Byltingu?

Ég skrifaði í færslunni hér á undan að ég myndi í næstu færslum velta fyrir mér hvernig hægt væri að koma af stað byltingu í þessu samfélagi okkar. Svo ég sé alveg hreinskilin þá hef ég frekar óljósa hugmynd um hvernig slíkt væri hægt, hef þó hugsað mikið um það undanfarin misseri þegar mér varð ljóst að litlar sem engar breytingar yrðu á stjórnarfari í landinu og spillingin yrði áfram allsráðandi með blessun og samþykki fjórflokksins. En til að byrja með þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hver eða hverjir eru "óvinirnir." Hverjum er það í hag að hér verði óbreytt kerfi stjórnmála, fjármála, kosninga og valda? Svarið er fjórflokkurinn og fjármálakerfið sem enn lýtur valdi útrásardónana og leppa þeirra.

Það er fjórflokknum ótvírætt í hag að kosningakerfinu verði ekki breytt og því síður að koma á stjórnlagaþingi sem dregið getur úr valdi fjórflokksins. Við ættum að vita það öll af fenginni reynslu að þó svo flokkarnir deili innbyrgðis öðru hvoru þá breytir það engu um að sameiginlegir hagsmunir þeirra er óbreytt valdakerfi. Við vitum það einnig öll að flokkarnir, að VG undanskildum held ég, þáðu mikil fjárframlög frá fjármálakerfinu sem og einstaklingar innan þeirra. Margt er enn á huldu í þeim málum. Öllum má vera ljóst að fjármálakerfið, þrátt fyrir hrunið, vill engar breytingar sem heft gætu áhrif þess og áform um endurheimt gamla tímans sem sést best á dekri þess við fyrrum eigendur bankana og fyrirtækja þeirra. Nóg um það.

Ég hef aldrei tekið þátt í byltingu af neinu tagi nema búsáhaldabyltingunni sem þróaðist nokkurn vegin af sjálfu sér. Mótmælti á Akureyri og var jú á lista BH í norðausturkjördæmi. Hef enga reynslu af framkvæmd byltinga af því tagi sem virðist vera nauðsynleg. En hvernig er mögulegt að koma einhverju stóru af stað? Ýta á hnappinn eins og það var orðað við mig? Ekki gott að segja. En slíkur neisti sem kveikir bálið má ekki vera ofbeldiskenndur eða hafa í för með sér eyðileggingu af einhverju tagi.

Neistinn verður að vera táknrænn. Kannski atburður eins og þegar móðirinn var handtekin fyrir framan börn sín og færð til sýslumanns til fjárnáms. Eða uppgjöf einstaklings sem lýsir því yfir að hann/hún muni ekki sætta sig við óréttlætið og stökkbreytingu skulda lengur og fer t.d. í hungurverkfall. Nýjar upplýsingar um meiri háttar spillingu myndu ekki kveikja neistann, við erum orðin of samdauna spillingunni til þess. En hvað svo? Jú, atburður þessi eða yfirlýsing einstaklingsins myndi koma af stað óstöðvandi bylgju reiði um gervallt samfélagið. Fólk myndi streyma þúsundum saman á Austurvöll og úti á landi myndi fólk safnast saman á torgum og krefjast tafarlausra stjórnarskipta. En þá vandast málið! Slík staða yrði afar viðkvæm og lítið má bera út af til að sjóði upp úr. Slíkt yrði byltingu ekki til framdráttar. Þess vegna verður að vera einhver stjórn á atburðarrásinni. En hver eða hverjir? Ég veit það ekki en kannski ættu einhverjir að gera sig klára. Þessir einhverjir verða að vera vammlausir og heiðarlegir aðilar sem almenningur þekkir og hafa verið áberandi í umræðunni um breytingar og ótengdir fjórflokknum og útrásinni. Í næstu færslu mun ég skoða hvernig atburðarásin gæti mögulega orðið.

Annars hef ég ákveðnar efasemdir um ágæti þess að vera með þessar pælingar. Tilgangslaust kannski? Það er víst hægt að handtaka mann fyrir svona, að hvetja til uppreisnar gagnvart valdstjórninni eins og það er kallað í lögum. Kannski það yrði neistinn??? :-)

En svona í alvöru, sjáið þið það fyrir ykkur að fjórflokkurinn muni breyta samfélaginu til hins betra?

Kveðja að norðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Nei það er fullreynt við sjáum hvað er að gerast á alþingi núna fjórflokkurinn er með samantekin ráð til að verja sig frá kosningarréttinum  sem herra Ólafur Ragnar Grímsson færði okkur, það getur og er trúlega neistinn sem fyllti mælinn lýðræðið er í húfi. Ef þú verður handtekin vegna skrifa þinna þá verður allt vitlaust hér þú stendur ekki einn!

Sigurður Haraldsson, 21.2.2010 kl. 11:54

2 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Á Íslandi er aðeins ein leið til byltingar - ALLSHERJARVERKFALL!  Ég skrifa um þetta á bloggsíðunni minni - sem enginn les nema ég því hún birtist ekki á gáttinni!   Slóðin er

http://ragnare.blog.is/blog/ragnare/entry/1019739

Virkilegt allsherjarverkfall felur í sér lögbrot því ákveðnum stéttum er ekki heimilt að fara í verkfall, t.d. lögreglumönnum og sennilega starfsfólki sjúkrahúsa!      Allsherjarverkfall myndi vissulega valda skaða en ekki blóðsúthellingum!     Stöðvun á starfsemi t.d. sjúkrahúsa er alvarleg aðgerð en STRÍÐ er líka alvarleg aðgerð og til muna flóknara i framkvæmd!    Tveggja daga allsherjarverkfall mundi þvinga stjórnvöld til þeirra aðgerða sem óskað væri eftir.    Ég er ekki í nokkrum vafa um að langflestir sem fyrir barðinu yrðu á verkfallinu mundu sætta sig við nokkur áföll - og jafnvel dauða - ef það yrði til að þvinga stjórnvöld til skynsamlegra aðgerða t.d. að henda öllu spillingarliðinu fyrir borð í bönkum, skilanefndum, opinbera og hálfopinbera starfsmenn (t.d. aðstoðarmenn ráðherra) sem voru innstu koppar í 2007-búrinu eða eru að festa sig í sessi sem 2010-spillingargreifar! Að drífa í breytingum á lögum sem þarf að breyta(gjaldþrotalögum, lögum um fyrningu sakamála o.fl.), alvöru stjórnlagaþing sem semdi nýja stjórnarskrá og þannig mætti áfram telja!!!   

Þetta þarf að spretta fram af sjálfu sér - ekki sem afurð frá hinu spillta verkalýðsauðræði sem er smánarblettur á verkalýðshreifingunni!

Kveðja,

Ragnar Eiríksson

PS. Ég styð að "leppstjórnin" fái meirihlutastuðning í VR!!!!!

Ragnar Eiríksson, 21.2.2010 kl. 16:47

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ragnar, bloggið þitt er skráð á blogggáttinni

Kveðja að norða.

Arinbjörn Kúld, 21.2.2010 kl. 18:15

4 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Það má vera að það sé skráð en það birtist ekki á henni - alla vega ekki á mínum lista sem ég hélt að ætti í það minnsta að birta mín blogg!!!

Ragnar Eiríksson, 21.2.2010 kl. 18:32

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ok, hefurðu sent þeim tölvupóst og spurts fyrir um málið?

Arinbjörn Kúld, 23.2.2010 kl. 01:16

6 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Í guðana bænum haltu þig við efnið.

http://www.neydarstjorn.org

Þórður Björn Sigurðsson, 23.2.2010 kl. 01:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband