Sundruð þjóð

Við íslendingar erum sundruð þjóð. Alþingi er í upplausn vegna icesave málsins og fleiri brýnna mála. Sá sandkassaleikur og typpasamanburður sem þar fer fram er ömurlegur. Verst er framganga hrunflokkana sem láta eins og hrunið og spillingin hafi komið frá litlum ljótum köllum í útlöndum. Ömurlegar eru fullyrðingar þeirra um að ábyrgðin á icesave sé alfarið Vinstri grænna og þá einkum og sér í lagi á ábyrgð Steingríms. Ég er alfarið á móti icesave samkomulaginu, það hefur komið fram fyrir löngu og ég ætla ekki að endurtaka það enn einu sinni á þessu bloggi. Ábyrgð Steingríms fellst fyrst og fremst í því að hafa skipt um skoðun varðandi þessa nauðung sem icesave er og skrifa undir fyrir hönd ríkisins og knýja fram samþykkt ömurleikans á þingi án þess að útskýra það fyrir þjóð sinni hvers vegna! Það eina sem hann hefur sagt við þjóð sína um viðsnúning sinn er þetta: það besta sem við gerum í stöðunni er að samþykkja og að okkar bíði helvíti á jörðu ef við gerum það ekki!

Í fréttum og á bloggi hafa menn afar skiptar skoðanir á málinu, jafnvel svo að menn ausi hvern annan svívirðingum. Það er ekki gott. Hinn óbreytti íslendingur sem ekki bloggar er orðin ráðvilltur og ruglaður og skilur engan vegin af hverju honum beri að borga. Ekki síst þar sem engin - endurtek - engin hefur komið fram með óhrekjanleg rök eða lagagreinar sem segja að honum beri að borga fyrir einkabankann, landsbankann. Hinn óbreytti íslendingur er orðin þreyttur á ruglinu og þráir það eitt að fá að halda áfram með líf sitt án þess að þurfa taka ábyrgð á axarsköftum og heimsku fjárglæframanna. Hinn óbreytti íslendingur er orðin afar þreyttur á klofnum tungum stjórnmálaflokka og -manna sem aðeins hugsa um eigin hag. Hinn óbreytti íslendingur horfir uppá aðra óbreytta íslendinga missa vinnu sína, íbúð, bíla, framtíðina, æruna og mannorðið vegna "kerfislægs vanda" eins og einn snillingurinn orðaði það. Hinn óbreytti íslendingur horfir uppá fjárglæframenn lifa í vellystingum erlendis. Hinn óbreytti íslendingur horfir uppá ráðherra skrifa uppá sk. "fjárfestingasamning" við félag í eigu eins helsta fjárglæframannsins. Ég hef ekkert á móti gagnaverum svokölluðum, bara eigendum þeirra ef þeir eru vafasamir pappírar. Hinn óbreytti íslendingur horfir uppá höfuðsmið hrunsins hylltan úti í móa, á hádegi. Hinn óbreytti íslendingur hefur horft uppá skuldir sínar vaxa líkt og svarthol þrátt fyrir að greiða þær á gjalddaga. Hinn órbreytti íslendingur hefur horft upp á vöruverð hækka líkt og engin væri morgundagurinn. Hinn óbreytti íslendingur horfir upp á samfélag sitt brotna niður á sívaxandi hraða. Engin talar máli hins óbreytta íslendings lengur. Hver flokkur hugsar um sig, hver þingmaður um sig og sinn flokk.

Hvað getur sameinað þessa þjóð? Það er eitt sem sameinar þjóðina og það er RÉTTLÆTI. Frá degi eitt í hruninu hefur réttlætið gersamlega horfið í svartnætti spillingarinnar. Við fengum von með Evu Joly sem sterk öfl í samfélaginu hata. Sú von hefur farið vaxandi ekki síst með aðkomu erlendra aðila að rannsókn hrunsins. Hinum óbreytta íslending er farið að leiðast biðin eftir réttlætinu. Honum finnst það ekki réttlæti að sumir gerandana hætti störfum í stjórnsýslunni sökum þrýstings utan frá og fái að launum feita launatékka í 15 mánuði þegar hinn óbreytti íslendingur verður að sætta sig við max 3 mánuði í uppsagnarfrest á lámarkslaunum og í mörgum tilfellum mun minna. Þeir flokkar sem nú eru á þingi munu ekki ná fram réttlæti sem þjóðin mun sætta sig við. Til þess eru of margir þingmenn nátengdir spillingunni og jafnvel gerendur, fyrir hrun, meðan á því stóð og á eftir og þá sérstaklega í þremur flokkum sem eiga því miður of marga þingmenn. Smá von kom með Borgarahreyfingunni, sú von dó. Hvað er þá til ráða? Getum við beðið eftir næstu kosningum? Getum við það? Fáum við ekki sama liðið yfir okkur aftur?

Mig langar að spyrja: hvar er leiðtogin sem leiða mun okkur úr kreppunni og á vit nýrra tíma og betra samfélagas? Nú gerist ég smá spámannslegur. Sá leiðtogi mun ekki koma frá núverandi flokkum á þingi. Hann mun koma úr hópi hinna óbreyttu íslendinga sem deilt hefur kjörum með fólkinu, tekið þátt í sorgum þess og gleði og þyrstir jafnmikið og fólkið í réttlæti. HVAR ERTU?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Hið margnefnda uppgjör Jóhönnu Sigurðardóttur lætur á sér standa. Tilhugsunin um að þjóðin verði þvinguð inn í ESB án þess að stjórnarskráin hafi verið tekin upp og án þess að tekið sé til í stjórnsýslunni er eins og að klæða skítugt barn í hrein föt.

Hér er endalaust logið að þjóðinni og menn vaða áfram í allskonar framkvæmdir án þess að hagkvæmni liggi fyrir.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.10.2009 kl. 02:42

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Já Jakobína, það lætur bíða eftir sér og sama má segja um gagnsæið, allt uppi á borðinu, stjórnlagaþing, þjóðaratkvæðagreiðslur og margt fleira.

Kv, ari

Arinbjörn Kúld, 25.10.2009 kl. 10:28

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Takk fyrir mjög góðan pistil.  Það er langt síðan sem ég hef lesið annan sem hefur vakið hjá mér eins mörg hugrenningatengsl.  Og þar sem ég er ekki að trufla neina umræðu þá langar mig aðeins að festa  sum niður á blað.

Þar sem ég er einn af þeim sem hef gert bandalag við ömmu andskotans til að hnekkja ICEsave samkomulaginu þá langar mig að árétta mína ástæðu fyrir hörkunni.  

Lágur barnadauði og almennar lífslíkur barna okkar eru ekki eitthvað sem er sjálfgefiðÞetta kostar pening.  Og þann pening á núna, vegna einhverra óskilgreindra hótana að setja í að borga breskum og Hollenskum stjórnvöldum skaðabætur vegna banka sem þau leyfðu starfsemi eftir reglugerðum sem þau eins og önnur öflug hagkerfi Evrópusambandsins sömdu.  Þar komu íslensk stjórnvöld hvergi nálægt og þeirra eini glæpur var að leyfa starfsemi eftir þeim reglugerðum, en til að hindra það þá þurftu þau að segja landið úr samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið.  Og ég var ekki var mikinn þrýsting um það, heldur var þrýstingurinn í hina áttina að þjóðin stigi skrefið til fulls.   Það var ofsalega auðvelt að gagnrýna Hrunflokkana núna, en hvaða hreyfing stóð gegn þeim þá?????  Hverjir vildu út úr EES????   Og hvað hefði komið í staðinn?????

Ekki ætla ég að réttlæta gjörðir þessara manna, enda er ég hatrammur andstæðingur þess siðleysis sem mér fannst stjórna alþjóðavæðingunni, og kaus gegn Hruninu allan tímann, þrátt fyrir rætur á miðjunni.  En að mínu dómi var það kerfið sem brást, það var vitlaust gefið í upphafi því það vantaði allt siðferði inn í hagmódelið, það siðferði sem segir að rangt sé rangt, þó þú græðir á því.  Og gjaldþrot þeirrar andstöðu, sem þó var til staðar gegn einkavinavæðingu Nýfrjálshyggjunnar, var eftir kosningarnar 2007 þegar allir flokkar vildu í pólitískt hjónaband með Sjálfstæðisflokknum.  Hugmyndfræði hans virtist hafa sigrað, alveg þar til raunveruleikinn sagði annað.  En þó hafa menn ekki lært meira en það að eins og Þorsteinn Pálsson sagði réttilega í Morgunblaðsviðtali, núna eru VinstriGrænir undir forystu Steingríms Joð að framfylgja þeirri stefnu sem Sjálfstæðiflokkurinn er að heykjast á.  

Og til hvers var þá byltingin spyr ég bara??

En þetta er ekki kjarni minnar andstöðu.  Ég vil meina að faðir sem horfir á látið barna sitt vegna þess að það fékk ekki sömu heilbrigðisþjónustu og hann fékk sjálfur vegna þess að erlendar vaxtagreiðslur sjúga allt fjármagn úr ríkissjóði, honum sé alveg sama um söguskýringar, hvað þá hver gerði hvað einhvern tímann.  Hann spyr sig aðeins einnar spurningu og hún er þessi; Af hverju???????????????

Og í kjölfarið mun hann spyrja; Hvað gerðir þú til að hindra að þetta gerist????  Og þá er eins gott að menn hafi svör sín á hreinu.

Af hverju standa spjót mín á Steingrím Joð, þann mæta mann sem ég mat einna mest íslenskra stjórnmálamanna????  Það er ekki eingöngu vegna þess að hann er gerandi dagsins í dag, en umræðan um Hrunflokkana er söguskýring, og ég átti alveg eins von á því að stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins hefði látið undan kúgun bretanna.  Nei það var vegna þess að þarna hjó sá sem hlífa skyldi.  Hver annar átti að verja hagsmuni þess föður sem ég lýsti hér að framan????

Þegar ég las pistil þinn fyrst þá rifjaðist upp fyrir mér löngu gleymd saga en það er um frægasta svikara grískrar sögu, hann Hippías.  Hann vann sér sinn vafasama sess í sögunni um 490 fyrir Krist (fletti þessu upp, man nú ekki svo vel staðreyndir).  Þá réðist Daríus Persakonungur á Grikki með mikinn liðsafla og sjálf gríska siðmenningin og sjálfstæði var undir.  Nokkur grísk borgríki fylgdu Persunum en Aþena og Sparta stóðu á móti ásamt megninu af grísku ríkjunum.  Spartverjar voru þá þekktir fantar og fúlmenni og í kjölfar þessarar fyrstu orrustu við Persana stofnuðu Aþeningar Sjóríkjasambandið sem þeir kúguðu síðan seinna meir miskunnarlaust.  Spartverjar og Aþeningar urðu síðan seinna meir "Hrunríki" grísks sjálfstæðis með sínum linnulausa ófriði.  Auk þess voru ótal margir liðhlaupar í liði Persanna.  

En eitt nafn lifir, og það er nafn Hippíasar, fyrrverandi harðstjóra (Tyran) Aþenu, sem bauð Daríusi þjónustu sína til að endurheimta sín fyrri völd í Aþenu.  Þá hjó sá sem hlífa skyldi, Hippías notaði hæfni sína og þekkingu til aðstoða óvininn í stað þess að verja sitt fólk.

Og hefur verið fyrirlitinn æ síðan.

Kannski eru þær ógnir sem Steingrímur sá í spákúlu sinna ráðgjafa það mikil að honum féllust hendur, en það gaf honum ekki vald til að svíkja stefnu sína og hugsjónir.  Skorti honum kjark eða þrek til að berjast við Helstefnu Nýfrjálshyggjunnar, þá átti hann að víkja og hleypa viljugum baráttumanni að, en EKKERT gaf honum rétt til að ganga til liðs við óvininni og afvopna þar um leiða alla Andstöðu gegn honum.

Í því eru hin grundvallarsvik fólgin.   

Pétain marskálkur mátti gera í sínar brækur andspænis mætti Þjóðverja, hin svik hans við frönsku þjóðin fólst í uppgjöfinni, í stað þess að fela De Gaulle völdin.  Þá hélt franska auðvaldið að það gæti samið við siðlausa ræningja, en það reyndist vera rangt.  Ræningjar stela alltaf, og ef þeir eru siðlausir í þokkabót, þá valda þeir ómældum hörmungum komist þeir upp með það.  

Nýfrjálshyggjan er siðlaus ræningja stefna.  Eðli hennar er að fá sem mest út úr fórnarlömbum sínum með sem minnstum tilkostnaði.  Og hún drepur fólk.  Og það mun hún gera á Íslandi.  Allstaðar þar sem ein birtingarmynd hennar, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur náð ítökum, þar hefur fólk fallið, sem annars hefði lifað

Og þetta fólk er alþýðufólk, alveg eins og ég, sonur húsvarðar í Gagnfræðiskólanum í 35 ár.  Ég og mínir líkar hafa notið góðs af þeirri velferð sem uppgjafasinnar vilja fórna fyrir friðinn.  Og ég er nógu skynsamur til að gera mér grein fyrir því að það sem hefur einu sinni tapast, það tekur ómælda baráttu að ná til baka.  Og á meðan óþarfa þjáningar þeirra sem velferðin átti að hlífa.

Arinbjörn.  Þetta skylduð þið aldrei nógu vel í Borgarahreyfingunni.  Þræll þarf ekki réttlæti, hann þarf frelsi.  Og í dag er verið að gera íslensku þjóðina að þrælum erlends auðvalds.  Og þið ræðið um ýmsa augljósa vankanta okkar gamla þjóðfélags á meðan.  En hvort sem það var gott eða slæmt (ekki verra en það að við vorum á topp þrjú lista Sameinuðu þjóðanna yfir mesta velmegunina í heiminum) þá var það okkar þjóðfélag.  Í dag er Steingrímur Joð Sigfússon vinnumaður hjá þeim sem vilja svipta okkur þessu þjóðfélagi og gera Ísland að hjálendu alþjóðlegs auðmagns.  

Pólitík Andófsafla í dag snýst ekki um að sníða vankanta af hina gamla þjóðfélagi, alvöru Andófsöfl eru í frelsisbaráttu.  Og sú barátta er að tapast af tveimur ástæðum.  Breytingaraflið (sem fann sér meðal annars farveg í Borgarahreyfingunni) vill uppgjör við fortíðina, en á meðan sér það ekki hina aðsteðjandi ógn skuldaþrældómsins og afsal auðlynda þjóðarinnar í hendurnar á erlendu auðvaldi og þeir sem sökum róttækra stjórmálaskoðana sinna ættu að vera í fararbroddi Andstöðunnar, þeir sviku.  

Og það skiptir ekki máli af hvaða toga svikin eru.  Þeir sviku.

Og Arinbjörn, sá leiðtogi sem þú kallar eftir, hann mun ekki ná  að sameina þjóðina um réttlæti skuldaþrælsins.  Og ef hann trúir því að græðgi Nýfrjálshyggjunnar sé eitthvað náttúrulögmál, sem ekki er hægt að breyta, og því snúist starf hans um gera gott úr þjóðfélagi sem notar lungann af sínum tekjum til að borga vexti og afborganir til erlends auðvalds, þá hefur hann lesið stöðuna hrikalega vitlaust.  Og skiptir þá engu hversu góður og gegn hann er að öðru leyti og hve vel hann vill.   Og þá skiptir heldur engu máli hver gerði hvað, hverjum og hvurs, og allt það.

Ekki það að réttlæti skipti ekki máli.  En það er grundvallarmunur á réttlæti og réttlátri framtíð.  Og það er lítið réttlæti sem lætur sér duga að gera upp við einstaklinga, en ekki kerfið sem skóp þá.  Hvað þá ef sú barátta festir verri birtingarmynd siðleysisins í sessi.   Þjóðfélög Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru ekki réttlát og í þeim eiga börn alþýðufólks sér enga framtíð.  Þar eru þau aðeins ódýrt vinnuafl, ekki manneskjur.

Þess vegna gerði ég bandalag við ömmu andskotans.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.10.2009 kl. 21:55

4 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Takk fyrir mjög góðan pistil Arinbjörn.

Með kveðju

Friðrik Hansen Guðmundsson, 26.10.2009 kl. 00:27

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk fyrir innlitið kæru Ómar og Friðrik.

Leiðtoginn sem ég kalla eftir Ómar færir okkur réttlæti og um leið frelsi. Réttlæti getur ekki á frelsis verið og vis versa er það ekki? Meginpunktuinn hjá mér er að án réttlætis verður engin uppbygging og engin uppbygging verður án frelsis. Ég, eins og þú er hugsi yfir því hvort áunnin/sjálfsögð réttindi sem við höfum gefið eftir tímabundið muni nást aftur.

Ég er þér sammála hvað BH varðar, hún brást illilega, hvað sem olli. Varð til þess að traust mitt á mannfólkinu hvarf nánast.

Þú ert maður sem ég vildi hafa við hlið mér á erfiðum tímum Ómar. Pælingar þínar vekja hjá mér ótal vangaveltur.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 26.10.2009 kl. 22:36

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur Arinbjörn.

Kosturinn við svona myndrænan pistil eins og þinn er sá að hann vekur ýmsar hugrenningar og maður freistast til að velta upp hlutum.

Ég skil alveg (og hef alltaf gert) hvað þú meinar með uppgjöri við gerendur Hrunsins.   Munurinn á mér og mörgum öðrum er kannski sá að ég hatast (ef maður má nota svoleiðis orð) við siðleysi Nýfrjálshyggjunnar eins og við pestina og mér er líka ljóst að mín kynslóð lifir á örlagatímum, og ögurstundin nálgast óðfluga.  Siðleysið, græðgin, sérhyggjan, ásamt algjöru tillitsleysi við örlög og kjör náungans, í samblandi við Tregðuna (þ.e. það lögmál að niðurrif er miklu auðveldara en uppbygging) hafa skapað þær aðstæður að raunhæf tortíming mannkyns er möguleg.  Allir þessir þættir hafa verið til staðar áður, en í dag er tæknin slík, að mannkynið getur loksins gengið frá sér.  

Og þetta EF, er of hættulegur möguleiki til að feður og mæður geti leyft hann hjá sér.  Þess vegna skiptir svo miklu máli, að það sem gert er, virki til góðs.  Gefi einhverja von til framtíðar, og jafnvel hjálpi til að skapa betri framtíð.  

Síðan hef ég ákveðnar lífsskoðanir sem gera mér mjög frábitinn lögmálinu, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.  Og ég tel líka að það þarf "siðferðisbyltingu" (ekkert kyn-eitthvað eða svoleiðis, heldur spá betur í kenningar meistarans frá Nazeret um hvað menn vilja sjálfum sér og öðrum, muna eftir dæmisögunni um miskunnsama Samverjann, láta það eiga sig að brjóta mikil gler í vandlætingu sinni og hugleiða aðeins hlutskipti sinna minni bræðra, og sína miskunn) og hún mun leiða til bættra vinnubragða.  Ég hef sagt að núna sé þörf á sömu byltingu mannsandans og þegar menn sáu praktíkina við að hætta borða hvora aðra. 

Victor Hugo spáði mikið í þetta og skapaði eina fallegustu mannlýsingu sem ég hef lesið, en hún var lýsing hans á "herra Karl Franz Bienvenu Myriel biskup í Digne" og lífi hans.  Um hann má lesa í fyrsta kafla Fyrstu bókar undir heitinu "Réttlátur maður".  Þessi ágæti biskup mat mikils mátt fyrirgefningarinnar sem "refsingu" iðrandi syndara.  Og hann hafði lítið álit á réttlæti án miskunnar.  Taldi vænlegar að byggja upp betri heim og fá þar með færri syndir.  

Speki mín um "Mannúð og Mennsku" byggist meðal annars af kynnum mínum af þessum aldna heiðursmanni.

En burtséð frá því þá er leið mín um sannleiksnefndina líka skynsamlegri heldur núverandi hrunadans uppgjörsins og hún er líklegri að geta af sér betri framtíð.  Það er svo ótalmörg dæmi úr sögunni sem hægt er að týna til máli mínu til stuðnings, dæmi sem ættu að fá menn til að íhuga að vilji til réttlætis á ekki að leiða menn út í fúamýri og detta þar ofaní keldu sem svo margir hafa dottið ofaní áður á sömu vegferð til réttlætis.

Mig langar til að nefna tvö dæmi til íhugunar.

Það fyrra er hin sorglega saga Haiti.  Þegar ég var drengstauli eða rétt rúmlega það, þá las ég þrjár bækur eftir danskan rithöfund þar sem hann rakti sögu þrælahalds í Dönsku Indíum, þær hétu ef ég man rétt, Þrælaskipið, Þrælavirkið og Þrælaeyjan.  Og ég get ekki gleymt þeirri grimmd sem var lögfest til að halda svörtu þrælunum niðri til að hindra uppreisnir þeirra.  Ótrúlegur óhugnaður.  Og þetta var svipað annarsstaðar, til dæmis á Haiti þar sem Frakkar fóru með stjórn.  Og á Haiti tókst eina þrælauppreisnin undir mjög hæfs herforingja.  Og þeir hvítu þrælaeigendurnir sem tókst ekki að forða sér beið hrikaleg örlög.  Í raun þau sömu og þeir höfðu sýnt þrælum sínum.  Mér er minnistætt mynd sem ég sá í grein þegar ég var að lesa um þrælauppreisnina á Haiti þar sem meðhöndlun franskra hermanna, sem féllu lifandi í hendurnar á uppreisnarmönnunum, var sýnd og hún passaði mjög vel inn í dönsku lýsingarnar.  

Og var þetta ekki réttlæti???  Kannski, en þeir kúguðu tóku upp háttsemi þeirra sem kúguðu þá, og það var leiðsögnin inn í hina nýju framtíð svörtu íbúa Haiti.  Þegar síðasti Frakkinn var dauður, þá tóku hinir nýju stjórnendur við að pína sína eigin þegna og héldu því áfram langt fram yfir 1970, í rúm 150 ár.  Til hvers var verið að gera byltingu, ef aðeins var skipt um húðlit á illmennunum???? 

Hitt dæmið er árangur Kýrosar Persakonungs við að sameina ólík ríki í Austurlöndum nær eftir fall Assiríuríkis.  Assiríumenn voru þekktir fantar og fúlmenni og byggðu þar á hefð svæðisins.  En þeir gengu of langt og ríki þeirra var lagt í rúst.  Persar komu út sem sigurvegarar og byggðu ríki sem hefði staðið um langa framtíð ef ekki hefði komið til grikkur tilviljana og Alexander mikli fæddist inní Makedónísku hirðina, en ekki til dæmis sem eyjarskeggi á Krít (þá hefði hann orðið sjóræningi).   En Kýros sýndi sigruðum þjóðum umburðarlyndi og miskunn.  Og það dugði.

En núna er svefntíminn kominn hjá strákunum en ég ætla halda áfram seinna að spjalla um mínar forsendur byltingarinnar, eða þannig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.10.2009 kl. 20:45

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur.

Smá viðbót til að klára þennan flöt.  

Dæmin sem ég síðan notað sem grunnrökstuðning fyrir sannleiksnefndinni eru síðan stefið um Enron og Mandela sem ég hef svo oft minnst á áður við þig.  Til upprifjunar þá er Enron klassískt dæmi þar sem valdhafarnir hengja nokkra fallna félaga sína, og það er gert til að róa lýðinn á meðan þeir halda áfram að styrkja sín völd og halda áfram sinni iðju.  Forsprakkar Enron voru akkúrat dæmdir um leið og Wall Strett fékk í gegn afnám helsta lærdóms Kreppunnar miklu, en það var bannið við Afleiðuviðskiptum.  Og þau viðskipti eru það skrímsli sem fór með fjármálamarkaðina.  Og tapið er almennings.    Ef almenningur hefði ekki verið svona auðblekktur og fylkt sér á bak við fólk sem vildi tafarlausar aðgerðir gegn græðgiblekkingarbrögðum fjárúlfa,  í stað þess að halda að opinber tyftun fallinna auðmanna hefði einhvern annan árangur í för með sér en þann að hinir sem stóðu og véluðu sín braskarabrögð, yrðu bara gætnari, og eða beittu afli sínu til að breyta lögunum, þeim til hagsbóta, þá hefði Hrunið mikla ekki átt sér stað.  Og við megum aldrei gleyma því að við erum aðeins að sjá toppinn á ísjakanum, með gífurlegri skuldsetningu almannasjóða  tókst að stoppa í lekann, en sjálft fleyið, fjármálakerfið er morkið og mun gefa sig, ef ekki verður um algjöra uppstokkun að ræða.  

Og sú uppstokkun mun ekki eiga sér stað meðan endalaust er hægt að blekkja með þessum árþúsunda gömlu trikkum að hengja nokkra fallna til að létta þrýsting á kröfunum um grundvallarbreytingar.  Því það eru ekki gerendurnir sem skipta máli, heldur kerfið sem skóp þá.

Og Mandela, hann sá þetta fyrir, enda hafði hann nægan tíma til að hugsa málin á meðan hann dúsaði í dýflissum aðskilnaðarstefnunnar.  Og hann hafði persónuleika til að sannfæra landa sína um gildi þess að byggja upp nýja og betri framtíð, í stað þess að fara í blóðugt uppgjör við fortíðina.  Uppgjör sem enginn vissi hvað kæmi út úr og enginn vissu hver stæði uppi sem sigurvegari.  Því gerendur fortíðar hafa bæði völd og fjármuni til að kaupa sig inn í raðir byltingarmanna.  

Þess vegna bauð Mandela fyrirgefningu gegn iðrun og upplýsingar um alla glæpina sem framdir voru.  Þar með voru allar rotturnar flæmdar úr skúmaskotum sínum, sem annars voru tilbúnar að nýta sér öll tiltæk ráð til að fela og hylma yfir sína starfsemi, og hindra að réttlætið næði til þeirra.  Og til þess höfðu þeir mörg vopn, en þeir áttu ekkert vopn gegn sakaruppgjöfinni, segðu þeir ekki sjálfir frá, þá voru þeir öruggir um að aðrir segðu til þeirra.  

Í þessu var snilldin fólgin.  Öfl sem gátu hindrað framtíðina voru strax brotin á bak aftur.

Og við hefðum betur farið þessa leið.

Arinbjörn.  Ég varaði strax í haust við því sem myndi  gerast ef veikburða andstaða myndi krefjast "réttlætis" og það réttlæti væri í því fólgið að gera upp við einstaklinga en ekki kerfið.  Og allir mínir spádómar hafa komið fram.  Hugsanlega verða einhverjir fallnir menn teknir og stungið í grjótið, og þá fyrst og fremst fyrir atburði sem áttu sér stað síðustu mánuði Hrunsins, þegar þeir háðu örvæntingarfulla baráttu fyrir tilveru fyrirtækja sinna, en Kerfið sjálft, og hugmyndasmiðir þeirra stálu byltingunni.  Og það var fyrirséð.  Eina sem ég sá ekki fyrir og gat ekki ímyndað mér, voru svik VinstriGrænna, og þau svik hafa flýtt fyrir endurreisn velferðarkerfis auðmanna og fjárspámanna.  

En þetta var samt óumflýjanlegt á meðan Andófsöflin voru leidd áfram af fólki sem hafði annað hvort ekki kynnt sér söguna, eða vildi ekki læra af henni.  Alveg eins og endurreisn Íslands fer eftir þrautreyndum lögmálum mistaka og örbirgðar, í stað þess að hlusta á unga fólkið sem hefur kynnt sér mistökin og lært um leiðir sem virka.

Og ástæða þess að það var ekki hlustað á þetta unga fólk var sú að Byltingin skynjaði ekki sinn vitjunartíma.  Gamla kerfið náði strax vopnum sínum á ný, það ýtti undir úlfúð og deilur.  "Trúverðugir" hagfræðingar eins og Þorvaldur Gylfa og Gylfi Magg bentu á íhaldið og Davíð, og á meðan voru varnir landsins gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þess samkrulls innlends og erlends auðvalds, sem hann stendur fyrir, fyrir bí.  Þorvaldur hrópaði spilling og lýðurinn klappaði, og á meðan voru dyrnar opnaðar fyrir gjörspilltasta kúgunarvaldi heims. 

Og í stað þess að bæta heiminn, þá er Andófið, eða sá hluti þess sem týndist ekki í Holtaþokunni, í frelsisbaráttu.

En það eina sem við þurftum að átta okkur á að stjórnmál eru lyst hins mögulega.  Þú boðar ekki uppgjör við fjórflokkinn, og þá sérstaklega ráðandi hluta hans (Framsókn og Íhaldið), nema þú hafir til þess afl.  Bolsévikar gátu það því þeir höfðu einn mesta hersnilling mannkynssögunnar í sínum röðum, en íslenska Andófið átti ekki sinn Totskí, og því fór sem fór.

En það var lag til breytinga, það sáu allir gjaldþrot gamla kerfisins, líka íhaldið.  Og Helför Alþjóðagjaldeyrissjóðsins bitnar á allflestum, líka hefðbundnum atvinnurekendum.  Og unga fólkið var með lausnirnar, það er þær hagfræðilegu.  

Það þurfti bara stjórnmálaafl sem kom með hugsjón um betri framtíð.  Og framtíðarsýn.  Og boðaði þannig vinnubrögð að fólk skynjaði það ekki sem ógn ( til dæmis er það ógn fyrir venjulegan mann að sjá þjóðfélagið leysast upp í bræðravíg en slíkt var óumflýjanlegt ef fjórflokkurinn átti að hengjast upp á afturlappirnar, því auðvita verjast menn)  , heldur valkost.  

Valkost um eitthvað annað og betra.  Ný vinnubrögð og nýja þjóðfélagsgerð.  Til dæmis að við værum eitt í kreppunni, og tækjum á okkur byrðarnar sameiginlega.  

Rannsókn sem byggðist á sakaruppgjöf hefði verið sterkasta vopn byltingaraflanna.  Það er erfitt að vera á móti sannleikanum, þá á ég við að það er erfitt að spilla slíkri leið (það hefði verið reynt að klappa upp hengingar sem hið endalega réttlæti) og erfitt að verjast afleiðingum hennar.  Þegar sannleikurinn liggur fyrir, um undanbrögð og skattaskjól, hagsmunatengsl og óeðlilega fyrirgreiðslu, allt hluti sem eru á gráa svæðinu og erfitt að dæma sem bein lögbrot, þá er hægt að verjast slíku í framtíðinni.  Og helstu ógnvaldar hinnar nýju skipan, réttláts þjóðfélags frjálsra og jafnrétthárra manna, án afskipta auðmanna, stæðu vængstýfðir á eftir og ættu mjög erfitt um vik að skemma og eyðileggja, hvað þá að bjóða þrælasölum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins upp í dans.

En hvað um hina brotlegu auðmenn???  Eðli málsins vegna þá skila þeir illa fengnu fé, en það sem þeir hafa eignast með lögmætum viðskiptum er þeirra.  Vilji þeir iðrast og nota það til góðs, samfélagi sínu til heilla (ekki til áhrifa), þá ættu þeir að vera velkomnir, það segir allavega biskupinn í Digne, en ef þeir vilja svalla ærulausir í útlöndum þá mega þeir það mín vegna.  

Aðalatriði málsins er sá að sú leið sem ég bendi á, gerir þá áhrifalausa við mótun hins nýja samfélags, og það eitt skiptir máli.  Þannig séð er mér alveg sama um þá á meðan þeir flækjast ekki fyrir.  Hið nýja Ísland er stærra en svo að það velti sér upp úr svalli ærulausra manna.  En það er nógu stórt til að leyfa öllum, og þá meina ég öllum, að iðrast og bæta sig.  Líka þeim sem eru núna dæmdir margar ára fangelsi vegna fíkniefnadjöfulsins og afleiðinga hans.  

Við erum öll ein fjölskylda, líka þeir sem villtust.  Í spjalli mínu við Guðmund um daginn, þá benti ég á að heilbrigt þjóðfélag einbeitti sér að því að slökkva á villuljósum, í stað þess að tukta þá til sem villtust.  Þeim á að bjarga, og sú björgun byggist á iðrun og fyrirgefningu.  Sú leið segir reyndar Sarúman hvíti í Hringadróttinssögu, Hilmi snýr heim á, á blaðsíðu 289, að sé sú miskunnarlausasta gagnvart brotamönnum, því slæm samviska þolir illa að horfast í augun á sjálfri sér.  Þannig að það má alltaf deila um hver sé þyngsta refsingin.

En sú skynsamlegasta er sú sem er liður í því að skapa nýja og betri framtíð fyrir börnin okkar.  Og oft hefur verið þörf, en núna er nauðsyn.

Arinbjörn.  Við höfum svo sem rætt þetta áður.  Máttur spjallsins er að velta fyrir sér hlutunum, hvorugur er í þeirri stöðu að hafa áhrif á gang mála.  En að orða hugsanir er til alls fyrst, á tímum þar sem menn virðast ekki þekkja leiðina.  Pistill þinn um hina sundruðu þjóð segir allt sem segja þarf.  

En af hverju er mér svona tíðrætt um þennan áherslumun okkar á "uppgjörinu" og "réttlætinu".   Í mínum huga, eins og ég reynt að rökstyðja, þá eru ekki margar leiðir að okkar sameiginlega markmið, hún er aðeins ein.  Eða það kennir sagan.

Og að rökstyðja mál sitt þannig að aðrir skynji og samþykki forsendurnar, það er gáfa sem ekki er öllum gefin.  Mér vitanlega hefur mér ekki tekist að fá einn einasta mann til að skipta um skoðun eða áherslu í þessu máli.  Ég er greinilega ekki í takti við samtíð mína.  Sjálfsagt of mikið í fortíðinni.  Og meðan hef ég séð lítinn tilgang í að halda mig við alvöruna, að höggva mann og annan eins og ég hef gert frá því í maí, er aðeins fingraæfingar, sem vissulega hafa tilgang, en snúast ekki um það sem máli skiptir, umræðu um einhverja viti borna leið til framtíðar. 

Þess vegna bíð ég eftir leiðtoganum eins og þú.  Eða þá að stríðið verði svo hatrammt að gamlir menn þurfa að gera það litla sem þeir geta til að hindra þrælkunina.  Sé samt ekki hvað það er.  

En ég hef gaman af þessu spjalli okkar.  Vissulega er ég orðmargari en þú, en við erum að ræða um eitthvað sem skiptir máli.  Og það mættu fleiri gera.  En ég er ekki sammála þér um BH í þeirri merkingu að ég vil meina að uppistöðu er um gott fólk að ræða, en villuljósið var of sterkt.  Það villuljós hét deilur og það náðuð þið ekki að höndla.  En það má alltaf reyna aftur.

Og ég get alveg sett hugleiðingar mínar niður á blað um hvað fór úrskeiðis, svona frá mínum bæjardyrum séð.  Enginn sannleikur, en sjónarmið. og eitt leiðir oft af öðru, hin nothæfa lausn byrjaði oft á fyrstu setningunni sem sagði "Ég held ... ".  En þú verður að hafa áhugann á að lesa og kommintera, gæti verið kærkomin tilbreyting frá ICEsave þrefinu.

En ég tek því ekki illa upp þó þú segir næst, halló Ómar, og "snork".

Heyrumst, Ómar.

Ómar Geirsson, 27.10.2009 kl. 22:57

8 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Blessaður Ómar og góðan daginn.

Orð þín eru mögnuð og hlaðin visku. Það er rétt hjá þér að fyrirgefningin er beitt og aðferð Mandela einkar athyglisverð. Höfum við þann þroska sem til þarf að feta hans leið? Við erum reyndar svo fámenn þjóð að við höfum ekki efni á mannvígum hægri vinstri og út og suður. Ég óttast reyndar að í óðagoti næstu ára munum við gleyma að breyta kerfinu sem leyfði mönnum að haga sér á þann hátt sem þeir gerðu. Þar verðum við að halda vöku okkar.

Allir þeir sem ég kynntist í BH eru gott fólk, fólk sem ég fékk traust á og því var það svo sárt og mikil vonbrigði þegar því sama fólki tókst að sundra samstöðunni og slökkva ljós vonarinnar og tendra villuljósin í þeirra stað í einhverjum tilgangi sem ég skil ekki enn. Ég efast satt að segja um tilgang þess að reyna aftur, of margir urðu fyrir vonbrigðum m.a.s. fólk sem ekki kaus BH en vonaði samt að BH tækist að sanna sig á þingi. Það fólk varð fyrir miklum vonbrigðum þegar BH sundraðist og sagði: "þar fór sú von" Þess vegna minnkar mín von dag frá degi um réttlæti og þar með vonin um breytt kerfi og betri framtíð.

Kv, ari

Arinbjörn Kúld, 28.10.2009 kl. 08:52

9 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Arinbjörn,

Takk fyrir góða færslu.  Leiðtogaleysið er hræðilegt og hefur kostað okkur dýrt.  

Andri Geir Arinbjarnarson, 28.10.2009 kl. 19:02

10 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þakka þér fyrir innlitið Andri Geir. Mér er heiður að því.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 28.10.2009 kl. 20:11

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Núna langar mig aðeins að tjá mig um mína sýn á þeim vanda sem Andstaðan lenti í.  Ég ætla að taka þetta í tveimur færslum, fyrst lítillega um forsendur og síðan vangaveltur um hvað vantaði upp á til að BH þyldi deilur um mismunandi leiðir.

Eins og ég hef áður komið inn á þá blasir mikill ytri háski að þjóðinni.  Og hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá vinnur núverandi stjórn eftir fyrirmælum erlendra afla.  Og hvaða afleiðingar hefur þessi stefna??

Gunnar Tómasson fékk álit heimsþekkts bandaríks hagfræðings um skuldastöðuna og í svarbréfi hans kemur fram að áætluð skuldastaða Íslands sé óviðráðanleg, og fyrir því færir hann rök.  

Jakobína hefur minnst á þekkta rannsókn sem sýnir fram á að "kreppuaðgerðir" Alþjóðagjaldeyrissjóðsins drepur fólk, það er einstaklingar, sem áttu bjart líf fyrir höndum, deyja ótímabærum dauða vegna hinnar harkalegu frjálshyggju.  Reyndar alþekkt staðreynd sem blasti við eftir Asíukreppuna, en það er gott að fá það staðfest eins og til dæmis að það er vísindalega sannað að sólin kemur upp á morgun, þó til dæmis Aztekar héldu annað. 

Þegar við leggjum þetta tvennt samann, ótímabær andlát meðbræðra okkar og fyrirsjáanlegt endalok efnahagslegs sjálfstæðis landsins, þá fáum við út NEYÐ, og þörf fyrir frelsisbaráttu.  Milli þeirra sem skynja það og þeirra sem gera það ekki, er óbrúanleg gjá.  Það er til dæmis ekki hægt að gera málamiðlun sem kostar til dæmis bara 100 mannslíf, í stað 500 hundruð mannslífa.  Og umræða um stjórnlagaþing er brosleg í ljósi þess að hjálenda alþjóðlegra auðmanna ræður ekki sjálf sínum málum.  

Og við þetta má bæta hinum fyrirhugaðri gjöf bankakerfisins til erlendra vogunarsjóða, jafnvel Hannes í sínum villtustu frjálshyggjudraumum vildi þjóð sinni ekki svo illt.

Og taktík skiptir máli.   Núverandi Andófsöfl koma ekki úr valdastéttum, og eiga því um margt sameiginlegt með uppreisn alþýðufólks í gegnum aldirnar.  Heilög reiði og réttlátur málstaður er einskisverður er uppreisnaröflin hafa ekki taktíkin á hreinu, bæði skipulag og stjórnun.  Í þessu samhengi má minna á að aðeins ein bændauppreisn í Evrópu tókst þannig að markmið uppreisnarinnar náðust.  Og það er svissneska uppreisnin þar sem Svisslendingum tókst að losna við lénsvald Habsborgara í lok 14. aldar.  Það var vegna þess að þeir vissu hvað þeir voru að gera og gerðu það sem þurfti að gera.  

Í Englandi var gerð uppreisn á svipuðum tíma, og þar átti Ríkarður II ekki séns á móti fjölmennum her uppreisnarmanna.  Því bauð hann leiðtoganum til viðræðna, tók í hendurnar á honum, og bað hann um að senda herinn heim.  Síðan lét hann drepa leiðtogann, Watt Tyler, sem lærði sína síðustu lexíu, að þú átt ekki að treysta blíðmælgi yfirstéttarinnar.  Minnir um margt hvernig VinstriGrænir láta spila með sig í dag.  Þeim er boðið sæti við valdsborðið, svona rétt á meðan þeir nota styrk sinn til að sundra Andstöðunni, síðan verður þeim hent á haugana því hugmyndafræðilega þá eiga þeir enga samleið með því auðvaldi sem þeir þjóna svo dyggilega í dag.

En annars mistókust allar uppreisnir vegna skort á "leiðsögn".  Og vegna innri sundrungu.  Mér er minnistætt atriði úr ástralskri miniseríu sem sýndi hvernig fór fyrir uppreisn Írskra fanga í Ástralíu.  Þeir fólu ærlegum manni forystuna, sem hafði ekki hundsvit á taktík.  Hann beið eftir breskum hersveitum, gaf þeim tíma til að stilla sér upp, því hann var heiðursmaður, og síðan hrópuðuð þeir "frelsi" og hlupu á móti uppstilltum Bretunum.  Sem skutu þá niður eins og skotskífur og hengdu svo heiðursmanninn.

Bretarnir vissu nefnilega allt um taktík, bæði að deila og drottna og eins að fylkja sér til orrustu, og þeir vissu til hvers þeir voru að berjast, fyrir krúnuna og sínum eigin hag.  Og það var vegna þessara stjórnunarlegu yfirburða sem Bretarnir urðu að heimsveldi.  Og það var vegna stjórnunarlegrar vankunnáttu sem Andstaða smælingja og alþýðu var brotin á bak aftur.   

Franska byltingin tókst vegna algjörar vanhæfni frönsku yfirstéttarinnar en bæði bylting Cromwells og Leníns tókust vegna afburða herforingja á vígvelli.

Og þegar maður dregur þetta saman Arinbjörn, þörfina á "byltingu" og síðan lærdóm sögunnar, þá fær maður út það munstur sem öll breytingaröfl þurfa að hafa í huga, ef þau vilja ná árangri.

Og það vona ég svo sannarlega með íslensku Andstöðuna, að hún vilji, því ekki er vanþörf á.

Og um það er minn næsti pistill, sem verðu bæði stuttur og laggóður.

Kveðja í bili, Ómar.

Ómar Geirsson, 31.10.2009 kl. 18:12

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur.

Til þess að Andstaða nái að sameinast úr ólíkum áttum, með ólíkan bakgrunn og ólíkar lífsskoðanir, þá þarf þrennt að koma til sem nauðsynleg skilyrði, og síðan þarf styrka stjórn sem kvikar ekki frá því sem þarf að gera.

Og þetta þrennt er:

1. Atburður eða atburðarrás þar sem fólk uppgötvar að hið gamla gengur ekki lengur, eða þá að líf þess raskast það mikið að það neyðist sjálft til að vera virkir þátttakendur í verja líf sitt eða limi, eða koma á breytingum sem knýjandi þörf er á.  Dæmi um slíkt er Hrunið eða til dæmis innrás Þjóðverja í önnur lönd Evrópu með þeirri villimennsku sem henni fylgdi.

2.  Fólk þarf að upplifa ógn og/eða knýjandi þörf fyrir breytingar.   Og ógnin gengur alltaf fyrir ef aðgerðir til að hindra hana ganga gegn þörfinni fyrir breytingar.  

3. Og það þarf skýra framtíðarsýn um hvað menn vilja fá út úr sinni baráttu.  Til dæmis ef um innrás er að ræða þá vilja menn losna við hið erlenda vald og ef menn vilja bylta eða breyta, þá þarf framtíðarsýnin að vera skýr á hvað menn vilja fá í staðinn.  Og ef menn vilja fá eitthvað betra eða mannúðlegra, þá byggist þessa skýra framtíðarsýn á hugsjónum, frekar en einhverju tækniþrasi um hvað eigi að gera.  

Þetta með hugsjónir er sérstaklega mikilvægt því ef þú ætlar að fylkja fólki á bak við þig við kerfisbreytingar, þá eru hugsjónir miklu betra lím á samstöðu og drifkraftur til erfiðar baráttu en til dæmis tækniatriði þar sem til dæmis breytt fiskveiðistjórnun (sem enginn getur komið sér saman um) eða mismunandi sjónarmið um stjórnkerfisbreytingar (beint lýðræði, franska kerfið, aðild að ESB o.s. frv.).  Þegar hugsjónir eru á hreinu, þá mátar þú aðeins tækniatriðin við þær, og ef þau passa, þá skiptir ekki alveg máli, hvað í þeim felst að öðru leyti, því þá skipta atriði eins og málamiðlun, sættun á ólíkum sjónarmiðum, sem og list hins mögulega, meira máli en akkúrat það sem gert er.  Ef markmiðið er að fara á Akureyri, þá gæti eina mögulega leiðin sem sættir flest sjónarmið, verið sú að fara í gegnum Egilsstaði, í stað þess að keyra upp Borgarfjörðinn, eða fara Kjöl.

Og þá reynir á stjórnunina, bæði að sætta menn um leiðir, og eins hitt að bregðast hratt og vel við yfirvofandi ógnum og hættum.  Lýðræðið er aldrei þannig að allir geti ráðið, því ólík sjónarmið um að fara út og suður, enda alltaf í deilum og hjaðningavígum, ef mönnum er sín leið hugleiknari en endastöðin.  Lýðræði er að ná sátt um ólík sjónarmið og skapa samstöðu um þau markmið sem stefnt er að.  Og kúgun minnihluta er ólýðræði.  

Þess vegna virkar lýðræði ekki vel nema þegar "leiðtogarnir" skynja sín takmörk.  Og virði ólík sjónarmið.  Og á stríðstímum, þá virkar almennt lýðræði ekki neitt, heldur þarf stýrt lýðræði, það er sameing ólíkra sjónarmiða um sameiginlegt markmið.

Og hvað fór úrskeiðis hjá BH.  Að mínum dómi var það að liður eitt yfirtók lið tvö og þrjú.  Atburðinn var svo harkalegur að menn fóru í naflaskoðun á honum, en vanmátu yfirvofandi hættu, og höfðu ekki skilning á því að móta hugsjónir um framtíðina.  

Á hættutímum rífast menn ekki um aukaatriði, hvað þá um það sem miður fór í fortíð, heldur kryfja menn það ef það gagnast til að bregðast við hinni yfirvofandi ógn, en annars fylkja menn liði og verjast.  Og ef menn hafa skýra sýn á hættuna, skýra sýn um þau vinnubrögð sem menn leyfa til að ná markmiðum sínum og  skýra sýn á framtíðina og inntaki hennar, þá þola menn náunganum ágreining, og menn láta ekki deilur eyðileggja vörnina, aðeins óyfirstíganlegur máttur andstæðingsins sigrar, ekki eigin klaufaskapur og ístöðuleysi.

Á endanum snýst þetta allt um að standa í lappirnar.  Vera manneskja.  Og gera það sem rétt er.

Og allt sem var til staðar í haust, er til staðar núna.  Og fólkið er gott.  Þá snýst næsta skref aðeins um viljann og skynjun á nauðsyn þess að gera eitthvað.  

En þeir sem skynja ekki ógnina í dag, þeir eru úr leik.

Og núna er kominn að músargerð, og því enda ég, stutt og laggott því ég hefði getað pikkað klukkutíma í viðbót, en þetta hér að ofan er kjarni málsins.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 31.10.2009 kl. 19:03

13 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Blessaður Ómar.

Takk fyrir þetta innlegg. Þú hefur rétt fyrir þér. Hittir naglan á höfuðið. Orð þín eru í senn varnaðarorð og hvatningarorð. Leiðbeiningar til verðandi byltingarafla eða þeirra sem leiða andstöðuna. Mér er það löngu ljóst að kerfið mun ekki breytast til hins betra nema til komi róttækt afl frá fólkinu sjálfu og hugarfarsbreyting. Það mun ekki gerast fyrr en allur sannleikurinn kemur í ljós er ég hræddur um. Nema okkur beri gæfa til annars. Gæti gerst, veit það ekki. Spurning hvort okkur sem eftir erum í BH beri til þess gæfu. Verst að fólk almennt hefur misst trúna á hið góða eftir deilurnar og upplausnina í kjölfarið. Meðan fjórflokkurinn er við völd mun lítið breytast. Hvað getum við þá gert?

Kveðja,ari.

Arinbjörn Kúld, 1.11.2009 kl. 11:07

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Já, "hvað getum við þá gert"???

Ekki á ég svarið.  En þú mátt alveg halda áfram að senda frá þér vandaða pistla á meðan, vitiborin umræða þarf að fljóta.  Og þó "Riddarar heimskunnar" ráði hinni opinberri umræðu í dag, þá eru þeir samt fortíðin, þeir hafa afrekað það í mörg ár að hafa rangt fyrir sér.  Og endastöðin er nærri.   Hvert fólk leitar þá svara, veit ég ekki, en það skaðar ekki að það séu einhverjir sem spyrja réttu spurninganna.

En Andstaðan mun ekki finna sinn sköpunarkraft fyrr en nógu margir skynja ógnunina og vilja bregðast við henni.  Og þá reynir á framtíðarsýnina og hugsjónirnar.  Bara það eitt að þekkja muninn á réttu og röngu, útilokar til dæmis óráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Þú leysir ekki efnahagskreppur með óþarfa þjáningum almennings.  Vissulega er áhrifaríkasta sóttvörnin við útbreiðslu svínaflensunnar að skjóta alla smitaða, og síðan þá sem hugsanlega geta smitast, en almennt siðferði (að þekkja muninn á réttu og röngu) bannar læknum að leggja til slíka lausn.  Í stað þess er farið í frekar ómarkvissa bólusetningu og annað sem hjálpar til en er ekki næstum því eins skilvirkt og útrýming.

En sumt gerir maður ekki.  En það hafa hagfræðingar Nýfrjálshyggjunnar ekki lært.  Og á meðan þeir læra það ekki, þá eiga þeir heima á stofnunum, en ekki ganga lausir, hvað þá að hafa áhrif á mótun samfélagsins.

En eitt veit ég Arinbjörn.  Fjórflokkurinn hefur ekkert að gera með okkar framtíð.  Það erum við sjálf.  Og að lokum snýst þetta aðeins um eina spurningu; Viljum við standa í lappirnar og halda fram á við?

Viljum við það, þá þurfum aðeins að velta því fyrir okkur hvað kröfur við gerum til lífsins og þess samfélags sem lifum það í.  Og ef við höfum það í huga að okkar kröfur eru ekki á kostnað annarra og valdi ekki öðrum óþarfa þjáningum, þá erum við á beinu brautinni.  Vissulega er sú braut bæði krókótt og liggur í ýmsar áttir, en hún er samt beina brautin.

Þannig að í raun eru aðeins tveir flokkar sem takast á í dag á Íslandi.  Þeir sem vilja nota lappirnar til að standa á, og svo hinir sem vilja það ekki.  Fyrir því geta verið margar ástæður, en þær sem slíkar skipta engu máli fyrir framtíð okkar.  Framtíð okkar veltur á því að "Lappafólkið" hafi þá trú að þeirra leið sé betri, og þann sannfæringamátt til að sannfæra "hina" um að svo sé.

Flóknara er þetta nú ekki.  En það þarf mikla ógn til Lappafólkið öðlist þann styrk að ráða för.  Að mínum dómi er hún til staðar, en ég verð að sætta mig að fjöldinn deilir ekki þeirri skoðun.

Þannig er það bara.  En núna er langlokum mínum lokið í bili.  Hef ekki meira að segja í bili.

Takk fyrir þolinmæðina,

kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 2.11.2009 kl. 00:10

15 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Blessaður Ómar og takk fyrir innleggið.

Það er rétt hjá þér þegar þú segir að það séum við sjálf sem ráðum för hvað framtíð okar varðar. Fólk þarf hins vegar val þegar kemur að því að velja þá sem leiða förina og varða veginn. Það er ákveðin skortur á valkostum sem veldur mér áhyggjum. Þeir valkostir sem í boði eru hafa brugðist til þessa, líka þeir nýju. Traust fólks á valkostunum er lítið og því velur það þann kost sem þekkir best og veit að hverju það gengur. Fólk hefur ekki trú á nýjum valkostum og því erfitt að vinna þeim brautargengi. Það er þess vegna sem ég spyr: Hvað getum við gert? Í bili er það besta sem við gerum að ræða málin á vitrænan hátt og án fordóma er það ekki? Orð eru til alls fyrst og dropin holar steininn.

Kveðja, ari

Arinbjörn Kúld, 2.11.2009 kl. 08:39

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Orð eru til alls fyrst til  að móta nýjan valkost.  Og eðli málsins vegna þá þarf fólk að skapa þann valkost sjálft, því ef það gamla er gjaldþrota eða ófært um að mæta þeirri ógn sem við blasir, þá þarf fólkið sjálft að gera það sem þarf að gera.

Og ef fólk er ekki tilbúið að siðvæðast, þ.e. að miða sínar kröfur þannig að allir séu með og bjargist,  þá er það ekki höndla þá aðferðafræði sem dugar á þeim hættum sem við blasa.  Og þá er til dæmis siðvæddur fjórflokkur betri en til dæmis valdafælin andófshreyfing (í þeirri merkingu að hún  vill láta sérfræðinga um að móta framtíðina, hlálegt í ljósi þess að þeir vilja allir borga ICEsave og fá yl í náðarfaðmi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins) eða sundruð andófshreyfing þar sem hver höndin er uppi á móti annarri.  Þá er betra heima setið.

En framtíð barna okkar öskrar á siðvæðinguna.  Og því er valið okkar, bæði sem einstaklinga og heildar.  Og eins og við vitum þá er ekki nóg að leggja að stað með góðan vilja einann að vopni, en það skipbrot er bara eins og hvert annað hundsbit.  Þið í BH, bæði núverandi og fyrrverandi ættuð að fjölmenna á videoleigurnar og leiga ykkur myndina Straight og horfa á ferðalag gamla mannsins  á traktornum, sem hann fór til að sættast við bróður sinn áður en hann félli frá (man ekki hvor).  Og í ljósi hinna alvarlegu tímamóta þá tókst það, hver vill deyja ósáttur???

Og hver vill láta samfélag sitt deyja vegna ósættis????????

Allavega  ekki þið.  Hlutir eins og stolt og sárar  minningar eru hjóm eitt miðað við það.  

Og Kreppan er ekki búinn, hvorki hér eða annarsstaðar.  Vissulega tókst Bandaríkjamönnum að stoppa hið endalega hrun fjármálakerfisins með óheyrilegri seðlaprentun, en allir heykjast á að breyta grunnforsendum kerfisins.  Og það fúafley ætlar aftur út  á ólgusjó sinna mistaka, og með sama árangri.  Nema næst er ekki hægt að skuldsetja almannasjóði út í hið óendanlega, því það er þegar búið.

Núverandi bati er því svikalogn.  

Og það er of seint að iðrast og sættast eftir dauðann.  Þetta vissi gömlu mennirnir í Straight.  Og þetta mun Andstaðan uppgötva mjög fljótlega.  

En hvað svo, veit ég ekki.  Vonum það besta.

Kveðja  Ómar.

Ómar Geirsson, 2.11.2009 kl. 20:40

17 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Blessaður Ómar.

Sammála þér. Ég held að vonin sé að koma aftur í þeim Gunnari, Herbert og Lilju. Ég greini m.a.s. sáttatón hjá þeim. Spurning hvað hin heilaga þrenning á þingi gerir?

Svo er gönuhlaup Kaupþings með Haga, barnalánin hjá Íslandsbanka að vekja almenning. Spurning hvaða viðbjóður vellur frá landsbankananum á næstunni en þar er örugglega eitthvað sem bíður.

Kveðja ari. 

Arinbjörn Kúld, 4.11.2009 kl. 02:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband