að friðsöm mótmæli á Austurvelli og víðar s.s. á Akureyri, á Ísafirði, á Selfossi, i Dimmuborgum og á Egilsstöðum hafi hrundið á stað þeim breytingum sem nú eru að verða. Sérstaklega skipti það máli gagnvart Samfylkingunni að það voru flokksfélagar og kjósendur S sem voru svona harðir og iðnir í mótmælunum.Það munaði í raun aðeins hárbreidd skríllinn eyðilegði þetta allt með ótrúlegu ofbeldi og skemmdarverkum. Sá hæfileiki og kunnátta Harðar Torfasonar að standa fyrir svona öflugum mótmælum og hrinda þeim í framkvæmd er stórkostleg.
Kristbjörn Árnason, 26.1.2009 kl. 15:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.