Borgarahreyfingin og framtíðin

Það er eins og að bera í bakkafullan lækinn eða reyna selja sand í Sahara að tjá sig um þær deilur og ágreining sem vaðið hefur uppi í Borgarahreyfingunni að undanförnu. Læt ég það því vera en vil segja að mér hefur fundist þessar deilur sárari en tárum taki og er afar óánægður með þróun mála þar á bæ undanfarið. Samt er of snemmt og ekki tímabært að segja sig úr hreyfingunni og vil ég halda lífi í henni eins lengi og mögulegt er og helst til langs tíma og vil veg hennar sem mestan. Ég hef því ákveðið að styða nýtt framboð til stjórnar sem býður sig fram á næsta landsfundi sem haldin verður þann 12 september næstkomandi. Til að sýna stuðning minn í verki þá ætla ég að birta eftirfarandi tilkynningu:

Þjóðin á þing

Borgarahreyfingin var stofnuð af fólki með hugsjónir og væntingar um að koma á lýðræðislegum umbótum, réttlátara samfélagi með gagnsæjum vinnubrögðum og umfram allt, heiðarleika að leiðarljósi

Slagorðið “þjóðin á þing” er engin tilviljun. Það var valið vegna þess að vildum að þjóðin fengi rödd inni á Alþingi Íslendinga. Þinghópur hreyfingarinnar var hugsaður sem brú frá grasrótinni þangað inn.

Að okkar mati hefur það mistekist.
Þess í stað hafa hugsjónir, stefna og kraftur hreyfingarinnar týnst í deilum og óánægju á alla kanta.

Við sem undir þetta ritum erum stolt af Borgarahreyfingunni eins og hún var hugsuð. Í stað þess að gefast upp fyrir þeim mistökum sem gerð hafa verið langar okkur að leggja okkar að mörkum til að hreyfingin finni uppruna sinn á ný og að vegur hennar verði sem mestur.

Þess vegna ætlum við að bjóða fram krafta okkar til stjórnar Borgarahreyfingarinnar.

Við komum fram sem hópur og gerum okkur vonir um að fá stuðning sem slíkur.
Engu að síður bjóðum við okkur hvert og eitt fram til starfsins sem einstaklingar.

Sem hópur höfum við sett saman grunn að stefnu þeirri sem við munum fylgja í störfum okkar og hana má skoða í tengdri skrá. (http://gandri.wordpress.com/files/2009/09/skipulagframtidarsyn.ppt)

Við munum kynna stefnuna nánar á næstu dögum og á landsfundi hreyfingarinnar.

Ásthildur Jónsdóttir, Bjarki Hilmarsson, Björg Sigurðardóttir, Guðmundur Andri Skúlason, Gunnar Gunnarsson, Gunnar Sigurðsson, Heiða B. Heiðarsdóttir, Ingifríður Ragna Skúladóttir, Jón Kr. Arnarson, Lilja Skaftadóttir Sigurður Hr. Sigurðsson og Valgeir Skagfjörð

Svo mun ég reyna vera duglegri að blogga á næstunni en bloggið hefur verið í eins konar sumarfríi - munaður sem ekki er víst að fólk hafi efni á á næstu árum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Harmur Borgarahreyfingarinnar er mikill, en hann er aðeins brot af heimsins harmi.  Sundurlyndi, klíkumyndun, skortur á umburðarlyndi, allt þetta fylgir þegar mikið fleiri en tveir með ólíkar lífsskoðanir og ólíka persónuleika koma saman og mynda hreyfingu um eitthvað.

Hvor hefur rétt fyrir sér????

Þetta er sígild spurning og vandsvöruð.  

Þó kennir sagan eitt og það er að svona hreyfing á enga framtíð nema að annað að tveggja komi til, miklar hugsjónir eða mikill lífsháski, nema hvorutveggja komi til.

Í dag tel ég mikinn háska voða yfir, bæði þjóð okkar sem og þann frið sem við höfum talið sjálfsagðan svo lengi hér á Vesturlöndum.  Og ég tel að miklar hugsjónir þurfi til að vinna bug á þessum vanda (siðleysi Nýfrjálshyggjunnar).

Þó ég væri stuðningsmaður Borgarahreyfingarinnar, og það einlægur þá taldi ég mig ekki eiga samleið með hreyfingunni því hún væri um of bundin í fortíð og uppgjöri, uppgjöri við einstaklinga en ekki kerfið sem skóp þá og skóp þann háska sem við er að glíma.

En margt frábært var sagt og margt frábært var gert.  En það er ekki mikil hugsjón sem þolir ekki deilur eða rangar áherslur.  Sem er ekki þess virði að berjast fyrir.  En ef sú barátta byggist á því að vega mann og annan þá endar hugsjónin í blóðbaði.

Besta leiðin til að forðast slíkt er að telja vígaferli ekki lausn á ágreiningi.  Og mynda þann hugsjónaeld sem þolir skiptar skoðanir.  Og frekjuhunda og vitleysinga og gáfumenn og bessavissa, og jón og Jón, og alla þá sem  eiga leið framhjá.

Stundum er lífsháskinn þess eðlis að hann krefst þess.

Kveðja með baráttuóskum norður.

Ómar.

Ómar Geirsson, 7.9.2009 kl. 21:49

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Æi já Ómar, ég vonaði að við gætum sameinast um hag þjóðarinnar númer eitt, barnalegt kannski en ég vil þó frekar vera barnalegur en kíta við allt og alla í kringum mig.

Við verðum að gera upp við bæði einstaklingana sem og kerfið í viðleitni okkar til að búa til betra land og samfélag. Ég hef ekki enn gefið upp vonina og mun halda áfram að berjast.

kv, ari

Arinbjörn Kúld, 8.9.2009 kl. 19:44

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Ég hef fengið hugboð þegar ég nennti ekki að byrja á uppvaskinu og ákvað að líta á bloggið.  

Ég held að þetta sé kjarni þess að láta ólíka einstaklinga vinna að sama markmiði, að skapa þeim framtíðarhugsjón, og svo muna þá einföldu staðreynd að það þarf tvo til að rífast.  

Með öðrum orðum þá má mikið læra að börnunum og skapferli þeirra.

En það er þetta með einstaklingana og kerfið.  Mér sýnist, eftir að hafa strítt vinstrimönnum víðsvegar á Netinu, að ég sé dálitið eyland með mitt rótgróna hatur á Nýfrjálshyggjunni.  Í mínum huga þá er hún óvinur númer eitt til ????, óendanlega ???  En ég kann vel að meta allt gott og heiðarlegt íhald eins og góða og gegna vinstrimenn, og eiginlega alla þar á milli.  Tel að Sannleikurinn sé eitthvað óáþreifanlegt sem margir leggja í púkkið  og margir skynji á mjög mismunandi hátt.  En hann á að byggjast á gagnkvæmri virðingu og rétti allra til lífs og lima á mannsæmandi hátt.

Og mér er fyrirmunað að vera illa við menn þó ég hatist út í kerfi.  En menn í fullu fjöri við að gera eitthvað illt, eins og til dæmis að ræna börn og gamalmenni eða boða siðleysi Nýfrjálshyggjunnar, þá á  að lemja í hausinn þar til þeir finna sér eitthvað þarflegra að gera.  Og finni þeir sér eitthvað þarflegt að gera, þá er það í góðu máli mín vegna.  Tel það ekki samræmast gagnrýni minni á illsku, að vilja síðan gera öðru fólki illt.  Því trúi ég á mátt iðrunar og annað tækifæri, og jafnvel það þriðja og fjórða.  Með öðrum orðum þá eru fallnir menn ekki mín deild, heldur þeir sem þarf að fella.

En ég fer ekki fram á að nokkur maður sé sammála minni hundalógík, en ég benti Andstöðunni á (það er þeim sem lesa vildu kommentin mín á Silfrinu), að við hefðum ekki afl í að eltast við sökudólga og kerfið um leið.  Og það er gömul saga og ný að kerfið fórni nokkrum peðum á meðan það styrkir sig í sessi eftir áföll.  Og verði síðan verri en andskotinn viðureignar þegar það hefur náð sínum fyrri styrk, því það óttast alltaf mjög að veikleika tímabil þess komi aftur.

Og ég benti á að við myndum missa að tækifærinu til kerfisbreytinga á meðan við létum spila með okkur, egna okkur saman innbyrðis, og egna okkur gegn föllum mönnum í hvert sinn sem við kæmust nær kjarna spillingarinnar.  Því átti að krefjast Sannleiksnefndar þar sem aðilar Hrunsins, endurskoðendur, lögfræðingar, miðlar og að sjálfsögðu topparnir gerðu hreint fyrir sínum dyrum, skiluðu illa fengnu fé og bæðust afsökunar.  Aðeins þannig var hægt að veikja innviði kerfisins á þann hátt að það gæti illa fjölfaldað sig aftur á sömu forsendum og áður var.

En ef ekki, þá fengjum við yfir okkur sömu vitleysuna, í nýjum umbúðum, en skuldahlekkir og valdleysi almennings yrðu miklu meira en áður.  Og vonin um betri heim myndi smán saman kafna.  Þó mér sé ekki vel við gömlu Vökuliðina sem á að fórna, þá finnst mér sú fórn dýru verði keypt.  Henging á nokkrum föllnum leikurum á meðan sjálfir hönnuðirnir og leikstjórarnir, ekki aðeins sleppa, heldur fá öll völd til að móta hið Nýja Ísland.  Nýja Ísland  sem ekki aðeins verður í eigu okkar auðmanna og leppa þeirra, heldur erlendra brunaútsölukaupanda í leiðinni. 

Nei, Sigurjón Digri er ekki þess virði.  Mér þykir vænna um börnin mín en það.  

Og þar sem við höfum svo sem rætt þetta áður, þá ætla ég að spyrja þig ærlegrar spurningar Arinbjörn; á hvað leið erum við?????  Hvað er að gerast????

Mér finnst það vera eitthvað í ætt við það sem ég varaði við.

En það er þetta með vonina, hún lifir og vonandi mun hún erfa landið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.9.2009 kl. 20:14

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þetta er í raun risavaxin spurning Ómar ég held að því miður hafir þú rétt fyrir þér. Við erum í raun og veru að stefna í að missa landið okkar í hendur höfunda hrunsins og svona í leiðinni í hendur erlendra ævintýramanna. Til að bíta höfuðið af skömminni þá lánum við þeim fyrir kaupunum í leiðinni, það er víst til peningur til þess. Þetta er leiðin og þetta er það sem er að gerast. Við erum leidd áfram eins og blind og heyrnarlaus hjörð og virðumst ekkert ráða við þróunina. Skuldahlekkirnir og valdleysið eins og þú orðar það eykt dag frá degi og snjóboltaáhrifin versna með hverri mínútunni.

En einu megum við ekki gleyma, án réttlætis verður hér engin uppbygging og ekkert traust mun skapast að nýju.

Einhverra hluta vegna þá flögrar orðið "bylting" æ oftar um í huganum og þá meina ég BYLTING.

kv, ari

Arinbjörn Kúld, 8.9.2009 kl. 22:26

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Það er satt og rétt að bylting er svarið, en ekki bylting sem étur börn sín eða bylting sem veldur meiri hörmungum en þeim sem hratt henni af stað upphaflega.  

Ég er að tala um byltingu byltinganna, þeirri sem á sér stað aðeins á nokkurra árhundraða fresti, byltingu hugarfarsins.  Óréttlæti, ójöfnuður og mannvonska eru ekkert náttúrulögmál.  Og mannsandinn hefur þróað siðmenninguna gegn þessum þursum tregðunnar.  Og mikið hefur áunnist í gegnum árþúsundin,  núna er til dæmis enginn étinn eða settur í formlegan þrældóm og formlega hefur ríkisvaldið aðeins rétt til að drepa mann og annan, og refsa fyrir misgjörðir svo einhverjar réttarbætur hin venjulega manns séu upptaldar.  En núna hefur myndast ginnungargap milli siðmenningarinnar og tregðunnar, ginnungargap sem tortímingaröfl eyðileggingarinnar fylla upp í.   Það er aðeins tregðan sem útskýrir hina miklu örbrigð og skort sem alltof stór hluti mannkyns glímir við í dag.  Og þegar ég tala um skort, þá er ég að tala um skort í víðasta skilningi, eins og skort á menntun, heilsugæslu, eiga þak yfir höfuð, fá réttláta málsmeðferð og svo framvegis.

Svona ginnungargap hefur myndast áður en í dag er máttur eyðileggingaraflanna svo mikill að enginn er óhultur, við erum öll á sama báti.  Við þurfum öll að horfast í augun á vandanum og viðurkenna hann.  

Vissulega er engin skyndilausn til gegn tregðunni, en þó má benda á nokkrar staðreyndir.  Flest ríki Norður Evrópu komu á almennri grunnmenntun á um tveimur áratugum síðasta hluta 19. aldar.  Castro var um áratug að gera hið sama á Kúbu auk þess að byggja upp almenna heilsugæslu.  Hann átti ekki peninga en hann hafði viljann.  Samt í dag er talið að um óyfirstíganlegt verkefni sé að ræða því þá þurfi að skattleggja auðmenn og jafnvel að banna þeim að haga sér eins og svín.  Og þar sem þeir ráða stjórnmálamönnum, fjölmiðlamönnum og meginhluta háskólasamfélagsins þá er skorturinn á grunnnauðsynjum talinn náttúrlögmál.  Og hinir fáu hafa öll völd því fjöldinn telur sig tilheyra ætt kalkúna og því treður hann sig út af mat en ekki viti (það er les og hlustar á vitræna umræðu).

Og það er morgun ljóst að kalkúnaheilkennið hverfur ekki svo glatt.  Og bylting mannsandans á sér stað á löngu tímabili, árhundruðum eða árþúsundum.  En eyðileggingaröflin sem þrífast í skjóli tregðunnar eru á fullu skriði og eru mjög fljótvirk.  Loftslagsmál, arðrán náttúru og náttúruauðlynda, átök hugmyndaheima og fyrirsjáanleg uppreisn hins þögla meirihluta þriðja heimsins gegn kúguninni, bara nokkur dæmi um eitthvað sem getur valdið mjög stórum hluta mannkyns miklum þjáningum og jafnvel ótímabærum dauða á næstum árum og áratugum.  

Og hverju er teflt fram af hálfu mannsandans, eða hinum ráðandi hluta hans, gegn tortímingaröflunum????  Björgun auðmanna og fjármálakerfis þeirra og síðan áframhaldandi græðgivæðing heimsins með siðlausa fjármálamenn í fararbroddi.

Og við þessu er aðeins eitt mótsvar, og það er sú bylting sem ég talaði um.  Hin hljóða bylting hins skynsama manns sem upplifir það sterka ógn að hann segir við sjálfan sig, þetta gengur ekki lengur, börnin mín eiga enga framtíð ef ég geri ekki eitthvað.  Og það eitthvað er að skynja það sem skiptir mann máli eins og velferð fjölskyldunnar, framtíð barna manns og krafan um mannsæmandi líf, að það er líka eitthvað sem skiptir meðbræður manns máli, og þeir eiga sama rétt til þess og maður sjálfur.  Og síðan þarf að styðja það sem horfir til góðs, en berjast gegn því sem gerir það ekki.  En sú barátta á að byggjast á mátt hugans, en ekki mátt vopna.  Og menn eiga að hafa það ætíð í huga að gera ekki öðrum það sem þeir vilja ekki að sér sé gert.  Í hnotskurn er það sú einfalda staðreynd að líki þér ekki að hermenn óvinar þíns nauðguðu konu þinni og dætrum, þá gerir þú ekki slíkt sama við þeirra konur ef þú nærð skyndilega yfirhöndinni. 

Og einhver þarf að byrja að hugsa hlutina upp á nýtt.  Í því er grunnágreiningur milli mín og Borgarahreyfingarinnar.  Það sem er liðið, er liðið í mínum huga.  Ég geri gott úr því með því að læra af reynslu hins liðna og reyni að skapa samstöðu sem víðast til að breyta því sem breyta þarf.  Öll uppgjör vekja upp andstöðu, og því mun meira sem þú ert upptekinn af þeim, þeim mun minni kraft hefur þú til breytinga, og því, þrátt fyrir góðan vilja, þá verður breytingin þér um megn (ég er ekki að persónugera þetta upp á okkur, heldur er þetta minn ritstíll að nota persónufornöfn).  

Vísir menn nota lágmarks kraft í uppgjör, heldur nota þeir vit sitt til að skapa sátt um hið óhjákvæmilega uppgjör og vinna þar með tvennt, þeir lágmarka andstöðuna við uppgjörið og nota allan sinn kraft í hina nauðsynlegu breytingu sem þeir stefndu að.

Þetta gerði Nelson Mandela þegar hann losaði Suður Afríkumenn við aðskilnaðarstefnuna og kom á lýðræði í landinu án blóðsúthellinga, og þetta gerðu leiðtogar bandamanna í Þýskalandi eftir stríð, þeir gerðu upp við Nazismann og leiðtoga hans án þess að hengja alla þýsku þjóðina í leiðinni og sköpuðu þannig framtíðarsátt í landinu og milli þeirra og hinnar sigruðu þjóðar.

Og þetta er það sem andstaðan þarf að gera á Íslandi.  Hún þarf að berjast fyrir sátt og uppgjöri.  En það uppgjör á að vera við hið spillta kerfi og sáttin á að vera við fylgismenn þess.  Því aðeins sameinuð komust við út úr þeim heljarvanda sem við er að glíma.  Og eins og ég hef áður sagt, þá er til lítils að við komust sátt út úr vandanum ef einhver af tortímingaröflum heimsins (eins og til dæmis loftlagsbreytingar eða beiting kjarna eða efnavopna) nái í skottið á okkur.

Það þarf nýja hugsun og nýja von.  Og aðeins þannig næst hið endalega réttlæti.  Sem er reyndar eilífðarverkefni, en verkefni engu að síður.  Ef við viljum nýjan og betri heim, þá þurfum við að byrja á sjálfum okkur.  Hin stóru mistök eru þau að vera endalaust í rifrildi við að breyta öðrum.  Og síðan þarf að spyrja þá sem eru orðnir efins um Helreiðina til heljar, hvort þeir vilji ekki staldra við og hugsa sinn gang.  Bjóða þeim síðan hvort þeir vilji vera með í Andófinu gegn Helreiðinni.  Og það er Andófið sem skapar jákvæðu ferlana gegn Tregðunni, sem er hinn raunverulegi óvinur mannkynsins.

Og um allan heim eru menn og konur að móta hugmyndir um þessa jákvæðu ferla, hvernig hægt er að vinna bug á skorti, eða eyðingu náttúrunnar svo eitthvað sé nefnt.  Eða þá hvernig sé hægt að sætta ólíka menningarheima o.s.frv.

Og réttlæti fellst ekki í því að refsa, heldur að byggja upp nýtt og betra, að hindra fórnarlömb glæps framtíðar.

Og Arinbjörn.  Þessi orðræða mín er ekki hugsuð sem aðfinnsla eða þá prédikun eða hvað það neikvæða sem um svona skrif má segja.  Ég er að reyna að orða hugsanir um þann grunnvanda sem við er etja og við þurfum öll að átta okkur á.  Hluti sem fólk þarf að hugsa um og hluti sem fólk þarf að ræða.  Engin tilraun til breytinga mun heppnast nema fólk geri sér grein fyrir þeim ógnaröflum sem við er að etja, og fólk er að lifa örlagatíma og ögurstund síns lífs.  Þessi ógnaröfl eru svo skelfileg að þau munu aðeins verða sigruð með sjálfri frumheimspekinni,  að lemja á hinu illa með hinu góða, og jú staðföstum vilja og heilbrigðri skynsemi.

Og eins og þú bendir á þá mun ekkert vinnast nema með réttlæti, því það er réttlátari heimur sem við þurfum að stefna að.  Það réttlátur að nógu mörgum þykir það vænt um hann að hann nái að sveigja sér framhjá öllum ógnum tortímingarinnar.

Réttlætið í mínum huga felst aðeins í lífvænlegri framtíð barna minna, ekki meintum örlögum Sigurjóns digra.  Frá honum dugar mér afsökunarbeiðni ásamt upplýsingum um hvernig hann fór að þessu og upplýsingum um bakland hans, bæði hugmyndafræðilegt og peningalegt (auðmenn).  Og ef hann iðrast þá mun ég fyrirgefa honum og bjóða hann velkominn til góðra verka.  Slíkt hið sama mun ég gera gagnvart öllum þeim sem ég bauna á þessa daganna og tel vera að vinna hið endalega skaðræði gegn þjóð minni.  

Það er iðrunin og fyrirgefningin sem er eldsneyti hinnar árangurísku byltingar sem þarf að gera.  

Og sakleysið, öll börnin sem eiga erfa heiminn, eiga það inni hjá okkur gamlingjunum að við gerum þessa byltingu.

Gangi þér vel að kveikja elda byltingarinnar í hjörtum þinna félagsmanna.  Það skiptir ekki máli hvort um sé að ræða óforbetranlega lygara, undirmálsfólk eða þunglyndissjúklinga.  Við erum öll fólk með hjörtu sem eigum hagsmuna að gæta.  

Þeir hagsmunir heita börnin okkar og barnabörn.  

Hættið því þessari vitleysu og farið að drífa ykkur í að bjarga þjóð ykkar.  Við höfum svo áhyggjur af heiminum seinna.

Kveðja til ykkar allra að austan.

Ómar.

Ómar Geirsson, 9.9.2009 kl. 00:19

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ómar minn, mig setti hljóðan við þennan lestur. Mér tækist ekki að ræða þessi mál af þessari dýpt. Þessi orð þín vil ég eiga á blaði. Þetta er í raun alheimsbarátta en hana hefja menn ekki nema hafa tekið til heima hjá sér áður og á því skulum við byrja.

Við þurfum að heyrast fljótlega.

Ég er byrjaður að hvetja til sátta innan BH. Byrja smátt en mun auka þungan fljótlega. Orð eru til alls fyrst.

kv, ari

Arinbjörn Kúld, 9.9.2009 kl. 23:00

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Þetta kemur stundum yfir mig, ætlaði bara að setja inn örstutta kveðju.  Og ítreka rök mín fyrir sannleiksnefndina.  Í henni er lykillinn af árangri fólginn, en öllum ætti að vera ljós  árangursleysi "hefðbundnu" aðferðanna.  Og þessi hugmynd er versta ógn gamla kerfisins því svo mikil lögbrot voru framin, og þá líka á neðri stigum, og hjá aðilum eins og endurskoðendum og lögfræðingum.  Og gegn því að sleppa við ákæru þá myndi þetta fólk opna sig.  Og eina vörn "hausanna" er þá að stíga fram og segja satt.

Og það að einhver segi satt er mesta ógn gamla kerfisins og myndi líklega koma í veg fyrir að það geti fjölfaldað sig athugasemdalaust eins og nú stefnir í.  En það er ákaflega erfitt fyrir talsmenn "spillingarinnar" að verjast þessari hugmynd, því hvernig er hægt að vera á móti "sannleikanum".

Eina vörn þeirra er að ýta undir "hefndartilfinninguna" og fórna nokkrum þegar föllnum mönnum.  Mér er of illa við kerfið til þess að ég vilji leyfa þeim að sleppa svo billega.  

En á mig og mína er ekki hlustað því hver vill ekki réttlæti????

En ég settist niður til að hvetja þig áfram í sáttastarfi þínu.  Það er enginn í hreyfingunni mikilvægari en framtíðin.  Ekkert egó stærri en réttur barna okkar til mannsæmandi lífs.

Og það skiptir ekki öllu máli hvað gert er, ef gjörðirnar stefna að einhverju betra.  Og það eru ekki nema 3-4 á þingi.  Og þar eru þeir samkvæmt sinni bestu samvisku.  En það þýðir ekki sama og aðrir hafi ekki líka eitthvað til málanna að leggja.  En þeir verða þá að finna sinn vettvang.  Annan en þann að vera alltaf að tjá sig hvað þeir eru ósammála síðasta manni. 

Til dæmis geta þeir tjáð sig um hvað þeim finnst.  Og athugað síðan hvort aðrir séu á svipaðri línu.  En skoðanir sem þola ekki umræðu eða andstæð sjónarmið, eru ekki merkilegar skoðanir. Og sá sem á ekki til umburðarlyndi, hann á ekki til hugsjón, sýn hans er þá úr einhverjum öðru akri sprottin.

En stundum þurfa forystumenn að hafa til hæfni að sjá sameiginlega fleti, eða þá segja pass, og halda áfram að vinna að betri heimi.  

En vígaferli leiða aldrei til betri heims.

Og skrattinn er ekki meðlimur Andstöðunnar.  Því er óþarfi að vera alltaf að skemmta honum.  Og ekki má heldur gleyma púkanum sem fitnar og fitnar.  Hann er meðlimur í félagi græðgipúka.  

Þannig að mér líst vel á að þú sættir menn Arinbjörn.  Einhver verður að gera slíkt og á meðan ekki er húsfyllir af sáttamönnum, þá dæmist það á hina hógværu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.9.2009 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband