Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Hannes Smárason

kom til mín í nótt - í draumi. Við sátum saman inní stofu heima hjá mér. Hann iðraðist afar mikið. Við áttum saman langt og einlægt tal. Það var bjart yfir honum. Hann sagðist eiga nóga peninga og vissi um meira. Miklu meira. Hann sagði mér að hann væri að leita leiða til að koma þessum fjármunum til íslands án þess að hans nafn yrði nefnt. Hann vildi byggja upp landið. Hann vildi ryðja leiðina fyrir hina, sýna gott fordæmi og bað mig að hjálpa sér. Ég benti honum á að það yrði alltaf að gera grein fyrir peningunum, hvaðan þeir kæmu, þetta væru það miklir fjármunir. Ég reyndi að segja honum að best væri að koma hreint fram fyrir alþjóð, viðurkenna mistök sín og skila peningnum. Það væri besta fordæmið. Þá kæmu hinir vonandi á eftir. Ég gæti ekki tekið við þessum peningum á minn reikning án þess að vekja miklar grunsemdir, ég væri bara fátækur íslendingur sem byggi í blokk. Ég var næstum því búinn að sannfæra hann þegar helv... vekjaraklukkan hringdi.

Það skrítna við þennan draum er að ég er ekki skálda, mig dreymdi þetta. Mér finnst þetta dáldið fyndið því ég hef talað við hann áður, í síma þegar hann vildi kaupa auglýsingu í Skessuhorni árið 1998. það var þegar verið var að keyra upp hlutabréfaverð í Íslenski erfðagreiningu. Hann greiddi uppsett verð, kr. 50.000. Það kom sér vel fyrir okkur í Skessuhorni, við gátum þá greitt fleiri reikinga. Skyldi einhver annar af þessum frægu mönnum vitja mín í nótt? Veit ekki, nú ætla ég að fá mér að borða og skella mér svo út í golfbæ og hugsa um eitthvað annað.


Nú er það?

Er nokkuð annað hægt en misnota þessi skattaskjól? Er það ekki megintilgangur þeirra að skapa skjól fyrir einhverja til að koma sér undan greiðslu skatta og fela fé? Er vitað til þess að einhver hafi komið sér og sínu í slíkt skjól í göfugum tilgangi? Er þessi Björgvin ekki alveg úti að aka? Kannski engin furða að við séum þar sem við erum með slíkar mannvitsbrekkur við stjórn. Eða svo alls sannmælis sé gætt er ég kannski bara úti í skurði með allt niður um mig?
mbl.is Skattaskjólin misnotuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorrý Stína

Ég hef varla nennu né geð í mér til að blogga eitthvað þessa daganna. Mér finnst umræðan og fréttirnar í þjóðfélaginu eitthvað svo algerlega galnar. Vilhjámur Egilsson segir að tilvonandi eignarhaldsfélag sem sjá á um stærstu fyrirtækin sem eru í vandræðum kalli á spillingu! Hvar hefur maðurinn eiginlega verið? Mig langar að öskra á manninn. Auk þess vill hann að bankarnir verði einkavæddir sem allra fyrst! Sorrý Vilhjálmur við höfum afar slæma reynslu af einkavæðingu banka. Næst þegar það verður gert þá verður það ekki á þinn hátt, takk fyrir. Ég hef mínar hugmyndir um væntanlega einkavæðingu banka sem verður vonandi ekki fyrr en eftir 2-3 ár og set þær fram þegar sá tími kemur.

Ólafur Ólafsson útrásartröll og nágrannaskelfir gaf Rauða Krossinum 20 millur í gær. Ég er félagi í RKÍ, fyrrum formaður Akranesdeildar og hafnaði aldrei styrkjum né umsóknum um styrki. Ég lagði til hliðar allar stjórnmálaskoðanir og fordóma um náungann þegar slíkt kom á borð stjórnarinnar. M.a.s. þegar Árni nokkur Johnsen sem þá var fangi á Kvíabryggju leitaði til Rauða Krossins á Vesturlandi þá urðum við í svæðisráði sammála um að láta hann og samfanga hans ekki gjalda fortíðar hans og styrktum kaup fangelsins á nýjum dýnum handa föngum á Kvíabryggju. Við hlutum nokkra gagnrýni vegna þessa. Ólafur Ólafsson var einhvern tíma í stjórn RKÍ í kringum aldamótin síðustu ef ég man rétt. En nú segi ég, Ólafur farðu með þetta illa fengna fé þitt til fjármálaráðherra íslands sem fyrsta hluta af ránsfeng þínum sem þú ætlar að skila til þjóðarinnar og biðjast afsökunar. Við RKÍ segi ég, ef þið takið við þessum blóðpeningum þá segi ég mig úr RKÍ.

Einhver ríkur rússneskur útlagi í London sagði í vikunni að ísland hefði verið notað til peningaþvættis að undirlægi Pútíns og nokkura svokallaðra ólígarka. Ljótt til þess að vita. Hafandi í huga skyndileg auðæfi sumra í þjóðfélaginu og vangaveltur um hvernig þetta gæti gerst svo snögglega þá er þetta ekki svo fjarlægur möguleiki. Gunnar Tómasson hagfræðingur lýsir því á eyjunni hjá Agli hvernig svona gengur fyrir sig. Ég er ekki dómbær á hvort þetta sé rétt eður ei. En hafi landi okkar verið notað sem þvottahús fyrir blóðpeninga frá Rússlandi þá eru þessir íslensku menn sem tóku þátt í því hinir verstu níðingar. Ég trúi ekki öðru en að einhvers staðar í Evrópu hafi einhverjir tekið sig saman og hafi hafið rannsókn á málinu. Einhvers staðar er gagnasöfnun hafin enda hrun íslands  níunda undur veraldar og það hlýtur að vekja undrun og forvitni einhverra.

Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn hefur nú öll tök á íslensku þjóðfélagi. Við hverju bjóst fólk? Auðvitað ræður hann stefnunni í efnahagsmálum. Við misstum okkar efnahagslega sjálfstæði í hruninu, hvenær ætlar fólk að fatta það? Og með efnahagslegu sjálfstæði þá fór svo margt annað. Sjóðurinn þarf að leggja blessun sína yfir væntanlegt frumvarp um nýjan seðlabanka. Meðal annars leggur hann áherslu á að ákvæði um brottvikningu verði ákveðnara svo hægt verði að reka næsta Davíð Oddson. Einn af flokkunum reynir hvað hann getur til að tefja málið hvað sem raular og tautar. Já, svo er nýji landstjórinn frá AGS væntanlegur í byrjun Mars. 

Útflutningráð ætlar að setja af stað rannsókn á því hvernig í Guðs nafni getur staðið á því að útlendingar haldi að landið sé gjaldþrota og það þrátt fyrir að sjálfstæðisflokkurinn haldi hinu gagnstæða fram? Hvernig dettur þessum heimsku útlendingum að hafa aðra skoðun en flokkurinn? Hefur þetta blessaða ráð ekki eitthvað betra við tímann að gera?


Gjaldþrot landa og þjóða

Undanfarið hef ég dáldið velt fyrir mér hugtakinu „þjóðargjaldþrot" og það ekki að ástæðulausu og við þurfum ekki að fara nánar út í það. Hvað um það, gjaldþrot heilla landa er sjaldgæft fyrirbrigði sem betur fer en þó ekki alveg óþekkt. Argentína fór til að mynda á hausinn árið 2001 og er enn ekki gjaldgeng á alþjóðlegum lánamörkuðum. Skuldir þess voru við gjaldþrotið 145 milljarðar dala. Nokkuð sem þáverandi forseti landsins lýsti yfir við alþjóðasamfélagið að landið gæti ekki greitt til baka. Landið náði sér samt furðu fljótt með aðstoð vinaþjóða í Suður Ameríku s.s Venesúela en líkt og aðrar þjóðir í vanda vegna kreppunnar sem ríður yfir heimin í dag. Þýskaland fór tvisvar á hausin eftir sínar styrjaldir og Rússland einu sinni eða árið 1998.

Samt fann ég afar lítið um gjaldþrot þjóða við leit á netinu svo skrítið sem það er. Fann þó óvísindalega skilgreiningu á heimasíðu www.spiegel.de sem ég læt fylgja hér á ensku og hráa þýðingu frá mér:

„A country has reached this final stage if, as a result of war or blatant mismanagement, it has gambled away all trust, can no longer service its debt or convince anyone to lend it any money, no matter how high an interest rate it promises to pay."

 

„Land eða þjóð er gjaldþrota þegar það, annað hvort vegna styrjaldar eða dapurrar efnahagsstjórnar hefur gloprað niður öllu trausti, getur ekki lengur greitt skuldir sínar eða sannfært nokkurn til að veita sér lán, hversu háa vexti sem það býður í staðinn."

 

Eftir talsverða leit á netinu fann ég nokkuð áhugavert efni um gjaldþrot sýslu nokkurar í USA, nánar tiltekið Orange County í Kaliforníu. Sýsla þessi í Kaliforníu er sú fimmta stærsta í fylkinu. Þar bjuggu um 2,5 milljónir manna þegar sýslan lýsti yfir gjaldþroti í desember árið 1994 og hafið það í huga 2,5 milljónir manna en hér búa rúm 300 þúsund. Áður en lengra er haldið er rétt að minnast á að í USA er sérstakur kafli í gjaldþrotalögum þess lands sem tekur á gjaldþroti opinberra aðila s.s. sýslna, borga og bæja sem á að vernda þá aðila gegn lánardrottnum.

Það er víst ekki að ástæðulausu því frá lokum kreppunar miklu 1929 fóru margar sýslur og minni bæjir og þorp í gjaldþrot. Frá þeim tíma hafa nokkur hundruð bæjir, þorp og litlar sýslur orðið gjaldþrota en allar upphæðir í þeim gjaldþrotum voru afar litlar samanborið við Orange County. Orange County er æði frábrugðin frá öllum hinum vegna þess að hún er stór, hafði góðar skatttekjur, íbúar 2,5 milljónir manna, að mestu millistétt og ríkt fólk. Hafði góða innviði og skilvirkt stjórnkerfi nema að einu leiti og þar skipti sköpum. Kem að því síðar.

Það eru nokkuð merkilegar hliðstæður við gjaldþrot sýslunnar og hrunið hér á landi. Orange County rak á sínum vegum eins konar fjárfestingasjóð/vogunarsjóð (ísland - vogunarsjóður) sem rekin var af einum manni, Bob Citron sem jafnframt var æðsti yfirmaður fjármála í sýslunni. Sjóði þessum var ætlað að afla sýslunni og stofnunum hennar tekna þar sem Kaliforníufylki hafði sett sýslum þess takmörk hvað varðar skattheimtu og auk þess gátu íbúar sýslunnar ráðið því hvaða skattar voru settir á íbúa og t.a.m. samþykktu íbúar sýslunnar nokkrum árum fyrr að afnema eignaskatta sem voru megintekjulind sýslunnar. Því var brugðið á það snilldarráð að stofna fjárfestingasjóð með opinberu fé til að afla fjármagnstekna. Umsjón sjóðsins var eins og fyrr var getið var í umsjá eins manns.

Bob þessi fékk fé í sjóðin fram sýslunni og fjölmörgum stofnunum hennar eða um 200 öðrum stofnunum s.s. skólum, vatnsveitum, vegagerðinni ogfl. (icesave - einhver?) Allir þessir aðilar lögðu mikla fjármuni í sjóðinn eða um 7,6 milljarða dala. Fljótlega fór Bob að gambla með peninginn, hann fjárfesti í afleiðum, framvirkum samningum og alls kyns öðrum áhættusömum gjörningum. Trikkið hjá Bob var svo eins og hér á landi að slá lán út á lánin þ.e. það fé sem hann fékk til ráðstöfunar í sjóðinn. Það fólst í því að fyrir hvern milljarð sem hann fékk inn sló hann lán upp á 2 milljarða frá t.d. fyrirtækjum á Wall Street! Afar fljótlega skuldaði sjóðurinn 20,6 milljarða dala og Bob fór að tapa fé í massavís. Líkt og hér á landi höfðu einhverjir áhyggjur af getu sjóðsins til að standa við skammtímakröfur en engin hlustaði - fyrr en of seint.

Þegar í ljós kom í nóvember 1994 að tap sjóðsins var um 1,6 milljarðar dala fór skriðan af stað. Gert var áhlaup á sjóðinn, eignir frusu inni og kröfuhafar gengu að veðum. Allt það fé sem sýslan og stofnanir hennar höfðu lagt í sjóðin var helfrosið og ekki laust. Við það gerðust svipaðir hlutir og hér á íslandi. Ótti, reiði og fát greip um sig. Íbúum fannst sem þeir hefðu verið sviknir og rúnir trausti. Almenningu beindi reiði sinni að kjörnum fulltrúum sem leyfðu slíka meðhöndlun á opinberu fé. Eignir fóru á brunaútsölu og lánshæfismat sýslunnar hrapaði niður á svo kallaðan „junk stadus."

Sett var á fót neyðarteymi sem hélt sýslunni gangandi og gat í krafti neyðarlaga og -ástands gengið að áður frosnum peningum ásamt því að leggja drög að massífum niðurskurði í fjárlögum. Sérstakur aðili var svo ráðin til að framkvæma niðurskurðin ásamt því að hreinsa til í stjórnsýslunni þ.e. segja upp óhæfum embættismönnum. Enn ein nefndin var sett á fót til að ná samkomulagi milli allra þeirra aðila sem lagt höfðu fé í sjóðin í góðri trú. Sumir fengu sitt og aðrir ekki.

En svo fóru hlutirnir að flækjast. Stór afborgun af láni sjóðsins átti að falla sumarið 1995. Engir peningar voru til að greiða af skuldinni sem átti að greiða þrátt fyrir yfirlýst gjaldþrot. Engin gat eða vildi lána fyrir afborguninni. Því ákvað sýslan að leggja það til við kjósendur að hækka söluskatt í sýslunni en kjósendur höfnuðu því í atkvæðagreiðslu. (Já, kjósendur geta víst hafnað slíku í kosningum á þessum stað).

Þá vandaðist málið fyrir yfirvöld í Orange County því Kaliforníufylki hótaði að taka sýsluna yfir og neitaði henni um aðstoð. Að lokum samþykktu lánardrottnar að fresta afborguninni og fá í staðinn hærri vexti. Sæst var á að beina öðrum skatttekjum í annan sameiginlegan sjóð sem standa átti skil á greiðslum til lánardrottna og til að fá ný lán til að greiða þau eldri. Eins og gefur að skilja þá báru þau lán háa vexti enda talin áhættulán vegna gjaldþrotsins. Auk þess sem sú ráðstöfun tók að sjálfsögðu fé frá annari nauðsynlegri þjónustu sýslunar.

Afleiðingar þessa gjaldþrots voru hrikalegar fyrir íbúa sýslunnar. Sýslan átti afar erfitt með að standa við lögboðna þjónustu og gat engar áætlanir gert fyrir framtíðina. Eina von sýslunnar var að vinna lögsóknir þær sem hún höfðaði gegn fyrirtækjum þeim á Wall Street sem tóku þátt í svikunum.

Eins og áður sagði þá er margt líkt með gjaldþroti Orange County og hruni Íslands. Sýslan var í bullandi uppgangi þegar gjaldþrotið skall á. Upphæðir skuldanna voru á svipuðum nótum og skella á íslandi en munurinn er sá að þarna eru um 2,5 milljónir íbúa sem tóku þær á sig en við erum rúm 300 þúsund!

Gjaldþrotið kom öllum á óvart. Íslenska hrunið kom almenningi algerlega í opna skjöldu. Aldrei áður hafði sýsla af þessari stærðargráðu lent í slíku í USA. Aldrei áður hefur jafn lítið land og ísland lent í slíku fári og nú dynur yfir og af manna völdum líkt og í Orange County. Ein megin ástæða gjaldþrotsins var ráðstöfun skatttekna í áhættufjárfestingar í stað samfélagslegra verkefna. Íslenski bankar léku sér með þjóðarhag og auðlindir sbr. veðsetningu kvóta, gengdarlausum lántökum erlendis og orðspors landsins. Sýslan fór ekki á hausinn vegna lækkandi skatttekna eða annara utanaðkomandi ástæðna. Önnur megin ástæða gjaldþrotsins var að gjaldþrotið hitti svo marga aðila fyrir líkt og hér á landi. Engin var undanskilin högginu. Þriðja megin ástæðan var svo lausung í eftirfylgni reglna og fækkun þeirra um meðferð opinberra fjármuna. Hver kannast ekki við getuleysi Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins sem og meðvirkni þeirra og íslenskra stjórnmálamanna.

Rétt er að geta þess að heimild sú sem ég studdist við er nokkuð takmörkuð að því leiti að þetta er bók á netinu og einhverra hluta vegna vantar í hana blaðsíður á mikilvægum stöðum. Slóðin er hér að neðan.

Í greinum Spiegel, linkar hér að neðan kemur fram að verulega hætta er á að nokkur lönd muni verða gjaldþrota á næstu mánuðum jafnvel. Ísland er svo gott sem gjaldþrota segir í seinni greininni sem skrifuð er 30. jan. 2009

Fyrri grein Spiegel sem skrifuð er 11 apríl 2008 kemur fram strax á eftir skilgreiningu á þjóðargjaldþroti að það sé einmitt það sem er að gerast á íslandi. Þetta er 6 mánuðum fyrir hrun! Hvað er það að segja okkur?

Þess má geta að Davíð Oddsson sagði í Kastljósviðtalinu fræga þann 7 okt. 2008 að aðstoð sú sem AGS veitti þjóðum í vanda og okkur stæði til boða ætti við um gjaldþrota þjóðir, íslenska ríkið væri ekki gjaldþrota. Aðstoðin væri skilyrt, fjárlög undir smásjá sjóðsins og ekkert samþykkt án samþykkis hans sem þýðir að ríkissjóður þess lands væri í gjörgæslu. Það sem gerist svo í famhaldinu erum við farin sjá, óðaverðbólga, vantraust, upplausn, óbærilegur skuldaklafi, fjöldaatvinnuleysi, gjaldþrota fyrirtækja og einstaklinga og niðurbrotin þjóð sem misst hefur efnahagslegt sjálfstæði. Samkvæmt þessu þá er íslenska þjóðin gjaldþrota.

 

http://books.google.com/books?hl=en&lr=&id=al7k1P1WU5AC&oi=fnd&pg=PR9&dq=definition+of+a+bankrupt+country&ots=0nJxu3cbPr&sig=LJsO6DBp6CfrC8kWnKFY_gOR_D8#PPR7,M1

 

http://www.spiegel.de/international/business/0,1518,588419,00.html

 

http://www.spiegel.de/international/world/0,1518,604523,00.html


Jón og Gylfi

staðfesta í raun og veru með skýrslu þessari þá skoðun margra í bloggheimum, annara hagfræðinga, sumra stjórnmálamanna, erlendra sérfræðinga og fleiri að hrunið hér á landi var fyrirséð og það fyrir talsvert löngu síðan. Þessi bloggari er einn af þeim og hefur ekki legið á þeirri skoðun sinni. Það væri að æra óstöðugan að lista allt upp sem fram kemur í skýrslunni og ég læt nægja örfá atriði:

  • Seðlabankinn brást skyldum sínum, (eftirlitsbrestur ekki reglugerðarbrestur og meðvirkni)
  • Fjármálaeftirlitið brást skyldum sínum, (eftirlitsbrestur ekki reglugerðarbrestur og meðvirkni)
  • Ríkisstjórnir fyrri ára brugðust skyldum sínum, (eftirlitsbrestur, siðferðisbrestur, meðvirkni, blekkingar, stórmennskubrjálæði, hroki, sinnuleysi og virðingarleysi gagnvart þjóð sinni sem og öðrum þjóðum og stofnunum þeirra)
  • Stærstu eignendur og stjórnendur bankana voru reynslulausir, agalausir, skilningslausir, skorti þekkingu, yfirlætisfullir og báru enga virðingu fyrir umhverfi sínu
  • Krosseignatengsl banka og útrásarfyrirtækja sem leiddu af sér óskiljanlega fjármálagerninga til þess ætlaða að blekkja eftirlitsstofnanir, ríkisstjórnir, almenning og hluthafa
  • Einkavæðing banka mistókst herfilega

Það tekur um 45 mínútur til klukkutíma að lesa þessa skýrslu, ég hvet alla þá sem vilja fá einhverja hugmynd um ástæður hrunsins til að gera svo. Fáið ykkur góðan kaffibolla eða tebolla og lesið með atburði síðustu mánaða í huga þá sjáið þið samhengið, það er vel þess virði. Flott skýrsla. Það verður gaman að heyra í Sigurði Kára næstu daga þegar þessa skýrslu ber á góma.

Ég lofaði því í síðustu færslu að ég myndi reyna nálgast hugtakið "þjóðargjaldþrot" eða hvað það þýðir þegar heilt land kemst í greiðlsuþrot. Ég fann loks afar áhugavert dæmi eða hliðstæðu við þjóðargjaldþrot á netinu. Það mun taka mig einhvern tíma að lesa í gegnum það en það kemur. Þegar ég leitaði á netinu fann ég afar lítið um þetta efni enda held ég að fordæmin séu ekki mörg af þeim toga sem við erum að upplifa. Það er vel þekkt að vestræn ríki og jafnvel alþjóðabankinn gefi eftir skuldir við vanþróuð ríki en þar er ekki um að ræða tilvik eins og icesave ofl. sem okkur varðar og kemur ekki beint niður á almenningi í þeim löndum sem gefa eftir lán. Ég held líka að almenningur í þeim löndum sé þeim ákvörðunum sammála í hjarta sér svo fremi að komi fólki í vanþróuðum löndum til góða.


Borgarafundur og landráð

Jæja, hér kemur ein leiðinleg færsla:

Ég fór á borgarafund hér á Akureyri í dag. Ég varð þess sjaldgæfa heiðurs aðnjótandi að vera gestur á svokölluðu pallborði. Það felur víst í sér að maður situr við langborð við hlið annara gesta. Auk þess sitja við þetta langborð aðrir einstaklingar svokallaðir frummælendur. Frummælendur hafa framsögu um ákveðið þema eða málefni, að þeim loknum hefjast svokallaðar pallborðsumræður þar sem allir taka þátt í ræða málefni fundarins auk þess sem spurningar úr sal eru leyfðar. Yfirskrift þessa borgarafundar var "Landráð af gáleysi." En tilefni þessa eru miklar umræður í þjóðfélaginu um hvort þessi útrásartröll og jafnvel aðilar í stjórnsýslunni hafi gert sig seka um landráð af gáleysi. Ég hef áður bloggað um þetta tiltekna mál og birt um það grein á Smugunni. Þarna voru fallbyssur á við Vilhjálm Bjarnason lektor, Andrés Magnússon geðlæknir, Margrét Heinreksdóttir lektor í lögfræði og Sigurjón Þórðarson fyrrum þingmaður. Þessir fjórir voru frummælendur. Pallborðgestir voru auk mín, Lilja Skaftadóttir frá landráðahópi borgarafunda, Vésteinn Gauti Hauksson frá hagsmunasamtökum heimilana og loks Atli Gíslason, þingmaður VG og hæstaréttarlögmaður en hann kom þarna sem lögmaður en ekki sem þingmaður.

Jæja, en mér fannst ljóst frá upphafi að lögfræðingarnir, Margrét og Atli væru ákveðnin í að erfitt væri hægt að heimfæra aðgerðir og aðgerðaleysi leikenda í leikhúsi fáránleikans undir lagaákvæði landráðalaga. Þau væru samin fyrir svo löngu og andi þeirra ætti frekar við um stríðstíma og vilja einhverra til að koma landinu eða hluta þess undir erlend yfirráð. En hvað um það, eftir því sem leið á fundinn þá milduðust lögfræðingarnir í afstöðu sinni eftir því sem fleiri rök fyrir hinu gagnstæða komu fram í umræðunum. Loks var það niðurstaða, þvert á það sem fram kemur í fjölmiðlum, að hægt væri að heimfæra margt og mikið undir þessi ákvæði. En þeir lögðu áherslu á að án vafa væru leikendur í leikhúsi fáránleikans sekari um margvísleg önnur lagabrot og mun auðveldara væri að sækja slík mál en landráð. Reyndar gekk Margrét svo langt að fullyrða að hvort sem landráð hefðu verið framin eða ekki þá hefði þjóðin verið svikinn.

Erindi Andrésar vakti þó langmesta athygli á þessum borgarafundi en hann sýndi fram á með óhrekjandi gögnum og heimildum að hrunið hefði verið fyrirséð þegar árið 2004. Hann sýndi okkur heimildir frá sjálfum seðlabankanum þar sem borin var saman skuldastaða íslands við 138 önnur lönd árið 2004. Þar kom fram að ísland var langskuldugast þessara ríkja þá þegar og ef ekki yrði brugðist við þá myndi illa fara. Hann sagði frá því að hann hefði reynt að vekja athygli á þessu það árið og allar götur síðan en ávallt rekið sig á veggi og þöggun. Engin viljað hlusta, ekki einu sinni seðalbankinn.  The rest is history.

Ég gæti sagt frá mörgu öðrum ummælum sem féllu á fundinum en þá verður þetta leiðinda pistill, (eins og hann sé ekki nógu leiðinlegur fyrir). En það sem vakti undrun mína mest var inngrip Valgerðar Sverrisdóttur, fyrrum viðskiptaráðherra og Guð má vita hvað. En hún fékk orðið í lok fundar þar sem hún reyndi að verja gerðir og ekki gerðir fyrri ríkisstjórna. Hún reyndi að kenna EES samningnum um, nefndi að hver ráðherra sinnti bara sínu og seðlabankinn hefði ekki verið á sinni könnu, benti á auglýsingu frjálshyggjufélagsins sem birtist í blöðunum í síðustu viku um allt reglugerðarfarganið sem hefði hamlað bönkunum. Hún hefði selt bankana á sínum tíma og það hefði sko verið allt í sóma í því ferli. Orð hennar féllu í grýttan jarðveg. Meira að segja prestur einn stóð upp og tilkynnti Valgerði að hvað sem mönnum findist um landráð þá væru atburðir síðustu mánaða og stefna fyrri ríkisstjórna Drottinssvik og ekkert annað. Það var mikið klappað fyrir presti. Hvað um það, mér fannst þetta góður fundur og eiga skipuleggjendur mikla þökk skilið fyrir framtakið og fleiri fundir eru fyrirhugaðir.

Loks langar mig að geta þess að Atli Gíslason var spurður að því sem stjórnarþingmaður í framhjáhlaupi hve miklar skuldir væru að falla á þjóðarbúið, hans svar var: 2.400 milljarðar. Þetta er um sex föld fjárlög fyrir árið 2009. Aðra tölu heyrði ég í dag um skuldir þjóðarbúsins frá Gunnari Tómassyni hagfræðingi sem gagnrýnt hefur íslenska hagstjórn eða öllu heldur óstjórn í áratugi en hann fullyrðir að skuldir þær sem falla muni á ísland séu rúmir 5.000 milljarðar eða 12,5 föld fjárlög 2009. Hvort sem upphæðin er 2.400 milljarðar eða 5.000 milljarðar skiptir ekki öllu máli en hvor sem hún er þá er morgunljóst að við munum aldrei geta greitt þetta öðru vísi en gangast undir þrældóm næstu 10-20 árin eða svo. Ergó: íslenska þjóðin er gjaldþrota. Hvað það þýðir fyrir okkur sem þjóð kem ég að síðar eða reyni að nálgast það á einhvern hátt.


Feldu ekki gengið

Er þetta ekki bara kjaftæði? Gengi krónunar féll algjörlega í takt við árshlutauppgjör bankana á síðasta ári. Eins og flóð og fjara. Var FME ekki algjörlega vanmáttugt að rannsaka mál sem það gat engan vegin? Er það ekki niðurstaðan eftir allt saman? Búið að reka stjórann og stjórn. Hversu marktækt er þessi rannsókn þess þá? Froða!


Eignafærslur og eignaupptaka

Eflaust komast þessir snillingar upp með þessa gerninga og halda eignum sínum, (sjá hér). Eignarhaldsfélög þeirra verða eflaust gerð gjaldþrota og skuldir félaganna lenda á þjóðinni. Athygli vekur að flestir þessara gjörninga eru dagsettir aftur í tímann sem segir manni að hrunið hafi ekki komið þeim algjörlega á óvart. Á meðan sætir hinn venjulegi íslendingur eignaupptöku lánastofnana, þeirra sömu og settu landið á hausinn.Græðgi þeirra og vald yfir þjóðinni á sér engin takmörk.

Fjármálakerfið versus almenningur

Samkvæmt Gylfa Magnússyni nýjum viðskiptaráðherra eru fjármálafyrirtækin í hærri forgangi hjá ríkisstjórninni en fólk í landinu þ.e. ég og þú. Gylfi segir að verði hluti skulda almennings þ.e. sá hluti sem bæst hefur við höfuðstól lána v/verðtryggingar í hruninu ekki afskrifað eins og margir höfðu lagt til og þar á meðal Gylfi ef mig misminnir ekki.

Þetta þýðir að stór hluti íslendinga verður fyrir afar óréttlátri eignaupptöku og aðrir skulda milljónum meira en þeir hafa tekið að láni að þeim forspurðum og hafa ekki einu sinni fengið þessa aura til ráðstöfunar. Aðgerðir þær sem nýja stjórnin mun leggja fram felst í sömu gömlu tuggunni um framlengingu lána og greiðsluaðlögun sem virkar eins og plástur á svöðusár.

Ég skal viðurkenna að ég vonaðist til mun meiri afgerandi aðgerða. Nýja stjórnin virðist því hafa sama skilning á vandamálinu og sú gamla og sömu lausnir. Einhvern vegin grunar mig að reiðin í samfélaginu muni aukast á ný þegar óréttlætið kemur af fullum þunga á næstu vikum og glæpamennirnir úr gömlu bönkunum ganga enn lausir og frjálsir ferða sinna. Það er því greinilegt að nú veit Gylfi eitthvað sem við vitum ekki og fáum ekki að vita. Staðan er því mun alvarlegri en okkur grunar. Það kæmi mér því ekki á óvart ef mótmælin hæfust á ný og af endurnýjuðum krafti. HFF (helvítis fokking fokk)


Er hagfræði hugarástand?

Ég hef oft haft mínar efasemdir um hagfræði. Haldið þeim að mestu fyrir mig sjálfan og ekki lagt trúnað á eina kenningu umfram aðra. Get þó samþykkt lögmálið um framboð og eftirspurn en thats all! Hagfræði verður hjá mörgum trúarbrögð sbr. Hannes Hólmstein Gissurarson og félaga, Marx og Lenín og alla þá neoconista sem eru eins konar ofurfrjálshyggjupostular ef skil þetta rétt, oft kenndir við einhvern háskóla í Chicago USA. Efasemdir mínar um þá hagfræði sem snýst í andhverfu sína og verða trúarbrögð eru það miklar að ég sóa ekki tíma mínum í að lesa það kjaftæði. Það er mér nóg að lesa útdrætti um þær kenningar.

Þeir einstaklingar sem gera hagfræðina að trúarbrögðum enda nær undantekningalaust sem pólítískir ofsatrúarpostular innan ákveðina stjórnmálaflokka. Þeir flokkar eru undarlega oft staðsettir til hægri eða vinstri í stjórnmálamenginu. Þessir einstaklingar og fylgjendur þeirra í þessum flokkum eru og verða afar undarlegir í háttum og viðræðu þ.e. háttalag þeirra einkennist af ofsa, hroka og sjúklegri tortryggni. Nær undantekningalaust leitast þeir við að niðurlægja og auðmýkja andstæðinga sína og viðmælendur sem ekki eru á sömu skoðun og þeir.

Við þekkjum öll hvað ofsa- og bókstafstrú gerir fólk. Það kemst í einhvers konar hugarástand og heilbrigðri skynsemi verður ekki við komið, það tekur engu tali né neinum rökum. Bara alls engum. Gunnar Tómasson, hagfræðingur sagði í Silfri Egils um helgina að nútímahagfræði einkenndist af einmitt slíkum öfgum. Af atburðum undanfarina mánaða má einmitt ráða að sú sé raunin. Það má því auðveldlega álykta sem svo að hagfræðingar nútímans a.m.k. þeim sem orðið hafa boðberar ákveðinna kenninga hafi orðið fórnarlömb hugarástands fremur en skynsamir fræðimenn sem beitt hafa aðferðum vísinda til að auðga samfélag manna og gera það mannvænna. Hagfræðin sem fræðigrein þar því að fara í algera naflaskoðun því ábyrgð hennar á efnahagshruni því sem nú er að verða er mikil.

Að þessu sögðu álykta ég að nútímahagfræði er hugarástand, ekki vísindi. Því ber okkur sem nú lifum þessa tíma að taka ráðlegginum þeirra með varúð a.m.k. þeirra sem augljóslega eru ofsatrúarhagfræðingar því þeir hugsa ekki sjálfstætt heldur eru í einhvers konar hugarástandi. Hugsa sjálfstætt og beita almennri skynsemi.Hlustum á þá hagfræðinga sem tala skynsamlega og eru skiljanlegir. Þeir eru þarna nokkrir. Þeirra aðalverkefni verður einnig að læra að beita hagfræðinni í þágu mannkynns - ekki í þágu stjórnmálaflokka eða valdasjúkra einstaklinga. Þeirra tími er liðinn.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband